Eimreiðin - 01.07.1975, Page 14
EIMREIÐIN
Kommúnistar eru reyndar svolítið vandræðalegir núna, en það er
vegna þess, að línan er ekki nægilega afdráttarlaus. Ég hitti Stein
daglega, er hann orti þessi kvæði um kommúnismann, og birti þau í
Helgafelli. Hann orti sum þeirra, eins og þið vitið, þegar hann kom
frá Ráðstjórnarríkjunum. Steinn hafði mikil áhrif á okkur vini sína:
Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum
orðum.
Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur trú mín
óséð af öllum.
Djúp, sár og brennandi.
Óséð af öllum.
Svo að Ijóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.
Þetta kvæði kallaði hann Formála á jörðu. Síðan kom kvæðið Kreml:
Sjálfur dauðinn,
sjálfur djöfullinn
hefur byggt þessa bergmálslausu múra.
Dimmir, kaldir og óræðir
umlykja þeir
eld hatursins,
upphaf lyginnar,
ímynd glæpsins.
190