Eimreiðin - 01.07.1975, Page 68
EIMREIÐIN
sem þeir velja sér. Og hér hefur margoft verið sagt, að vald sitt hefðu
þeir frá þjóðinni. En eru allir skyldir að hlýða því valdi? Nú eru
ríkisstjórnir oftast með nauman meiri hluta á Alþingi. Er minni hlutinn
skyldur að hlýða meiri hlutanum? Eru alþýðubandalagsmenn, samtak-
lingar og jafnaðarmenn, sem kusu gegn núverandi stjórnarflokkum,
skyldir að hlýða Geir Hallgrímssyni og stjórn hans? Svarið er, að sér-
hver löglega mynduð ríkisstjórn hefur umboð allra, sem kosið hafa.
Að kjósa er að veita þeirri ríkisstjórn, sem tekur við völdum á lög-
legan og lýðræðislegan hátt, umboð til stjórnunar, hvað svo sem menn
kjósa. Þegar menn taka þátt í kosningum, viðurkenna þeir um leið
kosningar sem tæki til ákvörðunartöku. Og þeir geta því ekki neitað
að hlýða þeim úrskurði, sem þeir í raun gengust undir að hlýða með
því að kjósa. Sá, sem heldur öðru fram, misskilur hugtakið kosning.
Og augljóst er, hvers vegna meiri hlutinn hlýtur að skera úr um málin.
Það felst í kosningunni. Fráleitt væri að ganga til kosninga, ef meiri
hlutinn skæri ekki úr um málin. Ef gengið er til kosninga og afl at-
kvæða ekki látið ráða, er ekki um kosningu að ræða, heldur eitthvað
annað. Og það kemur þessu máli ekki við, hvort sett eru skilyrði um
flest atkvæði, einfaldan eða aukinn meiri hluta. Afl atkvæða er það,
sem ræður, og þá er aðferðin kölluð kosning.
Og fleiri þversagnir virðast faldar í hugtakinu lýðræði: ,,Þjóð-
viljinn", sem ber nafn sitt með sömu reisn og Pravda Kremlverja
,,Sannleikann“, vonar, að sami ,,sigur“ vinnist á íslandi og í Indó-
Kína. Hvaða svigrúm má og getur lýðræðisleg stjórnskipun veitt
ólýðræðislegum samtökum? Ekki er unnt að rökræða við mann, sem
miðar að öðrum byssu og hyggst hleypa af. Hann verður að afvopna
— með einu móti eða öðru. í lýðræðisríkjum Vesturlanda hafa síð-
ustu árin vaðið uppi hin verstu glæpamannagengi, Baader-Meinhof-
hópurinn þýzki, sem leikið hefur sama leikinn og Lenín, að fjármagna
„hugsjóna“baráttuna með bankaránum, Rauði herinn japanski, serk-
nesk hryðjuverkasamtök og ýmsir jaðarhópar aðrir til hægri og vinstri,
sem helzt fást við gripdeildir, sprengingar, morð og mannrán. Og
ýmsir einlægir lýðræðissinnar hafa borið í bætifláka fyrir „blessuð
börnin“, sem fari að vísu heldur geyst, en séu með réttu ,,reið“ þjóð-
félaginu. Geta lýðræðisríki varizt slíkum vágestum lýðræðislega?
Varla. Leiðir lýðræðis eru rökræður og sættir, stundum áróður. Þessir
hópar hafa hafnað slíkum leiðum, þeir neita að viðurkenna leikregl-
ur lýðræðis. Að vísu verður að gera strangan greinarmun á orðum og
athöfnum. Ef fáeinir menn koma saman og halda hrókaræður um of-
244