Stúdentablaðið - 01.03.2008, Side 10
KXAJVLFUGLINN FLEYGI SEM
ENGINN NÆR AÐ VEIÐA
í lok síðasta árs reið svokallað Öryggisráð
Femínistafélags íslands fram til krossferðar gegn
klámi með því að kcera VISA Island fyrir að taka
þátt í dreifingu kláms. Sterk leið til þess að koma
viðhorfum sínum á framfceri. Ég tek ofan fyrir
þeim. Þetta er aktívismi á háu stigi. Og auðvitað
hefur Femínistafélagið rétt fyrir sér. Klám er
ólöglegt á Islandi samkvcemt 210. grein almennu
hegningarlaganna. Það er bara ein ósvöruð spurning
sem stendur í vegi fyrir framgangi þessa máls;
spurning sem grefur undan kcerunni gegn VISA og
gerir það að verkum að hún muni aldrei ná fram að
ganga:
Hvað er klám?
Ég veit ekki hverjum fannst það góð hugmynd að
setja lögbann við einhverju án þess að skilgreina
það. Slík lög eru nefnilega merkingarlaus. En það er
nákvæmlega tilfellið með klám. Lögbrot sem hefur
enga skilgreiningu er ekki lögbrot. Hvaða skoðanir
sem maður hefur á kynlífsefni er ekki hægt að tala um
það sem borðleggjandi refsivert athæfi. Kæran gegn
VISA var góð leið til þess að komast í fréttirnar með
boðskaþ sinn en hún hefur enga lagalega þýðingu.
MISNOTKUN
Þeir sem segja að allir viti hvað klám sé og að svona
spurningar séu hártoganir klámfíkla og klámseljenda
eru að skjóta sig í fótinn með sömu byssu og
löggjafinn. Auðvitað þarf að skilgreina klám. Það er
ekkert meira pirrandi en hatrammar samræður á milli
tveggja aðila sem eru ekki að tala um sama hlutinn.
Staðlar eru breytilegir eftir fólki og auðvitað þarf
að komast að einhverju samkomulagi um þetta. Sú
skilgreining sem ég hef heyrt femínista hlaupa með
kemur frá félagsfræðingnum Díönu E. H. Russell.
Vísindavefurinn útleggur hana sem svo:
„Klám er efni sem sýnir kynlíf og/eða afhjúpuð
kynfæri í tengslum við misnotkun og niðurlægingu
þannig að sú hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel
hvatt til hennar.”
Hver er ekki sammála því að láta banna svona lagað?
Vissulega hljóta allir að vera á móti misnotkun og
niðurlægingu. En því miður er þessi annars ágæta
skilgreining á klámi líka ófullnægjandi af því að
þessi hugtök eru súbjektív. í málflutningi róttækra
femínista telst það nefnilega niðurlæging um leið og
kona hefur samfarir fyrir framan myndavél án þess að
téðar samfarir séu neitt sérstaklega niðurlægjandi. Og
misnotkun... þar stendur hnífurinn í kúnni. Vissulega
á það hugtak við um konur sem eru seldar mansali og
eru á valdi ofbeldismanna og koma þarf auðvitað i veg
fyrir þvingaða þátttöku þeirra kvenna í klámi með
öllum tiltækum ráðum. En þegar talað er um konur
sem gera sér sjálfviljugar feril úr leik í kynlífsmyndum
(eins og hin forrika Jenna Jameson og fleiri) þarf að
spyrja sig: eru þær konur líka misnotaðar? Vísar
hugtakið „misnotkun” ekki til þess sem gert er við
fólk sem er ófært um að taka eigin ákvarðanir eins og
börn eða fólk í lyfjadái? Ætlar einhver að segja mér að
f r jálsar fullorðnar konur séu fatlaðar vegna ky ns síns?
Er það viðhorf róttækra femínista? Er það viðhorf
þjóðfélagsins? Ef ekki þá hlýtur orðið „misnotkun” í
skilgreiningu Russells að vísa til þátttöku ólögráða
einstaklinga í gerð kynlífsefnis.
0
Og niðurlægingin. Hvernig er hún skilgreind?
Femínistarnir hafa nefnilega átt það til að hrúga
öllu kynlífsefni frá Bleiku og bláu til grófasta
ofbeldiskláms í sama flokk. Þetta hjálpar ekki til. Ég
hef oft velt því fyrir mér hvaða forsendur femínistar
hafi til þess að líta á það sem niðurlægingu að taka
þátt í kynlífsathöfnum og leyfa öðrum að horfa á. Er
það spurning um friðhelgi kvenlíkamans? Nei, ég held
að femínistar hafi ekki mótmælt því þegar kvenkyns
sjónvarpsstjarna í Bandaríkjunum leyfði alþjóð að
fylgjast með ristilhreinsun sinni. Kynlíf er samt
annað. En af hverju? Af hverju jafngildir kvikmyndun
kynlífsathafna niðurlægingu kvenna? Til að svara
því þarf að hafa viðkomu í annarri hugmyndafræði:
kristilegri bókstafstrú.
ÞÚ SKALT EKKI DRÝGJA HÓR
Margir kristnir menn líta á kynlíf sem verknað þar
sem karlmaðurinn gerir eitthvað við konu en ekki
öfugt. Þessu viðhorfi virðast flestir femínistar vera
sammála ef marka má afstöðu þeirra til klámmynda. í
kynlífi er karlinn gerandi og konan þolandi. Hugtakið
„kynfrelsi” sem femínistar hafa svo oft í frammi
virðist því annað hvort vera mótsögn eða vísa til
skírlífis. Kynlíf er ofbeldi karla gegn konum og að
því gefnu er auðvelt að skilja hvers vegna femínistar
líta á kynlífsupptökur sem niðurlægingu kvenna en
aldrei sem niðurlægingu karla. Það er vitað mál að
karlar eru aðalneytendur kynlífsefnis og að konur
eru aðalmyndefni þess en það er ekki orsök þessa
dúalisma heldur afleiðing af honum. Karlar horfa
frekar á kynlífsefni en konur af því að þessi aldagamla
tvískipting hefur skilyrt konur til að líta á kynlíf
sem verknað karla á konum. Þessu viðhorfi deila
bókstafskristnir og femínistar. En samleiðin endar
ekki þar.
„Þér hafið heyrt, að sagt var: „Þú skalt ekki drýgja
hór.” En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í
girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta
sínu.” (Matteusarguðspjall, 5.27-28) Þarna er Kristur
reyndar að segja að allir séu undir sömu sök seldir og
enginn sé æðri í augum Guðs vegna hlýðni við lögmálið
en bókstafstrúin gefur auðvitað ekki svigrúm fyrir
svoleiðis víddir. Þetta vers hefur um aldabil verið
notað innan ýmissa kristinna hópa sem heildstæð
fordæming á sjónrænni kynörvun. Sú túlkun er hluti
af hugmyndafræðilegum arfi vestrænnar menningar
og á sér sterkan sess í málflutningi femínista. Kristnir
bókstafstrúarmenn og femínistar hafa sama neikvæða
viðhorfið til sjónrænnar kynörvunar karla (sjá t.d.
kenningar Laura Mulvey um hið karllæga augnaráð).
Eini munurinn er sá að hinir kristnu telja örvunina
saurga karlinn (þann sem horfir; gerandann) á meðan
femínistar telja örvunina saurga konuna (þá sem
horft er á; þolandann). Munurinn á viðhorfi kristinna
bókstafstrúarmanna og femínista til kynlífsefnis
snýst sem sagt um það hver beri ábyrgð á hinni
syndsamlegu örvun.
VERKALÝÐSBYLTING KLÁMBRANSANS
Það er ekki að óhugsuðu máli sem ég skrifa grein sem er
gagnrýnin á andstöðu gegn klámi. Fordæming kláms
er ein af þessum heilögu kúm sem maður hreyfir ekki
við án þess að einhver kalli mann klámáhugamann.
Sannleikurinn er sá að ef miðað er við ofangreinda
skilgreiningu Díönu E. H. Russells á klámi þá er ég
eldheitur andstæðingur kláms. Vandamálið er að þessi
umræða fer öll fram á tilfinningalegum forsendum og
rökvísi fær sjaldan að komast að. Femínistar spyrja
mann: „Myndir þú vilja sjá mömmu þína eða systur
þína í klámmynd?” Auðvitað myndi maður ekki vilja
það. En maður myndi ekki heldur vilja sjá þær skeina
sér. Þetta er ekki gildur samanburður. Ástæðan fyrir
því að maður vill ekki að skyldmenni sín fari að leika í
klámi er ekki sú að maður haldi að þau verði misnotuð
þar heldur sú að maður vill ekki að fólk fyrirlíti þau
og kalli þau hórur. Það viðhorf til klámmyndaleikara
litast af sama neikvæða viðhorfinu til kynlífs
sem liggur að baki málflutningi femínista. Sömu
femínistar og eru stöðugt að hvetja til þess að maður
líti allar þjóðfélagsvenjur um samskipti kynjanna
gagnrýnum augum virðast vera algjörlega ógagnrýnir
á hið aldagamla og skaðlega viðhorf að kynlíf sé
eitthvað skítugt og ógeðslegt.
Marxíski vinkillinn er stundum notaður til
vara þegar tilfinningarökin bresta. Arðrán
kynlifsmyndabransans á konum er viðbjóðslegt
kapítalískt athæfi. Þær bera líkama sinn og kynferði
og ríkir karlar græða á því. En þetta er ekkert ósvipað
tónlistarbransanum. Þar berar fólk oft sálu sína í
hjartfólgnum lagasmíðum og söng á meðan ríkir karlar
græða á því. Þýðir það að banna ætti tónlist? Hvar
væru tónlistarmennirnir þá staddir? Búnir að bera
sálina og eiga ekki krónu. Kynlífsmyndabransinn er
skítugur bransi þar sem mikið er um að drullusokkar
fari illa með konur fjárhagslega og á annan hátt, en er
það ekki einmitt gert í skjóli þess að litið er á leikkonur
í kynlífsmyndum sem ýmist hórur eða fatlaða
einfeldninga sem eigi annað hvort að skammast sin
og fara aftur í fötin eða leita sér sálfræðiaðstoðar?
Lausnin hlýtur að felast í því að veita þessu fólki styrk
til að standa á eigin fótum en ekki í því að banna allt
kynlífsefni og ýta bransanum þannig enn fremur út
fyrir seilingu lögverndar. Marxískum femínistum
væri mikið nær að halda siðaprédikunum sínum
útaf fyrir sig og hvetja kynlífsmyndaleikara (af
báðum kynjum) til að stofna verkalýðsfélög. Eða gera
verkalýðsbyltingu.
Það er ríkt í okkur öllum, íslendingum, að vera
feimnir og skömmustulegir varðandi kynlíf. Það
gildir jafnt um mig sem aðra hér á landi. En voru
Píkusögur ekki einmitt settar upp til að vinna gegn
þessum tepruskap? Ég skal vera manna fyrstur til
að hvetja til þess að verið sé á varðbergi gagnvart
misnotkun og niðurlægingu fólks í mynduðu efni. En
eins og allir vita gengur ekki allt kynlífsefni út á það.
Og femínistar af öllum ættu að vera tregastir til að
hvetja til ritskoðunar og bælingar. Þeir ættu að fara
aftur að sinna hlutverki sínu í framlínu baráttunnar
fyrir raunverulegu jafnrétti kynjanna. Það síðasta
sem íslendinga vantar er ný siðgæðislögregla í
dulargervi róttæklinga. Sjálfur myndi ég aldrei vilja
láta kvikmynda mig við kynlífsathafnir. Mér fyndist
það ganga of nærri mér. En hvaða rétt hef ég til þess
að ákveða fyrir aðra hvað hæfilegt persónurými sé?
Hvort sem okkur finnst kynlífsefni viðbjóðslegt eða
ásættanlegt velur sumt fólk að búa það til og neyta
þess og frjálst fullorðið fólk á að hafa rétt til þess að
taka þær ákvarðanir sjálft án þvingana yfirvalda.
Okkur ber skylda til að skilgreina klám eins og
fullorðið fólk; út frá mannréttindasjónarmiðum
en ekki út frá kynjahlutdrægni eða púrítönskum
siðaviðmiðum. Þetta er ekki „strákar á móti stelpum”
og „hyldu skömmina” ætti að vera orðinn úreltur frasi
á 21. öldinni. ■