Stúdentablaðið - 01.03.2008, Síða 17
sökina og búist við mótbárum.
Ekki tjáir að afsaka viðleitnina með því að ekkert hafi
orðið úr áætlununum, því að á endanum varð lítið úr
nokkrum áætlunum. >að er það sem reynt var að gera
en mistókst sem skiptir máli - og það var æði gruggugt.
Hitt er svo aftur annað mál að ef spilling snýst um það
eitt að hugsa fyrst og fremst um sitjandann á sjálfum
sér og láta hagsmuni annarra mæta afgangi, þá er útlit
fyrir að ansi margir þátttakendur í atburðarásinni eigi
skilinn spillingarstimpilinn.
SVANDÍS SAT EIN HJÁ
Vilhjálmur hitti sína borgarfulltrúa aftur síðar um
daginn eins og ráðgert hafði verið. Fundur sem lagt
hafði verið upp með sem hitting til frekariupplýsingar,
umræðna og sáttaumleitana varð að tilkynningu frá
Vilhjálmi um að allt væri klappað og klárt og staðfesta
ætti samrunann á fundi eigenda Orkuveitunnar
síðar þann sama dag. Það sauð á sexmenningunum
í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Og enn
hafði Vilhjálmur ekki fyrir því að upplýsa þá um
kaupréttarsamningana sem styrinn hafði staðið um
á fundinum með fulltrúum minnihlutans nokkrum
klukkustundum áður.
Eigendafundurinn þann sama dag gekk að mestu
smurt fyrir sig. Vilhjálmur mætti og sagðist hafa
skýrt umboð samherja sinna í flokknum til að klára
málið, þótt heldur hafi þar verið fært í stílinn.
Svandís Svavarsdóttir sat hjá við atkvæðagreiðslu um
samrunann, ein stjórnarmanna OR. Hún lét bóka að
óviðunandi væri að fá nokkra klukkutíma til að taka
ákvörðun um svo flókið mál, að hún efaðist um að
fundur sem boðaður væri með dags fyrirvara væri
löglegur og að kaupréttarsamningar starfsmanna
krefðust nánari skoðunar. Samruninn var síðan
samþykktur. Og þá byrjaði ballið.
REIÐU NAFNLAUSU
BORGARFULLTRÚARNIR
Sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðis-
manna, sem þegar voru ákaflega gramir oddvita
sinum og stjórnendum OR, fengu fyrst veður af
kaupréttarsamningunum í fjölmiðlum um kvöldið. í
kjölfarið hófst einhver opinskáasta rógsherferð sem
lagt hefur verið upp í gegn pólitískum samherja í
manna minnum, og þótt hún hafi eflaust að margra
mati verið réttmæt þá er ljóst að hún var í það minnsta
óvenjuleg. Borgarfulltrúarnir sex baktöluðu Vilhjálm
miskunnarlaust dögum saman við hvern þann
blaðamann sem heyra vildi. Nafnlaus ummæli þeirra
og vantraustsyfirlýsingar urðu efni í forsíðuuppslætti
blaða marga daga í röð og ljóst var að verulega var f arið
að hitna undir Vilhjálmi í borgarstjórastólnum. Sá eini
sem kom fram undir nafni var Júlíus Vífill Ingvarsson,
en þorði þá ekki að hafa uppi sömu gífuryrðin og
sexmenningarnir voru annars óhræddir við.
Þótt það væri algjörlega úr karakter þá skynjaði
Vilhjálmur óánægju samherja sinna með
kaupréttarsamninganastraxfimmtudaginn4.október,
daginn eftir eigendafundinn. í viðleitni til að laga
stöðuna hringdi hann í Bjarna Ármannsson til Afríku
og bað hann um að slaufa kaupréttarsamningunum.
Þeir væru of óvinsælir - fjaðrafokið of mikið. Eftir
snörp orðaskipti við Vilhjálm á síðum blaðanna lét
Bjarni þó til leiðast, og stjórn REI ákvað laugardaginn
6. október að eitt skyldi yfir alla starfsmenn REI og
OR ganga. Enginn fengi að kaupa fyrir meira en 300
þúsund krónur. Undanþegnir voru Bjarni sjálfur
og Jón Diðrik Jónsson, fyrrverandi bankastjóri
Glitnis, sem ráðinn hafði verið sem ráðgjafi hjá REI
í september. Bjarni hafði fjárfest fyrir einn og hálfan
milljarð í fyrirtækinu og Jón Diðrik fyrir 30 milljónir.
Bjarni sagði að ekki væri hægt að bakfæra þau kaup
þar sem þau væru löngu frágengin .
ÚT MEÐ HAUK - SELJA REI
Svo megn var óánægja sexmenninganna með
framgöngu Vilhjálms að á föstudeginum áttu þau
fund með forystumönnum Sjálfstæðisflokksins án
Vilhjálms þar sem staðan var rædd. Fundurinn þótti
til marks um gríðarmikið vantraust á leiðtogann í
borgarstjórn.Ákveðiðvaraðborgarstjórnarflokkurinn
í heild sinni myndi hittast á f undi á mánudegi og halda
blaðamannafund að honum loknum. Á fundinum
baðst Vilhjálmur þráfaldlega afsökunar og gekk að
kröfum sexmenninganna. Þær voru fyrst og fremst
tvær:
1. Annars vegar að Orkuveitan skyldi selja hlut sinn í
REI eins fljótt og auðið væri. Þannig yrði REI einkavætt
að fullu og komið i veg fyrir áhættufjárfestingar þess
með almannafé. Þess ber þó að geta að á þessum
tímapunkti höfðu sexmenningarnir ekki vitneskju
um einkaréttarsamning OR við REI, sem tryggði REI
óskoraðan aðgang að öllu hugviti OR og forgang að
öllum verkefnum OR utan landsteinanna í 20 ár.
2. Hin krafan laut að því að vegna þess trúnaðarbrests
sem orðið hefði þyrfti að skipta Hauki Leóssyni út sem
stjórnarformanni OR fyrir borgarfulltrúa flokksins.
Þetta var ákveðið án samráðs við Hauk, sem frétti
af ákvörðuninni í fjölmiðlum. Það ber vott um mikla
örvæntingu Vilhjálms að hann skyldi samþykkja þessa
ráðstöfun án þess að gera Hauki viðvart, enda þeir
afar nánir vinir til áratuga. Þá skal þess líka getið að
Vilhjálmur átti sæti í stjórn OR og því var það lýsandi
fy rir það hversu lítið traust borgarfulltrúarnir báru til
hans að þeir teldu sig þurfa að sitja honum við hlið í
stjórninni til að ekkert færi úrskeiðis.
GLEYMDU BINGA
Skömmu síðar sama dag kemur upp úr dúrnum að
Sjálfstæðismennirnir í borgarstjórn höfðu í öllum
hamaganginum við að bjarga eigin skinni gleymt
að þeir væru í meirihlutasamstarfi með Birni Inga
Hrafnssyni. Þeir höfðu ekkert ráðfært sig við hann
áður en þeir lýstu því yfir að selja skyldi REI undan
Orkuveitunni. Og það sem verra var: Hann var því
andvígur. Björn Ingi var raunar ein helsta grúppía
REI-verkefnisins og hafði staðið með stjórnendum
OR og REI í gegnum öldusjóinn dagana áður. Honum
var því ekki skemmt þegar samstarfsmenn hans í
meirihlutanum fóru í lögguleik og hótuðu að leysa
upp gleðskapinn sem hann hafði tekið svo ríkan
þátt I að undirbúa. Ekki var það heldur til að treysta
samstarf meirihlutaflokkanna að Björn Ingi deildi
andstöðunni við söluáform Sjálfstæðismanna með
fulltrúum minnihlutans í borgarstjórn, sem einnig
töldu söluna hið mesta óráð. Lítil áhætta væri í raun
fólgin í útrásinni sem REI stefndi í og að hún myndi
án nokkurs vafa skila OR, og þar með almenningi,
miklum ávinningi á skömmum tíma.
Eftir þetta gerðust hlutirnar æði hratt. Fulltrúar
minnihlutans komust vart hjá því að skynja spennuna
sem ríkti milli Björns Inga og Sjálfstæðismanna og
eftir áeggjan Alfreðs Þorsteinssonar og símtal frá
Ólafi F. Magnússyni, sem mánuðum saman hafði
verið i fríi frá borgarstjórn þjakaður af sjúkdómi
sem ekki má nefna, lagði Dagur B. Eggertsson af
stað í þá tiltölulega auðsóttu vegferð að mynda nýjan
meirihluta að tjaldabaki.
REI-LISTITEKURVIÐ
REI-listinn svokallaði var kynntur við Ráðhúsið
fimmtudaginn 11. október, myndaður um það
markmið að leysa úr REI-flækjunni. Fljótlega spruttu
upp sögur um örvæntingarfullar skilaboðasendingar
á milli borgarfulltrúa þar sem lofað var gulli og
grænum skógum, jafnvel án aðkomu Vilhjálms,
í skiptum fyrir samstarf. Björn Ingi var orðinn
nýr höfuðandstæðingur Sjálfstæðismanna, þótt
samflokksmenn hans ættu raunar eftir að greiða fyrir
hann leiðinaburt úr stjórnmálum nokkrum mánuðum
síðar. Undarlegasta deilumálið í nógu undarlegum
farsa varðaði meint tryggðarfaðmlag Björns Inga
og Vilhjálms, sem átti sér annað hvort stað eða ekki
kvöldið fyrir byltinguna, eftir því við hvern var talað.
Ljóst var að annað hvort Björn Ingi eða Vilhjálmur
laug - nema annar hvor hafi ekki munað betur. Það
hefði svo sem ekki verið í fyrsta sinn sem Vilhjálmi
förlaðist minni.
Nýi meirihlutinn setti á fót stýrihóp undir forystu
Svandísar Svavarsdóttur sem fara átti y fir rækilegayfir
REI-málið og skipti út öllum sínum fulltrúum í stjórn
Orkuveitunnar fyrir fagfólk. Bryndís Hlöðversdóttir
tók við stjórnarformennsku. Aukinheldur var komin
upp einkennileg staða í dómsmáli sem Svandís
Svavarsdóttir hafði höfðað til að láta reyna á lögmæti
eigendafundar Orkuveitunnar þar sem samruni
REI og GGE var samþykktur. Lögmaður OR hélt
uppi vörnum og sagði fundinn lögmætan. Svandís
var nú skyndilega komin í mál við sjálfa sig, annars
vegar sem kjörinn fulltrúi eigenda OR og hins vegar
sem borgarfulltrúinn sem reyndi að fá fundinn
úrskurðaðan ólögmætan.
SAMRUNINN ÓGILTUR
Á fundi borgarráðs þann 1. nóvember var samruni
REI og GGE ógiltur og ákveðið að kaupa Bjarna og
Jón Diðrik út úr félaginu. í kjölfarið féll Svandís frá
dómsmáli sínu. Ein af ástæðum þess að mögulegt var
að ógilda samrunann var hversu geyst var farið í hann
á sínum tíma. Samningurinn var ekki fullkláraður
þegar samruninn var samþykktur á eigendafundinum
3. október. Enn átti eftir að útfæra ýmis atriði nánar,
og það var meðal forsendna þess að borgarráð taldi sig
geta rift samningnum tæpum mánuði síðar.
HÓFLEG ÚTRÁS SJÁLFSTÆÐISMANNA
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ólafur F.
Magnússon kom Sjálfstæðismönnum meðal annars
aftur til valda í borginni og Björn Ingi Hrafnsson sagði
sig úr borgarstjórn eftir dramatisk innanflokksátök.
Prinsipp Sjálfstæðismanna virðast hins vegar
fokin út í veður og vind, því í samþykkt stjórnar
Orkuveitunnar frá því um miðjan febrúar segir að REI
skuli áfram starfa í útrásarverkefnum, en vera að fullu
í eigu Orkuveitunnar. Þessa stefnubreytingu skýra
Sjálfstæðismenn með því að nú eigi útrásin að vera
hófleg, og í því sé fólgin lítil áhætta. En fyrst þetta
er svo mikið prinsippmál fyrir borgarfulltrúunum
að þeir voru í haust tilbúnir að snúa baki við eigin
oddvita og stefna borgarstjórnarmeirihluta í hættu
fyrir það, ætti varla að skipta höfuðmáli hversu mikið
almannafé er spilað með, svo fremi sem það er meira
en nokkrir hundraðkallar. Eða hvað?
UMBOÐSLEYSIOG BORGARLÖGMENN
Og þeir sem vonuðu að REI-eldurinn væri endanlega
kulnaður máttu hins vegar þola það að hann blossaði
með offorsi upp að nýju eftir að skýrsla stýrihóps
Svandísar Svavarsdóttur var birt þann 8. febrúar.
Skýrslan er harðorð með afbrigðum, og þó áttu
fulltrúar allra flokka sæti í hópnum. I skýrslunni segir
að kjörnir fulltrúar hafi í aðdraganda sameiningar
REI og GGE farið langt út fyrir valdsvið sitt og tekið
ákvarðanir án umboðs, almannahagsmunir hafi verið
fyrir borð bornir og að málinu hafi verið flýtt úr hófi
af óútskýrðum ástæðum.
Vangaveltur um umboð hafa beinst að fjölda aðila.
Lögfræðingar eru ekki á einu máli hvort stjórn REI
hafði umboð til að taka ákvarðanir án samráðs við
stjórn OR, móðurfélags síns. Einnig leikur vafi á
umboði stjórnenda OR til að taka ákvarðanir fyrir
hennar hönd. Stærsta spurningin snýr hins vegar
að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og umboði hans til
að samþykkja samrunasamninginn fyrir hönd
Orkuveitunnar. Um þetta erulögfræðingar ósammála.
Enn eitt axarskaftið af hálfu Vilhjálms leit dagsins ljós
í Kastljósi 8. febrúar, þegar hann sagðist hafa ráðfært
sig við borgarlögmann um umboð sitt. í ljós kom
að þetta var ósatt. Hann hafði ekki ráðfært sig við
borgarlögmann, heldur fyrrverandi borgarlögmann,
sem svo heppilega vildi til að hét Hjörleifur B. Kvaran,
var þá starfandi forstjóri Orkuveitunnar og hafði
hagsmuni af því að samningurinn næði fram að
ganga.
VILLI RÚINN TRAUSTI - AFTUR
í framhaldi af þeim þessum óheppilegu ummælum
Vilhjálms, og þeim áfellisdómi sem kveðinn er
upp yfir vinnubrögðum hans í skýrslunni, tóku að
heyrast frá samflokksmönnum hans háværar kröfur
um afsögn. Mistök, yfirsjónir, krónísk gleymska og
trúnaðarbrestir vöktu ugg hjá mörgum sem hugsuðu
með hryllingi til þess að Vilhjálmur ætti samkvæmt
meirihlutasamkomulaginu við F-lista að taka að
nýju við starfi borgarstjóra að ári. En eftir fundi með
öllum áhrifamönnum flokksins, blaðamannafundi
og feluleiki situr Vilhjálmur enn sem oddviti
sjálfstæðismanna í Reykjavík og sýnir ekki á sér
mikið fararsnið. Kapphlaupið um borgarstjórastólinn
er þegar hafið meðal annarra borgarfulltrúa flokksins
án þess að Vilhjálmur hafi gefið upp hvort hann mun
víkja. Óvissan blívur.
Og óvissa ríkir einnig um lyktir REI-málsins því
enn er beðið niðurstöðu umboðsmanns Alþingis,
sem tók málið upp að eigin frumkvæði í október
og sendi sveitarfélögunum sem eiga Orkuveituna
fjölda áleitinna spurninga. Svörin hafa borist, en
umboðsmaður liggur enn undir feldi.
Og við bíðum. Við bíðum eftir að fá að vita hver
verður næsti borgarstjóri i Reykjavík. Við bíðum eftir
brottrekstrum og við bíðum eftir uppstokkunum. Við
bíðum eftir afsögnum og ábyrgð. Við bíðum eftir því að
sjá hvort þessi óþægilega áminning um hætturnar sem
fylgja slælegri stjórnsýslu og misnotkun lýðræðislegs
umboðs leiði til þess að komið verði í veg fyrir að
svona nokkuð endurtaki sig. Við bíðum og vonum - en
stillum bjartsýninni í hóf. ■
(Heimildir: Umfjöllum fjölmiðla um REI-málið)
o