Ritaskrá Háskóla Íslands - 01.05.2003, Page 6
Hér birtist skrá yfir rit háskólakennara og annarra starfsmanna
Háskóla Íslands og háskólastofnana. Í ritaskránni árið 2001 var
yfirlit yfir verk 368 einstaklinga. Þeim hefur fjölgað nokkuð milli
ára og eru nú 434. Skráin fékk góðar viðtökur meðal
starfsmanna Háskólans og rannsóknabókasöfn, fjölmiðlar og
fleiri aðilar hafa einnig fagnað útgáfu hennar. Því er það með
mikilli ánægju sem við gefum hana út með þessu sniði annað
árið í röð.
Ritaskrá 2002 byggist á upplýsingum sem starfsmenn senda til
rannsóknasviðs fyrir árlegt mat á störfum þeirra. Ástæða þykir
til að birta upplýsingar um hvers konar ritverk, t.d. blaðagreinar
og svör á Vísindavef Háskólans, auk upplýsinga um fræðilega
fyrirlestra og erindi. Af skránni má ráða að starfsmenn
Háskólans sinna gríðarmiklu fræðslustarfi utan Háskólans, á
fræðilegum ráðstefnum og þingum, sem og kynningarfundum
og samkomum fyrir almenning og fagfélög.
Ritaskrár háskólakennara og annarra starfsmanna eru birtar
eins og þeim er skilað til rannsóknasviðs. Frágangur þeirra er
mismunandi eftir fræðasviðum og hefðum og bókfræðilegar
upplýsingar því ekki samræmdar. Efni hvers höfundar er raðað
þannig:
Lokaritgerðir
Bækur, fræðirit
Greinar í ritrýndum fræðiritum
Annað efni í ritrýndum fræðiritum
Aðrar fræðilegar greinar
Bókarkaflar og kaflar í ráðstefnuritum
Fræðilegar skýrslur og álitsgerðir
Ritdómar
Fyrirlestrar
Veggspjöld
Þýðingar
Annað
Ritstjórn
Kennslurit
Fræðsluefni
Útdrættir
Skránni er raðað í stafrófsröð eftir deildum og þar á eftir
stofnanir sem heyra undir eða tengjast hverri um sig. Til þess
að auðvelda leit, m.a. vegna þess að sumir starfsmenn tengjast
fleiri en einni deild eða fræðasviði, fylgir nafnaskrá aftast. Þar
sem nöfn meðhöfunda eru oft skammstöfuð samkvæmt
erlendum rithætti er ekki unnt að geta þeirra í nafnaskránni.
Áfram er unnið að því að gera ritaskrána aðgengilega á netinu.
Um birtingu þar verður tilkynnt sérstaklega.
Ritaskránni er komið til skráningardeildar Landsbókasafns
Íslands - Háskólabókasafns og í bókasafnskerfinu Gegni er
hægt að fá aðgang að efni hennar. Afriti af öllum greinum sem
birtast í erlendum vísindaritum er komið til varðveislu í
Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Þeir sem vilja lesa
viðkomandi ritverk geta snúið sér til safnsins sem útvegar
ljósrit eða kallar eftir verkum í millisafnaláni. Fólk fær þannig
aðgang að margháttuðum rannsóknum um Ísland sem birtast í
erlendum ritum. Þetta gefur íslenskum lesendum tækifæri á að
kynna sér allt sem vísindamenn við Háskóla Íslands fást við og
rannsaka.
Ritstjórar
5
Inngangur