Búnaðarrit - 01.01.1961, Page 29
BÚNAÐARRIT
27
Við fórum hina nýopnuðu Vestfjarðaleið vestur
allt til ísafjarðar, þó með ýmsum útúrdúrum. Þessi
vegur er ekki að öllu fullgerður, en þó velfær yfir
sumarið. Þetta er hið mesta mannvirki og verður ó-
metanleg lífæð fyrir Vestfirði alla, þegar vegargerð-
inni er lokið, sem telja má að nú sjáist fyrir enda á.
Þá er það Mjólkárvirkjun, sem nú er komin til
nota og er farið að leiða afl frá henni um ýmsar
sveitir, ásamt virkjuninni í Bolungarvík. Nú er búið
að tengja saman þessar tvær virkjanir. Þótt enn sé
margt ógert i rafvirkjunarmálum Vestfirðinga, þá má
þó fullyrða, að sá grundvöllur hefur verið lagður, að
með þrautseigju og dugnaði má byggja þar ofan á
sterkt vígi, til þess að tryggja vaxandi velmegun,
aukna framleiðslu og á allan hátt betri lífsskilyrði
til sjávar og sveita um meginhluta Vestfjarða.
En bættar samgöngur og dreifing raforku eru að-
eins grundvöllur þess, að nú á dögum megi lifa mann-
sæmandi lífi og vinna að framleiðslustörfum, hvort
sem er í sveitum eða bæjum, svo vel fari.
Ef farið er um Vestfirði og störf bænda og búskap-
arhættir athugaðir, eru það nokkur alriði, er virðast
öðruvísi en víðast hvar annars staðar í sveitum. Búin
eru óvíða stór, fremur í smærra lagi, en almennt
snyrtilega umgengin og þrifnaður allur utan bæjar
og innan í góðu lagi. Umbætur í húsagerð og rælctun
eru yfirleitt engu minni en annars staðar, miðað við
stærð jarða og framleiðslugetu. Stærð býlanna tak-
markast víða af landþrengslum, sem lítt mögulegt er
úr að bæta. En hins vegar valda landþrengslin, að
erfitt er að nýta hina nýju verkfæratækni með fjöl-
breyttum vélakosti. Þetta er eitt af vandamálum þeirra
Vestfirðinga. Tel ég þó undravert, hve margir bændur
þar, jafnvel meðal hinna smærri, hafa getað vélvætt
sig vel, sem stafar al' því, að búin gefa miklar og
góðar afurðir miðað við stærð þeirra.