Fréttablaðið - 28.12.2009, Síða 12
12 28. desember 2009 MÁNUDAGUR
nær og fjær
„ORÐRÉTT“
VM Stórhöfða 25 110 Reykjavík sími 575 9800 vm.is
„Það er allt stórkostlegt að frétta héðan. Hér er
jólastemning og við erum mjög stolt af því að
vera með heimsins stærsta jóladagatal í bænum,“
segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hvera-
gerði.
Dagatalið umrædda er gert í samvinnu við
fyrirtæki í bænum, sem búa til glugga
og skreyta hátt og lágt víðs vegar í
Hveragerðinni, til dæmis í verslunum.
En Aldís glímir einnig við alvarlegri
mál, til að mynda er hún þessa dag-
ana á kafi við að klára fjárhagsáætlun
Hveragerðis. „Eins og alls staðar mætti
áætlunin líta betur út en hún er ekki
alslæm,“ segir bæjarstjórinn.
Aldís hélt upp á afmæli sitt
á mánudaginn, var í faðmi
ættingja sinna og vina. „Það er
árviss atburður að við fögnum
vetrarsólstöðum á afmælinu mínu,“ segir Aldís og
bætir við að þessi tími árs sé henni afar kær. Hún
sé mikið jólabarn.
Nýverið fékk hún tölur um að í Hveragerði
hafi íbúum fækkað lítillega á árinu, eða um tólf.
Hún segir þetta nokkuð gott miðað við það sem
gengur og gerist.
„Áður var kvartað undan lítilli fjölgun en
nú gleðst maður yfir lítilli fækkun,“ segir
hún.
Aldís og félagar hafa barist gegn Bitruvirkj-
un og ekki er að heyra að bágari þjóðarhagur
dragi úr andstöðu hennar við framkvæmdirnar.
„Nei, það getur bara ekki verið ásættanlegt
að fara í virkjun sem hefur svona mikil áhrif
á heilt bæjarfélag,“ segir hún og bætir við
að hún trúi á heilbrigða skynsemi Reyk-
víkinganna sem um málið véla.
HVAÐ ER AÐ FRÉTTA? ALDÍS HAFSTEINSDÓTTIR, BÆJARSTJÓRI Í HVERAGERÐI
Skoðar heimsins stærsta dagatal
■ Í orðabók Jóns Ólafssonar frá
Grunnavík segir að laufabrauð sé
„sælgæti Íslendinga“. Bókin er frá
fyrri hluta 18. aldar og er því ljóst
að laufabrauðið hefur
þekkst hér á landi þá
þegar. Hins vegar er
ekki ljóst hvenær
það fyrst var á
boðstólum hér.
Laufabrauð er
næfurþunn og stökk
hveitikaka sem steikt
er í feiti. Fyrir steikingu er það
gjarnan skorið út, ýmist með
skurðarjárni eða litlum hnífum.
Það er hefð í mörgum fjölskyld-
um að safnast saman á aðventu
og skera laufabrauð. Sá siður er
sérstaklega kunnur á Norðurlandi.
LAUFABRAUÐ
SÆLGÆTI ÍSLENDINGA
■ Skír er lýsingarorð í íslensku sem
yfirleitt er notað í samsettum orðum,
svo sem heiðskír. Orðið merkir skær
eða bjartur, og er sú merking til
grundvallar nafni skírdags. Skírn er
tengd þessu lýsingarorði, en hún er
trúarleg athöfn þar sem manneskja
er tekin inn í samfélag kristinna
manna. Oftast eru það ómálga börn
sem skírð eru og gefið nafn um leið,
en af því hefur skapast sú órökrétta
venja að leggja skírn og nafngift
að jöfnu. Fólk sem ekki lætur skíra
börn sín er því gjarnan spurt hvaða
nafni barnið hafi verið skírt. Sumir
tala jafnvel um að skíra hunda, ketti,
skip og hús. Lýsingarorðið skýr
hefur ekki ósvipaða merkingu og
skír, það er greinilegur eða ljós, en
manneskja sem er skýr er vel gefin.
Hið gagnstæða gildir um að vera
kýrskýr, enda hafa kýr gegnum tíð-
ina ekki verið taldar sérlega greind-
ar skepnur. - mt
TUNGUTAK
Að skíra
Fréttir af flugeldaslysum
berast í kringum hver ára-
mót. Fréttablaðið fékk upp-
lýsingar um hvernig hægt
er að lágmarka hættuna af
flugeldanotkuninni.
„Flugeldaslys eru afar leiðinleg-
ur fylgifiskur áramótanna,“ segir
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upp-
lýsingafulltrúi slysavarnarfélags-
ins Landsbjargar. Hún segir flest
slysin verða þegar fólk fer ekki
rétt með flugeldanna.
„Öllum flugeldum fylgja leið-
beiningar, og það eru ákveðnar
reglur sem þarf að fylgja þegar
maður umgengst svona vöru. Ef
það er ekki gert þá eykst hættan á
slysum mjög mikið. Númer eitt til
að forðast það er að fara eftir leið-
beiningum í einu og öllu. Númer
tvö eru flugeldagleraugu, sem
við höfum lagt
mikla áherslu
á . Augnslys
geta haft mikl-
ar og leiðinleg-
ar afleiðingar
svo vægt sér til
orða tekið. Flug-
eldagleraugun
hafa komið í veg
fyrir fjölmörg
slys. Slysavarn-
arfélagið hefur
í samvinnu við Blindrafélagið
gefið börnum á aldrinum tíu til
fimmtán ára gleraugu undanfarin
ár og við viljum auðvitað að allir
noti gleraugu, ekki bara börnin.“
Þá segir Ólöf mikilvægt að fólk
passi að vera í ullar- eða skinn-
hönskum þegar það kveikir í flug-
eldum og beygi sig ekki yfir þá
heldur kveiki í með útréttri hendi.
„Ekki gleyma flugeldana nálægt
skotstað og aldrei að hafa neitt í
vösum, ekki einu sinni eldspýtur.
Þá verður að gæta að börnum og
unglingum því þau eiga ekki að
koma nálægt þessum vörum án
fullorðinna. Það eru ákveðnar
vörur sem henta börnum, eins og
blys og stjörnuljós, en þau eiga
samt aldrei að vera notuð nema
undir ströngu eftirliti.“
Unglingsdrengir verða mikið
fyrir slysum af völdum flugelda
í kringum áramótin. „Það er dag-
ana fyrir og eftir áramótin, því
þeir eru að fikta, taka í sundur og
búa til eigin sprengjur. Við höfum
séð mjög ljót slys út frá því.“ Á
gamlárskvöld séu það hins vegar
aðallega heimilisfeður, karlmenn
á besta aldri, sem flykkist á slysa-
varðstofuna.
„Það er oft vegna þess að áfengi
er með í spilunum. Áfengi og
flugeldar fara náttúrulega ekki
saman.“
thorunn@frettabladid.is
Fjölskyldufeður og ungl-
ingsdrengir lenda í slysum
GAMLÁRSKVÖLD Í FYRRA Ólöf segir ólöglega flugelda stundum hafa fengist hér á landi, en þeir þyki einstaklega hættulegir og
séu bannaðir hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
MANNFJÖLDI Íbúar á Íslandi voru 317.593 hinn 1.
desember síðastliðinn. Það er 2.163 íbúum færra
en á sama tíma á síðasta ári og hefur íbúum því
fækkað um 0,7 prósent á milli ára. Þetta kemur
fram á vef Hagstofu Íslands.
Hlutfallslega fækkar íbúum mest á Austur-
landi, eða um 431 sem samsvarar 3,3 prósentum.
Fækkun landsmanna stafar aðallega af fækk-
un fólks með erlent ríkisfang, en því fækkaði um
3.099 á milli ára.
Hagstofan hefur einnig birt tölur um skiptingu
landsmanna sextán ára og eldri eftir trúflokk-
um. Sóknarbörn í þjóðkirkjunni voru 1. desem-
ber 194.903 talsins og hafði fækkað um 673 frá
fyrra ári. Hlutfallslega fjölgaði sóknarbörnum
Þjóðkirkjunnar hinsvegar úr 78,6 í 78,9 prósent
af öllum sextán ára og eldri. Þetta skýrist einkum
af því að mannfækkun á árinu var mest meðal
þeirra sem stóðu utan við Þjóðkirkjuna. - kóp
Íslenskum ríkisborgurum fjölgar lítillega en erlendum fækkar:
Íbúum fækkar á milli ára
Aldrei nóg af kóng-
inum
„Það er þvílíkur munur að
geta fengið Bubba tvisvar
um jólin“
ARI ELDJÁRN
Fréttablaðið, 24. desember 2009.
Bæ, bæ Barbí
„Ég fagna samdrætti í sölu á
Barbie dúkkum“
GUÐNÝ GÚSTAFSDÓTTIR TALS-
KONA FEMÍNISTA
Vísir, 27. desember 2009.
ÓLÖF SNÆHÓLM
BALDURSDÓTTIR