Fréttablaðið - 07.08.2010, Side 24

Fréttablaðið - 07.08.2010, Side 24
24 7. ágúst 2010 LAUGARDAGUR T ilvist þessa handrits, sem hér kemur í fyrsta sinn út á bók undir titlinum Meistar- ar og lærisveinar, hefur verið mörgum aðdáendum Þórbergs Þórðarsonar kunn síðan vald- ir kaflar úr því birtust í Tímariti Máls og menningar árið 1991,“ segir Soffía Auður Birgisdóttir í formála útgáfunnar, sem hún stendur að ásamt Arngrími Vídalín. Þórbergur hélt dagbækur alla ævina og skrifaði niður hugleiðingar sínar, en ekki síður upplýsingar um daga hans; bæði per- sónulegar hugleiðingar og einnig hvers- dagslegar eins og um veðurfar. Meistarar og lærisveinar hefur að geyma hugleiðingar hans um ýmsa atburði sem lesendum hans eru kunnir og hafa sumir hverjir ratað inn í bækur hans. Þar eru einnig frásagnir af þjóðþekkt- um mönnum, Halldóri Laxness og Stef- áni frá Hvítadal, og merkar heimildir um það hvernig Þórbergur leit sjálfan sig og hvernig hann þroskaðist. Eftirfarandi kafli lýsir því hvernig ljóðagerðin kom honum til bjargar í sár- ustu fátækt hans, þrátt fyrir eigin efa- semdir. Ljóðagerðin Á þessum árum fékkst ég dálítið við að yrkja en þó ekki svo að ég tæki slíka við- leitni neitt alvarlega. Ég hafði ekki trú á mér sem ástamanni. Og ég hafði ekki held- ur trú á mér sem skáldi. Mig langaði ekki heldur neitt verulega til að verða skáld. Ég þráði miklu meira að eignast þekkingu og verða spekingur. Að verða spekingur var það æðsta sem ég gat hugsað mér, því að spekin var skilyrði hinnar réttu breytni, og rétt breytni hafði verið keppikefli mitt í mörg [ár]. En það var samt sem áður stað- reynd að ég hafði mjög mikla skemmtun af ljóð- um, og það sem verra var, einkum lyriskum ljóðum. Og það var næsta stað- reynd, að ég fékkst við að yrkja. En ég orti að eins þegar andinn kom yfir mig, og ég gerði mér mjög sjaldan far um að láta hann koma yfir mig ef ekki var lítils háttar upplyfting í aðra hönd, eins og það var kallað, að losa vitundina við heil- brigða skynsemi nokkr- ar klukkustundir. Og það var þriðja staðreyndin að ég hafði mjög næman smekk á ljóðagerð, „fann það á mér“ undir eins og ég heyrði vísu eða kvæði hvort þetta var góður skáldskapur eða lélegur. Var í vafa En þrátt fyrir dómgreind mína á skáldskap annarra var ég lengi vel mjög í vafa um hvort nokkuð eða hvað mikið væri varið í minn eigin kveðskap. Ég las kvæði mín fyrir hinum og þessum. Og allir sem ég las þau fyrir virtust hafa gaman af þeim. Margir hrósuðu þeim. Þetta var allt öðru- vísi kveðskapur en maður hafði átt að venjast. Þetta var nýjung. En hvers konar nýjung var það? Sumir sögðu að þau væru allt of alvörulaus. Einstaka að þau væru siðlaus. Margir sögðu að ég yrði mikið skáld, ef ég tæki verkefni mín alvarlega. Mér þótti dálítið vænt um þegar skáldskap mínum var hrósað. En sú ánægja var þó miklu meiri á yfirborðinu en undir niðri. Mér fannst nálega allir sem ég umgekkst hafa svo lítið vit á skáldskap að í hjarta mínu gat ég aldrei lagt neinn trúnað á dóma þeirra. Og að fara að yrkja alvar- lega, það var mér lífsómögulegt. Ég var búinn að fá svo róttækan viðbjóð á hinu sentimentala og ónáttúrlega væli þessara tíma að það var ekki nokkur minnsta leið fyrir mig að fara að úthella hjarta mínu. Eftir að ég skildi við Stefán frá Hvítadal umgekkst ég að eins tvo menn sem mér fannst að hefðu „innra vit“ á skáldskap. Það voru Erlendur Guðmundsson og Vil- mundur Jónsson. Ég spurði þá aldrei um hvernig þeim þætti skáldskapur minn. En ég fann að þeir höfðu gaman af honum. En þegar ég spurði sjálfan mig hvort ég gæti stuðst við dómgreind þeirra, þá varð svarið að eins ný spurning: Hafa þeir þá hið absoluta vit á skáldskap? Þannig lifði ég í eilífri óvissu um gildi skáldskapar míns, og þó ég væri eða léti sem ég væri ánægður yfir því hóli sem ég fékk hjá hinum og þessum fyrir rím- irí mitt, þótti mér undirniðri ekkert í það varið að fá hrós frá fólki sem ég áleit að hefði lítið eða ekkert vit á skáldskap, að minnsta kosti ekki hið absoluta skálda- eyra. Skítug nærföt og peningaleysi Líkast til hefur enginn Reykvíkingur litið með minni fögnuði en ég til jólanna 1914. Ég átti engin föt önnur en útslitna garma sem ég hafði gengið í í tvö ár, að eins götug stígvél og engan eyri fyrir brennivíns- flösku á aðfangadagskvöldið, og nærfötin mín höfðu ekki verið þvegin síðan í október um haustið. Ég braut dag eftir dag heilann um hvernig ég gæti ráðið fram úr þessum vandræðum. En heilabrot mín urðu bara til þess að sannfæra mig um hvað það væri heimskulegt að eyða tímanum í heilabrot um svo ósigrandi viðfangsefni. Þá bar það til einn dag að ég fór að blaða í ofurlitlum bæklingi, heftum saman með hvítum tvinnaspotta, í kápu úr þykkum, gráum umbúðapappír. Bæklingurinn var útskrifaður með kvæðum eftir mig. Það var ofurlítið safn sem nokkrir kunningjar mínir höfðu beðið mig að gefa sér upp- skrifað og þeir höfðu venjulega borgað mér fyrir tvær krónur en það var verð á hálfum skósólum. Nú var eins og sagt væri við mig að ég skyldi gefa þetta safn út fyrir jólin til þess að ég gæti fengið mér föt og skó. Ég bar þessa hugmynd undir nokkra kunningja mína og þeir hvöttu mig til að gera þetta. Og þá var láns- traust mitt svo lítið hjá prentsmiðjum að ég varð að fá ábyrgðarmenn til að tryggja prentsmiðj- unni kostnaðinn. Bæk- lingurinn var síðan prentaður í Gutenberg. Hann var 16 blaðsíður og hlaut nafnið Hálfir skó- sólar. Og höfundurinn var Styrr Stofuglamm. Bæklinginn seldi ég sjálfur, fékk stráka til þess að bjóða hann á göt- unum og stjórnaði útsöl- unni úr pappírsskúr sem var bak við prentsmiðj- una Gutenberg. Þar hafðist ég við í nokkra daga og afgreiddi handa strákunum nýjar birgð- ir þegar þeir höfðu selt þær fyrri. Bæk- lingurinn seldist ágætlega. Þetta var nýj- ung, óvenjulegur tónn, ekkert líkt því sem áður hafði sést. Og fyrir jólin gat ég fengið mér ný föt hjá skraddara og nýja skó hjá fínasta skósala bæjarins. Ekki í ljóðasöfnum Salan á Hálfum skósólum varð mér upp- örvun til að reyna þessa hamingju í annað sinn. Og árið eftir gaf ég út nýjan kvæða- bækling sem ég kallaði Spaks manns spjar- ir, samræmisins vegna. Hann var seldur á götum bæjarins eins og Hálfir skósólar og seldist einnig ágætlega. Og sjö árum síðar, vorið 1922, gaf ég út dálitla ljóðabók sem ég kallaði Hvíta hrafna. Í henni voru öll kvæðin sem áður höfðu komið í fyrri bæk- lingunum en auk þess fjöldi nýrra kvæða. Þessi bók mín seldist einnig vel og fékk góða dóma. Þrátt fyrir það finnst mér að bókmenntafrömuðir hafi varla talið mig meðal ljóðskálda. Ekkert kvæði eftir mig hefur verið tekið upp í neinar sýnisbækur. Og í Íslenskum ástarljóðum finnst ekki ein einasta vísa eftir höfund þessarar bókar. Þó er það hverju orði sannara að í Hvít- um hröfnum eru betri ástarljóð en þorri þeirra ástarkvæða sem birt eru í Íslensk- um ástarljóðum. Og einn kost hafði ég sem ljóðskáld sem er fremur sjaldgæfur með íslenskum ljóðskáldum: Ég kunni að byggja upp kvæði. Þau byrja þar sem þau eiga að byrja, og enda þar sem þau eiga að enda. Kaflinn Ljóðagerðin úr Meistarar og læri- sveinar. Millifyrirsagnir eru blaðsins. Enda þar sem á að enda Þótt Þórbergur Þórðarson sé löngu horfinn á annað tilverusvið er ný bók eftir hann væntanleg, Meistarar og lærisveinar. Bókin er prentuð eftir handriti sem Þórbergur lét eftir sig og hefur ekki áður komið út á prenti, þótt kaflar úr því hafi gert það. Kol- beinn Óttarsson Proppé gluggaði í bókina og kynnti sér sögu hennar. Fréttablaðið birtir hér aukinheldur einn kafla úr bókinni. Fæðingarár Þórbergs er á reiki, kirkjubækur segja hann fæddan 12. mars 1888, en foreldra hans minnti að hann hefði fæðst 1889 og við það hélt hann sig. Hann fæddist á Hala í Suðursveit og bjó þar til unglings- ára, en þá réð hann sig á skútu í Reykjavík. Þórbergur hristi upp í lífi landans þegar bókin Bréf til Láru kom út árið 1924, en með útkomu hennar er sagt að hann hafi orðið þjóðfræg- ur og illræmdur á einni nóttu. Bókmenntafræðingar lenda enn í vanda þegar skilgreina á Bréfið, þó 86 ár séu liðin frá útkomu þess. Eins er með rithöfundinn sjálfan, hann flokkast illa í hefðbundna flokka. Þórbergur gaf út fjölda rita um ævina og má nefna Íslenskan aðal, Ofvitann og Sálminn um blómið, auk Bréfsins. Þá ritaði hann ævisög- ur af miklu listfengi, til að mynda ævisögu Árna prófasts Þórarinsson- ar. Þá skrifaði hann mikið um andleg efni og íslenskt mál, en hann var mikill orðasafnari. Þórbergur lést árið 1974. Forlagið gefur út bókina Meistarar og lærisveinar, en hún kemur út á þriðjudaginn. Þórbergur Þórðarson ÞÓRBERGUR ÞÓRÐARSON Þórbergur var mikill sérvitringur og skráði hjá sér allt milli himins og jarðar. Hann þykir með mestu stílsnillingum íslenskrar tungu. MYND/LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR Ég hafði ekki trú á mér sem ástamanni. Og ég hafði ekki heldur trú á mér sem skáldi. Mig langaði ekki heldur neitt verulega til að verða skáld. Ég þráði miklu meira að eignast þekkingu og verða spekingur.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.