Fréttablaðið - 27.08.2010, Side 10
27. ágúst 2010 FÖSTUDAGUR10
Það stendur margt til hjá nýjum
formanni skipulagsráðs. Hann sér
tækifæri til breytinga sem aldrei
fyrr og ætlar að endurskilgreina
skipulag borgarinnar með sjálfbær
hverfi að leiðarljósi. Hann vill færa
hluta Árbæjarsafns í miðbæinn,
flugvöllinn burt og gera Banka-
stræti að göngugötu. Þá á að sekta
eigendur tómra húsa í niðurníðslu,
stöðva útþensluna og sameinast
öðrum sveitarfélögum.
Páll Hjaltason arkitekt er nýr formaður
skipulagsráðs Reykjavíkur og situr fyrir
Besta flokkinn. Tiltölulega lítið hefur heyrst
frá Páli og Besta flokknum síðan í kosningun-
um, fyrir utan stefnuskrá þeirra og Samfylk-
ingar. Páll segir að tíminn hafi verið vel nýtt-
ur til undirbúnings. Besta fólkið hafi sett sig
inn í mörg erfið mál, en nú dugi ekki loforð
lengur. „Við þurfum að fara að sanna okkur,“
segir hann. Vinna með embættismönnum hafi
svo byrjað í ágúst og Páll segir að mikilla tíð-
inda sé að vænta á næstunni.
Við settumst niður í gær á kaffihúsi Höfða-
torgs, þar sem borgin er með skrifstofur
sínar. Höfðatorg rís hátt og er afar umdeilt.
Því liggur beint við að spyrja Pál álits á því.
„Þetta er frekar hátt byggt og dæmi um
skort á yfirsýn. Hefði fólk skoðað þetta aðeins
betur hefði það eflaust áttað sig á því,“ segir
hann. Páll telur þessa byggingu dæmi um að
borgarkerfið sjálft hafi misst trú á miðbæn-
um, að byggja höfuðstöðvar þarna en ekki á
auðum svæðum nær kjarnanum.
Hvað þá með umdeildan Listaháskóla við
Laugaveg, sem þú teiknaðir?
„Umræðan um Listaháskólann er dæmi
um hversu yfirborðsleg umræðan verður oft
um skipulagsmál. Ég vann að sjálfsögðu út
frá gefnum forsendum og viðkvæmust var
staðsetningin og ég réði henni ekki. Verk mín
verða bara að standa fyrir sínu. En annars er
Listaháskólinn ekki í umræðunni sem stend-
ur og ég að sjálfsögðu vanhæfur til að fjalla
um hann og mun ekki gera það hjá borginni,“
segir Páll.
Endurskoðun og illur arfur
Nýr meirihluti erfði hátt á sjöunda tug skipu-
lagsmála þegar hann tók við skipulagsráði,
segir Páll. Þar af séu allt að tíu sem snúast
um mikilvæga punkta í miðbæ, sem torséð er
að full sátt verði um.
„Það sem við getum gert er að fara yfir
þessi mál með almannahagsmuni að leiðar-
ljósi og reyna að láta ekki kerfið stoppa það
sem hægt er að setja af stað. Við viljum ekki
eyða öllum peningunum í að greiða verktök-
um skaðabætur. Þó virðast sum mál þannig
vaxin að borgin neyðist til að greiða skaða-
bætur, sama hvernig fer,“ segir Páll en vill
ekki nefna dæmi um þetta.
Skoðað verði hvort borgin hafi leyft of
mikið byggingamagn á ýmsum reitum.
Eignarréttur sé óvíða sterkari en á Íslandi og
byggingaréttur falli þar undir. Vonandi bæti
væntanlegt þingfrumvarp um mannvirkjalög
eitthvað úr þessum málum.
„En þrátt fyrir þennan arf fjögurra borgar-
stjórna á fjórum árum eru gríðarleg tækifæri
fram undan. Nú er logn á markaði, nánast öll
arkitektastéttin atvinnulaus og byggingaiðn-
aður rólegur. Þetta eru tækifæri sem gefast
einu sinni á öld,“ segir Páll.
Hið sjálfbæra þorp
Hverju á helst að breyta?
„Stærsta málið er að endurvekja þorpið
sem sjálfbæra einingu, hverfið. Við eigum að
hætta að hugsa út frá einstökum reitum og
hugsa í hverfum í staðinn. Skapa samhengi
ekki bara í götunni heldur í þorpinu. Hvað
viljum við hafa í hverfi? Er það ekki skóli,
heilsugæsla, sundlaug, og apótek til dæmis.
Það vantar sárlega að koma tómstundum
barna í göngufæri við heimilin. Verslun
þarf að vera í hverfunum eins og var áður en
einkabíllinn tók yfir,“ segir arkitektinn.
Með þessu leysist mörg önnur vandamál.
Umferð minnki þegar fólk þarf ekki að keyra
borgina á enda eftir öllu: „Svo er þetta lýð-
heilsumál, að fólk gangi eða hjóli, en ekki síst
samfélagsmál. Fólk á að geta farið á græn
svæði í þorpinu sínu, það á að geta hist úti
í búð og rætt málin, fólk á að geta kynnst
nágrannanum. Þetta er límið í samfélaginu,
sem hefur leyst upp síðustu áratugi.“
Þessi vinna sé ekki uppfinning Besta
flokksins, heldur að ýmsu leyti þegar hafin
hjá borginni. Enn séu innviðirnir til staðar í
hverfunum, til dæmis verslunarhúsnæði. Það
þurfi bara að virkja þá.
„Núna eru um tíu aðalborgarkjarnar skil-
greindir sem hverfi í Reykjavík, en auðvit-
að eru miklu fleiri hverfi í raun. Hverfi eru
yfirleitt skilgreind út frá stofnbrautum, eins
fáránlega og það hljómar,“ segir Páll og hlær.
Hverfi skuli skilgreind út frá göngufæri,
fjarlægðir í skrefum.
Með endurlífgun „þorpsins“ skapist for-
sendur fyrir beinu lýðræði, að íbúarnir
stjórni uppbyggingunni. Þétting byggðar
fari fram á forsendum hverfanna sjálfra, í
samráði við íbúa. Hverfin haldi sínum kar-
akter. Sem dæmi ætti ekki að byggja annað
en steinuð hús í Norðurmýri.
Sem minnir á Listaháskólann. Hver er kar-
akter Laugavegar?
„Miðbærinn er öðruvísi en önnur hverfi
og með aðrar áherslur. Hann er okkar allra
og hluti af honum er elsta hverfið. Þar hefur
alltaf verið uppbygging. Því er erfitt að segja
að hann eigi að vera í einhverjum einum stíl,
þótt mikilvægt sé að vernda eins mikið af
gömlum byggingum og hægt er, eins og þau
voru byggð og á upprunalegum stað. Það má
ekki þynna út hið gamla. Að þessu leyti er ég
öfgafullur friðunarsinni!“
Hvað með uppbyggingu eins og á horni
Aðalstrætis og Túngötu, þar sem nýtt og stórt
er byggt í gömlum stíl?
„Það er dæmi um þetta. Mörgum finnst
það vel heppnað en mér finnst það ekki til
eftirbreytni. Eiginlega öll uppbygging sem
er í gangi núna er á forsendum gömlu byggð-
arinnar. Mér finnst það ekki spennandi fram-
tíðarsýn að byggja eingöngu upp á þennan
hátt, en ég er ekki öfgafullur í því. Ég vil
treysta arkitektum fyrir því að gera þetta
vel að byggja í gömlum anda en það á ekki
að vera það eina sem við gerum.“
Þú talar um uppbygginguna eftir brunann
á horni Austurstrætis og Lækjargötu sem
„klisjukennda“.
„Já, ég hef gert það. Þarna á að steypa
heilmikið og erfitt að sjá svo sem hvernig
þetta verður. En ég hef nú lært að best er að
þegja um hús þar til þau eru byggð.“
Páll telur óæskilegt að færa til gömul hús,
en þó betra en að fórna þeim. Gröndalshús
vill hann sjá á sínum stað og Árbæjarsafn
eigi að skila miðborginni aftur einhverjum
húsum. Færa ÍR-húsið aftur í Landakotsskóla
og ef til vill færa Dillonshús á bílastæðið við
Suðurgötu, þar sem það var áður.
„Í húsum Árbæjarsafns í miðbænum sé ég
fyrir mér að verði þjónusta, söfn og slíkt, en
ekki búseta. Þau eiga að vera hluti af safninu
áfram, enda okkar menningararfur.“
En tómu húsin í eigu verktaka sem hafa
verið að grotna niður, sum í mörg ár með til-
heyrandi brunahættu og öðru. Hvað getur
borgin gert til að bæta úr þessu?
„Ég trúi því nú ekki að verktakarnir séu
allir að gera þetta vísvitandi. Það var unnið
mikið starf í tíð Ólafs F. Magnússonar og
síðar Hönnu Birnu við að kortleggja þessi hús
öll. Borgin getur krafist þess að ytra byrði
húsanna sé í lagi og beitt dagsektum. Það má
búast við slíkum aðgerðum á næstu vikum,
en við förum mildilega í þær. Á bak við mörg
þessara húsa er persónuleg harmsaga. Við
höfum reynt að hafa uppi á sumum eigend-
um þeirra og fundum til dæmis einn í fang-
elsi. Við viljum því sýna mildi, en þetta er
borgarstjóra mjög hugleikið og ég tek undir
með honum.“
Strætó og sveitarfélögin
Í samhengi við nýtt líf hverfanna þarf að
efla almenningssamgöngur. Páli hugnast
vel að hafa strætisvagna á forgangsakrein-
um en vill ganga lengra en reynt hefur verið
svo sem á Miklubraut. Víða tíðkist að stræt-
isvagnar stýri umferðarljósum og þurfi því
sjaldnar að nema staðar.
Páll er áhugamaður um að græn torg
komi í stað bílastæða í miðbænum. Þar eigi
að fækka bílastæðum og gera fólki erfiðara
fyrir að vera með einkabíl: „Borg er bilið
á milli húsanna, eins og Jan Gehl arkitekt
segir, almenningsrýmið, þar sem kynslóð-
ir mætast,“ segir Páll. Bættar almennings-
samgöngur séu ekki einkamál Reykjavíkur
heldur þurfi að eiga um þær samstarf við
nágrannasveitarfélögin.
En hvernig meturðu líkurnar á því að Garð-
bæingar eða Seltirningar fari að setja aukið
fé í strætisvagna?
„Það þarf að skoða þetta í víðara samhengi.
Auka samstarfið í skipulagi og helst að sam-
eina öll þessi sveitarfélög. Það er mjög sér-
kennilegt að fólkið þar greiði lægra útsvar
en Reykvíkingar og sæki svo til dæmis vel-
ferðarþjónustu til okkar.“ Páll vill stuðla að
sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborg-
arsvæðinu og bætir við hlæjandi að annars
verði að standa við kosningaloforð um tollhlið
fyrir Seltirninga.
„Útþensla borgarinnar er komin úr bönd-
um og við ætlum að stöðva hana. Flestir búa í
austurhluta og vinna í vesturhluta. Eitt svæði
sem fer brátt í endurnýjun til að sporna
við þessu eru Elliðaárvogar, iðnaðarsvæð-
ið milli Ártúnsbrekku og Bryggjuhverfis,
Geirsnefs og Gullinbrúar. Þar á að taka illa
farið iðnaðarhverfi og blanda inn byggð, en
færa þyngsta iðnaðinn á Kjalarnes. Þetta er
stærsta uppbyggingarsvæðið sem er í hendi,“
segir Páll.
Þú vilt gera einkabílstjórum erfitt fyrir í
miðbæ. Verður ekki verslunarfólk brjálað?
„Við höfum verið að gera tilraunir með að
loka götum í sumar og það er almenn ánægja
með þær. Jafnvel hjá verslunarmönnum, sem
kom svolítið á óvart. Ég sé fyrir mér að loka
Bankastræti fyrir umferð og Laugavegi alveg
upp að Klapparstíg. Við skoðum það betur í
ljósi sumarlokananna.
Samhliða þessu verði skoðað hvernig lífga
megi við Laugaveg með nútímavæðingu
verslunarhúsnæðis, án þess að skemma kar-
akter götunnar: „Það má ekki taka burt þetta
óvænta og tenginguna við söguna. Ekki sótt-
hreinsa. Þetta er erfitt samspil.“
Flugvöllinn burt
Ekki verður farið í Sundabraut á kjörtímabil-
inu, að sögn Páls. Hann saknar þingmanna
Reykjavíkur, sem hafi ekki sama metnað
fyrir kjördæmi sínu og landsbyggðarþing-
menn. Miklabraut verði ekki lögð í stokk
heldur: „Við erum ekki að fara að rífa eða
byggja eitthvað stórt, við ætlum fyrst og
fremst að laga til.“
Hvað með Reykjavíkurflugvöll og hugsan-
lega samgöngumiðstöð þar, sem margir kalla
flugstöð?
„Flugvöllurinn fer samkvæmt aðalskipu-
lagi sem unnið hefur verið eftir og ég sé enga
ástæðu til að breyta því, og í samræmi við
byggingarþörf borgarinnar. Persónulega tel
ég að framtíðarstaðsetning hans eigi að vera
í Keflavík með góðum samgöngum í bæinn.
Það kostar brot af kostnaði lestar að setja
hraðbraut fyrir rútur, sem fara álíka hratt,“
segir hann.
„Ég hef miklar efasemdir um samgöngu-
miðstöðina og vonast til að við tökum ákvörð-
un um hana á næstu vikum eða mánuðum.“
Eru ekki allir aðrir flokkar í borgarstjórn,
ríkisstjórnin og lífeyrissjóðirnir á því að
byggja hana?
„Jú, þetta er dálítið skrýtið. En maður
á eftir að láta sannfæra sig um að þetta sé
málið. Ég á eftir að fá endanlega kynningu á
þessu en við skulum sjá til hvað verður.”
Vill sætta borgarana
Að síðustu segir Páll að lögð verði áhersla á
að ná sátt um borgina, skapa frið um fram-
kvæmdir. „Við verðum að fá frið í þessa borg
og hætta að rífast. Þetta er hægt. Borgin er
okkar allra og við ætlum að stórauka upplýs-
ingagjöf til að slá á tortryggni fólks. Partur
af því að vera ábyrgur borgari er að fylgjast
með því sem er að gerast. Ein leið til þess að
skapa sátt er að raddir fólksins fái að heyr-
ast,“ segir Páll og boðar ýtarlegar kynning-
ar í Ráðhúsi. Loðað hafi við borgarstjóra
hingað til að þeir hafi haft annað augað á
framtíð sinni í landsmálum. Ef til vill sé
þess vegna stórt þrívíddarkort af Íslandi í
sal ráðhússins. „Við ætlum að skipta því út
fyrir þrívíddarkort af höfuðborginni,“ segir
formaður skipulagsráðs og brosir.
Boðar endurkomu hins sjálfbæra þorps
VIÐ REYKJAVÍKURTJÖRN MEÐ BOXERNUM ROCKY Arkitektinn Páll er æðstiprestur skipulagsmála í borginni,
en hélt að Besti flokkurinn yrði bara grín sem tæki enda. Hann lítur á starfið sem þegnskyldu sína næstu
fjögur árin en býst svo við að fara aftur að vinna sem arkitekt í fullu starfi. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
FRÉTTAVIÐTAL: Páll Hjaltason, arkitekt og nýr formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar
Klemens Ólafur
Þrastarson
klemens@frettabladid.is