Morgunn - 01.06.1939, Síða 20
14
MORGUNN
Vitanlega voru þeir menn til, sem að jafnaði sóttu
kirkju til síra Haralds, eða ,,fóru í Haraldsmessu“ eins
og það var kallað af öllum almenningi, en sögðust þó
lítið hirða um boðskap hans um sálarrannsóknirnar.
Ég er viss um að þessir menn sögðu ekki vísvitandi ósatt,
en ég er eJcki viss um að þeir hafi gert sér þess nógu vel
grein á hvað þeir hlýddu. Ég hefi mikla tilhneiging til að
halda, að fleirum hafi farið eins og Hannesi Hafstein;
einu sinni þegar hann var í kirkju hjá síra Haraldi hitt-
ist svo á að hann minntist ekki á sálarrannsóknamálið.
Þegar út úr kirkjunni kom, sagði Hafstein við Einar
Kvaran: ,,Haraldur var leiðinlegur í dag“. „Fannst þér
það“, sagði Kvaran, „mér fannst þetta prýðileg prédik-
un“. „Já, það getur vel verið“, svaraði Hafstein, ,,en
þetta hefðu aðrir prestar líka getað sagt“.
Auðvitað var síra Haraldur lang-glæsilegasti, mælsk-
asti og andríkasti prestur sinnar samtíðar með þjóð
vorri. En með mælskunni einni, orðgnótt og andríki
heldur enginn kennimaður, eða íyrirlesari, fjölmennum
áheyrendahópi til lengdar, hafi hann ekki hugðnæmt
eða merkilegt málefni að berjast fyrir. Það hafði síra
Haraldur. Hann svaraði þeim spurningum, sem voru vak-
andi með samtíð hans, en sem fæstir prestar aðrir
hreyfðu í kristindómsboðun sinni, og það mikla fjöl-
menni, sem sótti guðsþjónustur hans, kom fyrst og
fremst til þess að hlusta á hann gefa þau svör við rún-
um tilverunnar, sem sálarrannsóknirnar höfðu gefið
honum til að gefa öðrum. Svo leit hann sjálfur á það mál.
Hvers vegna hneigðist síra Haraldur svo eindregið að
sálarrannsóknunum, sem hann gerði? og hvers vegna
tók hann niðurstöðum þessara rannsókna með svo mikl-
um fögnuði?
Það var ekki vegna þess, að sjálfur hefði hann liðið
skipbrot á eilífðartrú sinni. Vegna misskilnings, sem oft
gerði vart við sig hjá andstæðingum hans, tók hann það
hvað eftir annað fram, bæði í ræðu og riti, að persónu-