Sameiningin - 01.12.1959, Blaðsíða 21
Sameiningin
19
Þess ber þó að gæta. að í fyrstu var talið, að upprisan
yrði aðeins hlutskipti réttlátra; ranglátir menn dvelja áfram
í Helju. En í Daníelsbók er kveðið upp úr um það, að synd-
arar muni einnig rísa upp frá dauðum. Helja er þess ekki
megnug að hegna þeim nægilega fyrir glæpi þeirra og mis-
gjörðir.
Þannig má segja, að kenningin um lífið eftir dauðann,
jafnvel upprisukenningin, og fullvissan um umbun réttlátra
og hegning óguðlegra hafi verið komin í nokkurn veginn
fast horf, þegar Gamla testamentis ritin voru fullsamin. En
þessar kenningar héldu þó áfram að þroskast í meðvitund
manna og skýrast betur á hinu svonefnda apókrýfiska tíma-
bili, — á milli testamentanna tveggja. Hér er auðvitað um
að ræða uppistöðu-atriði í Nýja testamentinu, og svo síðar
í kenningu kristinnar kirkju.
II.
í Nýja testamentinu komum vér upp á nýjan sjónar-
hól, þar sem útsýnið er víðfeðmara og loftslagið hreinna
en í hinum eldri ritum, er um framhaldslífið ræðir. Að
vísu er þar ekki um nýjar hugmyndir að ræða í þessum efn-
um, en hugtökin eru tekin til nýrrar meðferðar, og þeim
lyft í hærra veldi. Kristur bar ekki fram nýjar kenningar
um framhaldslífið og upprisuna, en með kenningu sinni,
dauða sínum og upprisu lyfti hann þessum vonum og draum-
um upp úr móðu og mistri mannlegs hugar, upp í hið skæra
ljós veruleikans, — hinnar endanlegu opinberunar Guðs.
Vantrúaðir menn skopuðust auðvitað að kenningunni
i;m upprisuna, þá eins og nú. Kristur hafði ekki starfað
lengi sem kennari á meðal þjóðbræðra sinna, þegar Sad-
dúkear nokkrir gengu á fund hans og hófu kappræður um
framhaldslífið og upprisuna. Saddúkearnir voru fríhyggju-
menn þeirra tíma, og vildu engu trúa, lengra en nef þeirra
náði. Hugmyndin um upprisu framliðinna var að áliti þeirra
barnalegur draumur og hin mesta fjarstæða. Þeir bentu á að
Móses, hinn mikla löggjafi þjóðarinnar, minntist ekki með
einu orði á upprisuna, og hinir helztu á meðal spámanna
ekki heldur. Aðeins nokkurir á meðal hinna svo nefndu
smærri spámanna viku að þessum efnum í ritum sínum, og
höfundar sumra sálmanna höfðu látið skáldfák sinn fara
með sig út í rökfræðilegar ófærur í þessum efnum. Til þess