Faxi

Árgangur

Faxi - 01.03.1964, Blaðsíða 4

Faxi - 01.03.1964, Blaðsíða 4
Ljóðsvanur Islands er lótinn Nú ljóðsvanur íslands er látinn, vér lútum í hljóðri þökk. Þjóðskáldið Davíð Stefánsson andaðist á Akureyri 1. marz síðastliðinn og var jarðsunginn í Möðruvallakirkju 9. s. m. Davíð Stefánsson var fæddur í Fagra- skógi við Eyjafjörð 21. janúar 1895, sonur hjónanna Rangheiðar Davíðsdóttur, systur Olafs Davíðssonar þjóðfræðasafnara og Stefáns Stefánssonar bónda og alþingis- manns. Sakir heilsubersts tafðist Davíð nokkuð við nám í æsku og lauk því ekki stúdentsprófi fyrr en 1919, en það ár kom út fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir. Alls komu út eftir hann um tíu ljóðasöfn, fjögur leikrit, skáldsaga og ritgerðasafn. Hafa verk þessa ástsæla skálds margsinnis verið prentuð í heildarútgáfum. Fyrstu verðlaun hlaut Davíð í samkeppni um há- tíðaljóð vegna Alþingishátíðarinnar á Þing- völlum 1930. Svo vinsæll var hann þá orð- inn með þjóðinni, að engum kom sú verð- launaveiting á óvart, enda átti hann þá þegar hug allra landsmanna. Árið 1925 gerðist Davíð bókavörður á Akureyri og gegndi því starfi lengi síðan. Hann hafði ferðast víða erlendis um dagana, einkum um Norðurlönd, Austur- Evrópu og til Italíu. Hann var heiðurs- borgari Akureyrarbæjar, þar sem hann lifði lengst og starfaði. Hér skal ekki gerð tilraun til að rita minningargrein um hið látna þjóðskáld, enda væri það að bera í bakkafullan læk þessa dagana, þar sem svo margir mér færari hafa höndum til tekið. Minning Davíðs Stefánssonar mun varð- veitast á spjöldum sögunnar og ljóð hans ylja þjóð vorri á meðan íslenzk tunga er töluð. Frá því ég var í föðurgarði, hef ég unn- að ljóðum Davíðs og svo mun vera um flesta jafnaldra mína og aðra samferða- menn. Hann söng sig strax með Svörtum fjöðrum inn í vitund þjóðarinnar, sem dáði hann sem sinn höfuðsnilling og önd- vegisskáld, er sveif yfir vötnum hennar og tilveru, fyrst á sínum Svörtu fjöðrum, síð- ar gullroðnum. Hann var boðberi fegurð- ar og manngöfgi, nokkurskonar safngler alls hins góða og hreina, jafnframt því sem hann var málsvari lítilmagnans. Hann var sannur maður og skáld af guðs náð. Oskabarn lands síns og þjóðar. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hér skal að lokum tilfært eitt erindi úr kvæðinu: „Þú sem eldinn átt í hjarta“ og birtist í Svörtum fjöðrum: Þú átt lönd til yztu ósa, elfur, fossa og hæstu tinda. Þú átt eldfjöll öll, sem gjósa, ofurmætti hafs og vinda, angan hinna rauðu rósu, regns og sólar gróðrarmátt, hamingjunnar hjartaslátt, hugsjónanna andardrátt, draumanætur, daga ljósa, djúpsins gull og loftið blátt. I ljóðabókinni „I dögun“, sem út kom 1960, kennir margra grasa, — þar drýpur smjör af hverju strái. Eða hvað segja menn um kvæðið Skiptapar: Því fylgir alltaf sorg að eiga syni, þó séu þeir af landsins bezta kyni og vinni marga vaska dáð. Það eru lög, að skuggar fylgi skini — og skip er þessum lögum háð. I djörfum leik er dulin reisn og hætta. A djúpið leggja synir hraustra ætta með glæstar vonir, glaða lund. En oft er eins og leiðsögn góðra vætta sé lokið eftir skamma stund. Það væntir enginn vatns í þurrum brunni, en víða leynist dý í freðnum runni og klökkvi bak við kaldan svip. En sá er heitast sokknu fleyi unni mun sárast harma — önnur skip. En sá mun léttast sorgarfregnum taka, er safnað hefur mestum innri klaka og hæðir viðkvæmt hjartaþel. Við honum munu vængir bleikir blaka, unz brestur þóttans klakaskel. Þið minnizt þess, sem mikið viljið láta, að meðan börnin harma sína játa á hugur ennn sinn hreina skjöld. Sú þjóð er heimsk, sem þorir ekki að gráta af þægð við blinduð myrkravöld. Sjá hann, sem átti hæsta stjörnusalinn, gat horft af si'nu fjalli, einn og kvalinn, á brotin skip og blóðug torg. Svo gekk hann eins og gestur niðrí dalinn og grét þar yfir furstans borg. Sjö eru spjót í brjósti blíðrar móður. Þó blessar hún sitt lif, sinn höggna gróður, sem áður skreytti skógarlönd. I hverri byggð er bleikt og opið rjóður og brotið skip við hverja strönd. Slíka gullstrengi átti gígja Davíðs Stef- ánssonar og því mun hann, þrátt fyrir líkamsdauðann, lifa með þjóð sinni, sem blessar minningu lárviðarskáldsins góða og varðveitir hana um aldir. H. Th. B.

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.