Morgunn - 01.06.1968, Síða 14
8
MORGUNN
eilífa líf vex og þroskast mitt í hverfleika tímans. Og þetta
er það, sem Páll á við, er hann segir, að þrenging vor skamm-
vinn afli oss yfirgnæfanlegs dýrðarþunga! Til þess líður tím-
inn og með því einu móti hefur tíminn þýðingu, að þroska
vorum miði áfram.
Eitt af hugljúfustu skáldum vorum, sálarrannsóknamað-
urinn Einar H. Kvaran, kemst þannig að orði í einu af kvæð-
um sínum, að okkar „jarðlífssvið sé útborg ein af Drottins
dýrðarhöllum.“ Og í hinum undurfagra sálmi: „Þín náðin,
Drottinn, nóg mér er,“ kemur í ljós fögnuður þess manns,
sem öðlazt hefur staðfasta sannfæringu fyrir því, að lífið
haldi áfram í hækkandi veldi, þrátt fyrir hel og gröf. —
Framlífið.
Vísindin hafa enn ekki ráðið þá gátu til fulls, hvernig
framlifinu er háttað.
Sumir trúa því, að næsta tilvera sé í annars konar efnis-
heimi en vorum, þar sem flest sé þó áþekkt því, er vér þekkj-
um hér og hafi jafnmikinn veruleik, en gerist aðeins í fín-
gervara efni.
Aðrir telja, og sú trú hefur verið afar útbreidd frá fornu
fari, að menn endurfæðist á jörðina æ ofan i æ. Þetta er t. d.
eitt aðalatriðið í indverskum trúarbrögðum og virðist jafn-
vel hafa þekkzt í frumkristni og ekki hafa verið ókunnug
hugmynd í átrúnaði forfeðra vorra. Er talað um það i Helga-
kviðum báðum í Sæmundar-Eddu, að þeir nafnar og ást-
meyjar þeirra væri endurbornir, og hafa menn þá trúað, að
örlagaböndin tengdu menn saman líf eftir líf.
Þess ber þó að gæta, að þeir, sem aðhyllast þessa trú, gera
ekki ráð fyrir, að menn endurfæðist á jörðina nema með
löngu millibili, eftir að menn taka að ná einhverjum þroska,
en þess á milli dveljist menn í annars konar veröldum, stund-
um svo skiptir hundruðum ára. Þannig verður það reyndar
allt önnur veröld, sem þeir fæðast til, er þeir koma aftur til
jarðarinnar til að afla sér meiri lífsreynslu og þjálfunar.