Morgunblaðið - 14.02.2009, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 14.02.2009, Blaðsíða 27
27 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 2009 Jólasveinn í febrúar Þótt íslensku jólasveinarnir hafi nú allflestir haldið heim á leið flæktist einn þeirra úr Dimmuborgum og álpaðist alla leið í Ráðhús Reykjavíkur. Hann ákvað nefnilega að heiðra Vetrarhátíð með nærveru sinni. Ketill Larsen gæti eflaust kennt þessum jólasveini ýmis brögð. Golli Ásta Möller | 13. febrúar 2009 VG virðir meirihlutavilja þingsins Það vakti eftirtekt í þing- sölum í gær að formaður utanríkismálanefndar Árni Þór Sigurðsson, treysti sér ekki til að skrifa undir meirihlutaálit utanríkismálanefndar og skilaði einn og sér minnihlutaáliti við frumvarp um staðfestingu á samningi um aðild Króatíu og Albaníu að NATO. Þetta er mjög óvenjulegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið og segir töluvert um stöðu þessarrar minnihlutastjórnar sem nú er starfandi. Í umræðum um frumvarpið sagði formaðurinn að hann gerði sér „grein fyrir því að meiri- hlutavilji er fyrir því á Alþingi og hann virði ég“. Meira: astamoller.blog.is Kristbjörg Þórisdóttir | 13. febrúar Mikilvægi stjórnlagaþings Ég tel það algjört grund- vallaratriði að stjórnlaga- þing verði haldið og stjórnarskráin endur- skoðuð. Þetta er rétti tím- inn til þess að byggja upp að nýju þegar kerfið hefur hrunið til grunna. Það er mun skynsamlegra að skoða allt frá grunni núna með það fyrir augum að byggja upp nýtt og betra kerfi og það sé klárlega hinn íslenski almenn- ingur sem hafi þar valdið. Seinna er of seint... Meira: kristbjorg.blog.is ÞEGAR fjárlög ársins 2009 voru samþykkt 22. desember sl. var staðfest að heilbrigðisyf- irvöldum var ætlað að draga úr rekstrarkostnaði í heilbrigð- iskerfinu um 6,7 milljarða króna. Þá liggur fyrir að sparn- aðarkrafan mun að öllum lík- indum verða enn meiri á næsta ári. Það er ekki síst af þeirri ástæðu sem mikilvægt er að grípa til skipulagsbreytinga í heilbrigðiskerfinu sem ekki hafa eingöngu áhrif á þessu ári, heldur jafnframt á árinu 2010. Eins og kunnugt er kynnti ég í upphafi árs skipulagsbreytingar sem ætlað var að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu um allt að 1,3 milljarða kr. Einnig var hafinn undirbúningur að því að lækka lyfjakostnað um einn milljarð króna til viðbótar þeim eins og hálfs milljarðs króna sparnaði sem þegar hafði náðst frá vor- inu 2007. Þá var gerð hagræðingarkrafa upp á 2,6 milljarða kr. á sjúkrahúsin á höfuðborg- arsvæðinu. Auk þess gerðu fjárlög ráð fyrir nýrri gjaldtöku upp á 360 milljónir króna í heilbrigðiskerfinu svo eitthvað sé nefnt. Við fjárlagagerðina markaði ég þá stefnu að staðinn yrði vörður um heilbrigðisþjónustu við aldraða og langveika í samræmi við stefnu- yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2007. Þannig var heilbrigðisþjónusta í heima- húsum efld samhliða því að framboð á hvíldar- og endurhæfingarúrræðum fyrir langveika á öllum aldri var aukið. Þessar aðgerðir draga úr þörf fyrir kostnaðarsama langtímavistun á hjúkrunarheimilum til framtíðar og gera jafn- framt að verkum að lífsgæði fólks aukast, því flestir kjósa að vera sjálfs sín ráðandi á eigin heimilum eins lengi og kostur er. Skipulagsbreytingar á Kragasvæðinu Vorið 2008 fól ég nefnd undir forystu Guð- jóns Magnússonar, læknis og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Alþjóðaheilbrigð- isstofnuninni, að kanna starfsemi heilbrigð- isstofnana á svokölluðu Kragasvæði: Akra- nesi, Selfossi, Reykjanesbæ og í Hafnarfirði. Nefndin skilaði minnisblöðum með at- hugasemdum og tillögum á haustmánuðum 2008 en þar er mörkuð sú stefna að auka áherslu Kragasjúkrahúsanna á lyflækningar sem eru vaxandi þáttur í nærþjónustu en jafn- framt að hagræða í skurðstofurekstri. Í ljósi fyrirsjáanlegs niðurskurðar á fjár- lögum var hraðað til muna vinnu við að móta skipulagsbreytingar sem gætu orðið til þess að ná inn sem stærstum hluta þess niðurskurðar sem fyrir höndum var án þess að skerða þjónustu, lengja biðlista, auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga eða grípa til uppsagna starfsfólks nema í sem allra minnstum mæli. Síðustu daga ársins 2008 lögðu sérfræðingar heilbrigðisráðu- neytis nótt við dag við að útfæra hugmyndir að skipulagsbreyt- ingum sem að stórum hluta byggðust á niðurstöðum fyrr- nefndrar nefndar. Ég fundaði með stjórnendum heilbrigð- isstofnana á Kragasvæðinu og Landspítala, bæjarstjórnarmönnum á viðkom- andi stöðum og þingmönnum viðkomandi kjör- dæma. Einnig kynnti ég fyrirhugaðar skipu- lagsbreytingar á fundi ríkisstjórnar. Markmiðið var að leita leiða til að hámarka nýtingu þeirra mannvirkja og þess búnaðar sem til var og losna við ríkisábyrgð á verktakarekstri í Hafnarfirði. Þar liggur m.a. fyrir að lítið samræmi er á milli launa þeirra lækna sem þar starfa og þeirra sem starfa annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Færri skurðstofur, sami fjöldi aðgerða Í byrjun janúar sl., eftir að skipulagsbreyt- ingarnar höfðu verið kynntar, tóku fjórir vinnuhópar, skipaðir fagfólki af viðkomandi heilbrigðisstofnunum, til starfa um nánari út- færslur og lágu niðurstöður hópanna fyrir í janúarlok. Hugmyndafræðin á bak við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skurðstofurekstri á Kragasvæðinu er einföld. Ætlunin var að fækka skurðstofum í fullum rekstri úr fimm í tvær, með sama heildarfjölda aðgerða að teknu tilliti til þeirra sem flytja átti inn á LSH. Verkefni skurðstofuhóps var ekki síst í að greina kostnað við aðgerðir. Í ljós kom að samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum var óverulegur munur á kostnaði við samsvarandi aðgerðir milli LSH og St. Jósefsspítala þó að viðurkennt sé að grunnkostnaður LSH sé mun hærri vegna fræðsluhlutverks, vakta, gjör- gæslu og reksturs blóðbanka, svo dæmi sé tekið. Almennt mætti gera kröfu um að sjúkrahús á borð við St. Jósefsspítala væri með um 25-30% lægri gjaldskrá en LSH. Þessi staðreynd sýnir svo ekki er um villst að breytinga er þörf. Lagt var til að sérstök rekstrareining undir stjórn fagfólks á St. Jósefsspítala tæki að sér þann hluta skurðaðgerða sem felst í kven- lækningum, bæklunarlækningum og lýtalækn- ingum. Forsenda þess var að starfsemin færð- ist í aðstöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem er talin fyrsta flokks. Jafnframt var gert ráð fyrir að skurðstarfsemi sem nú er á Suð- urnesjum færðist inn í þann rekstur. Þá var gert ráð fyrir að almennar skurð- lækningar, háls-, nef- og eyrnaaðgerðir, augn- lækningar og tannlækningar færðust tíma- bundið inn á LSH á grundvelli jaðarkostnaðar eða yrðu boðnar út fyrir milligöngu Sjúkra- trygginga Íslands. Útreikningar vinnuhópsins sýndu mögulega hagræðingu að fjárhæð um 160 milljónir kr. Stofnkostnaður á fyrsta ári á Suðurnesjum var metinn um 40 milljónir kr. en Reykjanes- bær hafði boðist til að standa straum af þeim kostnaði, næðist sátt um aðkomu sveitarfé- lagsins að þessu verkefni. Þá var stefnt að því að LSH yfirtæki rekstur skurðstofu Heil- brigðisstofnunar Suðurlands með tilheyrandi 60 milljóna króna árlegum sparnaði. Vinnuhópur um fæðingarþjónustu lagði upp með spara 65 milljónir kr. árlega með því að leggja niður vaktir skurðstofu á Selfossi og í Keflavík. Niðurstaða hópsins var að líklega þyrfti að bæta við stöðugildum á LSH til að taka við aukinni starfsemi. Einnig var tillaga hópsins að koma á bakvöktum ljósmæðra á Selfossi og í Keflavík til reynslu í 6 mánuði. Að teknu tilliti til þessara athugasemda vinnu- hópsins næðist 35 milljóna kr. árlegur sparn- aður af þessum aðgerðum. Niðurstaða vinnuhóps um göngudeild melt- ingarsjúkdóma og lyflækningar staðfesti að með því að greiða LSH aðeins jaðarkostnað af þeim viðbótarverkefnum sem áætlað var að færa frá St. Jósefsspítala til LSH væri mögu- legt að spara á ársgrundvelli um 200 m.kr. Á móti var stofnkostnaður á fyrsta ári vegna breytinganna áætlaður 20-100 milljónir kr. eftir því hvaða leið var farin við val á nýrri að- stöðu. Endurskipulagning á St. Jósefsspítala Fjórði vinnuhópurinn vann að því að skoða mögulega endurskipulagningu á starfsemi í húsnæði St. Jósefsspítala. Til þess að koma til móts við óskir Hafnfirðinga um möguleika á lyfjadeildarinnlögnum í Hafnarfirði lagði hóp- urinn til að haldið yrði áfram þeirri þjónustu sem falist hefur í innlögnum sjúklinga sem koma frá LSH og frá heilsugæslu. Að öðru leyti var miðað við að ný þjónusta kæmi í hús- ið með þeirri fjármögnun sem henni fylgdi. Þessi breyting myndi þannig skila 95 milljóna kr. sparnaði af þeim 175 milljónum sem upp- haflega var stefnt að. Að auki var gert er ráð fyrir að stofnkostn- aður vegna þessa á fyrsta ári gæti numið 100- 120 milljónum kr. Á móti er hér gengið út frá aðkomu Hafnarfjarðarbæjar enda óskaði heil- brigðisráðuneytið eftir því í lok janúar þegar niðurstöður vinnuhópa lágu fyrir, að Hafn- arfjarðarbær tilnefndi þrjá fulltrúa í starfshóp sem hefði það hlutverk að móta skipulag fram- tíðarstarfsemi St. Jósefsspítala, Sólvangs og annað sem snýr að heilbrigðisþjónustu í Hafn- arfirði. Hagræðing upp á 600 milljónir kr. Til viðbótar við ofangreint var gert ráð fyrir að rannsóknarstofa sem verið hefur á heilsu- gæslunni legðist af en lágmarksrannsókn- araðstöðu viðhaldið í St. Jósefsspítala. Lækk- un kostnaðar vegna húsnæðis, röntgen og rannsókna ætti því að verða um 55 mkr. Samkvæmt þessum niðurstöðum liggur fyr- ir eftir allnákvæma athugun með aðkomu hlutaðeigandi fagfólks að raunhæft er að skipulagsbreytingarnar skili um 600 milljóna sparnaði. Hér er þannig um að ræða tæp 10% af þeim heildarniðurskurði sem bíður heil- brigðisyfirvalda á þessu ári. Að lokum Fyrir liggur að ríkissjóður er nú rekinn með 150 milljarða króna halla. Það þarf að halda vel á spilunum til þess að koma fjárhag rík- isins og þjóðarbúskapnum aftur á réttan kjöl. Aðhald í ríkisfjármálum spilar þar lykilhlut- verk. Hvað varðar heilbrigðismálin er mikilvægt að áfram sé unnið að því markmiði að Íslend- ingar hafi aðgang að fyrirmyndar heilbrigð- isþjónustu óháð efnahag, eins og kveðið er á um í lögum um heilbrigðisþjónustu. Hins veg- ar væri óábyrgt að horfast ekki í augu við þær staðreyndir sem við blasa í íslenskum þjóð- arbúskap. Heillavænlegast væri að menn tækju saman höndum við að ná inn sem stærstum hluta fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu með aðgerðum sem lág- marka eftir því sem kostur er þjónustuskerð- ingu, lengingu biðlista, aukinn kostnað sjúk- linga og uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks. Eftir Guðlaug Þór Þórðarson »Heillavænlegast væri að menn tækju saman hönd- um við að ná inn sem stærstum hluta fyrirhugaðs niðurskurð- ar í heilbrigðisþjónustu með aðgerðum sem lágmarka eftir því sem kostur er þjónustu- skerðingu … Horfst í augu við staðreyndir Guðlaugur Þór Þórðarson Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra. BLOG.IS

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.