Morgunblaðið - 04.03.2009, Síða 11
Fréttir 11INNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. MARS 2009
„VIÐ áttum ágætan fund þar sem
við fórum yfir stöðu mála og þá sér-
staklega mál er varða heimili og fyr-
irtækin í landinu,“ sagði Steingrímur
J. Sigfússon, fjármálaráðherra, eftir
fund sinn og Jóhönnu Sigurðardótt-
ir, forsætisráðherra, með formanni
Framsóknarflokksins í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
formaður Framsóknarflokksins,
hafði gagnrýnt stjórnarflokkana fyr-
ir seinagang. Ráðherrarnir væru of
einráðir og drægju lappirnar í veiga-
miklum málum, svo sem stjórnlaga-
þingsmálinu. Hann sagði þó að
Framsóknarmenn hygðust ekki fella
stjórnina. Minnihlutastjórnin hefur
enn sem komið er aðeins komið einu
máli í gegnum þingið, seðlabanka-
frumvarpinu.
Steingrímur sagði engar alvarleg-
ar deilur vera uppi um hvernig
skyldi halda á málum. Mikill vilji
væri til þess að flýta málum sem
allra mest og að því væri unnið öt-
ullega. „Það er ekki undarlegt að
menn hafi litla þolinmæði en það er
nú samt svo að það er mikil hreyfing
á málum,“ sagði Steingrímur.
Vilji til að flýta málum
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra funduðu með formanni Framsóknar-
flokksins Sigmundur Davíð hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir seinagang
Í HNOTSKURN
»Steingrímur segir alltbenda til þess að mikilvæg
mál er varði heimilin í landinu
verði samþykkt á næstunni.
»Tugir mála hafi verið af-greiddir úr ríkisstjórn sem
nú þurfi að afgreiðast á þingi. Sigmundi Davíð boðin sáttahönd
MBL.IS | SJÓNVARP
BISKUPSSTOFA
hefur opnað tvö
vefsvæði á Face-
book-sam-
skiptavefnum, að
sögn Elínar E. Jó-
hannsdóttur,
fræðslufulltrúa
Biskupsstofu. Til-
gangurinn er að
koma upplýs-
ingum til fólks
sem á um sárt að binda, meðal ann-
ars vegna efnahagsþrenginga en
fólk sækir í auknum mæli í þjónustu
kirkna.
„Við finnum fyrir auknu álagi,
eins og skiljanlegt er, og við viljum
reyna eftir fremsta megni að koma
til móts við þann mikla fjölda sem
leitar til okkar vegna erfiðleika.
Við viljum reyna að vera sýnileg í
þessu árferði og þess vegna er
Facebook-vefurinn góður staður
fyrir upplýsingar,“ segir Elín í sam-
tali við mbl.is. ingibjorg@mbl.is
Biskups-
stofa á
Facebook
Til móts við þá sem
eru í erfiðleikum
Karl
Sigurbjörnsson
Eftir Unu Sighvatsdóttur
una@mbl.is
„ÉG hef ekki efni á því að vera at-
vinnulaus. Þjóðin hefur ekki efni á
því að hafa mig atvinnulausan. Ef
við fáum ekki vinnu hjá öðrum þá
verðum við að gera eitthvað sjálf.“
Þannig hljómar lýsingin á hópsíð-
unni Avinnuleysi Nei takk! sem
Sveinbjörn Pétursson hefur stofnað
á Facebook. „Ég missti vinnuna í
lok sumars og fór þá að skoða Face-
book og hvaða möguleika hún hefði
að bjóða, því ég hafði nógan tíma.
Ég hef svo sem misst vinnuna áður,
en þá fékk maður vinnu aftur eftir
nokkrar vikur í stað þess að horfa
fram á langtímaatvinnuleysi.
Það eru breyttir tímar þannig að
hugmyndin var sú að reyna að hóa
saman hópi af fólki sem væri at-
vinnulaust og fara í hugmynda-
vinnu um hvað við getum gert sjálf.
Þetta er svona sameinuð stöndum
vér, sundruð föllum vér hugsun.“
Sveinbjörn hefur líka unnið að
því að safna saman á síðunni upp-
lýsingum um úrræði fyrir atvinnu-
lausa í boði verkalýðsfélaga, bæj-
arfélaga o.fl. „Það er hellingur í
boði, ég er sjálfur búinn að fara á
12 eða 13 námskeið en einhverra
hluta vegna er lítil þátttaka. Ég
held þetta þurfi meiri kynningu því
Morgunblaðið/Kristinn
Æðrulaus Sveinbjörn með Esju, dóttur sinni. Hann segir að ekki þýði að taka það til sín þótt starfsumsóknir skili litlu.
„Atvinnuleysi, nei takk!“
þetta nýtist mikið og fyrir vikið
verður fólk betri starfskraftar þeg-
ar það fær síðan vinnu, eða skapar
sér vinnu sjálft.
Svo er líka ástæða til að hvetja
atvinnulaust fólk til að taka þátt í
sjálfboðastörfum frekar en að vera
aðgerðalaust, því maður fær þetta
inn á sína ferilskrá og fólk getur
sýnt fram á að þótt það hafi misst
vinnuna hafi það haldið virkni í
samfélaginu áfram.“
Sjálfur hefur Sveinbjörn sótt um
ríflega 40 störf síðan hann missti
vinnuna en fengið takmörkuð við-
brögð við þeim.
Hann segist samt líta svo á að
það eina neikvæða við atvinnuleysið
sé tekjumissirinn. Erfitt sé að lifa
af atvinnuleysisbótum, en hann hafi
hins vegar nóg fyrir stafni við að
rækta sjálfan sig.
„Auðvitað geta verið sveiflur hjá
mér í þessu, en fyrir mig snýst
þetta ekki um það að hafa ekki nóg
að gera, því sumir dagar eru skipu-
lagðir alveg frá morgni til kvölds,
enda tel ég mig orðinn sérfræðing í
því að finna allt sem er frítt,“ segir
Sveinbjörn hlæjandi.
Gærdagurinn var sem dæmi full-
skipaður hjá Sveinbirni og varla að
tími gæfist fyrir viðtalið við blaða-
mann. Um morguninn sótti hann
ársfund Nýsköpunarstofnunar, þá
leiklistarnámskeið í Hlutverka-
setrinu um hádegi og loks fór hann
í Opna háskólann í HR til að sækja
tímastjórnunarnámskeið.
„Ég reyni bara að fylgjast með,
taka þátt í því sem er í boði og
skapa mér verkefni,“ segir Svein-
björn. „Það reynir mikið á það
núna að geta sýnt styrk og draga
sig ekki inn í skelina þegar eitthvað
bjátar á, heldur eflast og sækja út á
við til að finna lausnir.“
Stofnaði Facebook-hóp fyrir atvinnulausa til að miðla
hugmyndum „Orðinn sérfræðingur í því sem er ókeypis“
ÓLAFUR Ragn-
ar Grímsson, for-
seti Íslands, ferð-
aðist níu sinnum
með flugvélum
utan almenns
áætlunarflugs á
árunum 2005 til
2008.
Forsetinn
flaug með vélum
á vegum Actavis,
Glitnis, Novators, KB-banka, Eim-
skips og FL-Group.
Þetta kemur fram í greinargerð
á vegum forsetaembættisins vegna
fyrirspurnar frá Fréttablaðinu.
Í sjö tilvikum var um að ræða
hluta úr ferð eða skipulagða hóp-
ferð. Tvær ferðir voru alfarið með
vélum á vegum íslenskra fyrirtækja
og voru fulltrúar viðkomandi fyr-
irtækja með í för.
Í desember 2005 fór forsetinn í
tveggja daga ferð með leiguvél á
vegum Actavis til Pétursborgar í
Rússlandi.
Hann var viðstaddur undirritun
samkomulags um þátttöku Péturs-
borgar í evrópsku samstarfsverk-
efni gegn fíkniefnum sem Actavis
styrkir auk þess sem hann ræddi
við borgarstjóra Pétursborgar.
Í september 2007 fór forsetinn í
rúmlega sólarhringsferð til Leeds í
Englandi með vél á vegum Eim-
skips.
Þar ræddi hann við ýmsa ráða-
menn auk þess sem hann flutti
ávarp við opnun skrifstofubygg-
ingar í eigu Eimskips.
ingibjorg@mbl.is
Níu sinnum
í einkavélum
Ólafur Ragnar
Grímsson
LÖGREGLAN í Borgarfirði og Döl-
um handtók um helgina sex manns,
fimm karlmenn og eina konu á
aldrinum 15 til 50 ára og lagði hald
á rúmlega 30 kannabisplöntur í
sumarbústað í Borgarfirði. Fólkið
var flutt á lögreglustöðina í Borg-
arnesi þar sem yfirheyrslur fóru
fram. Að sögn lögreglu voru fíkni-
efnin, sem voru í þurrkunarferli í
bústaðnum, íslensk framleiðsla og
kvaðst fólkið hafa tekið að sér að
sjá um að þurrka plönturnar fyrir
annan aðila en það hefði ekki staðið
að ræktuninni sjálft.
Að sögn lögreglunnar í Borg-
arnesi naut hún aðstoðar frá fíkni-
efnadeild lögreglunnar á höf-
uðborgarsvæðinu við rannsókn
málsins og einnig kom lögreglan á
Akranesi til aðstoðar við handtöku
fólksins. Fólkinu var sleppt úr haldi
að yfirheyrslum loknum.
Kannabis í
Borgarfirði
ALÞINGI hefur samþykkt breyt-
ingar á lögum um kosningar til Al-
þingis sem gera fólki auðveldara að
kjósa í komandi alþingiskosn-
ingum.
Kjörskráin var samkvæmt lög-
unum miðuð við 1. desember 2008.
Nú er fólki heimilt að senda beiðni
til Þjóðskrár fyrir 25. mars n.k. og
verður það þá tekið á kjörskrá. Er
gripið til þessarar lagasetningar
vegna þess að nú er kosið er á miðju
kjörtímabili.
Geta komist
á kjörskrá
Áhrif kreppunnar á fjölskyldur
5. mars: „Vinnustaðurinn eftir
uppsagnir,“ hádegisfyrirlestur í
boði VR.
12. mars: „Fjármál – úrlausn
fjárhagslegra vandamála.“ Nám-
skeið hjá Opna háskólanum í
boði stéttarfélaga.
Í vændum: „Sjálfsstyrking og
samskipti fyrir konur,“ námskeið
hjá Endurmenntun Háskóla Ís-
lands.
Á þriðjudögum: Enska – þjálf-
un í talmáli hjá Hlutverkasetri.
19. mars: „Reiður, reiðari,
reiðastur,“ fyrirlestur VR um við-
brögð við áföllum.
Á döfinni fyrir
atvinnulausa
HEITAR umræður voru á bæj-
arstjórnarfundi í Sandgerði í gær-
kvöld þegar tekist var á um tillögu
minnihlutans um að fenginn yrði
sérfróður aðili til þess að gera út-
tekt á samningum Sandgerð-
isbæjar og Eignarhaldsfélagsins
Fasteignar frá árinu 2004 um sölu
og endurleigu eigna. Bærinn á kost
á því í ár að kaupa eignir sínar til
baka af Fasteign.
Meirihlutinn vildi að tillagan
yrði dregin til baka en minnihlut-
inn var því mótfallinn, að sögn
Ólafs Þórs Ólafssonar, bæjarfull-
trúa S-lista Samfylkingarinnar og
óháðra.
Tillaga minnihlutans var felld í
atkvæðagreiðslu. Sátt náðist hins
vegar um tillögu meirihlutans um
að málinu yrði vísað til gerðar fjár-
hagsáætlunar fyrir árið 2010, að
sögn Ólafs Þórs. ingibjorg@mbl.is
Tekist á í
bæjarstjórn
Sandgerðis