Morgunblaðið - 09.09.2009, Page 18

Morgunblaðið - 09.09.2009, Page 18
18 Umræðan MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. SEPTEMBER 2009 ✝ Katrín Rósa Jóns-dóttir fæddist í Sultum, Kelduhverfi, þann 17. júní 1918. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 28. ágúst 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Hall- grímsson f. 27.9.1868, d. 11.5.1947, bóndi í Sultum í Kelduhverfi og kona hans Guðrún Sigurjónsdóttir f. 20.8. 1882 d. 16.9. 1971. Systkini Katr- ínar: Friðrika f. 3.6. 1907, d. 31.3. 1980, Kristín f. 26.10. 1908 d. 8.4. 1992, Sigurjón f. 7.5. 1911, d. 8.6. 1990, Þórhallur f. 18.7. 1923, d. 17.5. 2006. Katrín giftist Valdimar Krist- inssyni 22. apríl 1937, f. 23.2. 1901 á Flatey á Skjálfanda d. 1.1. 1985. Foreldrar Valdimars voru Kristinn Sigurpálsson f. 30.6. 1878, d. 6.10. 1961 og fyrri kona hans Herdís Friðfinnsdóttir f. 17.5. 1876, d. 26.6. 1962. Börn Katrínar og Valdimars eru: 1) Jón Kristinn f. 22.1. 1938, eigink. Margrét Örnólfsdóttir f. 8.12. 1942. Börn þeirra a) Valdimar f. 14.9. 1963, eigink. Ásdís Ásgeirs- dóttir f. 22.7. 1962 og eiga þau 3 dætur. b) Örnólfur f. 6.6. 1967, eig- ink. Sigrún Hildur Kristjánsdóttir f. 10.7. 1969 og eiga þau 2 börn. c) Katrín f. 25.4.1971, eiginm. Jóhann Frið- geir Haraldsson f. 7.12. 1965 og eiga þau 3 börn. 2) Gunnar f. 17.7. 1942, eigink. Guðrún Oddgeirs- dóttir f. 28.6. 1944. Börn þeirra Oddgeir f. 5.9. 1972 og Valdi- mar f. 8.8. 1977. 3) Dóróthea f. 6.6. 1947 eiginm. Kristján Ár- mann Antonsson f. 2.9. 1946. Dóttir þeirra Matthildur f. 8.3. 1969. Eiginm. Hermann Bragi Reynisson f. 29.12. 1965 og eiga þau 3 börn. Katrín bjó lengstan hluta ævi sinnar á Túngötu 13, Húsavík, ásamt eiginmanni sínum. Hún sinnti húsmóðurstörfum á gestrisnu heim- ili þeirra hjóna, félagsstörfum svo sem í Kvenfélaginu þar sem hún sat í stjórn, Slysavarnarfélagi kvenna og Samtökum þingeyskra kvenna. Þegar börnin voru uppkomin gerð- ist hún matselja í Leikskóla Húsa- víkur og vann þar í mörg ár. Katrín og Valdimar fluttu í Kópavog 1981 og eftir lát Valdimars flutti Katrín á Kópavogsbraut 1b en bjó síðustu mánuði á Hrafnistu í Hafnarfirði. Útför Katrínar fer fram frá Foss- vogskirkju í dag, 9. september, og hefst athöfnin kl. 13. Góð kona er fallin frá. Einstaklega heilsteypt og hlý kona sem tók öllum vel og var mikil fjölskyldumann- eskja. Meðan heilsa hennar leyfði var hún dugleg að kalla saman hóp- inn sinn og vinir og kunningjar nutu einnig ríkulega af gestrisni hennar. Ég hitti hana fyrst fyrir rúmum 18 árum þegar hún var nýflutt í fallega íbúð sína að Kópavogsbraut. Þá bauð hún börnum sínum og mökum ásamt barnabörnum til sín. Sonarsonur hennar og verðandi eiginmaður minn tók mig þá með sér til hennar í fyrsta skipti. Hún tók þétt í hönd mína, brosti hlýlega og bauð mig vel- komna. Ég átti oft eftir að njóta góðra veitinga og gestrisni hennar síðar enda var hún mikil húsmóðir. Hún var einnig mikil hannyrðakona, heklaði til að mynda fallega dúka og milliverk í sængurver meðan hún hafði krafta til og afkomendur henn- ar nutu meðal annarra góðs af. Katrín fylgdist vel með öllu sínu fólki, hún passaði upp á afmælisdaga allra í fjölskyldunni og naut þess að hitta fólkið sitt samankomið. Henni var umhugað um velferð allra og þakklát fyrir það sem fyrir hana var gert. Allra síðustu ár voru Katrínu erfið sökum veikinda. Henni leið þó vel á nýja heimilinu sínu að Hrafnistu í Hafnarfirði og óskandi hefði verið að dvöl hennar þar hefði orðið lengri. Hún geislaði af ánægju þegar við heimsóttum hana á afmælisdegi hennar í sumar og síðasta heimsókn Katrínar til okkar í vor verður okkur einnig minnisstæð, þar sem hún naut sín vel. „Það er hvergi fallegra en í Þing- eyjarsýslunni,“ heyrði ég Katrínu oft segja og í okkar síðustu heimsókn til hennar var Þingeyjarsýslan henni hugleikin. Hún var stolt af sveitinni sinni, það fann ég þegar við fyrir mörgum árum áttum þar leið um með henni og hún lýsti staðháttum og sýndi okkur heimahagana með stolti. Katrín á að baki langa og ham- ingjuríka ævi, minningin um góða konu lifir. Sofðu nú blundinum væra, blessuð sé sálin þín hrein. Minningin, milda og tæra, merluð, í minningar stein. (Bryndís Halldóra Jónsdóttir.) Sigrún Hildur. Mætur Íslendingur sagði eitt sinn að kannski væri það höfuðeinkenni á farsælu fólki að það stuðlaði að ham- ingju annarra. Þetta átti sannarlega við um Katrínu, tengdamóður mína. Hún var brosmild og hlýleg í fram- komu, afar hjálpsöm og uppskar vin- semd samferðafólks síns. Hún fædd- ist í Kelduhverfi í N-Þingeyjarsýslu, þeirri sveit er henni þótti fegurst allra sveita, þar sem í bláma minn- inganna var alltaf sól í sinni og gleði í hjarta. Katrín ólst upp hjá ástríkum for- eldrum og var næstyngst fimm systkina. Hún átti frændfólk á mörg- um bæjum, sem hafði samneyti eftir föngum hvað heima hjá öðru, en oft á hinum fallega samkomustað Ás- byrgi, einni af náttúruperlum Ís- lands. Skólaganga Katrínar varð ekki löng frekar en margra annarra á þeim tíma enda oftast reiknað með að stúlkur giftu sig og væru heima- vinnandi sem og varð hennar hlut- skipti. Gæfusöm var hún er hún kynntist á Húsavík verðandi eigin- manni sínum og giftist honum aðeins 18 ára. Þau Valdimar og Katrín byggðu strax eigið hús á Húsavík, sem var heimili þeirra í marga áratugi og þar fæðast börnin þrjú. Hún helgaði sig heimilinu og ekkert vafðist fyrir henni af því sem prýðir fyrirmynd- arhúsmóður. Katrín og Valdimar undu ágætlega hag sínum á Húsavík og farnaðist vel. Þau glöddust yfir stöðugum framförum sem urðu í litla bænum við Skjálfandaflóa, svo sem auknum íbúafjölda, stækkun hafnar- innar, hitaveitunni og skrúðgarðin- um við Búðará. Þau voru félagslynd, hún sat í stjórn kvenfélagsins þar í bæ en starfaði einnig í Slysavarna- félagi kvenna og Samtökum þing- eyskra kvenna. Hún vann af alúð þau verkefni sem henni voru falin. Þá hafði hún mikla ánægju af að spila bridds með vinkonum sínum. Valdimar naut sín í ýmsum fé- lögum, t.d. skógræktarfélaginu, ferðafélaginu og leikfélaginu. Katrín og Valdimar voru gestrisin og þess nutu ættingjar og vinir í ríkum mæli. Föðurbróðir Valdimars, Sigurpáll, var heimilisfastur hjá þeim í nokkra áratugi og sýndi Katrín honum aðdá- unarverða umhyggju. Þegar um fór að hægjast og börnin farin að heim- an vann Katrín í mörg ár sem mat- selja í leikskóla Húsavíkur og naut þess að fylgjast með litlu krílunum þar en hún saknaði mikið að hafa ekki börn og barnabörn nálægt sér. Valdimar og Katrín fluttu í Kópa- vog árið 1981 og voru fljót að aðlag- ast nýju umhverfi. Eftir að Valdimar féll frá í janúar 1985 flutti Katrín á Kópavogsbraut 1b og þrátt fyrir bága heilsu síðustu ár var hún afar ánægð þar á meðal góðra nágranna og vina. Ég átti samleið með tengdamóður minni í nærri fimm áratugi og eins og aðrir naut ég umhyggju hennar og elskusemi, af henni var hægt að læra hvernig rækta á garðinn sinn í mörgum skilningi. Ég er Katrínu þakklát fyrir samverustundirnar og fyrir að gefa okkur öllum svo góðar minningar um sig. Margrét Örnólfsdóttir. Amma okkar er látin í hárri elli. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 28. ágúst sl. eftir að hafa dvalið þar í rúma sjö mánuði við gott atlæti og frábæra umönnun á hjúkrunardeild síðasta mánuðinn. Ein af fyrstu minningunum er að sitja á útidyratröppunum á Túngötu 13 á Húsavík fyrir neðan eldhús- gluggann og borða kleinur sem amma Katrín var nýbúin að steikja. Amma og afi, meðan hann lifði, áttu stóran þátt í uppeldi okkar bræðra, alveg frá fyrstu tíð. Árviss var dvöl okkar hjá þeim á Húsavík. Þessar sumardvalir eru okkur báðum ákaf- lega hugljúfar. Var það frelsið í „sveitinni“ og ekki síður umhyggjan og atlætið, sem við nutum. Íslensk menning eins og hún sennilega best var í heiðri höfð. Þau höfðu mjög gaman af að spila og kenndu okkur bræðrum m.a. lönguvitleysu auk þess sem vinsælt var að fara í leikinn frúin í Hamborg og var þá oft glatt á hjalla enda amma hláturmild og spaugsöm. Reyndar hafa foreldrar okkar haft á orði að málfar okkar hafi borið ákveðinn keim af frúnni í Hamborg fyrstu dagana eftir heim- komu úr sumardvölinni. Svör eins og „svo ku vera“, „það er og“ og „víst er svo“ voru ríkulega notuð. Amma var mikið jólabarn og þeg- ar jólin nálguðust hljóp mikið kapp í þá gömlu; það þurfti að þrífa, baka og skreyta tímanlega og aðstoðuðum við hana við það eftir að þau fluttu suður, svo að jólahátíðin gæti gengið í garð. Amma var snögg að hlutunum og ekki lengi að framkvæma það sem gera þurfti. Oft var mikill asi á henni eins og gjarnan þegar hún hringdi heim og vildi fá að tala við pabba eða mömmu og spurði hvort þau væru heima og í miðju orði þegar svarið var nei heyrðist sónninn í símanum, sú gamla búin að leggja á, enda óþarfi að vera með eitthvert óþarfa blaður. Amma var létt í skapi og jákvæð og sá alltaf spaugilegar hliðar á mál- unum. Hún hafði gaman af að spila bridge og í gamni kölluðum við spila- hóp ömmu koníaksklúbbinn. Í minn- ingunni var amma alltaf prjónandi, heklandi og strekkjandi dúka. Nú verða ekki fleiri heimsóknir til ömmu. Minningin ein verður að duga. Níutíu og eitt ár er löng ævi og það er ekki sanngjarnt gagnvart for- sjóninni að fara fram á meira. Við þökkum því fyrir að hafa fengið að vera ömmu Kötu samferða og notið umhyggju hennar og ástúðar. Bless- uð sé minning hennar. Oddgeir og Valdimar. Elsku langamma. Þú varst alltaf svo góð og ljúf og því mun ég aldrei gleyma. Þú hafðir svo góða nærveru og það var alltaf svo mikil ró í kringum þig, mér leið vel nálægt þér. Þegar ég hitti þig þá varst þú alltaf svo fín. Eftir að þú fórst að finna fyrir veikindum varst þú aldrei söm en þú beist alltaf á jaxlinn og reyndir að vera sterk og það hjálpaði þér mjög mikið. Mér þótti gaman að heyra sögurnar þínar í einu jólaboðinu þar sem við sátum tvær og spjölluðum saman. Þegar þú komst í heimsókn til okkar í vor, daginn eftir ferminguna mína, þá sagðir þú við mig hvað ég væri fín og þú sagðir líka að drottinn yrði með mér. Ég mun aldrei gleyma þessum orðum og mun minnast þessa dags oft í framtíðinni. Ég var svo glöð að þú skyldir komast til okkar í heim- sókn. Ég trúi samt ekki að þú sért farin frá okkur og að ég eigi aldrei eftir að sjá þig aftur en ég veit að minning þín mun lifa í hjarta mínu það sem eftir er lífs míns. Aldís Lilja, langömmubarn. Katrín Jónsdóttir  Fleiri minningargreinar um Katr- ínu Jónsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. AGNES Bragadótt- ir fór mikinn í Morg- unblaðinu um síðustu helgi og lét ekki sannleiksástina þvæl- ast fyrir sér í um- vöndunum sínum. Í grein sinni undir fyr- irsögninni „Bíræfnir Bakkabræður“ sýnir hún ýmsa takta óvandaðrar blaðamennsku og fer bæði með fleipur og beitir fyrir sig munnsöfnuði sem jafnvel bloggheimar eru að myndast við að úthýsa um þessar mundir. Þessi grein er ein margra frá þessum blaðamanni sem vænt- anlega verða ekki taldar Morg- unblaðinu til framdráttar þegar litið verður um öxl síðar meir. Óhjákvæmilegt er að spyrna við fótum og koma á framfæri efnis- atriðum sem afhjúpa þá bíræfni og virðingarleysi gagnvart sannleik- anum sem blaðamaðurinn leyfir sér. Orðrétt segir meðal annars um okkur bræður: „Bíræfni þeirra felst í endalausum tilraunum til þess að koma eignum, sem þeir ekki eiga, undan og því að reyna að ná yfirráðum í félögum án þess að borga það sem þeim ber að borga.“ Til að styðja þessa fullyrð- ingu, sem í raun er áburður um hreinan þjófnað, er því annars vegar haldið fram að við séum að reyna að slá persónulegri eign okkar á hlut Exista í Bakkavör fyrir lítið eða ekkert endurgjald. Hins vegar að við neitum að fara að úrskurði fyrirtækjaskrár um að færa til baka hlutafjáraukningu í Exista. Hvort tveggja er rangt. Varðandi sölu á hlut Exista í Bakkavör til félags í eigu okkar bræðra þá var hún eingöngu gerð til þess að koma í veg fyrir að Bakkavör sogaðist inn í hrun ís- lenska fjármálakerfisins í október síðastliðnum og vegna þeirrar óvissu sem fall Kaupþings skapaði fyrir framtíð Exista. Í lánasamn- ingum Bakkavarar eru staðlaðir skilmálar sem veita lánveitendum, sem samanstanda af stórum hópi alþjóðlegra banka, rétt á að gjald- fella lánasamninga verði breyting á eignarhaldi félagsins, það er, svokölluð „change of control“ ákvæði. Hefði Exista fallið með bönkunum hefðu lánveitendur að öllum líkindum gjaldfellt lána- samninga Bakkavarar til stórkost- legs tjóns fyrir bæði hluthafa og skuldabréfaeigendur. Þess vegna keypti félag í eigu okkar bræðra allan hlut Exista á því gengi sem hlutabréf í Bakkavör gengu kaup- um og sölu á á þeim tíma, eða 9,79 krónur á hlut. Nú er gengi hluta- bréfa Bakkavarar 1,75 krónur á hlut. Fullyrðing Agnesar um að Ex- ista neiti að fara að úrskurði fyr- irtækjaskrár um að afturkalla hlutafjáraukningu frá í desember er einnig röng. Fullt tillit hefur verið tekið til úrskurðarins eins og sjá má í tilkynningu sem Exista sendi Kauphöll Íslands þann 30. júní síðastliðinn og er aðgengileg á vefsetri félagsins. Þar stendur meðal annars: „Miðað við skrán- ingu hlutafjár hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, að teknu tilliti til fyrrnefnds úrskurðar, er BBR ehf., félag í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, stærsti hluthafi Exista með 52% eignarhlut. Aðrir hluthafar eiga um 5% eignarhlut eða minna í félaginu.“ Stjórn Ex- ista hefur því tekið tillit til ákvörðunar fyrirtækjaskrár. Í þessu sambandi má benda á að við hrun íslenska fjármálakerfisins þrýstu erlendir kröfuhafar mjög á eigendur Exista að sýna í verki tiltrú sína á félaginu með því að leggja Exista til fjármagn í þeim tilgangi að tryggja lausafjárstöðu félagsins. Með ákvörðun okkar bræðra um að leggja Exista til nýtt hlutafé og tryggja þannig lausafjárstöðu félagins myndaðist yfirtökuskylda lögum samkvæmt. Okkur var þannig gert að bjóða öðrum hluthöfum að kaupa hluti þeirra á sama verði og við bræður keyptum okkar hluti. Þess má geta að á þessum tíma var rætt við aðra stærstu hluthafa félagsins en enginn þeirra var reiðubúinn að leggja félaginu til fé. Verðið sem við bræður greiddum fyrir hlutinn í Exista endurspeglaði það gríðarlega högg sem Exista varð fyrir við fall Kaupþings. Verðið var samþykkt af Fjár- málaeftirlitinu sem byggði ákvörð- un sína á mati óháðra sérfræð- inga. Það var okkur bræðrum ekki léttbært að leggja tilboðsverðið fyrir hluthafa félagsins, enda hvöttum við engan til að taka því og létum hluthafa algjörlega um að mynda sér sjálfstæða afstöðu til þess. Aðhald fjölmiðla og varðstaða þeirra um málefnalega umræðu hefur væntanlega aldrei verið mikilvægari í íslensku samfélagi en einmitt um þessar mundir. Í þeim efnum leikur Morg- unblaðið stórt hlutverk. Vonandi er að blaðamennsku á borð við þá sem Agnes Bragadóttir bauð upp á í þessari grein sinni verði haldið í lágmarki á síðum blaðsins. Eftir Ágúst Guðmundsson og Lýð Guðmundsson Ágúst Guðmundsson » Óhjákvæmilegt er að spyrna við fótum og koma á framfæri efnis- atriðum sem afhjúpa þá bíræfni og virðing- arleysi gagnvart sann- leikanum sem blaða- maðurinn leyfir sér. Höfundar eru Bakkavararbræður Bíræfin blaðamennska Lýður Guðmundsson MORGUNBLAÐIÐ birtir alla útgáfudaga aðsendar umræðugreinar frá lesendum. Blaðið áskilur sér rétt til að hafna greinum, stytta texta í samráði við höfunda og ákveða hvort grein birtist í umræðunni, í bréfum til blaðsins eða á vefnum mbl.is. Blaðið birtir ekki greinar, sem eru skrif- aðar fyrst og fremst til að kynna starfsemi einstakra stofnana. Innsendikerfið Þeir sem þurfa að senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Formið er undir liðnum „Senda inn efni“ ofarlega á forsíðu mbl.is. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/ sendagrein. Móttaka aðsendra greina

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.