Saga - 1973, Blaðsíða 130
126
ÞORLEIFUR ÞORLEIFSSON
ræmu, á bersvæði, og teinarnir síðan festir á þverlægjur
úr timbri eða SVILA, sem þær undirstöður voru kallaðar.
Svilarnir voru um 120 cm að lengd, en sporvíddin milli
innri hábrúna teinanna var 90 cm. Þungi teinanna var
um 22,5 kg metrinn. Brautarlagningunni stjórnaði Hans
Nielsen verkfræðingur. Frá Grandanum var brautin lögð
vestur með sjónum, fram undan Alliance að Sóttvarnarhús-
inu, en á þeim kafla miðjum var lagt skiptispor samhliða
aðalspori og tengt því í báða enda. Sóttvarnarhúsið lá mjög
nærri sjó, og varð að reisa timburgrind undir járnbrautar-
sporið fram hjá húsinu.
Um 150 m suðvestur af Sóttvarnarhúsinu sveigði brautin
frá sjónum um 80° í suðurátt, rétt vestan við Sel, og lá
síðan austan við Pálshús yfir Framnesveg vestanverðan,
fram með austurjaðri Bráðræðisholts yfir Kaplaskjólsveg
og stefndi að Melunum, milli Sauðagerðis og Einarsholts.
Við brautarlagninguna voru nokkrir farmvagnar þegar
settir á sporið og notaðir við flutning á efni í brautina.
Vögnunum var ýtt með handafli, en þegar sporið náði að
Sauðagerði var lokið samsetningu á eimreiðinni MIN0R,
og var hún þá sett í brautina við athafnasvæðið hjá Alliance
og síðan notuð við aðdrátt á efni. Frá Sauðagerði lá brautin
áfram suð-suðaustur yfir Melana fast við vesturhorn
gamla íþróttavallarins, og þá yfir Sandvíkurstíg og Mela-
veg (Suðurgötu). Sunnarlega á Melunum nálægt Melavegi
var tekinn sandur í brautarstæðið, og var þá lagt samhliða,
tvítengt skiptispor til bráðabirgða við sandnámið.
Frá Melunum sveigði brautin í drjúgum halla norð-
austan við Litlu-Brekku í austurátt norðan við Skildinga-
neshóla og grútarstöðina og þaðan beint í austur fram með
núverandi Fossagötu, yfir Vatnsmýrina þar, sem nú er
miður Reykjavíkurflugvöllur, og þá sunnan við Karelshús
og Litla-Land og loks sunnan við Haukaland, sem var
skammt norður af öskjuhlíð, og endaði hún við norðurhlíð
öskjuhlíðarinnar, þar sem grjótnámið var.
Þessi hluti járnbrautarinnar var venjulega kallaður „leið-