Saga - 1973, Blaðsíða 174
Jóh Kristvin Margeirsson:
Maðkaða mjölið 1756
1 ævisögu Skúla Magnússonar landfógeta, sem Jón Jóns-
son Aðils hefur ritað og gefin var út á tveggja alda afmæli
Skúla, segir Jón, að mjöl það, sem Hörmangarafélagið
flutti til íslands árið 1756, hafi verið mestallt óætt, sökum
þess að það hafi verið morandi af möðkum. Um þetta
kemst Jón Aðils svo að orði:
„Með árinu 1756 keyrir verzlunaráþjánin svo úr hófi
fram, að menn máttu eigi lengur undir rísa. Er nú eigi
nóg með það, að kaupmenn flytji bæði illa og ónóga vöru
á einstakar hafnir landsins, heldur kemur þetta fyrir á
öllum höfnum umhverfis landið, og úr hverri einustu
sýslu rigna niður raunasögurnar hver annarri ægi-
legri. Fólkið hrundi niður unnvörpum af hungri, því
fiski- og gæftaleysi var við sjóinn, eldgos og grasbrestur
til sveita. Fólk hné niður af máttleysi á túnunum við
vinnu sína eða veslaðist upp inni í tómum kofunum.
Fjöldi manna leitaði á brott úr sveitum sínum og hugð-
ist fremur mega bjarga lífinu á öðrum stöðum, en marga
dagaði uppi á göngu sinni yfir fjöll og heiðar. Það lítið
er flutt hafði verið af méli til landsins á þessu ári (1756)
var mestmegnis óætt og úði og grúði af möðkum“. (J-
JÖNSSON: Skúli Magnússon landfógeti, 138—139).
Heimildir Jóns Aðils fyrir þessu eru ýmis bréf og
yfirlýsingar, sem hann vísar til á þann hátt, að hann
nefnir dagbókarnúmer (journal-númer), og eru númer
þe'irra heimilda eftirfarandi: 2462, 2470, 2524, 2527,
2529—2531, 2555, 2572 og 2463.