Saga - 1984, Síða 116
114
PÉTUR PÉTURSSON
varið gegn árásum og rógburði. Greinilegt er, að hér er Björn að
velta fyrir sér áhyggjum sumra samherja sinna í stjórnmálunum
af, að skrif þeirra Einars geti skaðað pólitískan málstað þeirra.
Valtýr Guðmundsson mun hafa komið þessu á framfæri í einka-
bréfum til Björns.17 Björn segir í þessum greinum, að hann geti
ekki hugsað sér að „fara í algjört bindindi“ varðandi skrif um þetta
mál; þó segir hann, að það væri að sumu leyti heppilegra, að sér-
tímarit fjallaði um það og byði þá aðeins þeim, sem áhuga hefðu
á málinu, fræðslu um það. Áform voru uppi um slíkt tímarit
spíritista, en ekkert varð úr framkvæmdum.18
Fyrsta greinin í Fjallkonunni eftir Einar H. Kvaran birtist þann 7.
apríl, og greinir hann þar stuttlega frá upphafi þessara rannsókna
sinna og getur áðurnefndrar bókar eftir enska sálarrannsókna-
manninn Myers. Hann vitnar einnig til annarra þekktra vísinda-
og stjórnmálamanna, sem fengist hafi við svipaðar rannsóknir og
talið þær benda til þess, að kenningar spíritista hefðu í sér fólginn
nýjan sannleika. Eru það aðallega Bretar, sem hann telur upp, en
þar er einnig nefndur bandaríski vísindamaðurinn William James■
Slíkar tiHitnanir hafa bæði fyrr og síðar verið mjög tíðkaðar 1
varnarritum spíritista. Fór það greinilega oft í taugarnar á and-
mælendunum, sem töldu þann samtíning einskis verðan, en til-
greindu gjarnan á móti þau tilfelli, er svik höfðu sannast á miðla,
og lýstu hvernig jafnvel vandaðir og þekktir vísindamenn hefðu
látið blekkjast. Öðru hverju birtust greinar eftir Einar um þessi
mál þann tíma, sem hann var ritstjóri Fjallkonunnar, og beitti hann
þar blaðamannshæfileikum sínum og þrætulist til hins ítrasta.
Hefur það vafalaust átt sinn þátt í því að vekja athygli hugsandi
manna á málinu, þeirra sem annars hefðu afskrifað það sem hverja
aðra dellu. Andstæðingar Einars, sem þekktu og viðurkenndu
hæfileika hans, héldu því fram, að skýringin á framferði hans væri
sú, að hann gerði sér í raun grein fyrir, að hann hefði látið
blekkjast, en væri nú fastur orðinn í sínu eigin neti og neyddist til
að verja vonlausan málstað.19
17. Launráð og landsfeður. Bréfaskipti Björns Jónssonar og Valtýs Guðmundssonar. J°n
P. Þór bjó til prentunar. Almenna bókafélagið, Rvík 1974, bls. 345.
18. ísafold 5.5. 1906 og 1.6. 1906; Þjóðviljinn 20.10 1906.
19. Lögrétta 21.12. 1908.