Saga - 1984, Síða 342
340
RITFREGNIR
TOGARASAGA MAGNÚSAR RUNÓLFSSONAR SKIP-
STJÓRA. Guðjón Friðriksson skráði. Örn og Örlygur,
Reykjavík 1983, 186 bls.
Ævisögur togaramanna hafa nokkrar verið færðar í letur hin síðari ár. Meðal
þeirra eru sögur skipstjóranna Þórarins Olgeirssonar, Jóns Otta Jónssonar,
Sigurjóns Einarssonar og Tryggva Ófeigssonar. Nú hefur bætzt við saga reyk-
víska skipstjórans Magnúsar Runólfssonar, sem Guðjón Friðriksson færði í
letur. Ég fæ ekki betur séð en þessi lipra bók sómi sér vel í þessum hópi ævi-
sagna og þar á hún heima, því að hún er auðvitað ekki „saga gömlu síðutogar-
anna“, eins og sagt er í auglýsingaskyni á kápu.
Togarasaga Magnúsar Runólfssonar skiptist í 36 stutta kafla, en til hægðar-
auka vil ég skipta verkinu í fjóra meginþætti: 1. Ætt og uppruni í Vestur-
bænum (1 .-10. kafli). 2. Togaralíf á árunum milli stríða (11.-24. kafli). 3.
Togaralíf á stríðsárunum síðari (25.-32. kafli). 4. Síðustu togaraárin - hafn-
sögumaður (33.-36. kafli).
í fyrsta þætti segir Magnús frá uppruna sínum, en hann var fæddur í Mið-
húsum við Bræðraborgarstíg 4. júlí 1905. Hann var því fæddur í árdaga heima-
stjórnar inn í tómthúsmannsfjölskyldu, sem var að breytast í allvel stæða mið-
stéttarfjölskyldu, enda faðirinn við trúnaðarstörf, verkstjóri hjá Duus og jafn-
framt fiskmatsmaður eða ragari eins og það hét þá. Ágæt er lýsing sögumanns
á fiskhúsum Duus í Grófinni og á ferðum föður hans á haustin inn á Kirkjusand
til þess að raga hjá Thorsteinsson og Zimsen (þ.e. íslandsfélaginu). Lengsti
kaflinn í fyrsta þætti er um húsin við Bræðraborgarstíg og íbúa þeirra. Fjöldi
fólks kemur hér við sögu og er vonandi yfirleitt rétt farið með nöfn og ætt-
færslur. Ég vil í þessu sambandi nefna eitt atriði, þar sem skrásetjari hefði með
lítilli fyrirhöfn getað fært frásögn sögumanns síns til réttara horfs. Sögumaður
segir frá hjónunum Pétri Bjarnasyni skipstjóra og konu hans Herdísi Guð-
mundsdóttur í Péturshúsi og lýkur frásögninni með þessum orðum (bls. 24):
„Þau hjón dóu bæði úr inflúensu um 1920...“ Og síðar: „Ekki held ég að þetta
hafi verið Spánska veikin...“ Samkvæmt Skipstjóra- og stýrimannatali andað-
ist Herdís 19. nóvember 1918, þ.e. á meðan Spánska veikin geisaði, en Pétur
veiktist um borð í skipi sínu og andaðist 15.'febrúar 1921. Annað athugavert
atriði í þessum þætti er það, að sögumaður nefnir stundum aðeins skírnarnafn
eða gælunafn persóna (Bóthildur og Ólöf saumakonur á bls. 40 og Daddi,
vinnumaður í Nesi, á bls. 37). Úr þessu hefði skrásetjari átt að reyna að bæta
með því að leita uppi föðurnöfn og rétt nöfn, þar sem þau vantar. Sérlega
verður ankannalegt að sjá nöfn eins og Daddi, vinnumaður í Nesi, í annars
lofsverðri nafnaskrá.
Annar þáttur verksins fjallar um feril sögumanns á togurum á árunum milli
stríða, en fyrst steig hann um borð í slíkt skip árið 1921. Þá var nýr tími að hefj-
ast í sögu togaraútgerðar með stofnun nýrra félaga og miklum togarakaupum
frá Bretlandi og Þýzkalandi. Lýsir sögumaður stofnun eins hlutafélagsins, sem