Saga - 1984, Side 344
342
RITFREGNIR
hafi sent frá sér upplýsingar um ferðir varðskipa. Þegar sögumaður var skip-
stjóri á togaranum Júní frá Hafnarfirði, 1935-1937, fékk hann ekki inngöngu í
þau tvö kódafélög, sem þá voru meðal skipstjóra á íslenzka togaraflotanum.
Hann var þó ekki alveg án upplýsinga um ferðir varðskipa, því að Bæjarútgerð
Hafnarfjarðar sendi sínum togurum „dulmálsskeyti um ferðir varðskipanna
eins og allir aðrir“, og hlýtur þetta að teljast athyglisverð fullyrðing, svo ekki
sé meira sagt!
Þriðji þáttur togarasögu Magnúsar Runóifssonar fjallar um siglingar hans á
árum heimsstyrjaldarinnar síðari, en þá fór hann 82 ferðir yfir hafið með ísfisk
til Bretlands. Enn nefnir sögumaður viðkvæm mál, því að hann segir frá því,
hversu reynt var að troða sem mestum fiski í skipin. Kolaboxum var breytt í
fiskilestar og allir gerðu sig seka um ofhleðslu. „Togararnir möruðu eiginlega
í kafi á leiðinni út eins og kafbátar", segir Magnús. Hann fullyrðir einnig, að
græðgin í að flytja sem stærsta farma á markaðinn, hafi komið mjög niður á
gæðunum, aflinn hafi orðið að „hálfgerðri drullu um borð“.
í Qórða og síðasta þætti sögu sinnar segir Magnús Runólfsson frá árunum
eftir stríð. Hann var þá fyrst hjá Kveldúlfi og greinir nokkuð frá hnignun þess
félags, en það festi aðeins kaup á einum nýsköpunartogara. Reynt var að halda
úti gömlu togurum félagsins til síldveiða, og var Magnús t.d. sendur með
Skallagrím norður. Sú útgerð gekk illa vegna aflalcysis og svo var aflaskipið
gamla orðið „hálfgert brotajárn". Síðustu togaraár sín var Magnús Runólfsson
hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og stýrði m.a. einum fyrsta dísiltogara íslend-
inga, Hallveigu Fróðadóttur. Árið 1954 lauk togarasögu Magnúsar, og hann
gerðist hafnsögumaður í Reykjavík.
Hér að framan hefég nefnt nokkur atriði, sem mér þykja merkileg og teljast
til nýmæla í frásögnum af togaramönnum á fyrri tíð, en bók sem þessa ber að
meta eftir því, hvort sögumaður hefur eitthvað nýtt til mála að leggja og það
hefur Magnús Runólfsson vissulega. Því er þetta gagnleg bók, og hitt skiptir
minna máli, þó að eitthvað þurfi athugunar við. Hér koma að lokum fáeinar
athugasemdir: Togarinn Njörður strandaði ekki (bls. 9). Honum var sökkt.
- Stýrimaður á togaranum Ethel (bls. 51) var Hannes Friðsteinsson en ekki
Freysteinsson. - Ekki var til togari, sem nefndist Ófeigur (bls. 55). Það á lík-
lega að vera Otur. - Sigfús Kolbeinsson skipstjóri fórst með togaranum Jóm
Ólafssyni, en ekki með Hannesi Hafstein (bls. 102). Nafnið Hannes Hafstein
var raunar ekki til sem togaraheiti, en skip eitt nefndist Hannes ráðherra og
mun átt við það. - Togari Þórarins Olgeirssonar hét King Sol en ekki King
Sole (bls. 115). - Fulltrúi Eimskips í Hull hét Guðmundur Jörgensson en var
ekki Jörundsson (bls. 119, 147 og 156). - Bær við Pentilinn nefnist Thurso en
ekki Thorsö (bls. 128). - Ekki er rétt, að siglingar á Þýzkalandsmarkað hafi
byrjað strax eftir síðari heimsstyrjöld. Þær munu hafa byrjað vorið 1948.
Heimir Þorleifsson