Saga - 1986, Blaðsíða 318
316
RITFREGNIR
annars beðið hann „í nafni Guðs að senda okkur lækni, þó ekki væri nema yfir
vetrarmánuðina...sjá bls. 313.
Hér hefur einkum verið vikið að efni bókanna, Með hug og orði, og í leiðinni
drepið á helstu einkenni Vilmundar Jónssonar sem rithöfundar. Allt sem hann
hefur skrifað er mótað af skýrleika í hugsun og hæfileika til að koma þeim
skýrleika til skila í rituðu máli, og er þó aldrei slakað á listrænum tökum á stíl.
Það er því ekki einungis efnisins vegna, að hrein unun er að lesa þessar bækur.
Pær hljóta að verða eftirsótt lesning öllum þeim sem eitthvað kæra sig um það
sem best hefur verið skrifað á íslensku, en að auki geyma þær ómældan
fróðleik um nannlíf og menningu íslendinga á tuttugustu öld. Til dæmis að
nefna verður sá sem vill gera sér glögga og sannferðuga hugmynd um Jónas
Jónsson frá Hriflu að sækja einn dráttinn í þá myndi í eina kostulegustu
greinina í bókum Vilmundar: „Utan einu sinni" (I 122—30).
í þættinum „Eftir messur" segir Vilmundur frá ferð um Strandir, meðal
annars frá því að hann gisti ásamt félögum sínum í tjaldi í Bolungarvík á
Ströndum. Hálfáttræður öldungur reyndi árangurslaust að dekstra þá félaga
til að þiggja góðgerðir, þar til að lokum að hann segir: „Ekki vænti ég þó, að
bjóða mætti mönnunum eitthvað upp úr súru?“ Og Vilmundur heldur áfram:
„Hér hitti hann sannarlega á veikan blett í sálarlífi mínu, þar sem fýsnum er
markaður bás, og ég segi með hug og orði: „’Jú, við þökkum gott boð, ég
held við stöndum okkur ekki við annað en þiggja eitthvað lítils háttar upp úr
súru.‘“ (I 96.)
Héðan er heiti bókanna tekið: Með hug og orði, og á að vísu afarvel við efm
þeirra, en þessi orð eru óþjál sem bókarheiti, enda þótt þau fari vel á sínum
stað í textanum. Um frágang bókanna er ekkert nema gott að segja. Þær eru
fallegar, prentun og pappír með ágætum, og prentvillur hef ég engar fundið
og gerði raunar enga leit að þeim. Útgefandi getur þess í formála, að
stafsetning á ritsmíðunum hafi verið samræmd, en orðmyndir látnar halda
sér. Af samanburði við mynd af forsíðu Skutuls á bls. 37 í síðara bindi sést, að
meinlítil dönskusletta hefur verið numin burt í útgáfunni: „fyrir hundrað
árum síðan“ prentað „fyrir hundrað árum“, og var sjálfsagður trúnaður við
höfundinn, en einnig hefði útgefandi mátt lagfæra í þau örfáu skipti sem
Vilmundi hefur orðið á að byrja málsgrein á tíðartengingunni Er, sem er
gervimál, einkar vinsælt af blaðamönnum og fréttamönnum. Skýringar og
athugasemdir útgefanda með greinum og bréfum eru hafðar eins stuttar og
kostur var á, en mér virðist þó að þar sé öllu til skila haldið, sem lesendur
vildu fá að vita, og sama vandaða handbragðið er á þessum skýringum og
öðrum frágangi bókanna.
Ólafur Halldórsson