SunnudagsMogginn - 01.08.2010, Blaðsíða 51
1. ágúst 2010 51
Helga segir að í Færeyjum hafi eitt helsta verkefnið
verið að fylla Norðurlandahúsið af fólki, það er stórt hús
miðað við fjölda íbúanna. Hún segir Færeyinga vera opna
fyrir listum, þeir hafi til að mynda sótt vel Listahátíðina,
sem kölluð var Listastevna Føroya.
„Það sem háir færeysku listalífi er skortur á fé. Það
tekur tíma fyrir yfirvöld að móta menningarstefnu og
fjárlagastefnu sem tekur mið af stökkinu frá áhuga-
mennsku yfir í atvinnumennsku í listum. Ég álít að það sé
að hluta til skýring á styrk færeysku málaranna að þeir
eru einyrkjar. En það er stórkostlegt að koma inn á
venjuleg heimili í Færeyjum og sjá að þar eru verk eftir
meistara á borð við Mikines og Ingálv av Reyni á veggj-
unum og einnig marga núlifandi málara. Fólk fer ennþá á
myndlistarsýningar og kaupir verk. En tónlist, leiklist og
kvikmyndir eiga erfiðara uppdráttar, ekki vegna þess að
fólk hafi ekki áhuga, heldur vegna þess að þetta eru fjár-
frekar listir.“
Það hefur hjálpað mér að vera leikari
Helga stýrði áður leikaranámi hér á landi. Það hefur tekið
miklum breytingum, er nú á háskólastigi innan Listahá-
skólans og Helga er ánægð með þá þróun.
„Þegar ég hafði verið skólastjóri Leiklistarskólans í ein
sex ár, þá komst ég að því að Myndlista- og handíðaskól-
inn og Tónlistarskólinn í Reykjavík voru farnir að ræða
við menntamálaráðuneytið um stofnun listaháskóla. Ég
varð óð og uppvæg og mér tókst að komast inn í þá um-
ræðu fyrir hönd leiklistarinnar, sem var mjög mikilvægt.
Leiklistin hafði lengi verið á háskólastigi í Svíþjóð og
Finnlandi og námskrár þeirra skóla voru undirstaða okk-
ar náms. En þetta olli miklum ótta hjá leikarastéttinni
heima. Ég sat heilan fund með Leikarafélaginu því menn
óttuðust svo þessa breytingu; óttuðust að skapandi starf
og skapandi hugsun væru í hættu, nú yrði allt svo fræði-
legt og aðeins þeir sem lykju langri skólagöngu gætu orð-
ið leikarar. Auðvitað var þessi ótti við breytingar ekki
óeðlilegur en það er spaugilegt þegar horft er til baka, því
nú hvarflar ekki að neinum að þetta eigi að vera öðruvísi.
En ég fylgist vel með í leikhúsinu heima og finnst gam-
an að sjá þegar vel tekst til. Þetta er erfið listgrein og það
er erfitt að reka leikhús. Svo er alltaf þessi barátta milli
þess sem er nýskapandi og þess hefðbundna. Fyrir mér
getur hvorugt án hins verið. Alþýðleg hefð leikhússins er
stórkostleg: götuleikhúsin, trúðsleikurinn, leikhús sem
vill hafa áhrif. Það hefur hjálpað mér mikið í mínum
störfum, bæði hér og í Færeyjum, að vera leikari því að
samspilið milli leikarans og áhorfenda er svo mikilvægt
og lífgefandi og þetta sama á við um listahús. Það eru
stórkostleg forréttindi að fá að vinna að því að gera sem
flestum mögulegt að njóta listar.“
Ætlar ekki að hrökkva upp af á Bryggjunni
Þrátt fyrir að Helga setjist formlega í helgan stein, þá
hættir hún varla að fylgjast með menningarlífinu.
„Auðvitað held ég áfram að fylgjast með, þetta er svo
ríkur þáttur í lífinu,“ segir hún.
„Ég var 15 ára þegar ég byrjaði að vísa til sætis í Þjóð-
leikhúsinu!
En ég vil samt njóta þess að hafa ekki fasta dagskrá. Ég
fer ekki aftur í fast starf – það getur verið að ég detti í að
fást við eitthvað sem mér finnst sniðugt, en kannski
ekki …
Ég er ekki að hætta núna vegna þess að þetta er strögl
eða slítandi vinna, heldur vegna þess að nú er þessu
tímabili í lífi mínu lokið. Ég ætla ekki að hrökkva upp af
hérna á Bryggjunni,“ segir hún og brosir. „Mér hefur á
vissan hátt þótt það vera forréttindi að vera skamm-
tímaráðin hjá þessum menningarstofnunum, að vita að
ég myndi eftir nokkur ár þurfa að finna mér nýtt starf.
Það hvetur mann til dáða og fleira kemst í verk.
Aldur og reynsla koma að gagni og vinna ekki gegn
konum í atvinnulífinu eins og sumir halda. Þegar ég hætti
hjá Norrænu leiklistarnefndinni á sínum tíma, 55 ára
gömul, þá sögðu danskar vinkonur mínar; nú ert þú bú-
in! En ég var ekki tilbúin til að hætta að vinna. Þessi störf
sem ég hef tekist á við hafa öll verið auglýst og ég hef far-
ið í ráðningarsamtöl og þegar ég var ráðin hérna fannst
mér ég beinleiðis njóta aldursins og reynslunnar. Þegar
maður á að baki langt líf og hefur safnað mikilli reynslu,
þá er gott að vinna með miklu yngra fólki, fá samræður
milli kynslóða. Fá speglun á það sem maður segir og rífast
svolítið, samtímis því að þú veist að þú berð hina end-
anlegu ábyrgð. Þeim mun meiri reynslu sem ég hef öðlast
með aldrinum, því minni orku nota ég við að afkasta því
sama. Mér hefur fundist gaman að sannreyna þetta, því
að því er oft haldið fram að það sé erfiðara fyrir konur en
karla að standa við stjórnvölinn svona lengi,“ segir
Helga.
Morgunblaðið/Einar Falur
’
Aldur og reynsla koma að
gagni og vinna ekki gegn kon-
um í atvinnulífinu eins og sum-
ir halda. Þegar ég hætti hjá Norrænu
leiklistarnefndinni á sínum tíma, 55
ára gömul, þá sögðu danskar vinkon-
ur mínar; nú ert þú búin! En ég var
ekki tilbúin til að hætta að vinna.
„Það hefur verið mikil vinna við
að koma okkur á kortið en það
verður að segjast eins og er, að
það hefur tekist ansi vel.,“ segir
Helga Hjörvar um starfsemi
menningarhússins Norður-
bryggju í Kaupmannahöfn.