SunnudagsMogginn - 01.08.2010, Blaðsíða 36
36 1. ágúst 2010
vopna hafa þær mikil áhrif,“ segir Janni
með áherslu og bætir við íhugul: „Það má
læra mjög mikið um sterkar konur af
lestri Íslendingasagnanna.“
Galdrasýningin í uppáhaldi
Við skrifin sótti Janni einnig í hinar Ís-
lendingasögurnar sem hún las, norræna
goðafræði auk þess sem hún segir blaða-
manni að hún eigi safn af íslenskum þjóð-
sögum sem Jón Árnason safnaði.
„Ég vann að langmestu leyti með Njáls-
sögu, en önnur áhrif leynast víða í bók-
inni, ekki síst í fjalli Munins. Líklega not-
aði ég þar Laxdælu mest og Egilssögu, auk
þess sem þar má finna setningar úr Gísla
sögu og Grettissögu, en sumar þeirra eru
mun lauslegar þýddar eða aðlagaðar frá
upphafsverkinu en aðrar. Ég las líka nor-
ræna goðafræði þaðan sem Muninn og
Freki koma, og hinn eineygði eigandi
þeirra sem Ari er svo snjall að nefna ekki á
nafn.
Skáldamjöðurinn fær sitt hlutverk í
bókinni sem og eldjötnar, en þeim breytti
ég mun meira en persónum Íslend-
ingasagnanna. Kannski af því að þeir
virkuðu á mig frekar sem eins konar
frumkraftur en persónur. Ég las þónokk-
uð af þjóðsögum, en endaði á að vitna
fyrst í lokaorð Snorra Sturlusonar: „Eigi
skal höggva.“ Nokkrar tilvitnanir eru úr
galdraþulum frá 17. öld, og einnig vitna ég
lauslega í andmæli þeirra sem voru lög-
sóttir fyrir fjölkynngi, og ýmislegt sem
sagt var um galdra á þessum tíma.“
– Þú fórst einmitt á Galdrasýninguna á
Ströndum. Var það lærdómsríkt?
„Já, Galdrasýningin og Kotbýli kukl-
arans eru mínir uppáhaldsstaðir í ferð-
inni!“ hrópar Janni og fær blik í augun.
„Mjög skemmtilegt atvik átti sér stað þar.
Við Larry eyddum nokkrum klukkutím-
um á safninu og fórum síðan að Hótel
Laugarhóli þar sem við gistum. Þegar við
komum þangað sagði eigandinn að hann
væri með símaskilaboð fyrir okkur. Við
urðum mjög hissa þar sem við þekktum
ekki neinn á Ströndum. Það var þá Sig-
urður Atlason, forstöðumaður safnsins,
sem hafði fylgst með blogginu mínu und-
anfarna mánuði eftir að ég loggaði mig
inn á heimasíðu safnsins. Hann sá að ég
var stödd á Íslandi og bauðst til að veita
okkur leiðsögn um kotbýli kuklarans sem
við auðvitað þáðum! Hann mætti svo í
fullum kuklaraskrúða og bæði leiðsögnin
og spjallið við hann voru algjörlega ómet-
anleg!“
Daginn eftir fóru Larry og Janni aftur á
Galdrasýninguna og hittu þar fyrir Björk
Bjarnadóttur þjóðfræðing.
„Björk sagði nokkuð sem hafði áhrif á
„Thief Eyes“. Ég spurði hana út í mis-
muninn á huldufólki og álfum og hún
benti mér á að norræna goðafræðin virð-
ist hafa breyst við komuna til Íslands. Í
stað álfa töluðu Íslendingar um huldufólk
og í stað risa er talað um tröll. Ég fór þá að
pæla í hvernig lönd móta sögurnar sem
við segjum, og gerði mér grein fyrir að
Freki, sem hafði verið úlfur í fyrstu útgáf-
unni af „Thief Eyes“, sem ég skrifaði áður
en ég kom til Íslands, yrði að vera refur,
þar sem það höfðu aldrei verið úlfar á Ís-
landi. Kveldúlfur, forfaðir Ara, var í Nor-
egi þegar hann breyttist í úlf. Hvað ætli
hann hefði breyst í hefði hann verið á Ís-
landi?“ spyr Janni dularfull og vill greini-
lega ekki ljóstra upp of miklu um sögu-
þráð bókarinnar.
Að búa til trúanlegan galdur
Hallgerður beitir göldrum til að fá sínu
framgengt í bókinni, og blaðamanni lék
því forvitni á að vita hversu nákvæmlega
Janni hefði farið eftir þeim íslensku
göldrum sem hún las sér til um.
„Þegar ég skrifaði upphafskafla bók-
arinnar í fyrstu heimsókn minni vissi ég
strax að galdurinn myndi felast í því að
skipta um stað við einhvern á öðrum
tíma. Hins vegar lærði ég ekkert um ís-
lenska galdra fyrr en í seinni ferð minni
fimm árum seinna. Flestir galdrar virðast
líka frá seinni tímum en Njála á að gerast
á, auk þess sem mér skildist að flestar ef
ekki allar galdraþulur sem varðveist hafa
hefðu verið góðkynjaðri en álögin sem
Hallgerður leggur á Haley og móður
hennar. Ég gat ekki séð að til hefði verið
nein galdraþula til að skipta um stað í
tíma við afkomanda sinn. Og ef hún hefði
verið til þá hefði mér fundist mjög óþægi-
legt að nota hana, í ljósi þess hversu
kraftmikil og hættuleg hún reyndist svo
vera!“ segir Janni og hlær.
„Til að búa til trúanlegan galdur hafði
ég augun opin fyrir þeim hlutum sem
notaðir voru við galdraiðkanir. Surtar-
brandur var nefndur nokkrum sinnum og
hann notaði ég, einnig silfurmynt –
reyndar stolna frá fátækri ekkju – og alla
vega einu sinni var minnst á hrafnskló.
Hins vegar man ég ekki eftir að refablóð
hafi veri notað, en á Galdrasýningunni
má finna galdra þar sem hrafnsblóð er
notað og einnig nokkrir mannlegir blóð-
dropar. Þar sá ég einnig stein sem notaður
var við þessar athafnir og á honum er víst
blóð allt frá tímum Íslendingasagnanna.
Eftir að Freki hafði breyst í ref hjá mér
fannst mér borðliggjandi að bæði refur og
hrafn yrðu hluti af galdrinum.“
– Hvaðan er galdrastafurinn á silfur-
myntinni sem Hallgerður sendir Haley í
gegnum tímann?
„Ég bjó hann bara til í anda þeirra
galdrastafa sem ég sá. Ég vildi alls ekki
nota galdrastaf sem væri þegar til, mér
fannst það óvirðing við þá sem upp-
haflega bjuggu þá til og þá sem létu þá
ganga áfram, einnig þá galdra sem þeir
tengjast. Sama með galdurinn sjálfan sem
jafnvel hefur gengið í erfðir öldum saman.
Sem utanaðkomandi aðili er það hrein-
lega ekki viðeigandi að ég noti raunveru-
legan galdur í bókinni minni.“
– Hvað fékk þig til að tengja saman
galdraiðkun og jarðfræðilega virkni
landsins?
„Mér fannst það bara eðlilegt, held ég.
Hluti af því sem gerir Þingvelli að svo
kraftmiklum stað í mínum augum er
jarðfræðin, allt þetta skak og kraum sem á
sér stað undir yfirborðinu. Þegar ég síðan
ákvað að galdurinn hennar Hallgerðar
yrði eldgaldur, sem einnig var eðlilegt
miðað við jarðfræðina, fannst mér lógískt
að láta eldjötna koma við sögu.“
– Heldurðu að galdrar hafi verið við-
riðnir gosið í Eyjafjallajökli? Er Hallgerður
mætt til leiks á nýjan leik?
„Haha! Mér hefur reyndar dottið í hug
hvort Haley, sem nú er aftur komin heim
til Arizona, sjái fréttirnar af eldgosinu og
velti fyrir sér hvort henni hafi mistekist
ætlunarverk sitt og hvort enn lifi í öllum
eldinum á Íslandi sem hún þurfti að tak-
ast á við! Ekki síst þar sem Eyjafjallajökull
er í sama dal og Hlíðarendi.“
Dreymir Ísland
– Mér skilst að þú sért að vinna að fram-
haldi fyrstu bókar þinnar, „Bones of
Fearie“. Megum við eiga von á annarri
bók um Haley, Ara og Hallgerði?
„Eins og er er ég ekki með framhald af
„Thief Eyes“ á prjónunum, því mér finnst
sú saga fullsögð. En svo veit maður aldrei.
Hins vegar held ég að ég muni áreiðanlega
vinna meira með Íslendingasögurnar.
Eins og er eru bara hugmyndir fljótandi
um í hausnum á mér sem bíða eftir því að
ég verði tilbúin til að vinna úr þeim.“
– En megum við eiga von á þér til Ís-
lands?
„Ekki spurning, það eru enn svo marg-
ir áhugaverðir staðir sem ég á eftir að
heimsækja. Mig langar líka að fara aftur á
marga af þeim stöðum sem ég hef þegar
komið á. Auk þess sakna ég Íslands. Bæði
mig og manninn minn dreymir oft stað-
ina sem við ferðuðumst til á Íslandi. Von-
andi kemst ég innan nokkurra ára, og þá
að haustlagi. Í tvö seinustu skipti kom ég
að sumri til, og mig langar að sjá Ísland á
annarri árstíð. Það verður líka gaman að
fá aftur skyr og pylsu með steiktum
lauk,“ segir Janni Lee Simner, skellir upp
úr og er svo rokin af stað að árita bækur
fyrir æsta aðdáendur.
’
Kvenpersónur eiga
ekki bara að vera til
staðar og hafa skoð-
anir, heldur hafa áhrif á
gang mála. Það sem er
áberandi við konur í Ís-
lendingasögunum er að þótt
þær grípi aldrei til vopna
hafa þær mikil áhrif.
Minningafjalli Munins, þar
sem raddir fortíðar íslensku
þjóðarinnar óma í berginu, á
sér fyrirmynd í Kaldbakshorni
á Vestfjörðum.