Morgunblaðið - 16.02.2010, Blaðsíða 27
Umræðan 27KOSNINGAR 2010
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. FEBRÚAR 2010
REGLULEGA fær maður fréttir af því í
fjölmiðlum að spennandi atvinnuverkefni séu
að fara af stað víðs vegar um landið. Hver
frétt blæs manni örlítinn byr í brjóst um að
nú muni rofa til og atvinnuástandið skána um
leið og hagvöxtur eykst og Ísland getur hafið
endurreisn sína. En um leið og hver frétt hef-
ur borist landsmönnum kemur önnur frétt
um að búið sé að ráðstafa orku, deiliskipulag
sé ósamþykkt, greitt af röngum aðilum eða
annað í þeim dúr sem kippir manni fljótt nið-
ur á jörðina aftur. Við íbúar Suðurnesja og
ekki síst Reykjanesbæjar höfum ekki farið
varhluta af þessu enda hafa áform og hugmyndir um ál-
ver, gagnaver, útleigu á skurðstofum HSS og fjölmörg
önnur verkefni lent í því að komast á góðan rekspöl, fjár-
mögnun verið kláruð en alltaf virðist einhver hindrun
koma til sem hægir á eða stoppar verkefnin.
Er ekki komið nóg af þessum hringlandahætti? Er
ekki kominn tími til að ríkisstjórn Íslands fari að tala
einni röddu og marka sér skýra stefnu í atvinnu- og
virkjanamálum? Erlend stórfyrirtæki sem
hafa áhuga á að koma til landsins og setja upp
starfsemi hafa mætt góðum samstarfsvilja frá
sveitarstjórnum og íbúum en furða sig um leið
á ákvarðanafælni stjórnvalda. Iðnaðarráð-
herra talar í aðra áttina, umhverfisráðherra í
hina og enginn virðist vita í hvorn fótinn á að
stíga. Þetta má svona heimfæra á ríkisstjórn-
arflokkana sjálfa og jafnvel innan hvors flokks
þar sem engin leið virðist vera að ná ein-
hverjum samhljómi um að fylkja sér á bakvið
ákveðin verkefni.
Ég kalla eftir skýrri stefnu stjórnvalda í at-
vinnumálum! Ég vil sjá hvaða verkefni það
eru sem ríkisstjórnin ætlar sér að styðja og
gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma á kopp-
inn. Ég vil einnig sjá hvaða verkefni ríkisstjórnin ætlar
ekki að styðja. Það er þá í það minnsta hægt að taka um-
ræðu um þau verkefni á þeim grundvelli. Við höfum ekki
efni á því að svona haldi áfram!
Kallað eftir stefnu stjórnvalda
í atvinnumálum
Eftir Jóhann Snorra Sigurbergsson
Jóhann Snorri
Sigurbergsson
Höfundur er viðskiptafræðingur og býður sig fram í 4.-6.
sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
Á TÍUNDA áratug
síðustu aldar brunnu tvö
umhverfismál aðallega á
Kópavogsbúum, annars
vegar endurbygging
gömlu gatnanna, sem
hefur kostað bæjarsjóð
á fjórða milljarð króna,
og hins vegar fráveitu-
mál bæjarins, en skólpið
rann óhreinsað beint út
í miðjan Kópavoginn með tilheyr-
andi mengun. Bæði þessi mál hafa
nú verið leyst og nú eru fallegar
götur og hreinar fjörur í Kópavogi.
Bæði þessi mál voru leyst af nú-
verandi meirihluta eftir uppgjöf
vinstrimanna. Frárennslismálin
voru leyst að mestu 1993-1997 og
gatnagerðin að mestu fyrir alda-
mótin.
Göngustígakerfið í Kópavogi er
bæði langt og mikið að vöxtum og
er framkvæmdum við
það nánast lokið, bæði í
eldri og nýrri hverfum.
Við höfum kappkostað
að göngustígarnir séu
tilbúnir um leið og fólk
flytur í nýju hverfin.
Góðar tengingar eru
einnig við göngustíga-
kerfi annarra bæj-
arfélaga. Á hverju ári
er svo unnið að bótum
og lagfæringum á eldri
göngustígum. Gerð
göngustíga inn í Heiðmörk er í
gangi og er framtíðarverkefni á
þessu sviði.
Vatnspóstar og fræðsluskilti
hafa verið sett upp víða við
göngustígana. Í Kópavogi eru op-
in útivistarsvæði hvað mest að
flatarmáli miðað við byggt land ef
borið er saman við önnur sveit-
arfélög. Næsta verkefni á þessum
svæðum er að búa víðar til að-
stöðu fyrir fólk sem vill grilla með
fjölskyldunni svipað og er þegar
fyrir hendi í Guðmundarlundi, en
mikil ánægja er meðal fólks með
þá aðstöðu sem þar er.
Flokkun sorps tel ég eitt af for-
gangsmálum okkar. Með góðri
flokkun á sorpi eru einungis urðuð
um 30% af sorpinu en hinn hlut-
inn, það er að segja blöð og papp-
ír, er seldur til útlanda og skapar
atvinnu og gjaldeyri, og lífræni úr-
gangurinn sem er notaður við gerð
moltu, sem er notuð til upp-
græðslu. Tilraunaverkefni af þess-
um toga stendur nú yfir í Nón-
hæðinni, þar sem eru um 1.500
íbúar, og lofar árangurinn góðu.
Með flokkuninni minnkar kostn-
aðurinn við urðun og þar af leið-
andi lækkar kostnaður bæjar-
félagsins verulega vegna minna
urðunarmagns sem borga þarf til
Sorpu.
Umhverfismál í Kópavogi
Eftir Gunnar I.
Birgisson
Gunnar I. Birgisson
Höfundur er bæjarfulltrúi og
fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi.
ER ÞETTA nú ekki
bara eitthvert umhverf-
iskjaftæði sagði kunn-
ingi minn, eitthvað sem
á ekkert erindi við okk-
ur? Það á einmitt erindi
til okkar, sagði ég,
fremur til okkar en
þeirra sem búa í heitara
loftslagi því við verjum
nálægt 90% ævinnar
innandyra. Birta, gæði
innilofts og hljóðvist hafa áhrif á
heilsu og vellíðan og þar með lífs-
gæði og vinnuafköst. Þegar hús eru
byggð er fyrst og fremst horft til
stofnkostnaðar en síður haft í huga
að rekstrarkostnaður húsa er allt
að fimmfaldur byggingarkostnaður
þeirra, hvað þá að hugað sé að því
að með réttri hönnun er hægt að
hafa áhrif á fjölda veikindadaga
fólks. Vistvæn bygging
er grundvölluð á
hugmyndafræði sjálf-
bærrar þróunar þar sem
leitast er við að mæta
þörfum samtíðarinnar án
þess að skerða mögu-
leika komandi kynslóða.
Byggingariðnaðurinn
er talinn ábyrgur fyrir
um 40% af orku- og hrá-
efnanotkun, notar ýmis
hættuleg efni og bygg-
ingarúrgangur er að
jafnaði stærsti úrgangsflokkurinn.
Mikilvægt er að huga að því hvern-
ig hægt er að draga úr úrgangs-
myndun á framkvæmdatíma með
því að velja byggingarefni sem auð-
veldlega má endurnýta og endur-
vinna. Verktaki temji sér verklag
sem lágmarkar neikvæð umhverfis-
áhrif. Við hönnun vistvænna bygg-
inga er á kerfisbundinn hátt leitast
við að hámarka notagildi og lág-
marka neikvæð umhverfisáhrif og
horft til allra þátta, alls líftíma
bygginga. Áhersla er á orkumál,
efnisval, staðarval og heilsuvernd
og þegar upp er staðið næst oft
fram verulegur sparnaður. Við
hönnun byggingar er metið hvernig
hægt er að reka hana á vistvænan
hátt, lágmarka kostnað og auðvelda
notendum byggingarinnar að halda
grænt bókhald, mæla orkunotkun
mismunandi kerfa byggingarinnar
og mikilvægt er að þörf á viðhaldi
og þrifum sé sem minnst. Ég vil
sjá Kópavogsbæ ganga á undan
með góðu fordæmi og hafa opinber-
ar byggingar, leikskóla, skóla, elli-
og hjúkrunarheimili vistvænar
byggingar. Nánar á www.arni-
braga.is
Vistvænar byggingar
– umhverfiskjaftæði?
Árni Bragason
Árni Bragason
Höfundur sækist eftir 2. sæti í próf-
kjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.
Á TÍMUM sem þess-
um, þegar vinstrimenn
kasta á glæ öllum raun-
hæfum hugmyndum um
niðurskurð og telja töfra-
lausnir fylgja í aukinni
skattpíningu almennings,
er nauðsynlegt að skyn-
semismenn sem sitja við
sveitarstjórnarvöld – sem
virðast í flestum tilfellum
vera sjálfstæðismenn –
leggi sitt af mörkum til að minnka
álögur á íbúa. Í Reykjavík hefur ver-
ið gripið til niðurskurðar, og öllum
hugmyndum vinstrimanna um að
hækka útsvarið í hámark hefur verið
fleygt af borðinu. Það er meirihlut-
anum í Reykjavík til sóma, og verður
vonandi til þess að Reykjavíkurbúar
átta sig á að með vinstrimenn við
völd verða álögur í hámarki. Í Kópa-
vogi ætti næsta skref bæjarstjórnar
að vera að leita leiða til að lækka út-
svar. Bæjarbúar greiða núna há-
marksútsvar, 13,28%. Setjast þarf
niður og fara yfir rekstur bæjarins,
og skera niður óþarfa fitu. Vissulega
geri ég mér grein fyrir erfiðri stöðu,
flestöll sveitarfélög berjast í bökk-
um þessa daga. En ég neita að trúa
því að ekki sé hægt að fara yfir
rekstur sveitarfélagsins og finna þá
liði sem var með ein-
hverju móti hægt að rétt-
læta í góðærinu en geta
vikið í hagræðing-
arskyni. Auk þess er ég
þess fullviss að bæj-
arbúar myndu taka slíkri
aðgerð, sem yrði bein bú-
bót til þeirra, fagnandi.
Nýverið samþykkti Týr,
FUS í Kópavogi, ályktun
þar sem harmað var hve
skammt var gengið í að-
haldi á rekstri bæjarins í
nýsamþykktri fjárhags-
áætlun, og var bæjarstjórn Kópa-
vogs hvött til þess að endurskoða
áætlunina í lok mars, líkt og gert er
ráð fyrir í áætluninni.
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í
Kópavogi er 20. febrúar nk., og er
nauðsynlegt að flokkurinn stilli upp
fjölbreyttum lista sem nær til allra
bæjarbúa. Ég hef ákveðið að gefa
kost á mér í 5. sætið í prófkjörinu,
því ég tel nauðsynlegt að ná betur til
ungra íbúa Kópavogs. En til þess að
ná til kjósenda og íbúa sveitarfé-
lagsins verður að grípa til aðgerða í
þeirra þágu. Lækkun útsvars er
raunhæf aðgerð sem grípa þarf til
sem fyrst.
Grípa þarf til raun-
hæfra aðgerða!
Eftir Benedikt
Hallgrímsson
Benedikt
Hallgrímsson
Benedikt er formaður Týs og býður
sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæð-
isflokksins í Kópavogi.
Sigurður Haraldsson | Ómakleg að-
för að Gunnari í Kópavogi.
Meira: mbl.is/kosningar
Með og á móti
ÁSTÆÐA þess að ég
ákvað að gefa kost á mér
áfram til setu í bæj-
arstjórn Kópavogs er að
ég hef mikla trú á þessu
frábæra bæjarfélagi. Á
undanförnum árum hefur
margt gott verið gert í
Kópavogi en það þýðir
ekki að slaka megi á.
Þvert á móti eru verk-
efnin framundan ærin
vegna þeirra þrenginga sem íslenskt
samfélag gengur nú í gegnum.
Sveitarfélögin hafa ekki farið var-
hluta af vandanum og ljóst að víðast
hvar þarf að fara í enn frekari að-
haldsaðgerðir. Kópavogsbær er þar
engin undanteking. Þegar svo ber
undir skiptir verulegu máli hvernig
staðið er að verki, hvernig forgangs-
raðað verður upp á nýtt. Skerðing á
velferðar- og grunnþjónustu bæj-
arins á ekki að vera til umræðu.
Traust fjármálastjórn og ýtrasta að-
hald gegnir hér lykilhlutverki og
gangi það eftir mun okkur takast að
verja þessi mikilvægu svið.
Samhliða verður að leita leiða til
að styrkja tekjustofna bæjarins.
Hlúa verður að rekstrarumhverfi
fyrirtækja í Kópavogi og styðja við
bakið á þeirri nýsköpun sem frjór
jarðvegur er nú fyrir, m.a. vegna
gengisþróunar krónunnar.
Ein leiðin til þess væri að gera
rekstrarumhverfi þeirra meira að-
laðandi með því að veita þeim að-
stöðu á kjörum sem henta stærð
þeirra og getu.
Með því móti spyrnum við jafn-
framt markvisst gegn atvinnu-
leysinu, sem hefur breiðst hratt út í
kjölfar hrunsins. Mikið er
í húfi að okkur takist að
snúa þeirri neikvæðu þró-
un við sem allra fyrst.
Það hefur sýnt sig að
langvarandi atvinnuleysi
brýtur einstaklinginn nið-
ur og minnkar getu hans
til frumkvæðis. Slíkt má
ekki gerast hér og því
þarf að vinna hörðum
höndum að því að fjölga
atvinnutækifærum á
sama tíma og við að-
stoðum atvinnuleitendur
við að vera virkir þátttakendur í
samfélaginu.
Traustið í íslensku samfélagi hef-
ur beðið alvarlegan hnekki. Sú krafa
er því í vaxandi mæli gerð til kjör-
inna fulltrúa að þeir beiti sér fyrir
aðgerðum sem stuðlað geti að opnari
stjórnstýslu og auknu jafnræði, svo
traust geti myndast á ný.
Þá er einnig mikilvægt að réttur
bæjarbúa til að hafa áhrif á ákvarð-
anir sem snerta nærumhverfi þeirra
verði aukinn.
Traustið er lykilatriði þess að
staðinn verði vörður um þau lífsgæði
sem við njótum. Með því að hlúa að
grunneiningum samfélagsins og
opna það betur með lýðræðislegum
stjórnarháttum munum við ná því
markmiði.
Traust og ábyrgð
Eftir Margréti
Björnsdóttur
Margrét
Björnsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrúi og býður
sig fram í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæð-
ismanna í Kópavogi, 20. febrúar.
MORGUNBLAÐIÐ birtir alla
útgáfudaga aðsendar umræðu-
greinar frá lesendum. Blaðið
áskilur sér rétt til að hafna grein-
um, stytta texta í samráði við
höfunda og ákveða hvort grein
birtist í umræðunni, í bréfum til
blaðsins eða á vefnum mbl.is.
Blaðið birtir ekki greinar, sem
eru skrifaðar fyrst og fremst til
að kynna starfsemi einstakra
stofnana, fyrirtækja eða samtaka
eða til að kynna viðburði, svo sem
fundi og ráðstefnur.
Innsendikerfið
Þeir sem þurfa að senda Morg-
unblaðinu greinar eru vinsamlega
beðnir að nota innsendikerfi
blaðsins. Formið er undir liðnum
„Senda inn efni“ ofarlega á for-
síðu mbl.is. Einnig er hægt að slá
inn slóðina www.mbl.is/senda-
grein
Ekki er lengur tekið við grein-
um sem sendar eru í tölvupósti.
Í fyrsta skipti sem formið er
notað þarf notandinn að nýskrá
sig inn í kerfið, en næst þegar
kerfið er notað er nóg að slá inn
netfang og lykilorð og er þá not-
andasvæðið virkt.
Ekki er hægt að senda inn
lengri grein en sem nemur þeirri
hámarkslengd sem gefin er upp
fyrir hvern efnisþátt en boðið er
upp á birtingu lengri greina á
vefnum.
Nánari upplýsingar gefur
starfsfólk greinadeildar.
Móttaka aðsendra greina