SunnudagsMogginn - 16.10.2011, Blaðsíða 6

SunnudagsMogginn - 16.10.2011, Blaðsíða 6
6 16. október 2011 Vinnudeilan í bandaríska körfuboltanum hefur vakið miklar umræður um það hvort leikmenn deildarinnar fari einfaldlega á flakk og bjóði þjónustu sína liðum utan Bandaríkjanna. Verkbann hefur nú staðið í fjóra mánuði og liðin hafa ekki getað æft formlega þótt auðvitað geti leikmenn gert sitt hvað til að halda sér í formi. Af þessum leikmannaflótta virðist hins vegar ekki hafa orðið, í það minnsta ekki í þeim mæli sem um- ræðan gefur til kynna. Samkvæmt dagblaðinu The New York Times hafa um 65 NBA-leikmenn farið á mála hjá liðum erlendis, en þeir eru langflestir nýlið- ar, miðlungs- og jaðarleikmenn. Þá eru nokkrir er- lendir leikmenn sem einfaldlega vildu fara heim. Blaðið bendir á að hefði leikmaður á borð við Car- melo Anthony, ein helsta stjarna New York Knicks, ómengaða þörf fyrir að keppa óháð stað, lífsstíl eða launum, gæti hann hæglega tekið næstu flugvél til Evrópu og farið að spila. „Ég hef ekki hugsað út í það,“ segir hann þegar hann er spurður hvort það freisti hans að fara annað. Í grein í The New York Times segir að lið skipað þeim leikmönnum, sem farið hafa annað, myndi sennilega ekki einu sinni ná því að vinna helming leikja sinna í NBA. Deron Williams, leikmaður New Jersey Nets, er eini stjörnuliðsmaðurinn, sem nú spilar erlendis. Hann er hjá Besiktas í Tyrklandi. Aðeins þrír aðrir voru með 15 stig eða meira að meðaltali í leik, þeir Tony Parker hjá San Antonio, Danilo Gallinari og Wilson Chandler, báðir hjá Denver Nuggets. Parker er sérstakt tilfelli. Hann er frá Frakklandi og spilar nú í föðurlandi sínu. Þess utan á hann hlut í liðinu, sem hann leikur fyrir, Asvel Villeurbanne. Aðrir þekktir leikmenn úr NBA, sem farið hafa annað, eru meðal annars Andrei Kirilenko frá Utah Jazz, sem leikur nú í Rússlandi, Boris Diaw úr Char- lotte Hornets, sem leikur nú í Frakklandi, og Meh- met Okur úr Utah Jazz, sem kominn er til Tyrk- lands. Nú eru deildir víðast hvar í Evrópu komnar af stað og erfiðara að komast að en fyrir nokkrum vik- um. Þess utan er launamunurinn talsverður. Með- allaun í NBA eru 5,8 milljónir dollara, en í Evrópu getur leikmaður ekki búist við að þéna meira en 50 til 75 þúsund dollara á mánuði. Stjörnurnar í NBA fara hvergi þrátt fyrir verkbann Tony Parker, leikmaður San Antonio Spurs, er nú kominn í treyju franska liðsins Asvel Villeurbanne út af verkbanninu í NBA. Reuters S vo gæti farið að enginn körfubolti verði leikinn í bandarísku NBA-deildinni í vet- ur. Á mánudag tilkynnti David Stern, yf- irmaður NBA, að leikir fyrstu tveggja vikna keppnistímabilsins, sem átti að hefjast um mánaðamótin, yrðu felldir niður. Á fimmtudag lýsti hann síðan yfir því að hann hefði á tilfinning- unni að næðust samningar ekki á þriðjudaginn kemur yrði enginn NBA-körfubolti um jólin. Deila eigenda liðanna í NBA-deildinni og leik- manna hefur nú staðið um hríð og fjórir mánuðir liðnir síðan sett var verkbann. Ljóst var áður en síðasta leiktímabili lauk að fara myndi í hart. Ágreiningurinn snýst um laun leikmanna. Eig- endum liðanna finnst að leimenn fái of stóran hluta af kökunni. Fyrir nokkrum mánuðum settu eigendurnir fram tillögu um að leikmenn fengju ekki meira en 40 prósent af tekjum deildarinnar og samningar í gildi yrðu lækkaðir um 15% auk þess sem sett yrði 45 milljóna dollara þak á tekjur hvers einstaks leikmanns. Nú vilja eigendurnir gefa til kynna að þeir bjóði helmingaskipti. Hluti leikmanna vill hins vegar ekki fara niður fyrir 52 prósenta hlut af heildinni. Fyrirkomulagið í NBA er að mörgu leyti und- arlegt. Segja má að í deildinni ríki sósíalismi að því leyti að þak hefur verið sett á hámarkslaun sem greiða má leikmannahópi hvers liðs. Að auki fá þau liðin með lakasta árangurinn að velja fyrst þegar kemur að nýliðavalinu. Ólíkt því sem gerist víðast hvar annars staðar getur ekkert lið fallið. Mikil velta fylgir körfuboltanum, en engu að síður eru mörg liðanna í NBA-deildinni í fjárhags- kröggum. Þeim gengur illa að halda sig undir launaþakinu og sum lið ákveða einfaldlega að fara upp úr því þótt það kosti að þau þurfi að greiða jafnháa upphæð og þeir fara fram yfir til NBA. Leikmenn halda því fram að eigendurnir séu eins og fíklar sem ekki geti hamið sig og vilji fá hjálp frá leikmönnum til að setja sig í spennitreyju svo að þeir borgi þeim ekki of há laun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verkbann er sett í NBA. Tímabilið 1998 til 1999 fór að stórum hluta í súginn. Þeirri deilu lyktaði með því að reyndir leikmenn, sem voru að nálgast lok ferilsins, gáfu eftir og sættu sig við samkomulag sem mörgum yngri mönnum þótti óviðunandi. Samningamenn leikmanna vilja ekki að sú saga endurtaki sig. Leikir í NBA hafa mikla þýðingu í þeim borgum, sem eru með lið. Talið er að til dæmis hver leikur sem leikinn er í Garðinum í Boston skapi tekjur upp á 1,85 milljónir dollara þegar allt er talið, miðar á leikinn, ferðir, matur, drykkur, treyjur og húfur. 18 þúsund manns koma á hvern leik og lið- ið á 41 heimaleik. Það tap verður ekki auðveldlega unnið upp. Nú hefur sáttasemjari verið fenginn til að hjálpa til. David Stern kveðst telja að takist honum ekki að miðla málum muni kergjan í deilunni aukast og líkur á samkomulagi minnka. Nú er staðan þannig að leikmönnum eru tryggð 57 prósent af tekjum deildarinnar. Eigendurnir vilja að leikmenn fari niður í 47 prósent. Á mánudag og þriðjudag verð- ur reynt til þrautar að ná samkomulagi. Takist það ekki fer að verða tvísýnt um næsta tímabil í NBA- deildinni. Eigendur í NBA vilja spennitreyju Tveimur vikum aflýst og komandi tímabil í uppnámi Það gæti orðið bið á því að Dirk Nowitzki sjáist leika listir sínar í treyju Dallas Mavericks ef verkbann í NBA dregst á langinn. Reuters Howard Stern, yfirmaður NBA, aflýsti fyrstu tveim- ur vikum leiktímabilsins í körfubolta á mánudag. Reuters Vikuspegill Karl Blöndal kbl@mbl.is Tímabilið 1998 til 1999 var einnig sett verkbann í NBA. Það stóð í rúmlega 200 daga og var 424 leikjum aflýst. 725 leikir voru leiknir. Verkbannið hafði mikil efnahagsleg áhrif í þeim borgum sem eru með lið í deildinni. Leiktímabilinu lykt- aði með því að San Antonio Spurs vann sinn fyrsta meist- aratitil. Verkbannið 1998 til 1999

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.