SunnudagsMogginn - 16.10.2011, Blaðsíða 29
16. október 2011 29
fyrir því. Saga Silvíu er búin. Við sem unnum að þáttunum um
hana bjuggum til sögu og endirinn var skrifaður.“
Samstarf þitt við Megas hefur vakið nokkra athygli.
Hvernig er að vinna með þeim snillingi?
„Í nokkur ár hef sungið öðru hvoru með Megasi. Ég man
hvað mér fannst það mikill heiður þegar hann hringdi fyrst í
mig og til að spyrja hvort ég vildi syngja með sér. Mér finnst
ævinlega merkilegt að sjá nóturnar hans og finnst skriftin hans
svo dýrmæt. Ég er alltaf jafn lotningarfull þegar ég vinn með
honum og vil ekki spyrja of mikið. Ég er eins og mús í kringum
hann.“
Hvernig lýsir maður ást?
Nú ertu komin í nýtt hlutverk í lífinu, sem mamma. Hvernig
er það?
„Ég á þriggja mánaða gamlan strák. Þegar maður eignast
barn verður tilgangur lífsins sýnilegur en með því er ég alls
ekki að segja að þeir sem eigi engin börn lifi í tilgangsleysi. Það
er sagt að það sé ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu sem fylgir
því að eignast barn. Það er alveg rétt. Hvernig lýsir maður
ást?“
Þú átt mann, hver er hann?
„Jón Viðar Arnþórsson, lögreglumaður og formaður bar-
dagafélagsins Mjölnis. Ég stend í þakkarskuld við hann í sam-
bandi við mitt framlag til Borgríkis. Hann hjálpaði mikið til við
gerð myndarinnar og var hlekkur milli okkar og lögreglunnar.
Hann þjálfaði mig og kenndi mér og setti mig í ótal æfingar.
Henti mér út í sjó, kenndi mér að losa mig úr handjárnum,
sagði mér frá því hvernig fólk er handtekið og hvernig það er
yfirheyrt. Hann fór með mig í gegnum allt ferlið.“
Hvernig kynntust þið?
„Systir hans, sem er skemmtileg og fyndin stelpa, tók mig
með sér á æfingu í Mjölni og þar var bróðir hennar, Jón Viðar,
að þjálfa. Það kom mér á óvart hvað þetta var gaman og ég
lærði mikið og var ekki barin í klessu.“
Þú hefur unnið með alls konar fólki, þar á meðal Jóni Gnarr
og fleirum í Besta flokknum. Hefur þú áhuga á stjórnmálum?
„Nei, ekki sjálfri pólitíkinni en ég hef áhuga á samfélaginu
sem ég bý í. Mér finnst nauðsynlegt að fólk láti í sér heyra ef því
er misboðið og ef það vill breytingar. Þegar við gerðum þættina
um Silvíu Nótt var mér farið að ofbjóða hégóminn og græðgin í
samfélaginu. Silvía Nótt var ádeila á þessa þætti í íslensku
þjóðfélagi. Það skildu það ekki allir en það er líka allt í lagi, fólk
þarf ekki að skilja hlutina á einn og sama hátt. Mín skoðun er
sú að ef maður vilji hafa áhrif á samfélagið þá verði maður að tjá
sig.
Það er sérstaklega eitt mál í íslensku þjóðfélagi sem brennur
á mér núna. Það er kjarabarátta lögreglunnar sem ég styð af
heilum hug. Ég veit af álaginu sem er á lögreglumönnum. Kær-
astinn minn er lögreglumaður en hann er búinn að segja upp
því hann sér ekki fram á að geta haldið áfram í starfi sínu við
þau kjör sem boðið er upp á. Margir sem ég þekki innan lög-
reglunnar er í sömu stöðu og ætla að hætta. Það er mikill missir
fyrir þjóðfélagið ef gott og hæft fólk hættir störfum og það
skapar líka hættu ef illa er búið að lögreglunni. Verkefni fíkni-
efnadeildarinnar eru til dæmis gríðarlega umfangsmikil og
snerta alls kyns glæpastarfsemi, fíkniefnamál og mansal en í
þeirri deild vinna einungis nokkrir einstaklingar sem geta ekki
sinnt öllum málum. Ef starfsmönnum væri fjölgað væri hægt
að tryggja öryggi almennings mun betur en nú er gert. Stund-
um þarf svo lítið til að bæta ástandið.“
Í lokin, hvar er kvikmyndahandritið sem þú sagðir frá í
byrjun og varst að skrifa?
„Ég týndi því. En hver veit, kannski skrifa ég bara annað.“
’
Þegar maður eignast barn
verður tilgangur lífsins
sýnilegur en með því er ég
alls ekki að segja að þeir sem
eigi engin börn lifi í tilgangs-
leysi. Það er sagt að það sé ekki
hægt að lýsa þeirri tilfinningu
sem fylgir því að eignast barn.
Það er alveg rétt. Hvernig lýsir
maður ást?