SunnudagsMogginn - 16.10.2011, Blaðsíða 9
16. október 2011 9
Í
dag er nákvæmlega eitt ár liðið síðan bandarískir kaupsýslumenn frá Bost-
on, með John W. Henry í fylkingarbrjósti, keyptu enska knattspyrnufélagið
Liverpool af, tja, líklega öðrum bandarískum kaupahéðnum frekar en ein-
hverjum bankanum. Það er sennilega túlkunaratriði en skiptir fótbolta-
áhugamenn ekki öllu máli. Og vert er að minna á að United er einnig í eigu
Bandaríkjamanna, Glazier-fjölskyldan frá New York heldur um stjórnartaumana
á þeim bænum.
Vel er við hæfi að Liverpool haldi upp á daginn með því að bjóða vinina í Man-
chester United velkomna. Viðureignir
þessara gömlu stórvelda eru gjarnan
auglýstar sem „leikur ársins“ og ekki að
ósekju; þetta eru sigursælustu félögin í
Englandi. Liverpool-menn státuðu lengi
af flestum Englandsmeistaratitlum, ná-
grannarnir frá Manchester jöfnuðu
metin fyrir nokkrum misserum og
skutust fram úr í vor þegar 19. titillinn
var skráður á þeirra nafn.
Eitt er víst að sama hvar félögin mæt-
ast og hvenær, andrúmsloftið er raf-
magnað, stemningin lífleg og mikið
sungið. Og óvenjumörg blótsyrði látin
flakka á þeim 90 mínútum sem leik-
urinn stendur yfir. Óvildin á milli lið-
anna er svo mikil. Það er bara þannig.
Ég er svo lánsamur að hafa nokkrum
sinnum verið viðstaddur viðureignir
þessara frábæru félaga, bæði á Old Traf-
ford og Anfield, og allar eru þær eft-
irminnilegar. Spennandi verður að sjá
hvort gestirnir færi afmælisgjafir í dag
eða spilli deginum …
„One ticket please,“ sagði ég við af-
greiðslumenn í lítilli lúgu, nokkrum
dögum fyrir sautjánda afmælisdaginn.
„Einn miða takk.“ Þetta var í apríl 1979.
Hliðið vissi inn í Kop, stúkuna nafntog-
uðu fyrir aftan annað markið á heima-
velli Liverpool. Við vorum þarna
nokkrir saman og tveir, við Árni vinur
minn Stefánsson, íþróttahetja og þjálf-
ari, nú búsettur í Vestmannaeyjum,
freistuðum þess að næla í miða á meðal
allra heitustu stuðningsmanna heima-
liðsins.
Við vorum auðvitað á nálum en það
var óþarfi. „Þrjú pund,“ minnir mig að
karlinn í lúgunni hafi svarað og áður en
ég vissi af var ég kominn inn fyrir.
Margt hefur breyst síðan þá.
Liverpool var besta liðið á Englandi á
þessum tíma og Manchester United eitt
það flottasta sem endranær. Það voru að
vísu rúmir tveir tímar í leik þegar við
Árni keyptum miðana en nú þarf líklega
að panta með margra mánaða fyrirvara,
ef þess gefst kostur, eða punga út fúlg-
um á svörtum markaði.
Liverpool vann leikinn 2:0 og Kenny
Dalglish, sem nú er við stjórnvölinn, skoraði annað markið. Löngu seinna stóð ég
á svipuðum stað, það var í september 1999. Gestirnir unnu 3:2 og varnarjaxlinn
Jamie Carragher í liði Liverpool gerði tvö sjálfsmörk!
Ég verð því miður fjarri í dag. Læt sófann og sjónvarpið duga. Bara muna að
opna gluggann og hækka í sjónvarpinu; þá er eins og maður sé á staðnum.
Fróðlegt verður að sjá hvort Carragher verður á skotskónum í hádeginu og
hvernig enski landsliðsmaðurinn Wayne Rooney hjá Manchester United verður
upplagður. Hann asnaðist til þess að sparka af öllu afli í landsliðmann Makedóníu
á dögunum og fékk fyrir vikið rautt spjald og þriggja leikja bann. Missir því af
fyrstu þremur leikjum Englands á Evrópumótinu næsta sumar. Það háir honum
örugglega ekki nú; fæddur og uppalinn í Liverpool, hjá erkifjendunum í Everton,
veit hann ekkert skemmtilegra en leggja Liverpool að velli.
Gaman verður sjá hvor Skotinn brosir breiðar í leikslok, Kenny Dalglish eða
Alex Ferguson, þjálfari United. Kannski verður brosað
bæði í Eyjum og á Akureyri en líklega bara annaðhvort
í New York eða Boston.
Afmælisveisla
á Anfield?
Meira en
bara leikur
Skapti Hallgrímsson
skapti@mbl.is
Wayne Rooyne bíður eftir að rauða
spjaldið fari á loft eftir að hann sparkaði
í Makedóna í landsleik á dögunum.
Horft úr Kop! Kenny Dalglish í leik með
Liverpool gegn Man. Utd. á Anfield vor-
ið 1979. Til hægri Brian Greenhoff.
Morgunblaðið/Skapti
Reuters
’
Óvenjumörgum
blótsyrðum sleppt
út í andrúmsloftið
á 90 mínútum
B
andarísku tvíburabræðurnir
Phil og Steve Mahre vou um
árabil í hópi fremstu skíðenda
í heimi. Þeir geystust fram á
sviðið aðeins átján ára gamlir og þegar
þeir lögðu skíðin á hilluna átta árum
síðar höfðu þeir samtals farið með sigur
af hólmi í 36 heimsbikarmótum alpa-
greina og unnið til þrennra verðlauna á
Ólympíuleikum.
Phil, sem er fjórum mínútum eldri,
var sigursælli. Hann vann heimsbik-
arinn þrjú ár í röð, 1981-83, og skákaði
í öll skiptin sænsku goðsögninni In-
gemar Stenmark, tvö seinni árin með
umtalsverðum yfirburðum. Besti ár-
angur Steves í heimsbikarnum var 3.
sæti árið 1982. Phil vann samtals 27
heimsbikarmót en aðeins tveir landar
hans hafa gert betur, Bode Miller og
Lindsey Vonn.
Phil vann til silfurverðlauna í svigi á
Ólympíuleikunum í Lake Placid árið
1980 og fjórum árum síðar bárust
bræðurnir á banaspjót um gullið í sömu
grein. Steve hafði góða forystu eftir
fyrri ferðina en urðu á mistök í þeirri
seinni sem varð til þess að Phil hreppti
gullið. Bróðir hans varð að gera sér
silfrið að góðu. Phil komst ekki að því
fyrr en í sjónvarpsviðtali eftir sigurinn
að eiginkona hans, Holly, hafði alið
honum son klukkustund áður en mótið
hófst.
Einu gullverðlaun Steves komu í
stórsvigi á heimsmeistaramótinu í
Schladming 1982. Þar komst Phil ekki á
pall.
Bræðurnir áttu erfitt uppdráttar vet-
urinn 1983-84 og um vorið ákváðu þeir
að láta staðar numið, aðeins 26 ára að
aldri.
Ólust upp í skíðabrekkunum
Phil og Steve Mahre fæddust í Yakoma,
Washington, 10. maí 1957 og eru því 54
ára gamlir. Þeir ólust bókstaflega upp í
skíðabrekkunum ásamt systkinum sín-
um sjö en faðir þeirra, Dave „Spike“
Mahre, var um árabil fjallstjóri á White
Pass-skíðasvæðinu í Washington-ríki.
Bjó fjölskyldan við lyfturæturnar.
Bræðurnir báru snemma af öðrum
skíðendum í sínum aldursflokki og
slógust skíðaframleiðendur um að
semja við þá. Bandaríska fyrirtækið K2
hreppti hnossið og héldu bræðurnir
tryggð við það alla tíð. Voru skíðin
jafnan löguð að þörfum þeirra.
Ári eftir að þeir hættu keppni sendu
Mahre-bræður frá sér bókina Engin
brekka of hröð (e. No Hill Too Fast),
sem fjallaði um uppvöxt þeirra og af-
rek. Mæltist hún vel fyrir. Sama ár
settu þeir á laggirnar Mahre-æfinga-
miðstöðina og hafa starfrækt hana allar
götur síðan. Fyrst í Keystone, Colo-
rado, en fluttu sig svo yfir til Deer
Valley, Utah.
Bræðurnir eru jafnframt miklir
áhugamenn um bíla og hafa um árabil
keppt í rallakstri vestra.
49 ára gamall byrjaði Phil óvænt að
keppa á ný og var aðeins hársbreidd frá
því að komast á bandaríska meist-
aramótið 2008. Veturinn eftir varð
hann fyrir slæmum hnémeiðslum og
þurfti á aðgerð að halda. Ekki er vitað
um frekari endurkomuáform.
orri@mbl.is
Bandarísku tvíburabræðurnir Steve og Phil Mahre hafa litlu gleymt í brekkunum.
Mahre-bræður?
Hvað varð um …
Mahre-bræður á hátindi ferils síns í Saraj-
evo 1984. Þar fengu þeir gull og silfur.
Bræðurnir eru enn viðloðandi íþróttina.