Fréttablaðið - 04.10.2011, Page 26
4. OKTÓBER 2011 ÞRIÐJUDAGUR6 ● geðhjálp
Vin er athvarf og
félagsmiðstöð fyrir fólk sem
stríðir við geðræn veikindi. Í
19 ár hefur Rauði kross Íslands
rekið athvarfið. Nú hefur sú
ákvörðun verið tekin að loka
því í lok mars 2012 og munu
margir sakna Vinjar ef af
lokuninni verður.
„Fyrir tuttugu árum gerði Rauði
krossinn þarfagreiningu í sam-
félaginu og kom þá í ljós að mjög
stór hópur geðfatlaðra átti við
gríðarlega félagslega einangrun
að stríða. Á þeim tíma voru engin
úrræði fyrir þennan hóp utan Geð-
hjálpar. Því var ákveðið að stofna
athvarf sem hefði það að mark-
miði að rjúfa félagslega einangr-
un,“ segir Þórdís Rúnars dóttir,
forstöðumaður Vinjar, og bætir
við að ekki sé boðið upp á með-
ferð í Vin. Þangað geti fólk komið
og aukið lífsgæði sín í félagslegu
tilliti.
„Hingað hafa komið 25 til 30
gestir á dag frá upphafi og það
þrátt fyrir að búsetuskilyrði hafi
batnað mikið, komið hafi ný þjón-
ustutilboð og flóran mun meiri í
dag en áður,“ segir Þórdís og nefn-
ir þar klúbbinn Geysi, Hugarafl og
Hlutverkasetur. „Þau hafa öll sína
sérstöðu og starfa eftir ákveðinni
hugmyndafræði en okkar sérstaða
er sú að við störfum eingöngu í
félagslegu tilliti og gerum ekki
kröfu um ákveðna virkni eða að
við ætlum að skila fólki út á vinnu-
markað eða í nám. Hingað kemur
það til að ræða málin enda virk-
ar Vin sem nokkurs konar fjöl-
skylda,“ segir hún.
Um 350 einstaklingar fara í
gegnum athvarfið á hverju ári
og þar af mæta um 100 minnst
tvisvar í viku eða oftar. „Þetta
er mjög stór hópur en um 80 pró-
sent eru karlmenn og stór hluti
þeirra með greininguna geðklofi.
Margt af þessu fólki hefur veikst
mjög ungt og hefur verið veikt
lengi, en meðalaldur í Vin er 50
ár,“ segir Þórdís og heldur áfram.
„Þetta fólk er búið að fara í gegn-
um endurhæfingar mylluna og er
komið á þann stað að það er að
leita að þessu félagslega.“
Í Vin er unnið mikið starf en
eitt af verkefnunum er að kynna
fyrir fólki þá þjónustu sem er í
boði annars staðar og hvað er að
gerast í menningarlífi borgar-
innar. „Við reynum að hjálpa fólki
til sjálfshjálpar og fá það til að
tengjast vinaböndum svo það geti
stutt hvert annað til að stunda
félagslíf,“ lýsir Þórdís, sem segir
flesta sem sæki Vin vera mikið
félagslega fatlaða og þurfi því
talsverðan stuðning. „Fólk treyst-
ir sér til dæmis illa til ferðalaga
á eigin vegum. Ferðalögin sem
við skipuleggjum hafa verið mjög
vinsæl og margir fara aldrei neitt
nema með okkur. Við höfum meira
að segja farið í utanlandsferðir,“
segir hún glaðlega.
Þórdís telur að margir muni
sakna Vinjar. „Vin er eins og heim-
ili enda í gömlu einbýlishúsi þar
sem eldhúsið er hjartað. Þar eru
mörg lítil herbergi þar sem fólk
getur farið inn í smærri hópum,
lagt sig eða hvað sem er. Þeir sem
hingað sækja tala um að Vin sé
fjölskyldustaðgengill og því munu
þeir við lokun Vinjar upplifa að
verið sé að sundra fjölskyldu.“
- sg
Fjölskyldu sundrað
Andrúmsloftið í Vin er heimilislegt enda er athvarfið í einbýlishúsi við Hverfisgötu. Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður Vinjar, er
hér í einni stofunni. MYND/VALLI
Vin hefur verið rekið af Rauða
krossi Íslands í nærri 20 ár en
ákveðið hefur verið að loka at-
hvarfinu í marslok 2012. „Þetta
er spurning um kostnað,“ segir
Kristján Sturluson, framkvæmda-
stjóri Rauða krossins, en talið er
að rekstrarkostnaður Vinjar á
næsta ári yrði um 25 milljón-
ir króna. „Þetta er málaflokkur
sem um síðustu áramót fór yfir til
sveitarfélaganna og okkur finnst
eðlilegt að sé allur undir einum
samræmdum hatti.“
Kristján segir leitað hafa verið
eftir samræðum við Reykja-
víkurborg í september í fyrra
vegna málsins. „Við sendum bréf
þar sem við sögðumst ekki treysta
okkur til að halda rekstri Vinjar
áfram á óbreyttum forsendum,“
segir hann en í framhaldi hafi
orðið viðræður um ákveðin verk-
efni enda vilji hjá borginni til að
sinna málaflokki geðfatlaðra vel.
„Okkur þótti þó ljóst að borg-
in ætlaði ekki að taka við rekstri
Vinjar og því var þessi ákvörðun
tekin,“ segir Kristján og bendir á
að margt hafi breyst frá því Vin
var stofnuð; fleira sé í boði fyrir
geðfatlaða.
Rauði krossinn rekur þrjú
önnur athvörf í Kópavogi, Hafnar-
firði og Akureyri. „Það er misjafnt
hversu mikið sveitarfélögin koma
að rekstrinum en yfirleitt eru þau
mjög stórir þátttakendur á þessum
stöðum,“ segir Kristján.
En hvernig myndi hann vilja sjá
þessu máli lykta? „Ég vil gjarnan
sjá Vin starfa áfram en þá undir
sama hatti og hluti af þjónustu við
fatlaða í borginni. Eða að til komi
önnur tilboð sem eru jafn góð fyrir
þá sem nýtt hafa sér Vin.“
Spurning um kostnað
Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri
Rauða kross Íslands.
● ATHVÖRF FYRIR FÓLK MEÐ GEÐ
RASKANIR Rauði krossinn rekur eða kemur að
rekstri athvarfa fyrir fólk með geðraskanir víða um
landið. Ýmislegt er gert í athvörfunum, til dæmis borð-
að saman, lesið, spilað, málað eða farið í gönguferðir.
Vin, Hverfisgötu 47, Reykjavík, sími 561-2612,
netfang vin@redcross.is
Dvöl, Reynihvammi 43, Kópavogi, sími 554-1260,
netfang dvol@redcross.is
Laut, Brekkugötu 34, Akureyri, sími 462-6632,
netfang laut@simnet.is
Lækur, Hörðuvöllum 1, Hafnarfirði, simi 566 8600,
netfang laekur@redcross.is
HVER, Kirkjubraut 1, Akranesi, sími 431 2040, netfang
hver@akranes.is
Ásheimar, Miðvangi 22, Egilsstöðum, sími 470 0795,
asheimar@egilsstadir.is
Setrið, Árgötu 12, Húsavík, sími 464 1740
Vesturafl, Mánagötu 6. Ísafirði sími 456 4406, netfang
vesturafl@isafjordur.is
Vin var stofnað 8. febrúar 1993 í kjölfar framkvæmda-
áætlunar hreyfingarinnar fyrir tímabilið 1990-2001. Þar
kemur meðal annars fram vilji til að bæta hag þeirra
sem minnst mega sín, þar á meðal geðfatlaðra.
Starfshópur um málefni geðfatlaðra tók til starfa
1992 og hafði það verkefni að kanna með hvaða hætti
þörfum þeirra yrði best mætt úti í þjóðfélaginu. Niður-
staðan var athvarf sem opið væri á daginn og byði upp
á margvíslega þjónustu. Eftir nokkurn undirbúning
og meðal annars heimsókn til Svíþjóðar til að skoða
sambærilega staði tók húsið til starfa.
„Borgarstjórn hefur ekki mótað
sér afstöðu gagnvart Vin enda ekki
nema mánuður síðan við fréttum
að Rauði krossinn hefði einhliða
ákveðið að hætta starfsemi Vinjar,“
upplýsir Björk Vilhelmsdóttir, for-
maður velferðarráðs Reykjavíkur-
borgar, og segir að sú ákvörðun
hafi komið á óvart enda hafi borg-
in í auknum mæli verið að koma að
rekstrinum. Vin hafi haft ókeypis
húsnæði og svo hafi borgin komið
inn á síðasta ári með aukið rekstrar-
fé.
„Ég þekki þessa starfsemi og
bæði mér og öðrum í borgarstjórn
er mjög annt um hana og enginn
sem vill sjá að Vin verði lögð niður,
annað hef ég ekki heyrt. En áður en
við getum tekið ákvörðun um hvað
við gerum í þessari stöðu þarf að
kanna umfang þjónustunnar, hve
margir nýta hana og hvaða þjónustu
er verið að bjóða upp á. Nú þegar er
starfshópur velferðarsviðs að skoða
þessa hluti,“ segir hún.
„Við vitum að það má alls ekki
minnka dagþjónustu við íbúa borg-
arinnar sem búa við alvarlegar geð-
raskanir og við vitum líka að dag-
þjónustan er of lítil,“ segir Björk
en tekur fram að borgin geti ekki
bætt á sig úrræðum upp á tugi
milljóna króna að óathuguðu máli.
„Við eigum eftir að klára fjárhags-
áætlun borgarinnar og þetta mál
verður skoðað út frá þeirri heildar-
mynd en líka út frá brýnni þörf á
dagþjónustu.“
Annt um starfsemina
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi og
formaður velferðarráðs Reykjavíkur-
borgar.
Húsið að Hverfisgötu 47 hefur
þá kosti að vera mjög heimilis-
legt með sínum mörgu mátulega
stóru herbergjum sem er lykil-
atriði fyrir marga sjúklinga til
dæmis eins og mig sem er búin að
vera gestur Vinjar til margra ára.
Ég er bæði með víðáttufælni og
félagsfælni og gæti því alls ekki
„funkerað“ í stóru rými innan um
fjölda manns. Enn fremur þjáist
ég af þunglyndi og kvíða.
Gestir Vinjar eru margir ein-
stæðingar. Vin er okkur griða-
staður í lífinu, fasti punkturinn
þar sem hægt er að hitta kæra
vini og kollega í geðröskunum og
einnig starfsfólk sem kemur fram
við okkur sem jafningja.
Vin er staðsett miðsvæðis í
borginni og því hittist þar fólk
alls staðar að úr borginni. Geð-
fatlaðir þurfa að vera innan um
sína líka til þess að getað liðið vel
og verið öruggir með sig.
Ef fólk missir „heimili sitt,
Vin,“ og „fjölskyldu sína“‚ sem
eru gestir Vinjar, má búast við
að illa fari fyrir mörgum gestum
athvarfsins. Því Vin hefur fyrir-
byggjandi áhrif á innlagnir á
geðdeildir sem kosta ríkið stórfé,
jafnvel fyrirbyggjandi áhrif á
sjálfsvíg einmana sjúks fólks.
Búast má við því versta ef sjúk-
lingar missa „sitt annað heimili“.
Kostnaður ríkisins vegna inn-
lagnar fyrir einn sjúkling í tíu
daga nemur 700 þúsund krónum.
Fyrir 80 sjúklinga inni á geðdeild
í 10 daga mun kostnaður ríkisins
verða um 56 milljónir króna.
Vin gefur tilgang í lífi þeirra
sem skugga ber á vegna alls
konar illvígra geðsjúkdóma.
Vin má ekki loka.
Kveðja,
gestur Vinjar,
Reykjavík 8. september 2011.
Bréf frá gesti Vinjar