Morgunblaðið - 18.08.2010, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 18.08.2010, Blaðsíða 21
ur litlu systurnar. Samband mömmu og Ástu var ákaflega gott, aldurs- munurinn ekki mikill og snemma myndaðist gott vinkvennasamband milli þeirra, sem stóð alla tíð. Rúmlega tvítug giftist hún at- hafnamanninum Ólafi Sigurðssyni frá Akranesi, þangað flutti hún og þar eignaðist hún dæturnar þrjár. Heimili þeirra var glæsilegt og þau höfðingjar heim að sækja. Eftir að ég flutti úr Þykkvabænum til Reykjavíkur var gott að eiga athvarf hjá þeim Óla á Akranesi, naut þess að borða góða matinn hennar Ástu og dvelja í faðmi fjölskyldunnar. En svo dró fyrir sólu, árið 1964 lést Ólafur langt um aldur fram. Þá sýndi Ásta hversu sterk hún var og æðrulaus. Hún flutti til Reykjavíkur og bjó dætrum sínum fallegt heimili á Birkimelnum og fór sjálf út á vinnumarkaðinn, en fram að þeim tíma hafði hún verið heimavinnandi húsmóðir. En hún gekk ekki heil til skógar, astminn var farinn að há henni verulega. Á þessum tíma bjó ég í New York og þangað kom hún til að leita sér lækninga. Mikið gladdi það mig að geta greitt götu hennar í stórborginni og þrátt fyrir veikindin og erfiðar rannsóknir átt- um við þar góðar stundir saman, og minntumst við oft þessara tíma. Þarna fékk hún viðeigandi lyf og heilsuna á ný. Og svo kom Magnús inn í lífið hennar, og ekki bara Magnús heldur dætur hans þrjár. Það var mikill gleðidagur þegar þau gengu í hjóna- band 1. des. 1979. Og nú hófst nýr kafli í lífi Ástu. Þau Magnús voru samhent hjón og gott að sækja þau heim, Ásta var listakokkur og naut þess að töfra fram veisluborð hve- nær sem tækifæri gafst, og tækifær- in gáfust oft, því hún var snillingur í að halda saman og rækta sinn stóra frændgarð, svo úr varð ein heild, sem gott var að tilheyra. Síðustu árin voru Ástu erfið, heils- unni hrakaði og að lokum var svo komið að hún var nærri rúmliggj- andi, en reisninni hélt hún fram í andlát. Hún var umvafin umhyggju Magnúsar og dætranna allra og fyr- ir það var hún þakklát. Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir að hafa átt þessa fallegu og góðu stórusystur. Ég sendi Magnúsi og fjölskyldunni allri mínar samúðar- kveðjur. Guðrún Gyða. Ásta systir. Þessi tvö orð eru órjúfanleg heild í huga mínum. Við ólumst ekki upp saman, en Ásta systir var samt alltaf hluti af tilveru minni. Þegar móðir mín gekk með mig, sagði hún mér seinna, að hún hefði beðið þess að ef barnið yrði stúlka myndi hún líkjast Ástu. Ég er ekki viss um að henni hafi orðið að ósk sinni en hinsvegar þykir mér ekki verra þegar mér er sagt að nú líkist ég Ástu systur. Samband móður minnar og Ástu systur var um margt óvenjulegt og um leið afar gott. Móðir mín var að- eins ellefu árum eldri en stjúpdótt- irin. Mikil væntumþykja og gagn- kvæm virðing einkenndu samband þeirra og vil ég þakka alla elskusem- ina sem systir mín sýndi móður minni. Fyrir orð móður minnar fékk ég móðurnafn Ástu og seinna fannst mér ég tengjast henni við það á al- veg sérstakan hátt. Árið 1948 giftust Ásta systir og Óli. Þau fluttu til Akraness, heima- bæjar Óla, og þar fæddust dæturnar þrjár. Heimili þeirra í Krókatúninu var fallegt og gestrisni í hávegum höfð. Ég ímynda mér að ungu hjónin hafi séð framtíð sína fyrir sér þarna, þar sem tengdabörn og barnabörn myndu seinna eiga athvarf. Reyndin varð önnur. Ásta systir varð ekkja 37 ára gömul og árið 1966 fluttist hún, ásamt dætrum sínum, til Reykjavíkur. Sjálf varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi, að eiga athvarf í Krókatúninu fyrri part vetrar 1954 við nám í hannyrðum. Ég á mjög góðar minningar frá þessum tíma, þar sem ég kynntist betur elskuleg- um systurdætrum mínum og gat fylgst með Ástu systur í essinu sínu við að töfra fram veitingar handa gestum og gangandi eins og henni var einni lagið. Þá eru ferðirnar með Akraborginni til Akraness á Kvennaskólaárunum ógleymanleg- ar. Eftir að Ásta systir flutti til Reykjavíkur starfaði hún við hús- hjálp og síðan lengi við kaffiveiting- ar hjá Tryggingu hf. Í byrjun árs 1977 verður breyting á högum henn- ar. Hún fór sem ráðskona á heimili Magnúsar Inga Sigurðssonar og í desember 1979 gengu þau Magnús í hjónaband. Og enn komu þrjár syst- ur til sögunnar, dætur Magnúsar, sem Ásta systir gekk í móðurstað en með þeim hafa ávallt verið miklir kærleikar. Ásta systir var mjög dug- leg við að bjóða til fagnaðar á glæsi- legu heimili þeirra Magnúsar og ekki síst var hún ötul við að bjóða heim konunum úr Þykkvabænum, sem höfðu á einhvern hátt tengst henni í gegnum árin. Ásta systir var glæsileg kona, ávallt vel til höfð, smekkleg og flott. Mikil gestrisni einkenndi heimili þeirra Magnúsar. Hún var kærleiks- rík og vinmörg. Síðustu árin voru erfið Ástu syst- ur sökum heilsubrests. Magnús hjúkraði henni heima af mikilli um- hyggju en síðustu mánuðina dvaldi hún á Hrafnistu í Hafnarfirði. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Magnúsi, dætrunum öllum og þeirra fjölskyldum. Guð blessi minn- ingu Ástu systur. Helga Sveinsdóttir. Ein af grunnstoðunum í mann- legri tilveru er það að tilheyra. Til- heyra stað, umhverfi, samfélagi, fólki. Ásta systir var órjúfanlega tengd uppruna okkar og fjölskyldu og sambandið við hana og fjölskyldu hennar mikilvægt og náið. Það var ekki annað hægt en að dást að henni, hún var falleg og bar sig með reisn, ótrúlega dugleg og í raun listamaður. Hvernig hún töfr- aði fram veislur, hélt fjölskylduboð- in, með léttleika, fagurfræði og ná- kvæmni sem litla systir var stundum alveg dolfallin yfir. Hún var með gildin á hreinu og þau endurspegluðust í kærleikanum og umhyggjunni fyrir fjölskyldu og vinum. Hún hafði sterka nærveru og í því hvernig hún tókst á við erf- iðleika og veikindi var hún okkur góð fyrirmynd. Hugurinn reikar til heimsókna hennar og dætranna til okkar í Þykkvabæinn í bernsku, til hennar á Birkmelnum á unglingsárunum, til hennar og Magnúsar á Þingholts- brautinni og fjölskylduboðanna þar. Samtala við þau og Rúnu systur okkar sem var í læknismeðferð í Reykjavík, símtala og heimsókna til þeirra í Hafnarfjörðinn sem urðu því miður alltof fáar af minni hendi í seinni tíð. Og nú er hún farin og við þurfum að átta okkur á því og finna jafn- vægið á ný. Við Einar og börnin sendum Magnúsi og fjölskyldunni samúðar- kveðjur. Minningin um góða konu lifir. Guðbjörg. Elsku Ásta mín. Ég ákvað að skrifa þér bréf til að minnast samverustunda okkar, þú komst, sást og sigraðir en það er ekki auðvelt að taka á móti þremur ungum stúlkum. Kæra Ásta, þú breiddir út faðm- inn og tókst okkur að þér frá fyrstu stundu. Við vorum ungar og nýbún- ar að missa móður okkar og þá komstu inn í líf okkar af ást og kær- leik. Þú kenndir okkur allt það sem við höfum af myndarskap eins og um þínar eigin dætur væri að ræða. Þú varst frábær frá upphafi til enda, kenndir okkur systrum allt um það hvernig á að fara út í lífið. En þú varst ekki ein, þú átt þrjár frábærar dætur sem bera allt það sem þú hafðir. Elsku Ásta mín, sem betur fer fékk ég að kynnast þér, ég væri ekki sú sem ég er í dag nema vegna þess að ég fékk að hafa þig hjá mér í dag- legu lífi, sorg og gleði, takk fyrir allt sem þú kenndir mér. Ég veit að þér líður vel núna. Þín Sigríður Margrét. Minningar 21 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 18. ÁGÚST 2010 ✝ Olga Kristín Stef-ánsdóttir fæddist í Grjótagötu 4 í Reykjavík 6. ágúst 1913. Hún lést á Landspítalanum v/ Hringbraut 6. ágúst síðastliðinn á 97 ára afmælisdegi sínum eftir langa og farsæla ævi. Hún var dóttir hjónanna Stefáns Ei- ríkssonar myndskera, Stefáns hins oddhaga frá Fremraseli í Hró- arstungu í N-Múlasýslu, f. 4. ágúst 1862, d. 19. júní 1924, og Sigrúnar Gestsdóttur frá Fossi í Vopnafirði, f. 17. apríl 1874, d. 30. janúar 1929. Olga var yngst af barnahóp þeirra hjóna. Þau eignuðust 11 börn og komust 9 þeirra á legg. Þau voru í þeirri röð sem hér segir: Gestur, f. 1899 og lést hann sama ár. Tvíburarnir Soffía Sigríður Stefánsdóttir Hjaltalín, f. 16. júlí 1900, d. 20. apríl 1977, og Bergljót Aðalbjörg Stefánsdóttir, f. 16. júlí 1900, d. 8. apríl 1977. Katrín Stef- ánsdóttir Arnar, f. 27. júní 1902, d. 25. apríl 1997. Tvíburarnir Eiríkur Stefánsson, f. 13. júlí 1903, d. 16. desember 1975, og Bentína Frið- rika Stefánsdóttir, f. 13. júlí 1903, d. 27. september 1965. And- vana sveinbarn fætt 1905. Sigurður Stef- ánsson, f. 4. mars 1907, d. 28. júní 1970. Sigrún Hjördís Stef- ánsdóttir, f. 1. janúar 1909, d. 13. apríl 1982. Olga Stef- ánsdóttir, f. 6. ágúst 1913. Olga hóf búskap með Sigursæli Magn- ússyni hinn 27. janúar 1940. Sigursæll lést 19.12. 2001. Olga og Sigursæll eignuðust 1 son, Stefán Sigurð Sigursælsson, f. 13.5. 1940. Hann kvæntist Esther Ás- geirsdóttur og áttu þau 3 börn: Ástu S. Stefánsdóttur f. 4.10. 1961, Stefán M. Stefánson f. 14.3. 1964, d. 11.12. 1988, og Olgu J. Stef- ánsdóttur f. 19.12. 1966. Olga stundaði nám við Miðbæj- arskólann í Reykjavík og síðan við Verzlunarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan. Olga starfaði við veitingarekstur lengst af með manni sínum, m.a. á Sælakaffi, Tjarnarbúð og Ártúni. Útför Olgu fór fram frá Foss- vogskirkju 17. ágúst 2010. Amma Olga fæddist og ólst upp í Grjótagötunni og var sannkölluð Reykjavíkurmær. Í stórum og sam- heldnum systkinanahópi var hún yngsta barnið. Olga missti foreldra sína ung að árum og studdu eldri systkinin hana til náms og hvöttu hana áfram. Mikill gestagangur var í Grjótagötunni, bæði fjölskyldan og viðskiptavinir handverkfólksins á heimilinu, en þar var mikið lagt upp úr handverki, námi og alls kyns list- sköpun. Amma kom frá miklu lista- og menningarheimili. Faðir ömmu var mikill útskurðarmeistari og kenndi þeim börnum sínum, sem áhuga höfðu á, fagið. Málaralist og allt handverk var í hávegum haft. Höfum við systurnar notið góðs af kunnáttu ömmu, handlagni og færni. Hún kenndi okkur margt, við vorum ekki gamlar þegar hún rétti okkur nál og kisumynd og svo var bara að læra að sauma krosssaum. Hekl var líka í miklu uppáhaldi og gaman var að læra hin ýmsu mynstur. Amma var mjög fær saumakona og hefur saum- að mikið á okkur frá því vorum litlar. Þegar við urðum eldri þótti okkur gaman að vera með ömmu að sauma föt og alveg frábært að leita til henn- ar þegar okkur langaði kannski í flík sem ekki var hægt að kaupa, hún sneið og saumaði og útkoman varð alltaf glæsileg. Við fórum sem börn mikið með ömmu og afa í sumarbústaðinn á Þingvöllum. Þar nutum við góðra stunda með ömmu í gönguferðum, spiluðum á spil, lærðum að leggja kapal og einnig var mikið bakað. Við áttum hjá ömmu okkar eigin litlu kökuform og potta til að við gætum bakað og eldað fyrir dúkkurnar. Amma var mikið að elda og baka og gilti það einu hvort það var heima eða í sumarbústaðnum, hún var allt- af að og allt varð að vera listrænt og flott. Amma og afi voru með veitinga- rekstur og vann amma mikið þar við daglegan rekstur, hún var smur- brauðsdaman og allt í öllu. Við unn- um mikið með ömmu alveg frá því vorum nokkuð ungar og fram eftir aldri. Þegar langömmubörnin fóru að koma í heiminn voru amma og afi flutt á Sólland við Suðurhlíð og amma hætt að vinna, þá var gaman að heimsækja þau með börnin og naut amma þess að trítla með þau um Öskjuhlíðina og í ístúra upp í Perlu. Dýrmætar eru minningar okkar systra þegar amma og afi voru í heimsókn hjá Olgu í Danmörku. Þegar þau voru í heimsókn var yngsti sonur Olgu og Jóns skírður og var fjölskyldan saman komin af því tilefni. Amma, 80 ára, saumaði skírnar- kjólinn sem hefur verið notaður við skírnir allra barna í fjölskyldunni síðan. Einnig bakaði hún skírnar- tertuna, fallega marsipantertu sem skreytt var af mikilli listfengi. Það var ómetanlegt og yndislegt að eiga þennan tíma með ömmu og afa, þarna vorum við í sumri og sól, fórum í ferðir og nutum þess að vera saman, spjalla og hlæja. Við kveðjum með söknuði okkar glæsilegu ömmu sem alltaf var svo fín og sæt. Að Guð skyldi velja að taka ömmu heim á afmælisdegi hennar er fallegur endir og við viss- um að hún var glöð að fara heim. Hún hlakkaði til að hitta afa og bróð- ur okkar Stefán sem kvaddi þennan heim fyrir mörgum árum. Guð blessi minningu um einstaka konu. Ásta Sigríður Stefánsdóttir. Olga Jóhanna Stefánsdóttir. Þegar ég var lítil fór ég oft í strætó til ömmu og eyddi með henni heilu dögunum, nokkuð sem er mér sér- staklega dýrmætt núna á þessari stundu. Hún bauð mér upp á volgt appelsín (af einhverjum ástæðum var það aldrei geymt í ísskápnum), við teiknuðum og saumuðum kjóla saman, fórum í göngutúra og ég fékk að gramsa eftir gersemum á háaloft- inu. Þar fann ég föt og skart sem ég nota enn í dag og mun alltaf gera. Amma var alltaf svo fín og vel til höfð og minnti mig oft á Coco Chanel með varalitinn sinn, fínu draktirnar og hattana. Ég man eftir einu skipti á elliheimilinu þegar ég hrósaði henni fyrir fallega inniskó og hún svaraði: „þeir kalla mig stúlkuna á rauðu skónum, drengirnir hérna.“ Ég er viss um að þeir hafa allir tekið eftir henni því það gerðu flestir hvar sem hún kom. Amma Olga hefur átt stóran þátt í að móta mig sem persónu og hefur kennt mér margt í sambandi við list- ir, tísku og þokka sem ég reyni eftir bestu getu að nýta mér í bæði lífi og starfi. Ég kveð þig með söknuði, elsku langamma mín, en minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar allra. Jóhanna Björg. Langamma var fín frú, falleg, tignarleg, glæsileg og því sem næst konungborin. Í höllinni hennar að Sóllandi voru herbergin fjölmörg og uppfull af fallegum munum frá fjar- lægum löndum sem alls ekki mátti snerta: fílabeinsútskurður, postulín, trémunir og málverk eftir hana sjálfa og aðra í fjölskyldunni og ým- iss konar handverk. Garðurinn var ekki síðri; frumskógur, lystigarður og ævintýraheimur allt í senn, með háum trjám, eitruðum plöntum, kan- ínum og bestu ísbúð í heimi í næsta nágrenni. Amma litla var stórmerkileg og mikil manneskja þrátt fyrir líkam- lega smæð. Hún átti fallegustu fötin, fínasta skartið og bakaði bestu kök- urnar. Kræsingarnar hjá henni voru alltaf eins og hjá kóngafólki, smurða brauðið var vandlega skreytt og morgunkornið borið fram í silfur- skálum. Amma kisa var með stórt hjarta og hugsaði ávallt vel um náungann, ekki síst að allir fengju nóg að borða. Hún var alltaf með alla hluti á hreinu og hikaði ekki við að standa á sínu í þau fáu skipti sem einhverjum datt í hug að mótmæla henni, það gerðist þó ekki oft þar sem vitrari og víðförl- ari konur eru vandfundar. Að vera hjá ömmu Olgu var alltaf eins og að lenda í miðju ævintýri. Vitra, gamla konan, sem átti heima í mikilfenglegri höll, bjó yfir miklum leyndardómum og hafði köttinn Lukku sér til sérstakrar ráðgjafar. Í kringum þau gerðust ótrúlegir hlutir sem sköpuðu fallegar minningar sem aldrei munu gleymast. Sem hinstu kveðju langar mig til að færa langömmu minni þetta ljóð: Fósturlandsins Freyja, fagra vanadís, móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís. Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár. Þú ert lands og lýða ljós í þúsund ár. (Matt. Joch.) Hvíl í friði, amma litla, Esther Ösp. Olga Kristín Stefánsdóttir MOSAIK Hamarshöfða 4 - 110 Reykjavík sími 587 1960 - www.mosaik.is Legsteinar og fylgihlutir Vönduð vinna og frágangur Yfir 40 ára reynsla Sendum myndalista ✝ Ástkær móðir mín, tengdamóðir og amma, UNNUR FRIÐBJARNARDÓTTIR, Dvalarheimilinu Hlíð, áður Víðilundi 14b, Akureyri, verður jarðsungin frá Höfðakapellu, Akureyri, fimmtudaginn 19. ágúst kl. 13.30. Kristján Kristjánsson, Nora Tsai, Hlér Kristjánsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.