Morgunblaðið - 13.09.2010, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 13.09.2010, Blaðsíða 19
Minningar 19 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. SEPTEMBER 2010 sjálfsagða og snjalla leið að velja þá eftir stjórnmálaskoðunum. Frá Al- þýðubandalaginu var valinn Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. Guð- mundur Árni Stefánsson, nú sendi- herra, var valinn fyrir hönd Alþýðu- flokksins. Sjálfstæðismenn fengu eðlilega að velja tvo menn og eftir töfraformúlu stjórnmálanna varð niðurstaðan að leita til okkar Þór- unnar Gestsdóttur. Skemmst er frá því að segja að þátturinn „Í vikulok- in“ varð geysivinsæll. Til að missa ekki af neinu slökktu sumir á ryk- sugunum en aðrir hækkuðu svo í út- varpinu að undir tók í stigagöngun- um. Stjórnendur þáttarins létu það aldrei draga úr ánægju sinni, að á þessum árum var aðeins ein rás og ein útvarpsstöð. Samstarf og vinátta okkar Þór- unnar hófst af þessu tilefni. Þarna var hún komin, fimm barna einstæð móðir á fertugsaldri, harðdugleg og frumleg, glaðlynd og brosandi. Út- varpshlustendum þótti strax vænt um hláturmildina og léttleikandi röddina. Pólitík bar aldrei á góma í samstarfi þessara fjórmenninga sem raðað var saman með þessum rök- rétta hætti en góð vinátta myndaðist sem haldist hefur æ síðan. Síðar unnum við Þórunn saman á Vísi og DV, á meðan það var enn sæmandi blað, og vináttubönd treystust. Þórunn starfaði víða um ævina, lengi við blaðamennsku og ritstjórn og á vettvangi Sjálfstæð- isflokksins, i borgarstjórn og flokks- starfi. Hún bætti við sig námi, starf- aði á Ísafirði og varð meðal annars sveitarstjóri í Borgarfjarðarsveit eitt kjörtímabil. Allan tímann gætti hún að heimilinu og börnunum fimm með móðurlegum og ljúfum aga. Það var víða „þörf fyrir Þórunni“ eins og sagði í ógleymanlegu og kjarkmiklu slagorði í prófkjörsframboði hennar í Reykjavík. Þórunn Gestsdóttir var athafna- söm og dugmikil kona með jákvæð viðhorf til lífsins þrátt fyrir ýmsar erfiðar mótbárur. Hún hafði skap- ferli og framgöngu sem bætti og gladdi samferðafólk. Það var gott að tilheyra þeim hópi. Blessuð sé minning Þórunnar Gestsdóttur. Óskar Magnússon. Fortíðarþrá í blámóðu rúmlega hálfrar aldar getur stundum brengl- ast og blindað sýn á veruleikann. Engu að síður get ég fullyrt, að Reykjavík var ekki óskemmtileg borg þeim vina- og kunningjahópi, sem við Tóta áttum samleið með á sjötta áratug síðustu aldar. Rúntur- inn var stikaður, Skalli í Lækjargötu var viðkomustaður, Hótel Borg heimsótt um helgar og fyrsti ham- borgarastaðurinn, sem var við hlið- ina á Skalla, vinsæll dvalarstaður. Bill Haley þandi saxófóninn í Aust- urbæjarbíói og rokköldin gekk í garð með laginu „Rock around the clock“. Ford Fairline var glæsileg- asti eðalvagninn á götunum. Þetta voru ár áhyggjuleysis og glaðværð- ar. Allur heimsins tími var framund- an, endalaus hamingja og gleði og tækifærin við hvert fótmál. Síðan tvístraðist þessi hópur, vinátta sumra hélt og heldur enn, en örlög einstaklinganna urðu jafn marg- breytileg og litrófið. Margir eru brottgengnir og nú er Tóta farin. Þórunn Gestsdóttir, sem ávallt var kölluð Tóta, skar sig nokkuð úr stúlknahópnum. Svipmót hennar var sérstakt og óvenjulegt. Hún var kát að eðlisfari og hlátur hennar smit- andi. Hún var hreinskiptin og góður félagi, og tókst á við lífið af miklum dugnaði og eljusemi, starfaði lengi utan heimilis og tók að sér marg- vísleg trúnaðarstörf. Börnum sínum var hún hin besta móðir og átti ást þeirra og umhyggju. Hún skilaði miklu og merkilegu hlutverki með sóma og sann. Þegar Tóta greindist með Alzheimer-sjúkdóminn fyrir nokkrum árum virtist hún taka því með jafnaðargeði, þótt sá dómur hljóti að skelfa hverja sál, a.m.k. um stundarsakir. Á unglingsárum áhyggjuleysis voru þessi örlög henn- ar Tótu, og líknandi máttur dauðans, óhugsandi. En nú ganga nýjar kyn- slóðir rúntinn og eiga allt lífið fram- undan. Hringrásin eilífa stöðvast ekki. Ég kveð Tótu með vísu Theo- dóru Thoroddsen. Förlast máttur fót og hönd, fúinn þáttur bindur önd. Við heiminn sátt ég held frá strönd, hafið er blátt við sólarrönd. Árni Gunnarsson. Kæra Þórunn. Þá er komið að leiðarlokum, þú búin að skipta um heimkynni. Þú bú- in að lifa fjölbreyttu, áhrifaríku og fallegu lífi. Við hittumst fyrst fyrir um það bil fimmtíu árum. Þú varst þá í Kvenna- skólanum, ég í Verslunarskólanum. Leiðir skildi um tíma. Þú fórst til Danmerkur í módelstörf. Ég hóf störf hjá Loftleiðum. Ég man alltaf eftir því þegar þú komst til baka að tveim árum liðnum. Þá var ég vakt- stjóri á Reykjavíkurflugvelli, en þá fór allt flugið um hann. Í þá daga var móttaka flugvéla talin frekar gam- aldags. Ég fór upp landganginn til að opna vélina. Hver var fyrsta mann- eskja, sem ég augum barði? Það varst þú, gullfalleg að vanda. Mér brá og hugsaði, þetta verð ég að end- urnýja og það strax. Ég hringdi í þig um kvöldið, bauð í bíó. Síðan liðu tuttugu yndisleg ár, fimm yndisleg vel gerð börn. Það hefðu fáar konur, aðrar en þú, staðið sig jafn vel. Fæða fimm börn á 10 árum með sæmd. Við nutum lífsins og barnanna okkar, í blíðu og stríðu þennan tíma. En að lokum misstigum við okkur, leiðir skildi. Ég vil að leiðarlokum þakka þér samfylgdina. Víð áttum dásamlegt líf meðan það varði. Megi þér, börnunum og barna- börnum okkar vegna vel um ókom- inn tíma. Það eiga þau skilið eftir að eiga slíka móður og ömmu. Sem þú varst þeim alla tíð. Að svo sögðu, megi Guð taka vel á móti þér. Með kærri kveðju frá mér. Guðmundur Arason. Kær vinkona hefur kvatt. Ég hef saknað hennar í tvö ár, eða síðan að hún hóf sína för um ljóssins heima. Við kynntumst í félagsstarfi flokksins okkar, á blómaskeiði hans, að okkar áliti. Hún formaður Lands- samtakanna og ég formaður Hvatar. Þá var margt brallað og fátt okkur óviðkomandi er kom að skemmtileg- um uppákomum eða afstöðu til manna og málefna. Það var gaman að vinna með Þórunni, áhuginn og krafturinn og framkvæmdagleðin og eðlilegt og sjálfsagt að leggja sitt af mörkum við hvaðeina sem gera þurfti. Af ferðalögum stendur kvenna- ráðstefnan í Osló upp úr minninga- skjóðunni, myndaalbúmið bregður upp minningum um góðar vinkonur og góða vini, þar sem gleði og gáski krydduðu tilveruna og tilefni til mannfagnaða voru mörg og merki- leg. Þórunn var góð vinkona, alltaf ná- læg, þótt fjöll og firðir skildu að, jafnvel höf og álfur. Ég horfi til baka og þakka fyrir heimsóknirnar, göngutúrana og ökuferðirnar og könnunarleiðangrana, þegar sam- ræður og samvera gefa augnablikinu gullið skin í minningunni. Fjölskyldu Þórunnar votta ég samúð mína. María E. Ingvadóttir. Mín kynni af Þórunni hófust þegar við fjölskyldan fluttum vestur á Ísa- fjörð haustið 1996. Þá var hún í starfi hjá Ísafjarðarbæ. Það hafði vakið at- hygli mína nokkrum misserum áður þegar hún réð sig vestur enda var Þórunn oft áberandi í þjóðlífinu sem blaðamaður og þátttakandi í stjórn- málum. Mér fannst það merki um framsýni hennar sjálfrar og þeirra sem réðu hana á þeim tíma að fara vestur og takast á við nýja hluti þar. Hún lét að sér kveða í starfi, kom með hugmyndir og framkvæmdi þær, stundum í mótbyr en þraut- seigja einkenndi hana, hún hafði oft farið móti vindi og yfirleitt komist þangað sem hún ætlaði sér. Sumu af því sem við sjáum fjallað um í dag átti hún stóran þátt í. Má þar nefna komu skemmtiferðaskipa til Ísa- fjarðar sem fjölgað hefur ár frá ári. Þar vann hún ásamt fleirum að því að leggja grunninn sem við byggjum á í dag. Hún lagði einnig fram fjölda hugmynda er vörðuðu ferðaþjón- ustuna enda reynd á því sviði sem og á sviði fjölmiðlunar. Frumkvöðla- hugsun Þórunnar og víðtæk reynsla voru til góðs fyrir samfélagið sem hún kaus til búsetu í nokkur ár. Síð- ustu mánuðina sem Þórunn bjó á Ísafirði unnum við töluvert saman. Þórunn hætti hjá Ísafjarðarbæ og kom til okkar sem þá héldum um þræði Atvinnuþróunarfélags Vest- fjarða og skipulagði stóra atvinnu- vegasýningu á Ísafirði sem heppn- aðist afar vel enda mikill metnaður hjá Þórunni að vinna allt vel sem hún kom að. Mér er jafnframt minnisstætt verkefni sem hún vann í tengslum við nám sem hún stundaði. Þar tengdi hún saman námið, verkefni fyrir Atvinnuþróunarfélagið og að- stæður og sérstöðu Vestfjarða. Verkefnið sem hún skilaði fjallaði um ræktun bláberja á ökrum fyrir vestan í því skyni að auka fram- leiðslu svæðisins, nýta sérstöðuna og skapa ný verðmæti og störf. Hver veit nema það verkefni verði ein- hvern tíma að veruleika. Eftir störf hennar vestra tók Þór- unn að sér starf sveitarstjóra Borg- arfjarðarsveitar og sinnti því í fjögur ár og lagði sig alla fram við það eins og annað sem hún tók sér fyrir hend- ur. Ég man að hún velti mikið fjall- skilum fyrir sér einhverju sinni er við hittumst en fjallskil voru nýr málaflokkur fyrir henni þótt hún þekkti sveitarstjórnarmálin og stjórnmálin vel. Eftir Borgarfjörð- inn tóku við önnur störf í borginni sem hún hafði yfirgefið í nokkur ár, hugsanlega fleiri en hún hafði sjálf átt von á í upphafi. Fjarlægðin á milli okkar eftir flutning Þórunnar að vestan skar ekki á vinatengsl sem höfðu orðið til við kynni og samstarf á Ísafirði. Þeg- ar óvæginn sjúkdómur Þórunnar tók völdin varð hins vegar til fjarlægð sem ekkert varð ráðið við. Ég þakka fyrir kynni mín af Þórunni Gests- dóttur, hún gaf mikið af sér í við- kynningu og bætti umhverfi sitt. Börnum hennar og öðrum aðstand- endum sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur. Halldór Halldórsson Ísafirði. Í dag kveðjum við Lionsfélagar á Íslandi Þórunni Gestsdóttur fyrrver- andi fjölumdæmisstjóra hreyfingar- innar. Einstök manneskja, glæsilegt prúðmenni og mikill félagi. Við minnumst hennar í djúpri þökk og virðingu. Við erum reynslunni ríkari vegna þeirra kynna og samvinnu við hana. Það er erfitt að kveðja góðan fé- laga með fáum orðum. Við áttum því láni að fagna að kynnast Þórunni vel og starfa með henni í Lionshreyfing- unni. Við vorum saman í forystu hreyfingarinnar í mörg ár. Hún var glæsilegur fulltrúi Lions hérlendis og erlendis og sinnti mörgum trún- aðarstörfum innan hreyfingarinnar. Hún vann þar gott og fórnfúst starf. Hún var heiðarlegur samstarfsmað- ur og félagi, til hennar var gott að leita. Eiginleikum Þórunnar má lýsa í orðunum vandvirkni og fáguð fram- koma, sem allstaðar nýtur sín vel, ekki síst í okkar hreyfingu, Lions- hreyfingunni. Margs er að minnast: fundirnir hérlendis, ferðirnar erlendis, mót- taka erlendra gesta og árlegar heim- sóknir alþjóðaforseta Lionshreyf- ingarinnar. Þegar hún var sveitarstjóri heimsóttum við hana í Borgarfjörðinn. Veður var gott og alþjóðaforseti Lions, Jim Ervin, veitti henni æðstu orðu hreyfingar- innar fyrir einstök störf sem ritstjóri Lionsblaðsins og einstakt starf inn- an hreyfingarinnar. Móttökurnar hjá henni urðu honum ógleymanleg- ar og frásagnir Þórunnar um störf sín og Borgarfjörðinn geymir hann í minningum sínum. Ég flyt börnum hennar samúðarkveðjur frá honum. Þekkt var Þórunn fyrir góð störf sem ritstjóri Lionsblaðsins á Íslandi og þar kom sér vel reynsla hennar við framsetningu á blaðinu. Hún bjó yfir næmum skilningi á frásögn og framsetningu og kenndi okkur að setningar yrðu að vera gagnorðar og hnitmiðaðar. Hún kunni vel að koma frásagnarlistinni til skila. Hún bjó yfir næmum skilningi á íslensku máli. Síðustu árin voru vinkonu okkar erfið en hún hélt reisn sinni og myndugleika og ræddi sjúkdóm sinn af einlægni. Hún sinnti ritstjóra- starfi Lionsblaðsins og fjölumdæm- isstjórastarfi af dugnaði og festu. Þar naut hún styrks frá fjölskyldu sinni og oft minntist hún barna sinna og aðstoðar þeirra. Við Lionsfélagar á Íslandi kveðj- um Þórunni, vin okkar, með miklum söknuði. Lionshreyfingin á Íslandi hefur misst einn sinn tryggasta og virtasta félaga. Missir fjölskyldunn- ar er þó mestur. Við viljum votta börnum hennar og fjölskyldunni þeirra okkar dýpstu samúð. Minning Þórunnar mun lifa með okkur um alla tíð. Fyrir hönd Lionshreyfingarinnar, Jón Bjarni Þorsteinsson, fyrrverandi alþjóða- stjórnarmaður, Kristinn Hannesson, fjölumdæmisstjóri. Kveðja frá Lionsklúbbnum Eir Í dag kveðjum við kæra vinkonu og félaga, Þórunni Gestsdóttur, glæsilegan fulltrúa innan Lions sem utan. Lionessuklúbburinn Eir var stofnaður á vordögum 1984 og var Þórunn fyrsti formaður hans. Það var okkur ómetanlegt að stíga fyrstu skrefin innan hreyfingarinnar undir handleiðslu hennar. Hún var ætíð svo jákvæð, hvetjandi og ráðagóð. Þórunn barðist af miklun krafti og metnaði fyrir því að Lionessur fengju sömu réttindi og Lionsmenn innan hreyfingarinnar og náðist það markmið á alþjóðaþingi Lions árið 1987. Lionsklúbburinn Eir, sem stofn- aður var 12. janúar 1988, er fyrsti kvennaklúbburinn á Íslandi og erum við Eirarkonur stoltar af því og þakklátar Þórunni fyrir hennar störf. Gegndi hún ótal embættum fyrir Lionshreyfinguna, ávallt með einstökum sóma. Hún var okkur góð fyrirmynd í hvívetna og lærðum við mikið af henni. Öflugt starf hefur ætíð verið í okkar klúbbi og var alltaf gott að hafa Þórunni með, jafnt í gleði og sorg. Hvar sem hún bjó tók hún á móti okkur með sínu hlýja og milda viðmóti og gefandi nærveru. Viljum við minnast hennar með þökk fyrir allt og allt. Við sendum fjöl- skyldu Þórunnar okkar innilegustu samúðarkveðjur. Steinunn, Guðríður og Margrét. Kveðja frá Landssambandi sjálfstæðiskvenna. Látin er Þórunn Gestsdóttir, fyrr- verandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Þórunn var for- maður LS árin 1985-1989. Hún átti einnig sæti í miðstjórn Sjálfstæðis- flokksins, var borgarfulltrúi og gegndi fleiri trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þórunn var glæsileg og vel gefin kona og hún naut virðingar í hópi sjálfstæðiskvenna. Hún var skör- ungur og átti auðvelt með að hrífa fólk til samstarfs. Landssambands- konum er efst í huga þakklæti til Þórunnar fyrir störf hennar í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ástvinum hennar sendum við kærar samúðarkveðjur. Blessuð sé minningar Þórunnar Gestsdóttur. Drífa Hjartardóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. ✝ Elsku drengurinn okkar, GUÐMUNDUR ÞÓR SIGURÐSSON, Smárarima 75, lést mánudaginn 6. september. Jarðarförin verður gerð frá Grafarvogskirkju þriðjudaginn 14. september kl. 14.00. Halldóra Kristín Halldórsdóttir,Sigurður Brynjar Guðmundsson, Jón Valdimar Sigurðsson, Þorbjörg Birgisdóttir, Halldór Brynjar Sigurðsson, Thelma Björk Bogadóttir, Kristinn Freyr Sigurðsson, Kristín Eva Ólafsdóttir, Unnur Jónsdóttir, Halldór H. R. Friðjónsson, Arnar Freyr, Alexander Þór, Kristín Björk og frændsystkini. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SIGURÐUR ÓLAFSSON slökkviliðsmaður, Skipalóni 26, Hafnarfirði, lést á heimili sínu laugardaginn 4. september. Jarðarförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði þriðjudaginn 14. september kl. 13.00. Ingunn Elísabet Viktorsdóttir, Viktor Rúnar Sigurðsson, Ásthildur Elín Guðmundsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, Sæmundur Bjarnason, Guðrún Lísa Sigurðardóttir, Viðar Utley, barnabörn og barnabarnabarn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma. GUÐRÚN MAGNÚSDÓTTIR frá Hálsum, Skorradal, lést 8 september. Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Börn, tengdabörn, og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.