Morgunblaðið - 25.11.2010, Qupperneq 25
MINNINGAR 25
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. NÓVEMBER 2010
✝ Eyjólfur Karlssonfæddist á Ak-
ureyri 3. nóvember
1952. Hann lést á
krabbameinsdeild
Landspítalans 14.
nóvember 2010.
Hann var sonur
hjónanna Guðnýjar
Aradóttur og Karls
Jónassonar. Systkini
Eyjólfs eru: Karl, f.
1945, Björg, f. 1946,
Rannveig, f. 1948, d.
19. júlí 1981, Ari, f.
1950, Björn, f. 1956,
og Gísli Stefán, f. 1959.
Eyjólfur kvæntist Kristjönu Júlíu
Jónsdóttur 5. október 1974, for-
eldrar Kristjönu eru Unnur Jó-
hannsdóttir og Jón Gunnar Jó-
hannsson. Eyjólfur og Kristjana
eignuðust eina dóttur, Huldu Lind,
f. 10. september 1974. Hulda Lind
giftist Ólafi Sigmundssyni 20. októ-
ber 2001, þau hafa eignast fjögur
börn: Björn Húna, f. 1. febrúar
2001, d. 8. nóvember 2002, dæt-
urnar eru: Kristjana Lind, f. 24. maí
2002, Sigríður Lind, f. 26. maí 2005,
og Unnur Birna, f. 2. nóvember
2006. Fyrir hafði Hulda Lind eign-
ast soninn Eyjólf Karl, f. 16. júní
1993, faðir hans er
Gunnar Júlísson. Eyj-
ólfur Karl er að
mestu leyti alinn upp
hjá móðurforeldrum
sínum Kristjönu Júlíu
og Eyjólfi.
Eyjólfur ólst upp á
Akureyri fyrstu átta
ár ævi sinnar í stórum
systkinahópi, en árið
1960 fluttist fjöl-
skylda Guðnýjar og
Karls til Kópavogs
þar sem Eyjólfur lauk
hefðbundinni skóla-
göngu. Ungur gerðist Eyjólfur far-
maður á skipum Eimskips og var í
siglingum um nokkurra ára skeið,
lengi vann hann sem deildarstjóri
hjá Asiaco sem var umsvifamikið
innflutningsfyrirtæki um margra
ára skeið, hann vann einnig í fjöl-
skyldufyrirtækinu Vörumerkingu
ásamt bræðrum sínum og systrum.
Hin síðari ár stundaði Eyjólfur
sjálfstæðan atvinnurekstur og
starfaði mikið erlendis í sambandi
við þau viðskipti, m.a. í Kína og
fleiri löndum í Austurlöndum fjær.
Útför Eyjólfs fer fram frá Hafn-
arfjarðarkirkju í dag, 25. nóvember
2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Þá er Eyfi bróðir allur. Frá því ég
var smágutti var Eyfi aldrei langt
undan, og var ég svo heppinn að vera
með honum í sumarbúðum á Ástjörn
snemma á sjöunda áratugnum, þar
var hann reyndur og sá ætíð um að
gæta litla bróður. Seinna fórum við í
sveit til Hornafjarðar og dvöldum
hjá ömmusystrum okkar, Eyfi á
Borg, og ég í Hoffelli, þar hittumst
við oft yfir sumartímann.
Eyfi fór til sjós og sigldi nokkur ár
með Eimskip til Eystrasaltsland-
anna og Rússlands og voru ófáar
sögurnar sem hann sagði okkur frá
þeim ferðum, og allir tóku spenntir á
móti honum við hverja heimkomu,
ekki sakaði að eitthvað góðgæti var
alltaf í farteski hans og var hann
ætíð örlátur.
Hann starfaði síðar u.þ.b. áratug
hjá Asiaco og í framhaldi starfaði
Eyfi sjálfstætt í innflutningi og sölu
allt til loka. Eyfi var víðförull um
heiminn og hafði frá mörgum
skemmtilegum uppákomum að
segja.
Það er óhætt að segja að hann var
með skemmtilegri mönnum og uppá-
tæki hans og húmor einstakur, það
var alltaf hægt að reikna með ein-
hverju sérstöku þegar Eyfi var með
í ferðalögum eða gleðskap.
Elsku Nana, Hulda Lind og börn,
Eyfa verður sárt saknað, en við get-
um yljað okkur við minningar um
frábæra tíma sem við áttum saman.
Björn Karlsson og
Svanhildur Þórarinsdóttir.
Þegar ég sat hjá þér laugardaginn
13. nóvember síðastliðinn fannst
mér sem nú hlyti þetta allt að fara að
lagast, meinið hverfa, og við mund-
um eiga góðar stundir saman um
ókomna tíð, það hvarflaði ekki að
mér að það væri í síðasta sinn sem
ég sæi þig á lífi en svona er vonin
sterk og getur blekkt mann. Lífið
rennur hjá og maður tók varla eftir
öllum góðu stundunum sem við
bræðurnir höfum átt því alltaf var
eitthvert nýtt grín í gangi. Þinn ein-
staki hæfileiki til að sjá spaugilegar
hliðar á öllu er nokkuð sem ætti að
lögleiða og kenna í grunnskólum.
Hvort heldur það voru veiðitúrar,
utanlandsferðir, viðskiptaferð eða
hvað það nú annars var sem við
gerðum saman þá soguðust fyndnar
uppákomur að þér og veit ég ekki
um neinn sem kann að nýta sér þær
eins vel og þú gerðir. Ég gæti örugg-
lega skrifað heila bók um atvik þar
sem þér tókst að snúa háalvarlegum
viðburði upp í fyndið atvik en þar
sem ég kann ekki að skrifa bók ætla
ég bara að geyma þessar minningar
með sjálfum mér og við getum svo
rifjað þetta allt upp er við hittumst
um síðir.
Elsku Eyfi minn, eins og þú sagðir
alltaf „allir dagar eru góðir dagar“
þá þykist ég þess fullviss að þér líður
núna vel hjá afastráknum þínum
honum Húna litla. Ég kveð þig með
söknuði elsku bróðir og þakka þér
samfylgdina.
Elsku Nana, Eyjó, Hulda Lind,
Óli og litlu afastelpurnar, megi allar
góðar vættir veita ykkur styrk og
gleði við góðar minningar um góðan
dreng.
Ari bróðir.
Kæri Eyvi, mig langar til að
þakka langa og góða samfylgd í
gegnum árin, leiðir okkar eiga
örugglega eftir að liggja saman á ný.
Allar ferðirnar, bíltúrarnir, símtölin,
skemmtilegi húmorinn, allt þetta vil
ég þakka með þessum orðum:
Far þú í friði, friður Guðs þig
blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Hvíl í friði.
Þinn vinur,
Einar Gústafsson.
Í dag verður Eyjólfur Karlsson
borinn til hinstu hvílu. Aðdragand-
inn var ekki langur, fyrir nokkrum
mánuðum var Eyvi eins og við mun-
um hann, jákvæður, glaður og bjart-
sýnn. Þessum eiginleikum hélt hann
ótrúlega vel til hinstu stundar, því
minnir fráfall hans okkur enn betur
á að við erum ávallt berskjölduð þeg-
ar kallið kemur. Alltaf erfitt og sárt
og illskiljanlegt þegar því er beint að
mönnum fullum orku og lífsgleði.
Margs er að minnast á langri leið,
sem lá upphaflega saman við
skondnar kringumstæður sem við
höfðum jafnan gaman að rifja upp.
Þá vorum við kornungir menn fyrir
einum 40 árum. Sviðið var rústað
brúarþakið á vertíðarbátnum m/b
Pétri Jónssyni, sem við vorum
fengnir til að mála af verktökunum
Daðasonum, Rúnari og Kristjáni.
Eitthvað greindi okkur á um starfs-
aðferðir og vildi hvorugur lúffa. Það
varð að kalla til þá ágætu bræður,
sem leystu málið þannig að Salómon
konungur hefði mátt vera fullsæmd-
ur af. Á þeim áratugum sem gengu í
garð urðu ágreiningsefnin ekki
fleiri, en ánægjustundirnar þess fjöl-
skrúðugri, bæði innanlands og utan,
með konum okkar eða einir saman.
Við áttum mörg svipuð áhugamál,
sum harla skrítin, líkt og óseðjandi
forvitni um launhelgar og stríðs-
glæpi Þriðja ríkisins. Við ákváðum
því að fara í pílagrímsför um Pólland
þvert og endilangt og sjá með eigin
augum útrýmingarbúðir nasista og
fleiri minnismerki um skepnuskap
mannsandans.
Það var engin ástæða til að æsa
sig upp, við létum loks verða af ferð-
inni um áratug síðar og komum
margs vísari til baka. Ákveðin var
önnur ferð, vitanlega í kynlegri
kantinum, að sjá hverfandi ummerki
gamla Járntjaldsins. Ólíklegt að hún
verði farin á hefðbundinn hátt.
Það er mikill söknuður þegar góð-
ir drengir falla í valinn, ekki bætir úr
skák í blóma lífsins. Þá er gott fyrir
þá sem eftir lifa og unna Eyjólfi
Karlssyni, að rifja upp óteljandi
minningar um einstakan mann.
Hógværa húmoristann, kallaði ég
hann stundum, þetta háttvísa og yf-
irvegaða prúðmenni, hann var nefni-
lega ekki allur þar sem hann var séð-
ur.
Eyvi var bráðfyndinn og
skemmtilegastur félaga undir sínu
rólyndislega yfirbragði – sem var
einkar varhugavert að taka alvar-
lega. Þá var ekki ónýtt að leita til
hans ráða því hann var alltaf ráða-
góður og bjartsýnn og uppgjöf var
nokkuð sem var ekki til í hans orða-
bók.
Við hjónin áttum margar góðar
stundir með Eyva og Nönu sem við
erum ákaflega þakklát fyrir og ófá,
fræg maraþonsímöl þar sem rætt
var um allt milli himins og jarðar, en
Eyvi var hugmyndaríkur, skarp-
skyggn og lét ekki sitja við orðin
tóm. Nú getur maður aðeins hneigt
höfuðið og þakkað fyrir að hafa átt
slíkan vin. Það er huggun harmi
gegn, þeir eru vandfundnir.
Kæra Nana mín, við Rannsý og
Stefán Óli sendum þér og fjölskyld-
um ykkar og vinum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
„Oh Danny boy, the pipes, the pipes
are calling …
Sæbjörn Valdimarsson.
Við Eyjólfur Karlsson, eða Eyfi
eins og við vinirnir kölluðum hann
ávallt, kynntumst á unglingsárunum
i Gagnfræðaskóla Kópavogs. Við
urðum fljótt góðir vinir enda var
Eyfi skemmtilegur og traustur fé-
lagi. Eyfi var mikill karakter og það
hefur mótað hann að alast upp í
stórum og fjörugum systkinahópi.
Mér er minnisstætt fallegt heimili
foreldra hans í Melgerði, þar sem við
vinir Eyfa vorum eins og heimaln-
ingar, enda alltaf tekið vel á móti
okkur af foreldrum hans. Það var
ýmislegt brallað saman á okkar
yngri árum og þó að aldurinn færðist
yfir hélst vinátta okkar óbreytt.
Seinna unnum við Eyfi saman í fyr-
irtæki föður hans Vörumerkingu,
ásamt því að stofna prentfyrirtæki
saman.
Eyfi var mikill húmoristi og sá yf-
irleitt spaugilegar hliðar á málum.
Hann var alltaf pollrólegur, ég man
ekki eftir að hann hafi nokkurn tím-
an breytt skapi, þó að ýmislegt hafi
stundum gengið á hjá okkur strák-
unum. Eyfi virtist aldrei óttast neitt
og mat alla hluti rólegur og yfirveg-
aður. Við vorum á tímabili báðir á sjó
og frá þeim tíma er mér minnisstætt
frækilegt björgunarafrek sem Eyfi
vann í Reykjavíkurhöfn, þegar hann
kastaði sér á eftir manneskju sem
hafði lent í sjónum, án þess að hika, í
nístingskulda og krapi.
Eyfi starfaði lengstum sjálfstætt
og helgaði sig viðskiptum, en þau
léku í höndum hans. Hann var sann-
kallaður frumkvöðull og lét drauma
sína rætast, óragur að breyta til og
að prófa eitthvað nýtt. Hann sá
tækifæri alls staðar og fylgdi sínum
málum vel eftir enda fljótur að
ávinna sér traust, hvort sem hann
var að kaupa eða selja. Þetta kom
fram strax á yngri árum, alltaf voru
einhverjar pælingar í gangi og yf-
irleitt áður en við vinirnir vissum af
var Eyfi búinn að framkvæma á
meðan við vorum enn að pæla. Hann
var alltaf fyrstur til að eignast það
sem okkur dreymdi um, hvort sem
um var að ræða mótorhjól, bíl eða
jafnvel íbúð.
Eftir að við stofnuðum fjölskyldur
héldum við alltaf sambandi og er ég
þakklátur fyrir það í dag. Við hjónin
höfum átt margar ánægjulegar
stundir með Eyfa og konu hans
Nönu. Það er sárt að horfa á eftir
góðum vini kveðja þennan heim fyrir
aldur fram, en ég er þakklátur fyrir
þann tíma sem við áttum saman og
að hafa átt Eyfa sem vin.
Elsku Nana og Hulda Lind, missir
ykkar er mikill en um leið er margs
að minnast. Megi minningin um góð-
ar stundir, með góðum dreng, vera
ykkur leiðarljós á erfiðum tímum.
Blessuð sé minning vinar míns Eyj-
ólfs Karlssonar.
Brynjólfur Sigurðsson
og fjölskylda.
Kær vinur er nú fallinn frá og
verður hans sárt saknað. Ég er bú-
inn að þekkja Eyjólf Karlsson í tæpa
þrjá áratugi og er svo heppinn að
geta kallað hann einn af mínum allra
bestu vinum á lífsleiðinni. Ógleym-
anlegar eru stundir sem við höfum
átt saman í gegnum árin en ég er
sérstaklega þakklátur fyrir þær
stundir sem við áttum saman í sum-
ar. Ég vil að lokum senda fjölskyld-
unni mínar innilegustu samúðar-
kveðjur. Hvíldu í friði.
Þinn vinur,
Ævar Einarsson.
Eyjólfur
Karlsson
✝ Stefanía Kárs-dóttir Mansfield
fæddist í Reykjavík
30. maí 1952. Hún
lést á sjúkrahúsi í
Perth í Ástralíu 13.
nóvember 2010.
Foreldrar hennar
eru hjónin Kár Guð-
mundsson, f. 30.5.
1925 í Flekkuvík á
Vatnsleysuströnd, og
Júlía Einarsdóttir, f.
7.3. 1932 í Tungugröf
í Strandasýslu. Þau
eru búsett í Perth í
Ástralíu. Stefanía var elsta barn
foreldra sinna. Systkini hennar
eru: 1) Kristinn, samfeðra, f. 4.8.
1950, kvæntur Ingibjörgu Leós-
dóttur, þau eru búsett á Íslandi. 2)
Súsan Freydís, f. 9.9. 1955, gift
Brian Harvey, búsett í Ástralíu. 3)
Signý, f. 25.3. 1958, gift John Dic-
kie, búsett í Ástralíu. 4) Helga
Björg, f. 10.12. 1959, í sambúð með
Peter Weare og búsett í Ástralíu.
5) Benedikt Jóhannes, f. 2.11. 1961,
búsettur í Ástralíu.
Stefanía skilur eft-
ir sig eiginmann til
38 ára, Terence
Keith Mansfield, f.
2.8. 1951, og börn
þeirra, sem eru 1)
Kris Terence, f. 10.8.
1974. Kona hans er
Melissa, f. 12.7. 1977.
Þau eiga soninn Jack
Aubrey. 2) Jodie
Fiona, f. 27.3. 1976.
Hennar maður er
Jeff Appleton, f. 15.6.
1976. Börn þeirra
eru: Jacinta, Ísabelle, Tory og Kel-
don.
Stefanía bjó á Íslandi fyrstu tvö
æviárin, en flutti þá með foreldrum
sínum til Kanada. Þau fluttu aftur
til Íslands árið 1959 og bjuggu í
Kópavogi til ársins 1963 er þau
fluttu til Akraness. Árið 1968 tók
fjölskyldan sig aftur upp og flutti
til Ástralíu þar sem þau búa enn.
Útför Stefaníu fór fram í Perth
19. nóvember 2010.
Ég var lánsöm að eiga Stebbu
systur mína sem kæra vinkonu og
minn besta trúnaðarvin.
Stebba var sú sem dreif hlutina
áfram, það þurfti ekki að biðja
hana, hún vissi alltaf hvað gera
þurfti og framkvæmdi án orðleng-
inga. Hún var kletturinn sem
mamma og pabbi gátu treyst á, sér-
staklega á fyrstu árunum okkar hér
í Ástralíu.
Ég bar ótakmarkaða virðingu
fyrir Stebbu systur. Hún var svo
lagin í höndunum, hvort sem það
var saumaskapur, matseld eða eitt-
hvað sem þurfti lagni við, hún gerði
það vel.
Ég var svo heppin að fá að búa
hjá Stebbu og Terry í Darvin í fjóra
mánuði árið 1977, þegar þau bjuggu
þar. Það var yndislegt, því þá fékk
ég líka tækifæri til að kynnast börn-
unum þeirra, Kris og Jodie, og vin-
skapur okkar systra efldist.
Það var Stebba systir sem ég tal-
aði fyrst við eftir að Sarah mín
fæddist og það var hún sem valdi
nafnið Sarah Nicole … ég hafði ætl-
að að nefna hana Freyju, en Stebba
fékk að sjálfsögðu að ráða því hún
var jú stóra systir mín og viturri en
ég.
Stebba og Terry hafa reynst mér
alveg óskaplega vel. Þau hafa alltaf
verið til staðar, þegar ég hef þurft á
því að halda.
Það eina sem skyggði á þegar ég
og stelpurnar mínar fluttum til Ís-
lands árið 1997 var að þurfa að yf-
irgefa fjölskyldu og vini, sérstak-
lega mína bestu vinkonu. Stebba og
Terry komu svo og heimsóttu okkur
árið eftir og við áttum yndislegar
fjórar vikur saman á gamla góða Ís-
landi. Við ferðuðumst víða og bröll-
uðum margt.
Á þessum tíma var verið að klára
gerð jarðganga undir Hvalfjörðinn.
Daginn sem þau voru opnuð var
fólki boðið að ganga, hlaupa eða
hjóla þessa rúmlega 5 km vega-
lengd. Þetta afrekuðum við og feng-
um að launum medalíu og bol til
minningar. Þetta var erfitt og hálf-
gerð geggjun á þeim tíma … eða
það fannst Stebbu minni, en minn-
ingin er ljúf.
Við fórum líka bátsferð um Jök-
ulsárlón sem við minnumst sem æv-
intýraferðar. Á lítilli skektu, sigl-
andi innan um ísjaka og heyrðum
brak þeirra og bresti, yfirnáttúr-
legt.
Ég grét í tvo daga eftir að Stebba
og Terry yfirgáfu Ísland eftir þetta
fjögurra vikna frí. Ég flutti svo aft-
ur heim til Ástralíu eftir tæp tvö ár
á Íslandi og það var yndislegt að
vera aftur í nálægð við systur mína.
Stebba hélt upp á fertugsafmælið
mitt fyrir mig árið sem ég sneri aft-
ur heim frá Íslandi og hún gerði það
með stæl.
Við systurnar fjórar förum reglu-
lega saman í helgarfrí. Bara við
fjórar og við njótum þess í botn.
Stebba með tarot-spilin, góður mat-
ur og áströlsk eðalvín, stelpumynd-
ir í sjónvarpinu og íslensku stelp-
urnar, dætur þeirra Júllu og Kárs,
njóta sín í botn. Nú hefur fækkað í
okkar góða hópi, Stebba er farin og
hennar verður sárt saknað.
Ég finn til með Terry, sem hefur
verið mér sem bróðir sl. 40 ár, og ég
sendi honum og afkomendum þeirra
Stebbu hugheilar samúðarkveðjur.
Ég vil að lokum senda öllum ætt-
ingjum og vinum bæði í Ástralíu og
heima á Íslandi bestu kveðjur frá
okkur öllum og þakka auðsýnda
samúð okkur til handa.
Stebba, ég elska þig til hins óend-
anlega.
Þín systir,
Helga Björg.
Stefanía Kársdóttir
Mansfield