Morgunblaðið - 19.04.2011, Side 22

Morgunblaðið - 19.04.2011, Side 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. APRÍL 2011 Elsku afi. Það er svo erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okk- ur. Þú sem varst svo hraustur, alltaf hlaupandi og syngjandi og alltaf hress. Vorið var þinn tími. Þegar fuglarnir komu heim og fjörðurinn fékk fallegan lit þá bauðstu okkur systkinunum reglulega á rúntinn. Það var alltaf gaman að rúnta með afa, þótt við værum búin að gleyma mörgu sem afi hafði sagt í síðasta bíltúr þá hafðir þú bara gaman af því að segja okkur aftur frá og stóðst það auðvitað ekki að stríða okkur örlítið á því að muna ekki allt sam- an. Fótboltinn var í uppáhaldi hjá þér og okkur öllum. Við munum eftir fjölda kvöldstunda þar sem rökrætt var aftur og aftur hverjir væru bestir, í þínum huga voru það Manchester United og feng- um við oft að heyra það þegar United-mönnum gekk vel. Það var alltaf stutt í grínið, líka í fót- boltanum og minnumst við þess sérstaklega hvað það var gaman að tala um fótbolta við þig. Að fara á fótboltaleiki með afa var ofboðs- lega gaman. Þú varst yfirleitt eini maðurinn sem heyrðist í á vellin- um, þótt þú værir aftast í áhorf- endaskaranum var ekki nokkur leið að týna þér þar sem þú stóðst Freyr Baldvin Sigurðsson ✝ Freyr BaldvinSigurðsson fæddist í Vest- mannaeyjum 12. ágúst 1943. Hann lést á heimili sínu Fossvegi 19, Siglu- firði, 8. apríl 2011. Útför hans fór fram frá Siglu- fjarðarkirkju 16. apríl 2011. og hvattir þína menn áfram og lést þá heyra það hvernig þeir ættu að fara með boltann – áfram KS. Gamlárskvöld á Hverfisgötunni hjá ömmu og afa voru hátíðin okkar, við þurftum ekki að bíða eftir sprengjunum til miðnættis. Á klukkutímafresti hvíslaðir þú að okkur að við ætt- um að kíkja fram í forstofu og þar fengum við að sprengja nokkra flugelda og halda á blysum en auðvitað mátti ekki segja ömmu og mömmu frá. Við skemmtum okkur líka við að hrekkja ömmu á gamlárs með hurðasprengjum og innibombum með mikilli hjálp frá afa enda voru flestar hugmynd- irnar og sprengjurnar frá þér. Hvergi var meira sprengt af rak- ettum en á Hverfisgötunni hjá þér afi. Við vorum öll svo heppin að fá tækifæri til að vinna með þér og læra af þér. Þú varst svo góður kennari og gerðir það sem við vor- um að læra skemmtilegt með endalausri stríðni og góðu skapi, hvort sem við vorum að læra að setja kló á rafmagnssnúru, leggja raflagnir eða síðustu árin að vinna við fiskvinnslu. Þú hafðir það allt- af að reglu að mæta tímanlega í vinnu og var þá alveg sama hversu snemma við mættum á morgnana þá varst þú mættur. Vinnan byrjaði nefnilega klukkan átta, ekki eina mínútu yfir. Áður en vinnan hófst varst þú þó búinn að taka rúntinn þinn um bæinn, suður á Hól og til baka. Fjölskyldan skipti þig miklu máli. Árlegar ferðir í bústaðinn í Húsafelli eru ógleymanlegar og Gröf verður alltaf staðurinn okk- ar, við hugsum til þín í kvöldsól- inni í Skagafirði. Takk fyrir allt elsku afi, þín er sárt saknað og þú átt alltaf stað í hjörtum okkar. Farðu í friði vinur minn kær. Faðirinn mun þig geyma. Um aldur og ævi þú verður mér nær aldrei ég skal þér gleyma. (Bubbi Morthens) Þín afabörn, Bjarkey Rut, Freyr Steinar, Birkir Fannar og Sigþór Andri. Afi og langafi okkar. Mikið vildi ég af þér læra að aldrei megi nokkurn særa. Því þú ert algjört gæðaskinn elsku besti afi minn. Rakel Rut, Birna Björk, Steinunn Svanhildur, Birgir Bragi, Jón Grétar og Gunnlaugur Orri. Mæður okkar voru fóstursyst- ur, aldar upp að Ysta-Mói í Fljót- um í stórum systkinahópi, þar sem bjuggu amma mín og afi, þar bjó einnig Jónína móðir Helgu móður Freys. Þegar foreldrar Freys slitu samvistir í kringum 1947, þá komu Helga og Freyr í Flókadalinn og dvöldu um skamman tíma í Nesi hjá Sæ- mundi bróður Helgu og fluttu síð- an að Ysta-Mói. Það var svo árið 1950 sem Helga og Freyr fluttu til Siglufjarðar. Ég man vel eftirvæntinguna hjá mér þegar þessi frændi minn var að flytja í bæinn. Það er næst- um eins og það hafi verið í gær, svo sterk er þessi minning hjá mér. Georg á Mói á vörubílnum með Helgu og Frey ásamt búslóð- inni þeirra, stoppar fyrir utan Kirkjustíg 3, þar sem ég var mættur, átti raunar heima þar stutt frá. Ekki var mikið gagn í okkur við að bera inn úr bílnum, því þarna urðu fagnaðarfundir, við strax farnir að leika okkur á lóðinni fyrir sunnan húsið, ekki skemmdi það að í næsta húsi bjó Þorvaldur (Halldórsson) og kom hann strax í leikinn. Eftir það vor- um við þrír miklir leikfélagar. Heimili þeirra Helgu og Freys varð strax mitt annað heimili, ég var þar öllum stundum.Tvö ár í aldursmun eru heilmikið á þess- um aldri, hann fór strax í barna- skólann og eftir að Freyr fór að kynnast fleiri krökkum í bænum, þá var örugglega ekkert sérstakt að hafa mig, þetta yngri, alltaf í eftirdragi, en við þrír vorum góðir leikfélagar og vorum mikið sam- an. Það var mikið frelsi á Kirkju- stígnum, Helga að vinna allan daginn og við alltaf eitthvað að bralla, stundum það sem við átt- um ekki að gera eins og gengur. Þegar við urðum eldri var það ár- visst að fá að fara til Reykjavíkur á haustin, áður en skólinn byrjaði og var það hlutskipti Freys að hafa mig með, þá bjó hann hjá pabba sínum og þar kynntist ég þeim sómamanni, sem hann var. Freyr var afreksmaður í íþrótt- um og var fótbolti þar efstur á blaði. Það var í einni haustferðinni að við vorum rétt komnir til Reykjavíkur að hann var kallaður strax til baka, því KS átti að spila úrlitaleik á Akureyri. Auðvitað þótti mér mikið til koma að hann skyldi kallaður sérstaklega norð- ur í þennan leik, en fannst nú óþarfi að eyða þessum dýrmæta tíma, sem átti að vera í Reykjavík til að spila fótboltaleik á Akureyri. Þetta sýnir best hvaða tilfinningu ég hafði fyrir íþróttum á þessum árum. Seinna varð Freyr virkur í bæjarmálapólitíkinni og var mikill og sannur framsóknarmaður, var mjög trúr skoðunum sínum, talaði máli flokksins út á við, en ef hon- um mislíkaði, sagði hann það þar sem það átti við á flokksfundum. Katrín dóttir hans er nú formaður í Framsóknarfélagi Siglufjarðar og var hann að sjálfsögðu mjög stoltur af því. Íþróttamaður, sem lifir heilbrigðu lífi, heldur sér í formi alla tíð og fellur frá fyrir- varalaust, þetta er ólýsanlegt áfall, hvernig á maður að haga sér? Það veit aðeins einn, sá sem öllu ræður. Ég er viss um að vel er tekið á móti Frey handan móð- unnar miklu, þar er mamma hans, sem elskaði hann svo skilyrðis- laust. Fjölskylda mín sendir Steinunni og fjölskyldunni inni- legar samúðarkveðjur. Björn Jónasson. Föstudaginn 8. apríl sl. lést vin- ur minn og fyrrverandi knatt- spyrnufélagi, Freyr Sigurðsson kaupmaður á Siglufirði, langt um aldur fram. Manni bregður óneit- anlega við þegar ímyndir hreysti og heilbrigðs lífernis falla svo skyndilega frá á besta aldri. Við Freyr vorum félagar á knatt- spyrnuvellinum í upphafi sjötta áratugarins í sennilega einu sterkasta liði sem Knattspyrnu- félag Siglufjarðar hefur teflt fram. Það hefur engu öðru liði fé- lagsins tekist að ávinna sér rétt til þátttöku í efstu deild Íslands- mótsins í knattspyrnu en þessu liði. Að vísu kærðu andstæðingar í úrslitaleiknum, sem höfðu tapað þeim leik hrapallega, á grundvelli þess að einn leikmanna KS hefði verið of ungur. Knattspyrnusam- bandið samþykkti rök andstæð- inganna, sem aldrei hefði gerst í dag, og felldi KS frá þátttöku. Það kom því þegar af þeirri ástæðu ekki til að við Freyr lékjum saman í efstu deild Íslandsmótsins. Önn- ur ástæða var sú að gjörvöll fram- lína liðsins fór burt úr bænum til framhaldsmenntunar strax þá um haustið, þannig að liðið átti í vök að verjast með að endurtaka leik- inn frá fyrra ári. Þetta voru um leið umbrotatímar fyrir Siglu- fjörð, sem var að sigla út úr draumaveröld síldarævintýris í erfiðari kringumstæður. Freyr var forystumaður á sínu sviði. Hann stóð í miðju varnarinnar og skipulagði leikinn á sinn taktíska hátt. Hæfileikar hans og knatt- leikni nutu sín enn betur vegna þess að félagar hans í vörninni sköpuðu með honum þá heild, sem var erfið hvaða andstæðingi sem var. Allir þessir strákar höfðu leikið saman frá unga aldri og það sem þeir höfðu allir reynt saman var að þegar doði og áhugaleysi greip forystumenn KS og við strákarnir vorum í hættu að lenda í hringiðu sinnuleysis og upp- lausnar gripum við til eigin ráða og stofnuðum sjálfstætt félag sem hélt uppi unglingastarfinu. Við buðum til okkar öðrum liðum og fórum sjálfir í knattspyrnuferða- lög á eigin forsendum þar til KS tók við sér aftur. Freyr tók þátt í þessu af lífi og sál. Freyr var alla tíð ímynd hreysti og góðs líkam- legs atgervis. Við gengum eitt sinn hin síðari ár saman í göngu- hópi úr Siglufirði út á Siglunes og var þar yfir fjallskarð að fara. Nokkuð dróst úr hópnum og voru menn misjafnir á fótinn eins og gengur. Sagt var að Freyr og örfáir aðrir hefðu verið það röskir að þeir hefðu sennilega komist á leiðarenda strax daginn áður. Freyr vinur okkar var ekki að tví- nóna við hlutina. Hans hlutverk var að vera fremstur í flokki. Hann var að því leyti líkur öðrum kærum vini, Birgi Guðlaugssyni, sem lék við hlið hans á knatt- spyrnuvellinum í mörg ár. Þeim var einnig skapað að verða fremstir og fyrstir til að safnast til feðranna og er þeirra beggja ákaflega sárt saknað. Við minn- umst Freys sem hugljúfs en ákveðins félaga. Nú er skarð fyrir skildi. Við Bigga flytjum Stein- unni, börnum þeirra og allri fjöl- skyldunni hugheilar samúðar- kveðjur. Jón Sæmundur Sigurjónsson. Ég sá hann fyrst þegar hann kom með foreldrum sínum í Gröf, tveggja ára ærslabelg sem bætt- ist í hóp glaðværra frændsystk- ina, sem dvöldu þar oft sumar- langt. Foreldrar hans voru að flytja til Sauðárkróks frá Vest- mannaeyjum og Sigurður að stofnsetja fyrirtæki í félagi við Árna Jóhannsson stjúpföður minn og fleiri. Hann átti sín fyrstu ár heima á Sauðárkróki. Foreldrar hans slitu samvist- um og flutti Helga móðir hans til Siglufjarðar, þar sem hann ólst upp. Freyr gekk í skóla á Siglu- firði og fór snemma að vinna eins og algengt var með unglinga hér á þessum tíma. Hann ákvað að læra rafvirkjun hjá mér í fyrirtæki sem við Þórir Björnsson rákum árin 1957 til 1966. Hann tók sveinspróf 1966 og fékk meistararéttindi í desember 1971. Breytingar urðu hjá okkur, ég tók við starfi rafveitustjóra Raf- veitu Siglufjarðar, en Þórir fór til Síldarverksmiðja ríkisins og með honum Freyr og Sigurjón Er- lendsson sem einnig var að læra hjá okkur. Í verksmiðjunum þurfti að gera miklar endurbætur á tæknibúnaði og fengu rafvirkjar þar góða þjálfun í faginu. Þegar þessum breytingum lýk- ur stofnar Freyr fyrirtækið Rafbæ í nóvember 1972 ásamt fé- lögum sínum sem fyrir voru hjá Síldarverksmiðjunum. Rafbær var eina rafmagnsfyrirtækið í Siglufirði um árabil, en það hætti starfsemi fyrir tveimur árum. Freyr var afburðaíþróttamað- ur, mjög góður skíðamaður og bar hróður KS í knattspyrnu um allt land. Ég minnist þess að þegar hann var upp á sitt besta í knatt- spyrnunni vildu aðilar frá Akra- nesi fá hann í gullaldarliðið, töldu að það væri sóun að svona góður knattspyrnumaður væri á Siglu- firði, hann ætti heima í fyrstu deild. Freyr var mikill félagsmála- maður og var hann í forustu í íþróttafélögunum og m.a. formað- ur Íþróttabandalags Siglufjarðar um tíma. Hann skipaði sér í raðir framsóknarmanna og var í ótal nefndum á vegum Siglufjarðar- kaupstaðar, hann var fylginn sér, ráðagóður en umfram allt sam- vinnufús. Hann starfaði lengi í Lionsklúbbi Siglufjarðar og gegndi þar flestum embættum, m.a. formennsku. Þegar við vor- um að vinna að framgangi Héðins- fjarðarganga var hann einn for- ustumanna í að stofna Samgang, áhugamannafélag um bættar samgöngur við Siglufjörð. Ég á honum mikið að þakka frá þessum árum fyrir stuðning og samvinnu. Hann var sendur í hjartaað- gerð fyrir stuttu og hitti ég hann eftir aðgerðina á Landspítalanum þar sem hann var fullur af bjart- sýni eftir viðræður við lækna og hjúkrunarfólk. Einnig átti ég mjög langt og gott símtal við hann eftir að hann kom heim, þar sem hann var byrjaður að ganga eftir þeirri forskrift sem fyrir hann var lögð. Hann var í mjög góðu líkam- legu formi og stundaði hlaup um árabil, því er svo erfitt að sætta sig við að hann skyldi fara svona snögglega. Freyr og Steinunn keyptu Gröf ásamt dóttur sinni og tengdasyni fyrir nokkrum árum þar sem þau áttu góða daga, nutu fegurðar Skagafjarðar og samvista með fjölskyldunni. Hans er nú sárt saknað og sendum við Auður Steinunni og fjölskyldunni innilegar samúðar- kveðjur og biðjum guð að styrkja þau. Sverrir Sveinsson. Sviplegt andlát Freys Sigurðs- sonar vekur mann til umhugsunar um hversu lífið er hverfult. Hold- gervingur hreysti og heilbrigðis var numinn á brott með litlum fyr- irvara. Vinur, sem sagði ætíð hvað betur mætti fara en klappaði manni líka oft á bakið í baráttunni, hefur nú gengið á vit feðra sinna. Athafnamaður sem gaf samfélag- inu allt sitt til að gera það betra. Freyr var forystumaður innan Framsóknarflokksins á Siglufirði um árabil. Á hverjum fundi lagði hann gott til umræðunnar. Fólk lagði við hlustir þegar hann tók til máls enda ekki að furða þar sem Freyr var vel tengdur inn í sam- félagið og vel kunnugur þeim mál- um sem hæst bar hverju sinni. Á fundunum var stutt í gamansemi og bros sem létti stemninguna, jafnvel þótt erfið mál væru til um- ræðu. Það þarf fleiri slíka menn til starfa á Íslandi í dag. Sú reynsla sem Freyr bjó yfir eftir áratuga starf í pólitík og þekking hans á málefnum sveitarfélagsins nýttist sérlega vel þegar ungt fólk var valið til forystu á lista Framsókn- arflokksins í Fjallabyggð árin 2006 og 2010. Oft var leitað ráð- legginga hans og þar var aldeilis ekki komið að tómum kofunum. Ég er viss um að Kata, dóttir hans, hefur oft leitað í smiðju föð- ur síns í sínum stjórnmálastörfum en Freyr var ákaflega stoltur af framgöngu dóttur sinnar á þeim vettvangi – sem hann mátti svo sannarlega vera. Hans lífsviðhorf einkenndust af ríkri réttlætiskennd og samvinnu. Betri félaga og ráðgjafa var vart hægt að hugsa sér. Með jákvæðu viðhorfi til lífsins og skapandi hugsun markaði Freyr sér sína sérstöðu í siglfirsku mannlífi. En minningin lifir um heiðursmann þar sem öll samskipti og samveru- stundir eru speglaðar jákvæðni og gleði. Steinunni og fjölskyldunni allri votta ég samúð mína á erf- iðum tímum. Guð blessi minningu Freys Sig- urðssonar. Birkir Jón Jónsson. ✝ Ástkær faðir minn, tengdafaðir, afi og langafi, JÓNAS VALDIMARSSON, Kleppsvegi 62 , áður til heimilis að Rauðalæk 23, Reykjavík, sem lést laugardaginn 9. apríl, verður jarð- sunginn frá Laugarneskirkju miðvikudaginn 27. apríl kl. 11.00. Valdemar Steinar Jónasson, Unnur Kristinsdóttir, Hrafnkell Tjörvi Stefánsson, Davíð Nóel Jógvansson, Arndís Reynisdóttir, Hrólfur Þór Valdemarsson, Valdís Karen Smáradóttir, Hilda Valdemarsdóttir, Birgir Már Björnsson, Steinar Smári Hrólfsson, Þóra Dís Hrólfsdóttir. ✝ Innilegar þakkir sendum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar ástkærs eiginmanns míns, föður, tengdaföður og afa, RAGNARS VALDIMARSSONAR, Lindasíðu 29, Akureyri. Sigrún Ásdís Ragnarsdóttir og fjölskylda. ✝ Móðir mín og amma, ÁSA BECK, andaðist á Landspítalanum í Fossvogi laugardaginn 16. apríl. Jarðarförin verður auglýst síðar. Magnús Haukur Jökulsson, Þórunn Elín Magnúsdóttir. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir og tengda- faðir, GUNNAR BENEDIKTSSON, er látinn. Jarðarförin verður auglýst síðar. Lilja Björk Erlingsdóttir, Vignir Þór Gunnarsson, Þórey Óskarsdóttir, Arnar Þór Gunnarsson, Erlingur Þór Gunnarsson. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, DAGNÝ INGIMUNDARDÓTTIR, Hraunbúðum, áður Kirkjuvegi 72, Vestmannaeyjum, lést laugardaginn 16. apríl. Jarðarförin verður auglýst síðar. Helga Tómasdóttir, Geirrún Tómasdóttir, Sigurður Tómasson, Guðrún Jakobsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.