Vera - 01.12.1986, Blaðsíða 36
safa. Slíkar bækur eru ekki í
hverri bókark .pu!
Tímaþjófurinn segir frá 37
ára gamalli konu, Öldu, sem
verður ástfangin. Fram að
þeim tíma er ástin sest að í
henni, hefur Alda verið köld
og klár á sínu, ekki síst karla-
málunum: „veifað elskhugum
sínum inn og útum dyrnar að
hætti lögreglumanns að
stjórna umferð." Alda býr í
einbýlishúsi ásamt systur
sinni og systurdóttur, húsið
erfðu þær eftir foreldra sína.
Alda kennir þýsku í menntó,
les, borðar og drekkur vel.
Hún lætur sig annarra líðan
ósköp litlu varða. ,,Alda
kalda“.
En sem sagt, svo verður
hún ástfangin. Ást-fangi. í
fyrsta og síðasta skipti. Þessi
elskhugi er giftur maður.
Sambandið varir í hundrað al-
sæla daga en þá vill hann
ekki meir. Alda heldur áfram
að elska hann og þjást af
þránni eftir honum. Hún
minnist hans í öllu og alls
staðar, hugsar til hans, skrif-
ar honum bréf. Ástin verður
henni þráhyggja, sem allt
annað snýst um þangað til
yfir lýkur. Ekki einu sinni
dauði systur hennar megnar
að rífa ástina úr hjarta Öldu.
Alda er alveg meðvituð um
skyldleika ástar sinnar við
þráhyggju enda ekki þannig
kona að hún taki með-
vitundarlaus á málum. Hún
veltir því líka fyrir sér hvers
vegna einmitt þessi maður
varð sá elskaði — og hvers
vegna ástin kaus einmitt
hana sjálfa til að setjast að í.
,,Ég neyddist til að velja þig“
hugsar hún. Eftir sjö ár grípur
Alda til sinna ráða — orðin
háöldruð, a.m.k. I sínum eigin
hucja.
Ástin hefur auðvitað verið
viðfangsefni höfunda frá
örófi. Það sem gerir Timaþjóf-
inn ólíkan öðru er einfaldlega
það að Steinunn gerir allt
öðru vísi en aðrir. í Tímaþjóf-
inum er það ekki ást sögu-
hetjunnar, sem málið snýst
um, heldur söguhetja ástar-
innar. Þar er ekki um að
ræða sjónarhól heldur er bók-
in sjálf sjónarhóll. Lesend-
unum er gert að koma sér
fyrir í hugskoti Öldu, að verða
hugskot hennar. Jafnvel að
læsast inni í þráhyggjunni og
losna ekki úr prísundinni fyrr
en bókin er lesin og Alda öll.
Hvernig fer Steinunn að
þessu? Með því hvernig hún
notar tungumálið. Steinunn
lýsir ekki ástandi Öldu á hefð-
bundinn hátt heldur kemur
hún því fyrir í textanum. Öldu
líður. Það er efni bókarinnar.
Líðan orðar sig ekki í hugs-
unum okkar, er ekki skynjuð í
fullmótuðum, tæpitungulaus-
um, málfarslega réttum og
kommusettum setningum.
Hvers vegna þá að lýsa líðan
á þann veg? í stað þess gríp-
ur Steinunn til tungutaks,
sem lýtur ekki hversdagsleg-
um lögmálum. Hún notar Ijóð-
formið og aðferðir Ijóðsins.
Orð velta sér upp úr
merkingu sinni, finna nýjar.
Myndir og líkingar opna nýja
sjóndeild. Stundum er textinn
kýldur fram, spenntur og
snöggur, stundum teygir
hann sig eftir línunum. Áður
en ástin kemur til Öldu er frá-
sögnin hefðbundin — allt
gengur sinn vanagang. Ástin
sprettir textanum upp. Undir
lokin færist hann aftur í
annað horf, yfirvegaðra,
,,skynsamara“ horf enda er
Alda þá byrjuð að yfirvega
hina endanlegu lausn. Text-
inn gengur í öldum — allt
eftir því hvernig Öldu líður!
Mér fannst spennandi að
lesa þennan texta, varð hug-
fanginn af honum. Hann
geymir minni um aðrar ástir,
aðrar ástarsögur, gömul Ijóð
og ný, um goðsagnir og klisj-
ur, sem við lesturinn urðu
einmitt það, goðsagnir og
klisjur. ,,Ég er sjórinn þinn.
Sigldu" líður Öldu til elsk-
huga sína. Einhvern veginn
þannig leið mér til þessa
texta. Nafn Öldu gefur
Steinunni t.d. góðan byr:
,,Alda útundan", „Aldan er
ein báran stök“, „óferjandi
alda vonlaus um eðlilegt að-
fall.“ Alda, sem á heima í
Skjólunum. Alda í skjóli?
Óvart fer maður að leika
sama leikinn. Alda háöldruð!
Þegar seint og um síðir kem-
ur í Ijós að elskhuginn heitir
Anton, þá datt mér í hug:
annt honum! Alveg eins og
Alda las það sem henni sýnd-
ist út úr framkomu Antons,
var ég farin að lesa það sem
mér sýndist út úr orðum
Steinunnar. Ég var gripin þrá-
hyggju, var hugfangin! Og
eiginlega var það ekki fyrr en
að lestrinum loknum, að ég
fór að velta fyrir mér því sem
hafði gerst. Hafði verið of
upptekin af minni þráhyggju
til að skoða það. Rétt eins og
Alda, þegar hún er í þann
mund að koma sér burt frá
sinni, skoðar hlutina af meiri
rökvísi.
Hvernig skyldi það t.d. hafa
verið með hann Steindór,
hvað var hann að hugsa
nóttina sem hann fór í sjóinn?
Og Egill, elskaði hann Öldu
og þjáðist jafn mikið og hún?
Hvernig leið Öldu? Hvað
fannst Antoni um Öldu, hvers
vegna ákvað hann að hætta
við hana, hvernig tók hann til-
beiðslu hennar? Hvers vegna
talar Alda um sig sem há-
aldraða? Hvað hefði oröið
hefðu Anton og Alda orðið
hjón, hvað hefði ástin gert
þá? Hvað ef Alda hefði bara
alls ekki orðið ástfangin og
haldið áfram fyrra lífi sínu?
Hvað er tímaþjófur og hvað
ekki?
Margar ástarjátningar Öldu
eru beinlínis yndislegar, fagn-
andi og hamingjusamar. Þrá-
in er heit og óskandi. Ein-
manaleikinn skerandi. Hugsið
ykkur t.d. að senda elskhuga
sínum þessa ósk:
„Vertu snjórinn í brekkunni
Ég snjórinn á túninu
Að bráðna saman í sólinni
Bæjarlækurinn hoppsa
á leið útí á: verðum við.“
Alda er aldrei væmin,
aldrei taugaveikluð, móður-
sjúk eða leiðinleg. Hún getur
ekki annað en hlegið að
sjálfri sér — hún er þannig.
Undir er húmorinn, sem
bregst manni aldrei.
Steinunn Sigurðardóttir
hefur sent frá sér þessar
bækur: Sífellur (Ijóð) árið
1969, Þarog þá (Ijóð) 1971,
Verksummerki (Ijóð) 1979,
Sögur til næsta bæjar (smá-
sögur) 1981, Skáldsögur
(smásögur) 1983. Hún hefur
líka samið sjónvarpsleikritin
Líkamlegt samband í norður-
bænum og Bleikar slaufur.
Ég bíð spennt eftir að fá að
heyra meira frá henni.
Ms
P.s.: Bókarkápu prýðir teikn-
ing. Það kemur mér á óvart
að teiknarans skuli hvergi
getið — er það hefö og/eða
dónaskapur gagnvart lista-
manninum?
SVEITIN VIÐ SUNDIN.
Búskapur í Reykjavík
1870—1950.
Þórunn Valdimarsdóttir
Sögufélagið
Reykjavík 1986.
Sífellt bætist við bókakost-
inn um sögu Reykjavíkur. Nú
í haust hafa bæst við tvær
forvitnilegar bækur, sem
eflaust eiga eftir að veita
mörgum ánægjulegar stundir.
Það er annars vegar mynda-
bókin: Reykjavík 200 ára.
Saga höfuðborgar í myndum
og máli, sem bókaútgáfan
Hagall hefur sent frá sér og
hinsvegar bók Þórunnar um
sveitaþorpið Reykjavík og
hvernig það breytist smám
saman í borg.
Kveikjan að bókinni var
áhugi forsvarsmanna Jarð- ,
ræktarfélags Reykjavíkur á «■
að láta skrá sögu félagsins
og jafnframt sögu búskapar í
Reykjavík. Þeir sneru sér til
Sagnfræðistofnunar Háskóla
íslands og var Þórunn, sem
var í kandídatsnámi, fengin til
að vinna það verk. Bókin sem
hér liggur fyrir er aukin og
endurbætt kandídatsritgerð
Þórunnar. Úr henni er orðið
mikið meira en skrásetning á
sögu Jarðræktarfélags
Reykjavíkur. Hér er komin allt
í senn saga hversdagslífsins í
Reykjavik, lýsing á landshátt-
um og býlum umhverfis þétt-
býlið og búskaparbasli jafnt
bænda, tómthúsmanna sem
embættis- og verslunar-
manna í höfuðstaðnum, auk
sögu þess ágæta jarðræktar-
félags sem starfaði af meiri
krafti og með betri árangri en
önnur hér á landi og sögu
Garðyrkjufélags íslands sem
á bróðurpartinn af heiðrinum
fyrir að Reykjavík er orðin sú
gróðurvin sem raun ber vitni.
Þegar sagan hefst eru íbú-
ar í Reykjavík rúmlega tvö
þúsund, þ.e. ámóta margir og
nú búa á Siglufirði. Þórunn
segir bæði frá mannlífi,
hrossa-, og hænsnalífi. Að
36