Litli Bergþór - 01.07.2011, Blaðsíða 35

Litli Bergþór - 01.07.2011, Blaðsíða 35
unglingastigi mjög bundið og til að komast áfram í menntaskóla þurfti fólk að fá sex eða hærra í meðaleinkunn á landsprófi. Allmargir nemendur þoldu þetta illa og nutu sín ekki til fulls. Þeir komu sumir að Skálholti og náðu sér þar á strik. Til að koma til móts við þá voru engin próf í Lýðháskólanum en nemendur sem þess óskuðu fengu umsögn í vetrarlok, sem nýttist þeim oft við að halda áfram í námi. Á fyrstu árum skólans voru við hann ýmsir kennarar, sinn veturinn hver. Má þar nefna Bjama Þorkelsson frá Laugarvatni, nú bónda á Þóroddsstöum í Grímsnesi, Pál Skúlason í Laugarási, nú aðstoðarskólameistara Menntaskólans að Laugarvatni og Gunnþór Ingason úr Reykjavík, nú sóknarprest í Hafnarfirði. Þá voru ýmsir hér úr nágrenninu, sem kenndu fög eins og tónlist, handmennt og fleira, sem fastir starfsmenn voru ekki mjög færir í. Síðan réðist til skólans maður að nafni Jörundur Ákason, en hann var sonur Áka Jakobssonar, fyrrum alþingismanns og ráðherra. Kona hans var hjúkrunarkona í Laugarási og bjuggu þau í gamla læknisbústaðnum þar. Kona Heimis, Dóra Þórhallssdóttir, var fljótlega ráðin í starf húsmóður í skólanum. Fólst það í því að vera yfirmaður mötuneytisins og einskonar „móðir“ nemendanna. Dóra lagði sig mjög fram að vera öllum góð og hrósa bæði nemendum og starfsmönnum. Stundum skaut hún jafnvel yfir markið í þeim efnum eins og þegar hún vildi gera Jörundi til geðs þegar hann kom á síðustu stundu, úrillur, til starfa á morgnana og gekk í gengum borðstofuna. Þá sagði Dóra gjarnan: „Mikið ertu sætur í dag, Jörundur minn“. Sjálfsálit Jörundar var ekki nógu mikið til að hann tæki þessu fagnandi. Margt var hér með öðrum brag en nú tíðkast í skólum. Áfengisneysla var ekki vandamál, en einu sinni komst upp að hassplönturæktun hafði verið reynd í þá ónýttu húsum Rauða krossins í Laugarási og tveir piltar úr hópi nemenda höfðu boðið félögum sínum eiturlyf. Þetta upplýstist í helgarleyfi nemenda og var brugðist við því með að koma í veg fyrir að annar þeirra kæmi úr fríinu en ekið var með hinn til ömmu sinnar á Selfossi strax um kvöldið. Meira var ekki gert í þessu og töldum við okkur þar fylgja fordæmi Brynjólfs biskups Sveinssonar, sem hjálpaði tveimur skólasveinum sem sakaðir voru um galdra að komast úr landi. Á reykingum voru ekki miklar takmarkanir á fyrstu árum skólans og var jafnvel reykt í borðstofunni. Hins vegar var reynt að koma í veg fyrir of náin kynni kynjanna með því að læsa á milii vista stráka og stelpna á nóttunni. Brátt dró úr aðsókn að skólanum. Ýmislegt mun hafa valdið því svo sem breyting á skólakerfinu, þegar landsprófið var lagt af og fjölbrautaskólakerfið var tekið upp í framhaldsskólunum. Reynt var að láta líta svo út að skólinn væri alltaf fullskipaður svo sem með því að gefa erlendum skiptinemum kost á að vera hér allan veturinn, þó ekki hafi upphaflega verið gert ráð fyrir að þeir væru nema tvo mánuði hver. Síðan var samið um að nemendur sem áður voru í efsta bekk Bamaskólans í Reykholti væru hér síðasta veturinn af skyldnunáminu. Var þá starfrækt hér svokölluð Miðskóladeild og luku nokkrir nemendur landsprófi fyrst en síðan samræmdum prófum. Þetta gafst vel og var svo að sjá að það hefði góð áhrif á unglingana að skipta um umhverfi á þessum tíma og í sumum tilvikum að komast undir meiri aga bæði frá skólastjórnendum og einnig frá lýðháskólanemendunum sem voru nokkru eldri en þeir. Allir borðuðu sameiginlega hádegisverð í borðstof- unni og var þar fylgt sérstökum reglum. Ekki mátti byrja að borða fyrr en sagt hafði verið „Gjörið þið svo vel“ og ekki fara frá borðum fyrr en sagt hafði verið „Verði ykkur að góðu“. Til að fá hljóð var slegið í disk. Starfsmenn sátu saman við eitt borð og voru þeir oft lengur að matast en nemendurnir. Þótti þá stundum gott að losna við krakkana til að geta notið matarins í næði. Heimir var fremur mikill matmaður og mikið fyrir venjulegan heimilsmat. Einhverju sinni þegar saltlfiskur var á borðum var Heimir búinn að fá sér aftur á diskinn, vel fullan með kartöflum og floti. Þá voru nemendumir búnir að borða nægju sína og tilbúnir að yfirgefa salinn svo að Heimir slær allfast í diskinn og segir „Verði ykkur að góðu“. Dóru, konu hans, sem sat við hliðina á honum, fannst hann gera óþarflega mikinn hávaða með því að berja svona fast í diskinn. Ætlaði hún að sýna honum fram á þetta með því að slá sjálf fast í disk yfir höfði hans. Þetta var fínn diskur sem Norðmenn höfðu gefið. Þá vildi svo illa til að diskurinn þoldi ekki höggið, brotnaði í þúsund mola og hrundi yfir hausinn á skólastjóranum og á saltfiskinn hans. Okkur borðfélögum hans fannst þetta fyndið og skellihlógum. Heimir var víst ekki sama sinnis og yfirgaf borðsalinn í skyndi og mun ekki hafa etið meiri saltfisk af þeirri máltíð. Nú er nóg komið af háðsglósum og lastmælgi um starfsfélaga mína og ætla ég því að enda af sögu af sjálfum mér. Það verður að vísu í aðra veru, því hér kemur frásögn af atriði í starfi mínu, sem mér er minnisstætt vegna þess að ég er stoltur af því ennþá. Einn veturinn sem unglingarnir hér úr sveitinni voru hér í miðskóladeild var kynjaskiptingin mjög ójöfn að því leyti að stúlkunum gekk vel í námi en piltunum miklu lakar. Þeir urðu því dálítið undir á ýmsan hátt, fengu litla uppörvun og voru sjaldan til kvaddir þegar skemmtanir voru haldnar eða þess háttar. Lýðháskólanemendurnir voru útskrifaðir í apríllok en miðskóladeildin ekki fyrr en um miðjan maí. Heimir var erlendis vikuna fyrir útskrift og kom það því aðallega í minn hlut að undirbúa dagskrá á skólaslitaathöfninni. Ég valdi að láta krakkana lesa sitt vorljóðið hvert. Strákamir fengu stutt og auðlesin ljóð en hraðlæsu stúlkurnar eitthvað lengri og höfðu þau nokkurn tíma til að undirbúa sig. Ég varð var við að strákarnir tóku þetta mjög alvarlega og þegar á hólminn kom stóðu þeir sig með prýði. Geri ég mér vonir um að þeir hafi notið þess síðar meir að geta líka það sem þeim hafði yfirleitt verið talin trú um að þeir gætu ekki. Hafi svo verið átti ég erindi í kennslu, en það heldur því víst enginn á lofti, ef ég geri það ekki sjálfur. Arnór Karlsson 35 Litli-Bergþór

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.