blaðið - 03.11.2005, Blaðsíða 21

blaðið - 03.11.2005, Blaðsíða 21
blaðið FIMMTUDAGUR 3. NÓVEMBER 2005 HEIMSPEK£ I 29 William James, vaninn og bandarískur pragmatismi Bandaríski heimspekingurinn William James (1842-1910) er kannski einna þekktastur nú á dögum - í það minnsta hér á landi - fyrir greinina „The will to believe“, sem olli miklum umræðum og jafnvel straumhvörfum á sviði þekkingar- og fyrirbærafræði á sínum tíma. Sú er til á íslensku, birtist í ritinu Erindi siðfræðinnar (1993) og nefnist „Trúarvilji“ í ágætri þýðingu Sig. Kristófers Péturssonar og Sigurðar Nordal. Venja er að telja James í hópi svokallaðra bandarískra pragmatista, en án þess að fara djúpt í saumana á þeirri tilteknu stefnu má segja að hún mæli fyrir um að merking og sanngildi sérhverrar hugmyndar eða setningar ráðist einvörðungu af „praktískum" afleiðingum hennar. í grunninn byggir stefnan á andstöðu við algildishyggju af hverju tagi og þeirri sannfæringu að öll lögmál beri að höndla sem „virkar kenningar" í stöðugri endurskoðun, frekar en frumspekilega bindandi frumsetningar. Þannig telst lögmál á borð við „Sólin kemur upp á hverju morgni" satt í augum pragmatistans, ekki af því að hann lítur á það sem óumbreytanlegt, heilagt og algilt, heldur af því hún hefur alltaf komið upp til þessa. Láti sólin ekki sjá sig einhvern morguninn hættir lögmálið að vera satt, en ekki fyrr. Við teljum vissa hluti til sannleika einfaldlega vegna þess að okkur hentar að gera það - reynslan kennir okkur t.d. að það er mjög hentugt að trúa því að sólin komi upp dag hvern. Með þessu móti má laga kenningar okkar að heiminum eins og hann kemur fyrir dag hvern, en ekki öfugt. „Hvaða gagn er þá af þessum pragmatisma?" Þetta kann að koma óheimspekilega sinnuðum furðulega fyrir sjónir - hann gæti spurt sig: „Álítum við ekki einmitt setningar og yrðingar sannar einmitt vegna þess að reynslunni samkvæmt virðast þær vera það? Og hvaða gagn er þá af þessum pragmatisma?" Heimspekin hefur hinsvegar í aldanna rás m.a. snúist um að finna traustarogjafnvel frumspekilegar grunnforsendur fyrir mannlega hugsun og þann veruleika sem hún höndlar með og um. Mikil vinna hefur verið lögð í að finna algild, óbreytanleg lögmál sem geta útskýrt hann og því sem hefur hvorki virst algilt né óbreytanlegt oftast varpað á brott þar eð ófullnægjandi forsendur væru til þess að taka það trúanlegt. Þrátt fyrir að víða í sögunni megi finna dæmi um viðlíka vangaveltur og bandarísku pragmatistarnir settu fram má engu að síður telja þær byltingarkenndar, ekki síst í ljósi viðbragða samtímamanna þeirra og þess sem á eftir kom. Fylgismenn pragmatisma hafa m.a. gagnrýnt hefðbundin heimspekileg viðhorf í ljósi samtímarannsókna I vísindum og félagsfræði - og þannig reynt að laga kenningarnar að þeim heimi sem þær sneru að, en ekki öfugt (sem er nokkuð sem heimspekingar gerast oftar en ekki sekir um). Að hámarka sína æðri möguleika:„í kjólinn fyrir jólin" William James var líkt og áður sagði öflugur heimspekingur og fræðimaður, einn af gamla skóla vísindanna sem lét sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Þetta má m.a. sjá á því að i rannsóknum sínum og skrifum höndlaði hann t.d. sálfræði, líffræði og félagsfræði og í þeim fræðum má enn í dag rekja margar viðteknar hugmyndir beint til hans. Áhuga hans á þessum sviðum má líklega rekja til þeirrar skoðunar hans að hverri manneskju bæri skylda til þess að hámaríca möguleika sína. Raunar lagði hann mikið á sig til þess að lifa samkvæmt þessu og kappkostaði að koma sér upp góðum og dygðugum venjum að því marki. Skrif hans um mátt vanans og leiðir til þess að snúa á hann eru einmitt einkar áhugaverð í þessu ljósi, enda bera þær vott um mann sem enn leitar leiða við að snúa á sitt hverfula sjálf. Kjarnast sú eilífa barátta manneskjunnar ágætlega í þessum fleygu orðum James: „Með því að vanrækja hina nauðsynlegu, áþreifanlegu vinnu, með því að hlífa okkur við hinum smávægilega, daglega skatti, erum við bókstaflega að grafa gröf okkar æðri möguleika.“ Fjölda ritgerða og skrifa James má finna á netinu, auk greinargóðra upplýsinga um bæði hann sjálfan svo og stefnuna pragmatisma. Hér fá þó fjögur lögmál sem James setti fram um vana að fljóta með - ef einhverjir lesenda skyldu hafa áhuga á því að hámarka sína æðri möguleika (og þessi ráð ættu að duga hvort heldur fólk vill grenna sig fyrir jólin eða verða dygðugri manneskjur) haukur@vbl.is Fjögur lögmál James um vana Þegar tileinka á sér nýjan vana eða venja sig af óæskilegum er mikilvægt að gera það með eins sterku og ákveðnu frumkvæði og mögulegt er. Undantekningar eru ekki leyfðar fyrr en hinn æskilegi vani hefur skotið djúpum rótum. Nýta skal fyrsta mögulega tækifæri til þess að framkvæma allt það sem þér kemur til hugar til þess að ná settu marki. Ekki tala eða predika að ráði um það sem þú hefur afráðið að gera fyrr en það hefur verið framkvæmt að fullu - ekki gaspra, framkvæmdu.

x

blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: blaðið
https://timarit.is/publication/941

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.