Bændablaðið - 23.06.2011, Síða 35
34 Bændablaðið | fimmtudagur 23. júní 2011
Rannsókn á stofni íslensku
landnámshænunnar
Hænsn af stofni íslensku landnámshænunnar (Mynd tekin að Háafelli í Hvítársíðu).
Rýrnun erfðaauðlinda er flestum
sérfræðingum um búfjárrækt
áhyggjuefni en þessi varhuga-
verða þróun hefur þó ekki fengið
þá umfjöllun sem eðlileg getur
talist. Rannsóknir sýna að helstu
framleiðslustofnar búfjárkynja eru
margir úr sér gengnir hvað varðar
erfðafjölbreytileika á sama tíma og
margir minni stofnar eru að hverfa
af sjónarsviðinu (Meuwissen, 2009;
Muir et al., 2008).
Mikilvægi þess að varðveita búfjár-
kyn liggur meðal annars í því að kyn
sem eru við að glatast geta geymt
ómetanleg verðmæti, svo sem sérstaka
framleiðslueiginleika eða eiginleika
sem haft geta áhrif á sjúkdómaþol.
Landnámshænan vinsæl
Íslenska landnámshænan hefur að
undanförnu átt auknum vinsældum
að fagna hjá fjölmörgu áhugafólki
um hænsnarækt en þrátt fyrir ein-
staka sögu hefur þetta áhugaverða
kyn ekki farið varhluta af áðurnefndri
þróun. Líkt og mörg önnur staðbundin
hænsnakyn þykir það ekki ákjósan-
legt til framleiðslu og hefur því vikið
fyrir öðrum afkastameiri kynjum. Því
má þó ekki gleyma að rannsóknir
hafa undirstrikað sérstöðu íslensku
búfjárkynjanna og sýnt að þau geta
geymt einstakan breytileika þrátt fyrir
takmarkaða stofnstærð (Kantanen et
al., 2000; Tapio et al., 2005). Það má
því vel vera að íslenska hænsnakynið
geymi einstaka eiginleika sem seinna
megi nýta við kynbætur þó svo að
stofninn teljist ekki arðvænlegur í dag.
Rannsókn á vegum LbhÍ og
MATÍS
Starfsmenn og nemendur
Landbúnaðarháskóla Íslands ásamt
starfsmönnum MATÍS hafa undan-
farið unnið að rannsókn á íslensku
landnámshænunni í samstarfi við
hænsnaeigendur með það að markmiði
að skjóta frekari stoðum undir það
ræktunarstarf sem unnið hefur verið
undanfarin ár. Rannsókninni er ekki
lokið en fyrstu niðurstöður og næstu
skref verða kynnt hér í stuttu máli.
Um 300 sýnum safnað
Í fyrsta hluta rannsóknarinnar var
lífsýnum safnað víðsvegar á land-
inu með aðstoð ræktenda. Tæplega
þrjú hundruð sýni söfnuðust af sex
hænsnakynjum og úr sýnunum var
einangrað erfðaefni til arfgerða-
greininga. Niðurstöðurnar sýndu að
íslenski stofninn stendur ágætlega
þegar skoðaðar eru stærðir sem lýsa
erfðafjölbreytileika en slíkt þarf þó
ekki að koma á óvart enda er sýni-
legur breytileiki mikill (mynd 1). En
auk þess að veita upplýsingar um
erfðafræðilega stöðu þá má nýta
niðurstöðurnar til að skoða byggingu
stofns, en á meðfylgjandi mynd sjást
niðurstöður meginhlutagreiningar á
erfðafjarlægð milli einstaklinga af
íslenska stofninum (mynd 2). Sjá
má að hluti íslensku sýnanna sker
sig nokkuð frá meginhluta stofnsins
(grænir hringir á mynd 2A) en þau
sýni eru öll upprunnin frá einum og
sama ræktandanum. Samanburður
milli kynja sem finnast á Íslandi þar
sem hópar í stað einstaklinga eru
greindir sýnir að umræddur undir-
hópur sker sig með skýrum hætti frá
meginhópnum (mynd 2B). Hér eru
því komnar vísbendingar þess efnis
að stofngerð íslensku landnámshæn-
unnar sé ef til vill flóknari en áður var
talið. Í þessu dæmi endurspeglast eitt
af mikilvægustu verkefnum þeirra
er vinna að verndun erfðaauðlinda,
en það er að tryggja að leyndir
undirhópar fái nauðsynlega athygli
í verndaráætlunum og tapist ekki óaf-
vitandi. En þessar niðurstöður vekja
jafnframt upp þá spurningu hvort
hugsanlegt sé að enn fleiri hópar af
landnámshænunni fyrirfinnist sem
vert væri að gefa sérstakan gaum og
því verður haldið áfram að safna líf-
sýnum til greininga.
Litlar upplýsingar um útbreiðslu
Þrátt fyrir aukinn áhuga á ræktun
landnámshænunnar eru upplýsingar
um útbreiðslu og útlitseinkenni
af skornum skammti. Skipulegar
skráningar á útlitseinkennum og
eiginleikum hænsnanna eru ekki til
og ekki liggur fyrir hvað telja má
upprunalegt varðandi eiginleika svo
sem liti, egg og fjaðrir, en slíkar
upplýsingar eru mikilvægur þáttur í
ábyrgu ræktunarstarfi. Í öðrum hluta
rannsóknarinnar sem hefst nú í sumar
verður því hafist handa við talningu
og kortlagningu á dreifingu hænsna á
landinu. Nauðsynlegt er að þeir sem
koma að verndunarmálum hafi skýra
yfirsýn yfir stærð stofns og því er þetta
mikilvægt verkefni. Þegar þær niður-
stöður liggja fyrir verður hafist handa
við lýsingu á útlitseinkennum íslensku
landnámshænunnar og samanburði á
útlitseinkennum íslenskra og erlendra
stofna sem finnast hér á landi. Slík
þekking er mikilvæg sé ætlunin að
halda hér stofn íslenskra landnáms-
hænsna án blöndunar við aðra stofna,
en þetta er sérstaklega mikilvægt í
ljósi þess að mörg önnur hænsnakyn
fyrirfinnast hérlendis. Tvö atriði sér-
staklega hafa vakið upp spurningar um
hvort og þá hversu mikil áhrif erlendir
stofnar hafa haft á íslensku land-
námshænuna en það er annarsvegar
eggjagerð (stærð og litur) og hins
vegar fiður á fótum. Allnokkur breyti-
leiki virðist finnast í gerð og lit eggja
en jafnframt finnast innan stofnsins
hænur misfiðraðar á fótum Því verður
sérstök áhersla lögð á greiningu þess-
ara tveggja þátta. Hugmyndin er sú að
þessi úttekt geti orðið vísir að lýsingu
á íslenska landnámshænsnakyninu en
slíkt væri mikilvægt skref í átt að sjálf-
bærri ræktun til framtíðar.
Ólöf Ósk Guðmundsdóttir,
búfræðikandídat frá
Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ásta Þorsteinsdóttir, nemandi
við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Birna Kristín Baldursdóttir,
starfsmaður Erfðalindaseturs LbhÍ.
Emma Eyþórsdóttir og
Jón Hallsteinn Hallsson, erfða-
fræðingar við Auðlindadeild LbhÍ.
Heimildaskrá:
Kantanen, J., Olsaker, I., Holm,
L. E., Lien, S., Vilkki, J., Brusgaard,
K., Eythorsdottir, E., et al. (2000).
Genetic diversity and population
structure of 20 North European cattle
breeds. J. Hered., 91(6), 446-457.
Meuwissen, T. (2009). Genetic
management of small populations:
A review. Acta Agr. Scand. A-An,
59(2), 71-79.
Muir, W. M., Wong, G. K. S.,
Zhang, Y., Wang, J., Groenen, M. A.
M., Crooijmans, R. P. M. A., Megens,
H. J., et al. (2008). Genome-wide
assessment of worldwide chicken
SNP genetic diversity indicates
significant absence of rare alleles in
commercial breeds. Proc. Natl. Acad.
Sci. U. S. A., 105(45), 17312-17317.
Tapio, M., Tapio, I., Grislis, Z.,
Holm, L. E., Jeppsson, S., Kantanen,
J., Miceikiene, I., et al. (2005).
Native breeds demonstrate high cont-
ributions to the molecular variation
in northern European sheep. Mol.
Ecol., 14(13), 3951-3963.
Kortlagning
hænsnahalds
Í sumar hefst verkefni á vegum
Landbúnaðarháskóla Íslands og
Erfðalindaseturs LbhÍ sem miðar
að því að kortleggja dreifingu
íslensku landnámshænunnar og
annarra minni hænsnastofna. Í
kjölfarið verður safnað upplýsingum
um helstu útlitseinkenni sem finnast
í hænsnastofnum hérlendis. Skráð
verða útlitseinkenni svo sem litur,
kambgerð, fjaðrir á fótum, sem og
stærð eggja, lögun og litur. Lögð
verður áhersla á einkenni sem
tengjast fiðruðum fótum en skiptar
skoðanir eru meðal ræktenda um
hvað telja má upprunalegt í þeim
efnum. Auk þess verður safnað upp-
lýsingum um varp, frjósemi í útung-
un og vanhöld á ungum. Verkefni
þetta er hluti af stærri rannsókn á
stofni íslensku landnámshænunnar
sem hófst árið 2009 og miðar að
því að lýsa stofninum og stuðla
þannig að áframhaldandi varðveislu
hans. Í fyrstu verður lögð áhersla
á upplýsingar um fjölda eigenda,
fjölda hænsna á hverjum stað og
hænsnakyn. Eftir að þær upplýsingar
liggja fyrir verður haft samband við
eigendur varðandi lýsingu á útlits-
einkennum. Hænsnaeigendur eru
hvattir til að taka þátt, óháð fjölda
hænsna og því hvaða hænsnakyn
þeir halda. Áhugasamir eru vinsam-
legast beðnir að hafa samband við
Birnu Kristínu Baldursdóttur sem
halda mun utan um gagnasöfnun
(birna@lbhi.is eða í síma 433-5081).
Greining á erfðafjölbreytileika innan íslenska hænsnastofnsins með megin-
hlutagreiningu á erfðafjarlægð. (A) Greining á einstökum sýnum úr íslenska
stofninum. (B) Samanburður milli kynja þar sem sýni úr íslenskum land-
námshænum eru greind í tvennt, annars vegar „Íslenskar“ og hins vegar
„Íslenskar (Sey)“.
Landssamband hestamanna-
félaga, Landsmót hestamanna ehf.
og Samskip hf. hafa undirritað
víðtækan samstarfs- og styrktar-
samning sem tekur til nokk-
urra af helstu viðburðum hesta-
mennsku og hestaíþrótta til loka
árs 2013, þar á meðal landsmóta,
Íslandsmóta og bæði heimsmeist-
aramóts og Norðurlandamóts
íslenskra hesta.
Stuðningur Samskipa er með
margvíslegum hætti, svo sem flutn-
ingar og flutningatengd þjónusta,
verðlaunagripir, tæki og búnaður að
því er fram kemur í fréttatilkynn-
ingu.
Haraldur Þórarinsson, stjórnar-
formaður Landssambands hesta-
mannafélaga og Landsmóts hesta-
manna ehf., og Ásbjörn Gíslason,
forstjóri Samskipa, undirrituðu sam-
starfssamninginn.
Haraldur segir að stuðningur
Samskipa sé afar mikilvægur og
hafi þau áhrif að auðveldara verði
að halda niðri kostnaði við móts-
hald og útgerð landsliða, sem ella
myndi lenda á hestamönnum og
mótsgestum að greiða í formi hærri
aðgangseyris og þátttökugjalda.
Ásbjörn segir að Samskip horfi
meðal annars til þess að íslenski
hesturinn beri hróður lands og þjóðar
víða um veröld og höfði til fjölda
fólks á öllum aldri. Það sjáist best
á því að um 11.500 manns manns
stundi hestamennsku á Íslandi og um
60.000 manns innan alþjóðasamtaka
íslenska hestsins í 19 þjóðlöndum
og þremur heimsálfum. Hestamót
hérlendis og erlendis séu fjöldasam-
komur sem dragi sífellt að sér meiri
athygli fólks, langt út fyrir raðir
sjálfra iðkendanna. Samskip vilji
leggja samtökum hestmanna lið og
styrkja enn frekar öfluga starfsemi
þeirra í þágu iðkenda hestaíþrótta
og allra aðdáenda íslenska hestsins
nær og fjær.
Samskip í
samstarf við
samtök
hestamanna
- Gildir til ársloka 2013