Bændablaðið - 24.11.2011, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 24.11.2011, Blaðsíða 32
33Bændablaðið | fimmtudagur 24. nóvermber 2011 Lesendabásinn ,,Vandi byggðanna er fyrirliggjandi stjórnsýsla...“ - Greinarstúfi Lýðs Árnasonar í síðasta tölublaði Bændablaðsins svarað Þótt því fari fjarri að ég skrifi undir margt af því, sem þú festir á blað í téðri grein, þá finn ég að hjarta okkar slær saman undir niðri og ekki efast ég um að þú viljir fólki í dreifbýlinu vel. Við náum t.d. mjög vel saman þegar þú skrifar: ,,Vandi byggðanna er fyrirliggjandi stjórnsýsla...“ þó svo að við séum ekki í dag sammála um leiðina að því að bæta hana. Tek einnig undir þá hugmynd að leyfa frjálsar strandveiðar og ,,skapa þannig aðgengi að þeirri auðlind sem fólkið þekkir og vill nýta“. Vandinn er bara sá að verið er að hrekja allt of margt fólk í burt, sem einmitt ,,þekkir og vill nýta“ þessa auðlind, sem og aðrar. Sveitarstjórnir fá það óþvegið í greininni en dálítið brútalt að alhæfa eins og þar er gert, auk þess sem hæpið má telja að þessu fólki sé að öllu leyti sjálfrátt, án þess að ég ætli að fara að svara fyrir sveitarstjórnar- menn. Vík að þessu aðeins betur síðar og verri skúrkum í þessu efni, sem Lýður nefnir þó í grein sinni, án þess að gera sér grein fyrir alvarleika samhengisins og virðist því hengja bakara fyrir smið. Áður en lengra er haldið, þótti mér ögn forvitnilegt að lesa í grein þinni um að þriðja stjórnsýslustigið hafi verið ,,aðeins lítillega rætt í stjórnlagaráði og náði aldrei flugi“. Í beinu framhaldi kemur síðan þessi kotroskna setning: ,,Hins vegar var settur inn nýr kafli um sveitarstjórnir sem gæti orðið grundvöllur að auk- inni sjálfsstjórn héraðanna.“ Þegar maður lítur síðan í frumvarpssmíðina er afraksturinn svo dapur, hvað þetta varðar, hefði þögnin líklega farið efn- inu best. Það þarf ansi mikinn vilja, jafnvel óskhyggju, til að lesa þetta út úr frumvarpstextanum. Í 39. greininni um alþingiskosn- ingar segir í 3. mgr.: ,,Heimilt er (leturbr. ÞL) að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.“ Þetta er ekki eina dæmið í frum- varpinu sem háð er heimild, en sem sumir tala um eins og þannig skuli það vera, og verður varla annað séð en að þú fallir beint í þessa gryfju sjálfur. Á sjálfum kaflanum, nr. VII um sveitarfélög, er jafnvel enn minna að græða í þessu efni, borið saman við það fátæklega sem um efnið stóð í gömlu stjórnarskránni. Að vísu eru þarna viðbótaratriði um svonefnda nálægðarreglu, íbúalýð- ræði og samráðsskyldu, – svo sem allt gott og blessað, en hægt að teygja og toga nánast að vild og kemur lítið raunverulegu sjálfstæði héraða við. Við nánari skoðun er nálægðarreglan hins vegar góð og bitastæð undan- tekning sem hugmyndaleg undirstaða að auknu sjálfstæði héraða og þar með að millistigi í stjórnsýslunni, eins og fram kemur síðar í greininni. Snúum okkur nú að alvöru málsins Miðað við þá miklu umræðu sem var um millistigshugmyndir í stjórn- skipuninni fram um 1990, og að hluta til hefur verið rakin í mínum skrifum (og miklu víðar og rækilegar í skrif- um fólks þegar alvöru umræða var í gangi um málið), finnst þér, Lýður, þá ekkert athugavert við þessa svo til algjöru þögn sem hefur umlukt þessar hugmyndir sl. 20 ár? Sjálfum finnst mér Stjórnlagaráð, opið og faglegt, sískoðandi stjórnar- skrár annarra landa mánuðum saman, hafa gjörsamlega brugðist og/eða verið mikilli meinloku slegið í mál- inu. Tekið er þegjandi og hljóðalaust við keflinu af miðstýringarveldinu og þagað með því þunnu hljóði í stað þess að taka millistigshugmyndina til upplýstrar og sjálfstæðrar skoðunar, enda hefur slík stjórnskipan yfirleitt reynst vel og verið forsenda fyrir viðunandi valddreifingu, enda til stofnað með það að markmiði. Er þetta sérstaklega athyglisvert, þar sem eitt af yfirlýstum höfuð- markmiðum ráðsins var einmitt að auka valddreifingu í landinu, eða náði hið háleita markmið ykkar aldrei nema að ytri mörkum Stór- Reykjavíkursvæðisins og í besta falli einhvers friðþægingarsvæðis í kringum Akureyri (sbr. búsetu full- trúa ráðsins)? Ekki vantaði ráðið ábendingar um þetta stjórnskipulag, eins og nokkuð var tíundað í grein undir- ritaðs í Bændablaðinu og óþarft er að endurtaka hér. Ég kemst þó ekki hjá að bæta inn setningu, sem fórst fyrir í þeirri grein fyrir misskilning og varðar hina margnefndu þögn, en aðdragandinn er svona: ,,Þessi þögn hins upplýsta Stjórnlagaráðs um millistigið er mjög undarleg, ekki síst eftir að þrjú úr forystuliði ráðsins fengu áskor- anir um að skoða einmitt þetta mál á opnum og málefnalegum fundi á Egilsstöðum 14. júní í sumar...“ Síðan strax á eftir átti þessi setn- ing að koma: ,,Í þessu sambandi er sérstök ástæða til að nefna erindi Smára Geirssonar á Neskaupsstað á þessum fundi um baráttu Fjórðungsþings Austurlands forðum fyrir fylkja- skipan í landinu og brýningu hans til Stjórnlagaráðsfulltrúanna að taka slíkt til umfjöllunar innan ráðsins.“ En allt kom fyrir ekki, þó að það sé haft fyrir satt að þetta hafi verið eini almenni fundur ráðsmanna, sem slíkra, á starfstíma þess og hefði, bara þess vegna, jafnvel átt að ýta við inn- múruðustu þéttbýlingum ráðsins í eða við 101 Reykjavík. Lengi skal manninn reyna... Vandræðagangurinn í kringum stjórnskipunarmálin hér á landi, með blindgötustefnuna um sameiningu sveitarfélaga að leiðarljósi að undir- lagi miðstýringaraflanna, er að verða ein allsherjar langavitleysa. Þar með gefst þessum sömu öflum nægt ráðrúm til að hreiðra enn betur um sig til að styrkja eiginhagsmuna- stöðu sína, eins og raun ber vitni, m.a. með því að þagga millistigshug- takið, sem er eitur í þeirra beinum, niður og það næstum í hel. Er því ekki seinna vænna fyrir málsmetandi fólk að taka til sinna ráða. Þarna ætti Lýður, og sam-ráðsfólk allt, að rífa sig upp úr flatneskjunni, viðurkenna eigin yfirsjón (sem meinlokan vonandi var) og vinna að málinu áður en Alþingi, með miðstýringarkrumluna um hálsinn, hunsar allar millistigshugmyndir í nýrri stjórnarskrá. Má geta þess í þessu sambandi að einn fyrrverandi ráðsmaður og aldursforseti þess (reyndar fæddur sama ár og undir- ritaður), Ómar okkar Ragnarsson, er nýverið kominn í stjórn byggðasam- takanna Landsbyggðin lifi, sem m.a. eru að velta millistigsstjórnsýslunni fyrir sér, ásamt hvers konar byggða- málum almennt. Honum væri örugg- lega ekki skotaskuld úr því, miðað við fyrri afrek, að hafa forystu í þessu baráttumáli, enda dugar ekki nein venjuleg hersveit í baráttuni við hina raunverulegu ríkjandi valdhafa, sem tögl og hagldir hafa í þessu máli og mörgum öðrum þjóðmálum, án þess að nokkur hafi kosið þá til eins eða neins í lýðræðislegum kosningum. Mér er svo sem alveg ljóst að það er ekkert áhlaupaverk að ráðast til atlögu við þessa sjálfskipuðu kerfisklíku hagsmuna, auðs og valda. Það ætlar ekki einu sinni að takast í hrunadansi kreppunnar, sem nú er stiginn, að hreyfa við þessu veldi, öndvert við það, sem gerðist á Írlandi og tíundað var af Dr. Kirby nokkrum í Silfri Egils sl. sunnudag (13.nóv.), þar sem sökudólgunum er hvergi vært eftir hrunið og flokksmenn klíkuflokksins þar í landi hlutu algjört afhroð í kosn- ingunum í kjölfarið og fá hvergi að koma fram óáreittir. – Læt hins vegar lesendum eftir allar vangaveltur um samanburð á stöðu hliðstæðra aðila á þessu sviði hér á landi fram að þessu, en hann vekur mörgum vægast sagt nokkurn ugg. Það þarf því greinilega fyrst og fremst kjark til að ráðast til atlögu við þetta ólýðræðislega kerfisvígi, en það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Eftir að hafa allnokkrum sinn- um fylgst með ágætum málflutn- ingi þínum, Lýður, á starfstíma Stjórnlagaráðs, þá kom nokkuð á óvænt að þú hikar ekki við að hengja bakara fyrir smið þar sem sveitar- sjórnarmenn eru, en lætur skúrkinn (hagsmunaaðilana í skjóli Alþingis, eins og þú kýst að nefna þetta lið) sleppa. Það er aumur leikmaður, sem ekki sér í gegnum þetta sam- hengi. Ætli menn í raun og veru að gera alvöru úr því að koma á bita- stæðri valddreifingu, verða menn að sjálfsögðu að ráðast að rót vandans, sjálfu miðstýringarveldinu. Í ljósi alls þessa og í framhaldi af því að lýsa þig ósammála nauðsyn eins stjórnsýslustigs til viðbótar hér á landi, berð þú upp afar hjákát- lega spurningu: ,,Um hvað ætti sú stjórnsýsla að snúast?“ Hún snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um rétt- læti; – jafnan rétt fólks, hvar sem er á landinu til þess að búa við svipuð skilyrði og aðrir og hafa mest um eigin mál að segja (sbr, skilgrein- ingu á nálægðarreglunni síðar), með öðrum orðum, raunverulega valddreifingu. Og enn er minnt á hin fallegu aðfararorð ásamt mannrétt- indakafla stjórnarskrárfrumvarps Stjórnlagaráðs sem vitnað var til í niðurlagi í fyrri grein undirritaðs, þar sem mikil áhersla er lögð á ýmiss konar mannréttindi og þar á meðal jafnrétti vegna kynferðis og búsetu. Af ýmsu má ráða að réttinda- barátta fólks óháð búsetu, þ.e. „dreifbýlista“, er mun skemur á veg komin en réttindabarátta fólks óháð kynferði, femínista, þó þar vanti einnig mikið upp á þrátt fyrir áratuga baráttu. ,,Landið eitt kjördæmi“, stjórnsýslan og nálægðarreglan Nærtækasta dæmið um virðingar- leysi við dreifbýlista kom vel fram í kosningaúrslitum til Stjórnlagaþings (síðar Stjórnlagaráðs). Þar var hins vegar jafn- vægis milli kynja mjög gætt, en síbyljuliðið, aðallega úr þéttbýli landsins, með ,,Landið eitt kjör- dæmi“ að leiðarljósi, lét sig engu skipta hið himinhrópandi ójafn- vægi sem var á búsetu hinna kjörnu fulltrúa, sem raun varð á í þeim kosningum og bent var rækilega á í Bændablaðsgrein undirritaðs.– Sem sagt óréttlæti, eða í besta falli skilningsleysi í garð hinna dreifðu byggða, setti að vonum mark sitt á viðhorf Stjórnlagaráðs í byggða- málum, enda útkoman að mörgu leyti eftir því, eins og að hluta hefur verið rakið hér. Það er hins vegar fagnaðarefni og þakkarvert að þú, Lýður, skulir brjóta ísinn fyrir uppbyggilega umræðu um byggðamál með svar- grein þinni í Bændablaðinu, þó svo að þörf sé á mun upplýstari og dýpri máflutningi en rúmast í einni stuttri svargrein um hinar raunverulegu ástæður fyrir þinni eigin fullyrðingu um að byggðavandinn sé fyrirliggj- andi stjórnsýslu að kenna. Varðandi byggðamálin þarf greinilega að uppfylla og tryggja mun betur að skilyrði þau haldi, sem lýst er í aðfararorðum og mannréttindakafla stjórnarskrár- frumvarps Stjórnlagaráðs og þú áttir vafalaust þinn stóra þátt í að orða, en fram koma síðar í frumvarpinu um breytta stjórnsýslu og stjórn- skipunarmál. Kallað er því eftir sterkari rökum gegn millistigshugmyndinni en þeim sem fram hafa komið, að því gefnu að horfið verði sem fyrst frá bröltinu um sameiningu sveitarfélaga, sem er dýr tilraunastarfsemi og skýlaust brot á hinni ágætu nálægðarreglu, en hún er í grunninn sú ,,að valdið sé sem næst þeim sem ákvarðanir varða og ákvarðanataka sé ekki færð til fjarlægari valdastofnana að nauð- synjalausu“. (Tilvitnun í erindi Ara Teitssonar, fyrrverandi varaformanns Stjórnlagaráðs og eina fullrúa þess búsettum í raunverulegu dreifbýli, á opnum fundi á Egilsstöðum 14. júní 2011.) Til þess að sjónarmið allra lands- manna komi fram í þessu máli þarf einnig fyrir alla muni að halda í heiðri skilyrði hinnar ágætu nálægð- arreglu, sem þið ráðsfólk, góðu heilli og af miklum klókindum, settuð inn í frumvarpið. Sér nokkur fyrir sér réttlæti í kosningu um slíkt mál með ,,landið eitt kjördæmi“-aðferðinni án veru- legra skilyrða og takmarkana? Hvernig sem endanlegt stjórnar- skrárfrumvarp mun líta út í afgreiðslu Alþingis, verður að lágmarki að verja nálægðarregluna og, á grunni hennar, koma millistigshugmyndinni þar inn, þótt slíkt hljómi eins og óskhyggja á þessari stundu, fyrst þið í ráðinu báruð ekki gæfu til þess og er hér með lýst eftir nánari skoðun og fylgi ykkar og annarra við málið á meðan öll nótt er ekki úti. Egilsstöðum, 17. nóvember 2011 Þórarinn Lárusson Þórarinn Lárusson. Fulltrúar stjórnlagaþings. Mynd / Fréttablaðið

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.