Fréttablaðið - 24.12.2012, Page 18
Það var aðfangadagur jóla og komið fram yfir hádegi. Þórður sat tein-réttur og grafkyrr á litlum kolli í eldhúsinu og starði svipbrigðalaus
út um gluggann. Túnin voru þakin
þykku snjóteppi og vindurinn hafði
feykt snjónum í skafla við útihúsin
svo þau risu eins og dökkar eyjar
upp úr snjóbreiðunni. Þykkur snjó-
rammi með klakahröngli hafði
myndast utan um eldhúsgluggann
svo þverrandi dagskíman náði vart
að þrengja sér inn um hann. Frá
útvarpinu barst lágur kliður. Þul-
urinn var að lesa jólakveðjur til
landsmanna og inn á milli voru
spiluð jólalög.
— Bölvað ónæði er alltaf af þess-
um Jesúmönnum. Þórður dæsti.
Hann teygði sig í tóbaksdósir á
borðinu, drap á lokið, opnaði þær
með hægri hreyfingu og setti
góðan slurk af neftóbaki á handar-
bakið. Hann leit aftur um stund út
um gluggann áður en hann sogaði
tóbakið með áfergju upp í nasirn-
ar til skiptis. Slatti af því hafnaði
í grásprengdu skegginu en hluti af
því á gólffjölunum. Það var tekið
að skyggja og hann sá andlit sitt
endurspeglast í rúðunni í upplýstu
eldhúsinu.
— Mikið er karlinn orðinn
þreytulegur, tautaði hann fyrir
munni sér.
— Það er vegna þess að karlinn
hugsar of mikið um tófuræksnið,
sagði Ásta eiginkona hans um leið
og hún kom inn í eldhúsið og setti
á sig rauða jólasvuntu.
— Hættu nú þessari störu út um
gluggann og hjálpaðu mér heldur
við að setja upp hangikjötið. Láttu
tófuna í friði rétt á meðan. Það eru
að koma jól.
— Á ég þá að láta varginn éta
upp allan bústofninn? spurði Þórð-
ur án þess að líta upp. Allar roll-
urnar með tölu og hænurnar með?
Hvers kyns búmennska er það eig-
inlega? Ég bara spyr?
— Tófan er bara að reyna að
bjarga sér, svaraði Ásta annars
hugar. Suðan var að koma upp í
pottinum og daufan ilm af tað-
reyktu hangikjöti lagði um bæinn.
Þórður hristi höfuðið og hét
áfram að stara út um gluggann.
— Það er ekki eðlilegt hve tófan
er orðin nærgöngul upp á síðkast-
ið. Ég rakti sporin í kring um hlöð-
una og alveg að hænsnakofanum.
Það vantar bara að hún laumi sér
alla leiðina inn í fjárhúsin, helvítis
vargurinn að tarna.
Þórður stóð upp og klæddi sig í
lopapeysu.
— Ætlarðu ekki að hjálpa mér
með hangikétið Þórður minn?
spurði Ásta. Það þarf líka að fara
að leggja á borðið. Krakkarnir
fara bráðum að koma.
— Ég ætla aðeins að ganga suður
fyrir húsin áður en það dimmir
alveg, svaraði Þórður.
— Vertu ekki lengi. Það fer bráð-
um að verða heilagt, sagði Ásta.
Á leiðinni út úr bænum kom
Þórður við í geymslunni, klæddi
sig í kuldaúlpu, tók stóran veiði-
riffil með sjónauka ofan af hillu
fyrir ofan dyrnar og stakk nokkr-
um skotum í úlpuvasann. Svo gekk
hann í áttina að hlöðunni. Veðrið
var stillt og hann andaði að sér
ísköldu heimskautaloftinu. Það
var alltaf sérstök vetrarlykt af
frostinu. Hann skimaði vandlega
í kringum sig er hann óð hnédjúpa
skaflana. Illviðrið undanfarna
daga hafði útmáð öll spor eftir tóf-
una. Það var merkilegt hvað hún
var orðin frökk. Eflaust var lítið
um fugl og aðra bráð í fjallinu
í þessari ótíð og því sótti hún til
byggða. En Þórður ætlaði ekki að
fórna sínum skepnum fyrir tófu-
ræksnið. Bóndinn yrði stöðugt að
standa vörð um húsdýrin og þótt
tófan ætti sinn tilverurétt í nátt-
úrunni þá væri sá réttur ekki á
ábyrgð bóndans.
Þórður hafði aldrei getað skilið
þá menn sem héldu því fram í fúl-
ustu alvöru, að sauðkindin hefði
frá upphafi gert íslensku þjóðinni
meiri bölvun en refurinn og band-
ormurinn til samans.
Það var erfitt að opna hlöðu-
dyrnar því fokið hafði í stóran snjó-
skafl fyrir framan þær og það tók
Þórð talsverðan tíma að moka snjó-
inn frá henni. Hann kom sér fyrir
í enda hlöðunnar þar sem var lítið
útskot með gluggaboru. Hann opn-
aði gluggann varlega, setti skot í
riffilinn og stakk hlaupinu út um
gluggann. Hann stillti skerpu sjón-
aukans og beið svo átekta.
Hann kæmist ekki í jólaskap fyrr
en hann vissi að hann hefði náð tóf-
unni. Fyrr yrði hann ekki í rónni,
því hann vildi vita af sauðfénu og
fuglunum öruggum yfir jólin. Þrátt
fyrir lognið, andaði köldu inn um
gluggann, svo hann hneppti að sér
úlpunni og setti á sig hanska. Hann
vissi að Ásta var farin að bíða eftir
honum en hún yrði bara að bíða enn
um sinn.
Hann athugaði umhverfið vand-
lega í gegnum sjónaukann en hvergi
var neina hreyfingu að sjá. Tófan
var helst á ferð í ljósaskiptunum og
í myrkri. Þórður hafði reynt að egna
fyrir hana með dauðyfli af gömlum
sauð, en hún hafði ekki litið við því.
Hún var of klók, bannsett tófan.
Hann skyldi þó sjá við henni. Hún
átti ekki von á fyrirsát í lognmoll-
unni þegar enginn sála var á ferð.
Skyndilega sá hann einhverja
hreyfingu út undan sér. Gat það
verið tófan? Hann hallaði sér
fram á gluggakarminn og mund-
aði byssuna í áttina að staðnum
þar sem honum hafði sýnst hann
sjá hreyfinguna. Tunglið var
komið upp og tunglsljósið sindr-
aði á hjarninu. Það fór ekki milli
mála. Þarna var lágfóta að læð-
ast á milli þúfna. Hann lokaði
byssulásnum og tók öryggið af.
Nú voru dagar hennar taldir. Nú
gæti hann haldið jól án þess að
hafa áhyggjur af skepnunum.
Hann beið rólegur eftir því að
tófan kæmi í skotfæri. Hún var
enn eitthvað að bardúsa á bak við
lágan hól. Þórður beið rólegur.
Honum lá ekkert á. Hann hafði
áður legið á greni, oft í einn til
tvo sólarhringa í senn. Hann gat
því beðið en skotið mátti ekki
geiga í þetta sinn. Hann fylgdist
spenntur með tófunni sem var
enn talsverðan spöl frá honum en
hún þokaðist smám saman nær.
Það var þó engu líkara en hún
skynjaði nærveru hans í hlöð-
unni. Hún kæmist ekki að fjár-
húsunum eða hænsnakofanum
án þess að fara fyrst fram hjá
hlöðunni.
Þórður fann að hjarta hans sló
hraðar og hann svitnaði í lófun-
um þrátt fyrir kuldann. Tófan
þokaðist enn nær og hann sá í
sjónaukanum að hún hélt á ein-
hverju í kjaftinum. Þórður sá sér
til undrunar að þetta var dauð
rjúpa, nýdauður alhvítur karri.
Þetta var undarlegt. Hvern fjand-
ann var tófan að þvælast með
bráð sína inn á milli húsa? Var
hún gengin af göflunum? Hafði
illviðrið undanfarna daga ruglað
hana í ríminu? Þórður lagði vísi-
fingurinn varlega á gikkinn.
Tófan var nú komin í skotfæri.
Kúlan, sem var með holum oddi
myndi tæta hana í sundur, hrein-
lega sprengja hana í loft upp og
hann fengi nýveidda rjúpu í kaup-
bæti, tilvalda í jólamatinn. Þórð-
ur kreisti gikkinn varlega. Hann
gjörþekkti gamla Sako-riffilinn
sinn og vissi nákvæmlega hvenær
skotið myndi ríða af.
Hann sá að tófan stóð enn hreyf-
ingarlaus og virtist horfa beint á
hann þefandi út í loftið með sperrt
eyrun. Hann yrði að hafa hraðan á
til að missa hana ekki úr skotlínu.
Rétt í þann mund fann hann fyrir
einhverri hreyfingu við fætur sér.
Hvað var fjandans kötturinn að
þvælast fyrir honum núna? Eftir
að Seppi, gamli hundurinn hans
dó, óðu þessir kettir stjórnlaust
um allt. Seppi hefði svo sannar-
lega haldið tófunni frá bænum,
það eitt var víst.
Tófan stóð enn hreyfingarlaus
í sömu sporum eins og hún væri
að bíða eftir einhverju. Þá fann
Þórður aftur eitthvað strjúkast
við fætur sér. Hann bölvaði og
sparkaði í heyið með stígvélinu.
Þá heyrði hann ámátlegt væl.
Hann leit niður og sá þrjá
nýfædda yrðlinga sem lágu í
einum hnapp í litlu bæli í heyinu.
Þórður horfði undrandi á tófuna
og yrðlingana til skiptis. Hann
andvarpaði og horfði eftir gufu-
stróknum frá heitum andardrætti
sínum liðast hægt upp í kalt loft-
ið og leysast upp. Himinninn var
stjörnubjartur en sumar stjörn-
urnar voru bjartari en aðrar.
Hann opnaði lásinn á byssunni,
tók skotið og stakk því í vasann.
Hann lokaði glugganum. Í fjarska
heyrðist ómurinn frá kirkju-
klukkunni innar í dalnum sem
var að hringja inn jólin. Það var
orðið heilagt.
➜ Illviðrið undan-
farna daga hafði
útmáð öll spor
eftir tófuna. Það
var merkilegt hvað
hún var orðin frökk.
Eflaust var lítið um
fugl og aðra bráð í
fjallinu í þessari ótíð
og því sótti hún til
byggða. En Þórður
ætlaði ekki að fórna
sínum skepnum fyrir
tófuræksnið.
Tófan
Jólasaga eftir Júlíus Valsson
M
YN
D
/H
ALLD
Ó
R BALD
U
RSSO
N
24. desember 2012 MÁNUDAGUR| HELGIN | 18