Fréttatíminn - 15.04.2011, Blaðsíða 32
H ér er staðreynd um vesturhorn Afríku: Malbik þýðir Internet. Altso, þar sem er greiðfær vegur, þar er tölva með netkapli í
næsta kaupstað þótt stundum verði að fara alla leið
inn í bakherbergi á fjarskiptamiðstöð í eigu hins
opinbera. Ég hef ekki séð malbik í heila viku.
Menn gætu stigið á Mars og ríkisstjórnin ákveðið
að Reykjavík skyldi lögð í eyði. Ég myndi heyra af
því um svipað leyti og slökkt yrði á Friðarsúlunni.
Jú, hér í regnskógum Gíneu-Bissá eru sagðar
fréttir, eins og gengur í mannlegu samfélagi. Útvarp
er eini formlegi miðillinn. En þulurinn talar portú-
gölsku eða eitthvað þaðan af óskiljanlegra. Jafnvel
þótt einstaka maður sé talandi á ensku myndi eng-
inn svífa á mig til að flytja fréttir úr hvítra-manna-
landi. Ekki frekar en ég færi að ræða ástandið við
Gíneuflóa við túrista á Íslandi.
Fyrir ári sat ég inni á kontór hjá embættismanni
súdanska lýðveldisins. Ég var nýstiginn af bát frá
Egyptalandi og kynni mín af súdönsku skrifræði
rétt að byrja. Þessi hafði það eina hlutverk að skrifa
nafnið sitt með bláum penna (einungis forsetinn
notar svartan). Þess vegna kom ekki á óvart að
öll húsgögnin á skrifstofunni skyldu snúa í átt að
litlu sjónvarpstæki, stilltu á arabíska fréttastöð þá
stundina. Á skjánum slóst fólk um hrísgrjónasekki
sem rigndi úr herþyrlu. „Haítí. Vandamál. Enginn
matur,“ svaraði Skriffinnur þegar ég benti á tækið.
Síðan liðu fjórir dagar þar til ég heyrði að Haítí
glímdi við meira en matvælaskort.
Vegna þess að Vestur-Afríka er vanþróuðust allra
heimshluta og vegna þess að á reiðhjóli forðast ég
fjölfarna – malbikaða – staði, keypti ég farsíma, með
afrísku símanúmeri, og bað pabba að hringja ef það
yrðu stórtíðíndi; þriðja heimsstyrjöldin og þar fram
eftir götum.
Í þau fáu skipti sem síminn hringir bý ég mig
undir það versta. (Ef mamma heilsar á hinum end-
anum geri ég ráð fyrir að pabbi sé farinn í þriðju
heimsstyrjöldina.)
Að vera einn
Fyrstu nóttina sem ég tjaldaði í leyfisleysi á víða-
vangi í Vestur-Afríku dreymdi mig að maður stæði
fyrir utan tjaldið og vældi um gistingu. Hann lýsti
vasaljósi framan í mig þar til ég vaknaði, með birtu í
augunum - frá fullu tungli.
Nú er aftur fullt tungl og aftur hef ég slegið upp
tjaldi fjarri mannabyggðum. Að þessu sinni get ég
útilokað gesti. Hingað kemst enginn nema syndandi
eða með því að höggva leið gegnum belti af þyrni-
runnum.
Ég hins vegar teymdi reiðhjólið hingað eins og
ekkert væri og kem til með að fara sömu leið í fyrra-
málið. Á fjöru.
Eyjan Bolama var höfuðstaður Portúgala í Vestur-
Afríku allt til ársins 1941. Héðan stýrðu þeir arðráni
á meginlandi Gíneu-Bissá, bíræfnastir nýlendu-
herra. Stjórnarhýsin, reist í tignarlegum evrópskum
stíl, standa enn við höfnina, flest að hruni komin.
Byggð á eyjunni virðist ekki hafa tekið miklum
breytingum frá því þau voru yfirgefin.
Á eyjunni er vegur en engir bílar. Hringvegur,
skildist mér á heimamönnum við höfnina. Sautján
kílómetrum síðar fann ég út að svo var ekki og eina
ráðið að finna næturstað.
Einn á ósnortnum, einangruðum hluta eyju í Atl-
antshafi, eyjunni þar sem sjóför Róbinson Krúsó
hófst til Brasilíu. Það tekur tíma að venjast frelsis-
tilfinningunni. Ekki ósvipað og að vera einn heima
í fyrsta sinn.
Ég fylgist með sólinni setjast úti á hafi og tungl-
inu rísa yfir frumskóginum. Skugginn af mér skiptir
um hlið.
Tjaldið er bókstaflega fimm milljón stjörnu þessa
nótt.
Engispretturnar syngja mig í svefn.
---
Tíu dögum síðar er ég enn einn. Eða mér er farið
að finnast það. Hef ekki mætt hvítum manni frá því
ég kvaddi gestgjafana í Bissá, íslenska læknanema.
Með öðrum orðum: Ég hef ekki átt samtal við neinn
í næstum tvær vikur.
Heimamenn eru fínir félagar, einatt vinalegir og
léttlyndir. En samtöl ná sjaldnast lengra en hvað-
heitirðu-hvað-segirðu-hvaðan-ertu? Ég get ekki
rakið raunir mínar fyrir neinum nema dagbókinni.
Moskítófluga hélt fyrir mér vöku nóttina áður.
Mér er heitt. Illt í hnénu. Finn ekki veginn sem ég
þarf að taka.
Mig langar að hrista næsta mann þar til hann
skilur ensku. Hringja í kærustuna og skamma fyrir
að vera ekki í Afríku. Leggjast á grúfu og bíða þess
að vera hirtur og háttaður ofan í alvöru rúm.
Það er enginn nálægur til að hrista. Ekkert síma-
samband. Og jörðin undirlögð maurum.
Gæti verið verra, er yfirleitt mitt mottó á ferðalög-
um en það á ekki við núna.
Í litlu þorpi, síðar sama dag, rekst ég á kristni-
boða. Bandarískan! Ég hef aldrei áður haft löngun
til að faðma ókunnugan, miðaldra karlmann. Hann
býður mér gistingu. Ég nánast þakka yfirmanni
hans, þessum sem ku búa á besta stað í himnaríki.
Þess vegna ferðast ég á reiðhjóli
Það er ekki brú! Það er ekki brú! Það er ekki brú!
Ég stöðva hjólið við bakkann, dreg fram kortið og
tek í fyrsta sinn eftir bláu línunni sem sker slóðann
inn í regnskógahérað Gíneu-Bissá.
Fljótið er óþægilega straumþungt. Ég sé báta á
hinum endanum og kalla eftir fari. Engin viðbrögð.
Ekki fyrr en mér berst liðsauki á mótorhjóli. Mótor-
hjólamaðurinn veit að til að ræsa bátsmanninn þarf
að gefa frá sér ýlfur, nokkur stutt í röð.
Úúú ... úúú ... úúú ...
Það tekur bátsmanninn dálítinn tíma að ræsa
mótorinn á árabátnum.
Við hjólamennirnir lyftum farartækjunum um
borð. Mótorhjólið er þriggja manna tak og að því
búnu er varla pláss fyrir okkur alla um borð – finnst
mér. Hvað þá parið sem kemur hlaupandi á síðustu
stundu. „Það eru tveir í viðbót á leiðinni,“ segja þau.
Bátsmaðurinn á fullt í fangi með að ausa úr bátnum
þegar sjöundi og síðasti farþeginn stígur um borð.
Ég hef verið í sjálfskipaðri útlegð í Vestur-Afríku
frá því í janúar. Ég ferðast á reiðhjóli, með tjald og
franska vasaorðabók, þótt taktar úr aktionary reyn-
ist yfirleitt betur. Meðan báturinn fyllist af fólki – og
vatni – sé ég fyrir mér endalok þessarar Afríkuferð-
ar: Mótorinn bilar. Bátinn rekur með straumnum.
Vatnsmagnið um borð eykst. Við sökkvum undan
þunganum.
Bátsmaðurinn vill fá sem flesta fimmtíukalla út úr
farinu, þrátt fyrir að þurfa að þenja mótorinn. Auka-
peningurinn fer á endanum í viðhald á bátnum og
mótornum en meðferðin gefur ekki von um mikla
endingu. Lýsandi ástand fyrir samgöngur í þróunar-
ríkjum. Farartæki eru drekkhlaðin, viðgerðir mið-
ast við að endast út daginn og bensíntakar alltaf hálf
tómir.
Fyrir ári ferðaðist ég í fjóra mánuði um austur-
hluta Afríku, einungis með almenningssam-
göngum. Ferðalög tóku yfirleitt allan daginn, óháð
vegalengd.
Á reiðhjóli fer ég þangað sem ég vil, þegar ég vil,
gisti hjá þorpshöfðingjum og kynnist lifnaðarhátt-
um frá sólarupprás til sólarlags. Mesti vandinn er
að deila vegum með ökudólgunum. Til þessa hef ég
aðeins einu sinni orðið fyrir rútu. Gæti verið verra.
Egill í Afríku – Reisubókarbrot
Við landamæri Gíneu og Gíneu-Bissá Eftir að bílferjan eyðilagðist er Ibrahim bátsmaður, sem stendur hér í stafni, sá
eini sem flytur farþega áleiðis að landamærahliðinu sem höfundur fór um og var eini viðskiptavinur landamæravarðarins
þann daginn.
Egill Bjarnason
ljósmyndari er
þrautreyndur
heimshornaflakk-
ari þótt ungur sé
að árum. Hann á
ættir að rekja til
Selfoss – er sonur
Bjarna bóksala
Harðarsonar – en er
þessi dægrin einn á
ferð í átta mánaða
hjólreiðatúr um
Vestur-Afríku, hefur
þegar lagt á þriðja
þúsund kílómetra að
baki. Ljósmyndir/Egill
Á reiðhjóli fer ég þangað
sem ég vil, þegar ég vil.
Mótorhjólið er
þriggja manna
tak og að því
búnu er varla
pláss fyrir okkur
alla um borð –
finnst mér. Hvað
þá parið sem
kemur hlaup-
andi á síðustu
stundu. „Það
eru tveir í viðbót
á leiðinni,“ segja
þau. Báts-
maðurinn á fullt
í fangi með að
ausa úr bátnum
þegar sjöundi og
síðasti farþeginn
stígur um borð.
Meira frá ferðum Egils síðar.
32 ferðalög Helgin 15.-17. apríl 2011