Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 2013 7 Hrútur sem Kristján Stefánsson frá Gilhaga í Skagafirði stoppaði upp nú á liðnu hausti er á leið til Bandaríkjanna, en honum á að koma fyrir utan við ullarvöruverslun bræðranna Roberts og Henry Landau í Princeton. Afi þeirri, Henry, stofnaði verslunina árið 1914 og eru þeir bræður þriðja kynslóðin sem rekur þessa nær aldargömlu ullarvöruverslun. Þeir keyptu áður fyrr ullarvörur á Íslandi og fyrir um fjórum áratugum festi Robert kaup á uppstoppuðum íslenskum hrút sem komið var fyrir framan við verslun þeirra. Sá vakti aldeilis lukku og laðaði að fjölmarga viðskiptavini, sem kom sér vitanlega vel fyrir reksturinn. Síðastliðið sumar urðu þeir bræður fyrir barðinu á nokkuð fingralöngum þjófi eða þjófum og hrútnum var stolið. Hefur ekkert til hans spurst síðan. Lífsspursmál að fá nýjan hrút Kristján segir að Robert hafi verið í öngum sínum vegna þjófnaðarins, en hann hafði samband við íslenskan kunningja sinn, greindi honum frá óförunum og spurði hvort hann gæti útvegað sér nýjan uppstoppaðan íslenskan hrút. „Þannig kom ég inn í þetta mál,“ segir Kristján, sem nú býr á Akureyri og er þekktur uppstoppari. „Það virtist vera lífsspursmál fyrir Landau-bræður að fá nýjan íslenskan hrút og ég tók að mér það verk að útvega þeim hann.“ Úrvalshrútur frá Gullbrekku Kristján fékk Birgi Arason í Gullbrekku til liðs við sig og fékk hjá honum úrvalshrút, stóran og stæðilegan, sérlega hvítan enda hefur Birgir í Gullbrekku lagt rækt við fé af því tagi. Hrútnum var slátrað síðastliðið haust og tók Kristján til við verkefnið í nóvember og lauk því örfáum dögum fyrir jól. Þá tók hann til við að smíða sérstakan kassa utan um gripinn og svo er bara að koma honum af stað utan. Forystusauður næstur á dagskrá Kristján hefur ævinlega næg verkefni og það næsta sem nú tekur við er að stoppa upp forystusauð frá Álandi í Þistilfirði. Sá mun á komandi sumri prýða Fræðasetur um forystufé sem verið er að setja upp í gamla félagsheimilinu við Svalbarð í Þistilfirði, en þar er fyrirhugað að gera sögu og einkennum forystufjár skil. „Það er gaman að spreyta sig á verkefnum af þessu tagi, en mér skilst að þessi hrútur verði aðalnúmerið á setrinu,“ segir Kristján, sem er um það bil að hefjast handa við að stoppa forystusauðinn upp svo hann verði tilbúinn að gegna hlutverki sínu á setrinu næsta sumar. /MÞÞ eð góðum nýárs- óskum til lesenda hefst vonandi frjótt og frumlegt vísnaár. Vænti ég þess fastlega að lesendur verði iðnir að senda efni sem oft fyrr. Í síðasta vísnaþætti ársins 2012 birtust einvörðungu kersknis- og skammarvísur. Til að hita upp fyrir komandi ár er tilvalið að framhalda þeim kveðskaparhætti sem mætti nefna „rótarhátt“. Fyrsta vísan er eftir Jón Pálma Jónsson á Sauðárkróki, ort um gortgefinn mann, eigandi litla innistæðu fyrir drýgindum sínum: Mjög þín skeikul skynsemd er, skoðun beykjast lætur. Alltaf hreykir heimskan sér hátt á veika fætur. Um lítt umtalsfróman orti Gissur Jónsson bóndi í Valadal: Unir best við annars neyð afhrak mesta skitið. Hvar sem festir kjaft á sneið kenna flestir bitið. Þormóður Pálsson frá Njálsstöðum gerði fremur gæfu- smáu mannhraki þessa vísu: Víst mun engu á þig logið, um það flestum saman ber. Hvar sem gastu smugu smogið smánin skreið á hæla þér. Egill Jónasson á Húsavík eys engu oflofi á þennan samferðamann sinn: Gekkstu þannig lífsins leið langa götu og breiða: Gerðir aðeins út úr neyð öðrum mönnum greiða. Um óhóflega ágjarna samferða- konu orti Hörður Geirdal næstu tvær vísur: Eignir myndi af öllum flá, ef hún bara þyrði. Hún má aldrei aðra sjá eignast skildingsvirði. Hnýsin öllum ber á borð blendið sagnahratið. Hefur náð í orð og orð út um skráargatið. Eftir höfðingja hringhendunnar, Rósberg Guðnason Snædal, er þessi vísa um kaupmann nokkurn: Gulli faldar sjálfan sig, svíðingsgjaldið tekur, út á kaldan klaka mig kaupmannsvaldið hrekur. Guðmundur Geirdal orti til ónefndrar konu sem aflaði fjár með sínum hætti: Dapureygð og opinmynnt, álkan teygð og snúin, axlareigð og illa kynnt út sig leigir frúin. Hannes Guðmundsson á Fitjum orðar ekki mildilega þessa mann- lýsingu: Hans var jafnan höndin treg að hjálpa smælingonum. Gekk þó aldrei glæpaveg, en götuna meðfram honum. Sigurður Gíslason frá Skarðsá sparar ekki lýsingarorðin í þessu skeyti: Öll hans loforð eru svik, allt hans tal er þvaður. Honum þykir hægra um vik að heita en vera maður. Umsjón: Árni Jónsson kotabyggd1@gmail.com Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM M Uppstoppaður hrútur úr Skagafirði á leið í langferð til Bandaríkjanna - verður staðgengill hrúts sem stolið var í ullarvöruverslun Roberts og Henry Landau í Princeton Áður en hrúturinn lagði upp í langferð til Bandaríkjanna kom hann við á jólaballi hjá heimilisfólki á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og vakti þar óskipta athygli. Kristján uppstoppari frá Gilhaga með Gullbrekkuhrútinn sem senn mun verða fundinn staður framan við verslun bræðranna Henry og Robert Landau í Princeton í Bandaríkjunum, en forvera hans í því hlutverki var stolið síðastliðið sumar. Helena Rut, langafabarn Kristjáns frá Gilhaga, kom í heimsókn á vinnu- af hrútnum. Þau gerast trúlega vart fínni og snyrtilegri fjárhúsin á Íslandi en það sem sést á þessari mynd. Þetta glæsilega fjárhús er hjá Karli Kristjánssyni og Svanborgu Guðbjörnsdóttur á Kambi II í Reykhólahreppi. Hjörtur L. Jónsson smellti þessari mynd af þegar hann var þar á ferð fyrir Bændasamtökin fyrir nokkru. Karl segist hafa stækkað fjárhúsið 2005 og hafa þá ákveðið að nota panelklæðningu í stað krossviðar á efri hluta veggjanna. Á neðri hlutanum er brúnn krossviður. „Ástæðan var að panellinn var einfaldlega ódýrari á þessum tíma og stöðugri en krossviður. Þetta hús er 14 sinnum 21 metri og svo er ég með annað eldra hús hér við hliðina." Karls segist nú vera með 386 fjár á fóðrum. Þrátt fyrir þurrka í sumar hafi hann ekki þurft að fækka fé og telur hann sig sæmilega birgan af heyjum út veturinn. /HKr. Eins og fínasta stássstofa

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.