Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 2013 Um áramótin urðu breytingar á högum Halldórs Runólfssonar, en þá lét hann af embætti yfirdýrlæknis eftir 15 ára starf. Halldór hefur tekið við embætti skrifstofustjóra afurða í atvinnuvega- og nýsköpunar ráðuneytinu, nýju embætti sem stofnað var til við sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytis í hið nýja ráðuneyti. Undir skrifstofu afurða heyra m.a. verkefni tengd búvöruframleiðslu, matvæla- framleiðslu og matvælaöryggis, fæðuöryggis, dýra- og plöntu- sjúkdómar og dýravelferð. Má því segja að Halldór sé ekki að söðla algjörlega um starfsvettvang. Bændablaðið tók Halldór tali og ræddi við hann um þau verkefni sem hæst hafa borið á þeim 15 árum sem hann sinnti starfi yfirdýralæknis. Halldór segir að embættið hafi tekið miklum stakkaskiptum á þessum tíma. „Í raun hefur embættið gengið í gegnum þrjár stórar stofnana-, kerfis- og lagabreytingar. Um aldamótin gengu í gildi ný lög um dýralækna þar sem héraðsdýralæknum var fækkað úr 26 í 14 ásamt mjög miklum breytingum öðrum. Það var líka stigið fyrsta skrefið í því að gera héraðsdýralæknaembætti eingöngu að eftirlitsembættum, á Suðurlandi, Akureyri og Skagafirði. Við þetta þurfti að gjörbreyta embætti yfirdýralæknis. Næsta breyting sem varð var síðan sameining embætta í Landbúnaðarstofnun 2006, sem síðan varð að Matvælastofnun (MAST) 2008 þegar matvælaeftirlit á vegum ríkisstofnanna var sett undir einn hatt. Þriðja stóra breytingin varð síðan 1. nóvember 2011 þegar héraðsdýralæknaembættum var enn frekar fækkað og þeir gerðir alfarið að opinberum eftirlitsmönnum, en ekki praktíserandi dýralæknum samhliða. Allt hefur þetta að mínu mati verið til góðs. Ég tel hins vegar að það ætti að sameina matvælaeftirlitið algjörlega, þ.e. heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna við MAST. Það myndi einfalda og gera eftirlitið skilvirkara. Ég hef verið þessu fylgjandi lengi en það hefur ekki verið pólitískur vilji til þess.“ Gagnrýni á breytingar á dýralæknaþjónustu – Matvælastofnun fékk gríðarlega gagnrýni á sig fyrir breytingarnar á dýralæknaþjónustunni í lok árs 2011. Var það ómaklegt að þínu viti? „Það var mikil tregða í stjórnsýslunni að ganga frá öllum þeim málum sem þurfti að ganga frá við þessar breytingar og þetta ferli tók allt mjög langan tíma. Það tók sömuleiðis afar langan tíma að ganga frá fjárframlögum sem áttu að standa undir kostnaði við þjónustudýralæknakerfið. Ég skil vel að þetta ferli hafi verið gagnrýnt af bændum en ástæður þess að hlutirnir gengu hægt fyrir sig lágu í stjórnsýslunni. Það er eitthvað sem stofnunin réð ekki við.“ -En nú er mikil óánægja hjá bændum úti um land vegna þessara breytinga, ekki síst vegna þess hversu stórum svæðum þjónustudýralæknum er ætlað að sinna. Finnst þér samt sem áður að þessi breyting hafi tekist vel? „Það er alveg rétt að svæðin eru stór og auðvitað verða alltaf hnökrar við breytingar af þessu tagi. Heilt yfir held ég samt að þetta hafi tekist þokkalega vel en það hefur tekið nokkurn tíma, það viðurkenni ég. Það eru öflugir dýralæknar sem nú eru að sinna þessari þjónustu og ég vonast til að hún verði í lagi hér eftir.“ Nauðsynlegt að uppfylla kröfur – Það hafa verið uppi raddir um að með stofnun MAST hafi flækjustig vaxið, skrifræði hafi aukist og kostnaður sömuleiðis. Hvernig svarar þú þessari gagnrýni? „Bændur verða að skilja að til að hægt sé að selja þeirra framleiðslu á markaði, bæði hér heima og erlendis, verður að uppfylla kröfur sem settar eru. Til þess þarf eftirlit og skýrsluhald og því fylgir skrifræði. Dæmi um þetta eru einstaklingsmerkingar gripa sem var nú töluvert gagnrýnt á sínum tíma. Hins vegar er það kerfi grundvöllurinn að rekjanleika afurða og þetta snýr því að matvælaöryggi. Með einstaklingsmerkingum er til að mynda hægt að tryggja að ekki fari á markað afurðir með lyfjaleifum, sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um að sé nauðsynlegt. Það þarf utanumhald í kringum þetta allt saman og menn verða að átta sig á því að þetta er partur af þróuninni. Þetta er grundvöllur að auknum útflutningi á búvörum og nauðsynlegt. Auðvitað skil ég gagnrýni á aukinn kostnað. Hins vegar er það svo að eftirlitsgjöld af þessu tagi endurspegla bara kostnaðinn við eftirlitið, ef ekki þá verður hallarekstur á þessu og það getur auðvitað ekki gengið.“ Þungt að horfa upp á brot gegn dýrum Halldór segir að eitt stærsta málið sem hann hafi lagt áherslu á sem yfirdýralæknir hafi verið samræming á málefnum tengdum dýravelferð. Hann fagnar því að nú sé útlit fyrir að að ný lög um dýravelferð séu að verða að veruleika, sem og ný lög um búfjárhald. Með þeim verði dýravernd komið á hendur eins ráðuneytis, einnar stofnunnar og með skýrari lagabókstaf en fyrir því hafi hann barist árum saman. Hann segir það hins vegar þyngra en tárum taki að horfa upp á þau brot á dýravelferð sem upp hafi komið á síðustu árum, en mörg þeirra hafi verið mjög alvarleg. Það verði að vera hægt að bregðast fyrr við, áður en í óefni sé komið. „Það sem þarf að gera er að reyna að koma upp einhvers konar viðvörunarkerfi, að það sé hægt að bregðast fyrr við. Bændur, eins og aðrir, geta lent í andlegum vandræðum en í þeirra tilfelli bitnar það líka á dýrunum og er því sínu alvarlegra. Það var auðvitað skelfilegt síðasta vetur að það skyldi þurfa að lóga fjölda dýra á tveimur bæjum vegna þess að ekki var hægt að bata þau. Þá er þetta gengið allt of langt.“ -En nú hefur verið gagnrýnt upp á síðkastið að með þessum breytingum verði fallið frá árlegum vorskoðunum og einungis verði tilviljunarkenndar heimsóknir. Það gæti þá þýtt að ekki yrði komið á suma bæi árum saman. Er það áhyggjuefni að þínu mati? „Það má auðvitað ekki ske. Allt þetta eftirlit á nú að verða sem mest áhættumiðað. Við vitum auðvitað að það eru til bændur þar sem hlutirnir eru alltaf í góðu lagi. Þá eru menn hugsanlega að spara mannskap í slíkt eftirlit en nota hann frekar í önnur verkefni og aukið eftirlit þar sem þarf á að halda. Það er spurning um uppsetningu á áhættuflokkum, t.a.m. um aldur eða minni þátttöku í skýrsluhaldi.“ – En er verið að vinna að slíkri flokkun? „Það er verið að vinna að því að búa til ákveðna flokkun af þessu tagi. Sömuleiðis þarf að ná betra sambandi við starfandi aðila á svæðum, sjálfstætt starfandi dýralækna, lækna, félagsráðgjafa. Þetta eru allt saman aðilar sem á að vera hægt að nýta samskipti við.“ -Er það þessara aðila að sinna eftirliti með dýravelferð? Á að leggja ábyrgð af þessu tagi á herðar fólks sem ekki starfar beint að málum sem snerta dýravernd? „Það verður auðvitað að hafa í huga persónuverndarþáttinn í þessum efnum, mikil ósköp. Það er hins vegar allra að tilkynna um slæma meðferð á dýrum. Þetta er eins og barnaverndarmál, það á ekki að þegja yfir þeim og ekki heldur málefnum tengdum dýravernd. Ég held að þessi mál séu á betri leið með þeim breytingum sem eru að verða. Búfjáreftirlitsmenn verða nú starfsmenn héraðsdýralækna og það mun styrkja þau samskipti en vitanlega verða allir, hér eftir sem hingað til, að leggjast á eitt í þessum efnum.“ Dómstóla skortir skilning á dýraverndarmálum – Þú segir að þetta, dýraverndin, sé eitt af þeim stóru málum sem þú hafir lagt áherslu á í þínu starfi. MAST hefur legið undir gagnrýni fyrir að beita sér ekki með meira afgerandi hætti í þessum efnum. Er það ósanngjörn gagnrýni? „Já og nei. Ég held að það sé fullur vilji hjá öllum starfsmönnum til að gera vel í þessum efnum en það eru takmarkanir, eins og skortur á mannskap, sem hafa valdið því að það virðist ganga erfiðlega að taka á málum. Það eru hins vegar mörg mál sem hefur verið eytt alveg óhemju tíma og vinnu í. Samt gengur illa að ná viðunandi árangri í þeim. Eftir mikla vinnu stofnunarinnar eru málin kannski kærð og hvað kemur ú túr því? Viðkomandi fá sekt og heldur svo áfram. Við viljum gera kröfur um að fólk verði dæmt frá því að halda dýr en dómstólarnir hafa ekki brugðist við þeirri kröfu. Það sem nú er að gerast með nýjum dýraverndarlögum er að við höfum nú betri þvingunarúrræði en við verðum samt sem áður upp á dómstólana komin. Þar hefur mér hreinlega fundist vanta skilning á dýraverndarmálum.“ -Finnst þér löggjöfin hafa verið með þeim hætti að dómstólar hafi getað brugðist við með þessum hætti sem þú nefnir hér að framan? „Þegar við höfum lent í erfiðustu málunum, þegar þurft hefur að lóga skepnum nánast samdægurs, hafa lögin dugað. Allur ferill stofnunarinnar hefur verið réttur að þessu leyti. Það sem okkur gremst er að þegar búið hefur verið að sýna fram á það með óyggjandi hætti að verið sé að fara illa með dýr hafa dómstólarnir ekki fallist á þær kröfur okkar að fólk verði svipt leyfi til dýrahalds. Það er mín skoðun að það ættu að setja skilyrði um að hrossa- og sauðfjárbúskapur ætti að verða starfsleyfisskyldur líkt og er með aðrar búgreinar. Því miður hefur hagsmunagæsla hamlað því. Það eru búgreinasamtök þessara greina sem hafa lagst gegn því og það er mjög miður. Þetta eru matvælaframleiðendur, hrossabændur og sauðfjárbændur. Af hverju ættu þeir ekki vera starfsleyfisskyldir eins og t.d. kúabændur? Þessi mál, matvælaframleiðsla og dýravelferð eru nátengd og því er hangir þetta saman,“ segir Halldór en leggur jafnframt áherslu á að í langflestum tilfellum séu hlutirnir auðvitað í góðu lagi. Tekur áratugi að hreinsa landið af riðu Að mati Halldórs þurfa Íslendingar að búa sig undir að hingað til lands berist nýir búfjársjúkdómar í nánustu framtíð. Halda verði áfram að móta viðbragðsáætlanir í þeim efnum en slík vinna hefur nú um nokkurt skeið verið í gangi hjá embætti yfirdýralæknis. Hann leggur hins vegar áherslu á að alls ekki megi leyfa innflutning á lifandi dýrum til landsins, það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar. Halldór segir að hann telji að bærilega hafi tekist að glíma við búfjársjúkdóma hér á landi síðustu 15 ár, þó áföll hafi vissulega dunið yfir. „Þegar ég tók við embætti yfirdýralæknis, árið 1997, sagði ég í viðtali við Bændablaðið að mikilvægustu verkefni embættisins væru að koma í veg fyrir að nýjir búfjársjúkdómar bærust til landsins og að fækka þeim sjúkdómum sem væru hér landlægir. Ég tel, þegar ég lít yfir þessi fimmtán ár í starfi, hafi þetta í meginatriðum tekist. Frá því eru vissulega undantekningar sem erfitt hefur verið að eiga við. Hrossapestirnar 1998 og 2010 réðum við ekki við því miður en heilt yfir hefur þetta tekist nokkuð vel. Við höfum til að mynda samið viðbragðsáætlanir við því að hingað til lands berist skæðir sjúkdómar, eitthvað sem ekki var til áður. Varðandi riðu sérstaklega hefur ekki komið upp svokölluð klassísk riða frá árinu 2010 og mikið dregið úr riðutilfellum frá því sem áður var. Við höfum því miður verið að fá upp þetta norska afbrigði, NOR98 riðuna, en menn eru þó að komast á þá skoðun að hún sé ekki eins hættuleg og klassíska riðan. Þrátt fyrir að það hafi náðst allnokkur árangur í baráttunni við riðu má hvergi slaka á. Þetta er þannig smitefni að það mun taka mjög langan tíma að hreinsa landið af því, ég er að tala um áratugi og því má alls ekki slaka á þessum efnum. Hvað aðra sjúkdóma varðar hefur tekist að halda garnaveiki niðri, fyrst og fremst með bólusetningum. Fjárkláða hefur tekist að útrýma að fullu með aðgerðum á Norðurlandi vestra á árunum 2002 til 2004. Í hvíta kjötinu hefur verið aukið við bólusetningar gegn sjúkdómum með góðum árangri, sem hefur aftur dregið úr notkun á fúkkalyfjum við sjúkdómum. Það hefur sömuleiðis verið gert í fiskeldinu og hefur skilað sér mjög vel. Hvað varðar salmonellu og camphylobakter í alifuglum hefur náðst talsverður árangur í þeim efnum og með samstilltu átaki hefur tekist á síðari árum að koma í veg fyrir að sýkt kjöt berist á markað og þar með í fólk. Við glímum vissulega ennþá við þessar sýkingar í fuglunum en þær hafa ekki borist í fólk nú á síðustu árum.“ Ekki má leyfa innflutning lifandi dýra – Óttastu að hingað til lands berist á næstu árum nýir sjúkdómar sem við fáum ekki við ráðið? Hvaða skoðun hefur þú t.a.m. á þeim hluta aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem snýr að innflutningi á lifandi dýrum? „Evrópusambandið hefur alla tíð gert þá kröfu að við tökum yfir alla löggjöfina um innflutning á lifandi dýrum og hráu kjöti. Fram til þessa hefur tekist að koma í veg fyrir að hingað séu flutt inn lifandi dýr. Við vitum að það eru ýmsir sjúkdómar í Evrópu sem gætu borist hingað til lands með innflutningi á lifandi dýrum og undanfarin ár hafa að miklu leyti snúist um það hjá mér að vinna í þessum málum. Ég segi að það sé algjört forgangsatriði að við fáum undanþágu frá innflutningi lifandi dýra. Við höfum sérstöðu með okkar einangruðu búfjárstofna. Í Evrópu er fjöldi sjúkdóma sem að gerir engan usla þar, þar eru stofnar með áratuga eða jafnvel ár hundruða ónæmi gegn þeim sjúkdómum. Ef þeir hins vegar bærust hingað til lands myndi það geta haft geigvænlegar afleiðingar fyrir okkar dýrastofna. Nægir þar að nefna hóstapestina sem kom upp í hrossunum, veikindi sem eru þekkt úti í Evrópu en hafa ekki valdið stórkostlegu tjóni þar. Svo eru aftur aðrir sjúkdómar sem að geta borist hingað með hlýnandi loftslagi, sjúkdómar sem við munum illa geta varið okkur fyrir eins og hugsanlega blátunguveiki. Við verðum bara að vera tilbúin til að bregðast við þeim sjúkdómum ef þeir berast hingað.“ Halldór segist skilja sáttur við embætti yfirdýralæknis eftir þessi fimmtán ár. „Ég hef haft það að leiðarljósi að hjálpa góðum málum áfram. Í þessu nýja starfi, sem skrifstofustjóri afurða, mun ég væntanlega halda áfram að vinna að svipuðum málum og gera mitt besta í þeim efnum áfram.“ /fr Halldór Runólfsson Fæddur 7. mars 1948 í Gunnarsholti á Rangárvöllum Nám í dýralækningum við Edinborgarháskóla 1968-1973. Meistaranám við Edinborgarháskóla 1983- 1984 í dýraheilbrigðis- og matvælaeftirliti fyrir dýralækna. Diplóma í Opinberri stjórnun og stjórnsýslu við Endurmenntun Háskóla Íslands 2002-2003. Yfirdýralæknir 1997-2012. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis 1991-1997. Deildarstjóri hjá Hollustuvernd ríkisins 1984-1991. Héraðsdýralæknir í Kirkjubæjarklaustursumdæmi 1974-1983. Halldór Runólfsson lætur af starfi yfirdýralæknis eftir 15 ára starf: Dýraverndin stærsti málaflokkurinn – tekur við embætti skrifstofustjóra afurða hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Mynd / fr

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.