Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Í mínum huga minnir bóndarósin (Paeonia) frekar á fallega heima- sætu í sveit, eilítið bústna og rjóða í kinnum, en íslenskan bónda, þrátt fyrir að nafnið sé búsældar- legt. Nafnið bendir aftur á móti til þess að fyrstu bónda rósirnar í íslenskum görðum eigi uppruna sinn að rekja til Danmerkur, þar sem plantan kallast bonderose. Sunnar í Evrópu eru bóndarósir kenndar við gríska lækninn Paion, sem samkvæmt Ilíonskviðu Hómers á að hafa grætt sár Aresar, sem hann hlaut í Trójustríðinu, með smyrslum sem unnin voru úr jurtinni. Elstu heimildir um Paion eru skráðar á leirtöflur sem fundust við forn- leifauppgröft í Knossos á eyjunni Krít og benda til þess að jurtin hafi verið notuð til lækninga frá því á tímum Forn-Grikkja. Kínverjar segja að bóndarósin sé blóm himinsins og hún er jafnframt þjóðarblóm Kína. Bera stór blóm Til skamms tíma tilheyrðu bónda- rósir ætt sóleyja en í dag teljast þær til sérstakrar ættar sem nefnist Paeoniaceae eða bóndarósarætt. Innan ættkvíslarinnar Paeonia eru skiptast í jurtir og runna. Innan hverra tegundar er svo fjöldi yrkja sem áhugamenn um bóndarósir hafa ræktað upp. Flestar ef ekki allar bóndarósir bera stór blóm sem eru til í fjöl- breyttum litum. Hvít, gul, bleik, rauð og allt þar á milli. Lögun blóma er líka fjölbreytt og geta þau verið einföld upp í það að vera fyllt. Sumar bóndarósir auka enn á fegurð sína með því að gefa frá sér góðan ilm og voru krónublöð þeirra í eina tíð notuð til ilmvatnsgerðar. Bóndarósir eru fallegar sem afskorin blóm í vasa. Sú bóndarós sem algengust er í görðum hér á landi kallast Paeonia officinalis á latínu og finnst villt við Miðjarðarhafið og á grísku eyjunum í Eyjahafinu. Tvær tegundir bóndarósa finnast villtar í Norður-Ameríku en flestar eiga þó náttúruleg heimkynni í Mið-Asíu og Kína. Meira en 2.000 ár í ræktun Ræktun bóndarósa á sér langa sögu í Kína þar sem þær voru í miklum metum í görðum keisaranna, bæði sem augnayndi og sem lækningarjurt- ir, og má finna heimildir um ræktun þeirra að minnsta kosti tvöþúsund ár aftur í tímann. Ræktunarafbrigðin skiptu hundruðum og mikil áhersla var lögð á fjölbreytni lita og blóm- lögun. Kínverjar gáfu plöntunum nöfn sem tengdust litnum en inni á milli mátti finna skondin heiti eins og Drukkna hjákonan. Á Tang- skeiðinu (618 til 906) naut bónda- rósin sérstakrar verndar keisaranna og jókst útbreiðsla hennar mikið. Plantan þykir enn í dag ómissandi til lyfjagerðar og er talin lækna flest mannamein. Bóndarósin skipar einn- ig veglegan sess í bókmenntum og listum í Kína. Ort eru ljóð um fegurð hennar og hún er mikið notuð sem mótíf til skreytinga á postulín, í mál- verk, vefnað, útsaum og til útskurðar. Í borginni Lijang í Yunnan-héraði gróðursetur fólk bóndarósir í garð- inum sínum og býður til veislu og borðar úti undir skrúða blómstrandi bóndarósarunna sem geta náð allt að sex metra hæð. Elstu bóndarós- arrunnarnir sem vitað er um í Kína eru farnir að nálgast fimmta hundr- aðið og stærsta blómið sem mælst hefur var tuttugu og átta sentímetrar í þvermál. Vörn gegn illum öndum Fyrstu nytjar manna af bóndarós í Evrópu tengjast að öllum líkindum lækningum. Grikkir til forna nýttu alla hluta jurtarinnar til lækninga og var hún talin jafngóð til að lækna geðveiki, tannpínu, gallsteina, slæmar draumfarir, getuleysi og losa konur undan barnsnauð. Fræ plöntunnar voru þrædd upp á band og börn látin bera þau um hálsinn til að bægja burt hinu illa auga og vondum öndum. Öruggast þótti að safna jurtinni á nóttinni því sagt var að bóndarósin nyti verndar spætunnar og að nóg væri að spætan sæi til þegar henni var safnað til að gera lækningamátt plöntunnar að engu eða gera hana jafnvel hættu- lega. Bóndarósir á Íslandi Fyrstu runnabóndarósirnar bárust til Evrópu frá Kína árið 1789 og var það Sir Joseph Banks, stofnandi Kew-grasagarðsins í London, sem fékk þær sendar. Banks var mikill Íslandsvinur og ferðaðist um landið 1772. Lærlingur hans William Jackson Hooker, síðar forstöðumaður Kew- garðsins, var með í för þegar Jörgen Jörgensen hundadagakonungur kom til Íslands. Sagan segir að Hooker hafi verið að safna plöntum á hæðinni þar sem Landakotskirkja stendur í dag á meðan Jörundur tók völd. Ekki er vitað með vissu hver var fyrstur til að flytja bóndarósina til Íslands en óneitanlega kemur Jón Rögnvaldsson, fyrrum forstöðumað- ur Lystigarðsins á Akureyri, sterk- lega til greina. Bóndarósir hafa verið lengi í ræktun á Akureyri og þrífast vel. Það er þó allt eins mögulegt að einhver áhugasamur ræktandi hafi flutt fræ eða rótarhnúð með heim í siglingu í kringum seinni heimsstyrj- öldina og að „íslenska“ bóndarósin sé afkomandi hennar. Í dag eru um þrjátíu tegundir bóndarósa í ræktun hér á landi og þar af nokkrar runna- bóndarósir. Sérvitrar og langlífar Bóndarósir eru yfirleitt auðveldar í ræktun eftir að þær hafa komið sér fyrir. Plantan er langlíf og líður best ef hún fær að standa lengi óhreyfð á sama stað. Plönturnar geta orðið fyrirferðarmiklar með tímanum og því best að ætla þeim gott pláss strax í upphafi. Þeim líður best í þurrum, djúpum, frjósömum og eilítið basísk- um jarðvegi. Jurtkenndar bóndarósir geta orðið 50 til 100 sentímetrar á hæð, allt eftir tegund, og er vöxtur þeirra kúlulaga. Vegna þunga blaða og blóma eiga plönturnar eiga það til að leggjast út af fái þær ekki stuðn- ing. Blómgun á sér yfirleitt stað í lok júní og fram í júlí en að henni lokinni skartar plantan fallegum blaðskrúð. Auðvelt er að fjölga bóndarós með skiptingu en einnig má rækta nýjar plöntur af fræi. Fræ bóndarósarinnar hefur harða skurn og getur verið lengi að spíra og gott að rispa fræið með hníf eða sandpappír fyrir sáningu og flýta þannig fyrir vatnsupptöku þess. Fræið þarf að fara í gegnu hita- og kuldaskeið áður en það tekur við sér og spírun tekur yfirleitt ár. Ef skipta á bóndarós skal grafa upp rótina í heilu lagi að hausti í lok ágúst eða byrjun september, og kljúfa hana í hluta allt eftir stærð. Gætið þessa að það sé að minnsta kosti eitt brum á hverjum hluta. Bóndarósir hafa gildar forðarætur sem geta orðið mjög stórar og legið djúpt hafi plantan fengið að vaxa lengi á sama stað. Eftir að búið er að kljúfa rótina skal koma hlutunum fyrir í vel unnum, frjóum og góðum jarðvegi sem blandaður hefur verið með búfjáráburði að minnsta kosti fjörutíu sentímetra niður. Þegar rótarbút af bóndarós er komið fyrir í jarðvegi verður að gæta þess að stinga honum ekki of djúpt í mold- ina. Fjórir til fimm sentímetrar undir yfirborðinu er passlegt en sé stungið dýpra er plantan lengur að koma upp og það tefur fyrir blómgun. Sé aftur á móti stungið grynnra getur rótin skemmst vegna vetrarkulda. Ræturnar þola alls ekki að standa í bleytu og fúna fljótlega við slíkar aðstæður. Bóndarósir skjóta fyrstu sprotun- um upp snemma á vorin og því getur reynst nauðsynlegt að skýla þeim ef það kemur kuldakast. Einnig er nauðsynlegt að skýla viðkvæmustu tegundunum yfir veturinn að minnsta kosti á meðan þær eru litlar. Garðyrkja & ræktun Drukkna hjákonan Gleðilegt ár Um svipað leiti í fyrra birti ég hér grein um sáningu og uppeldi sumarblóma og kryddjurta og tel því óþarfi að endurtaka það efni. Þeim sem hafa áhuga á að fræðast um sáningu er bent á síðuna Ræktaðu garðinn þinn á Facebook en þar er mikið spáð og spjallað um sáningu og uppeldi plantna á þessum árstíma. Fræ og fræbelgir bóndarósar.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.