Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 2013
Fyrirtækið Formax Paralamp nýtir þekkingu úr matvælageiranum til að þjónusta hestamenn:
Hanna vatnshlaupabretti fyrir hross
– eigendur fyrsta vatnsþjálfunartækisins á Norðurlandi segja það hafa afar góð áhrif á hross
Í Gaulverjabæjarhreppi hinum
forna á Suðurlandi framleiða
menn nú vatnshlaupabretti fyrir
hross.
Já, þið lásuð rétt, vatns-
hlaupabretti. Eða öllu heldur
vatns þjálfunartæki því það er
nú ofsagt að hrossin hlaupi á
brettinu. Fyrirtækið Formax
Paralamp á Gegnishólaparti í Flóa
framleiðir vatnsþjálfunartæki fyrir
íslenska hestinn sem ber heitið
Aqua Icelander. Nú þegar hefur
fyrirtækið framleitt og selt níu
slík tæki og eru fleiri í smíðum.
Framleiðslan byggir á íslenskri
tækniþekkingu þar sem vandað
er til allra verka, en tækin eru öll
úr ryðfríu stáli, hertu öryggisgleri,
mahóní og öðrum gæðahráefnum.
Formax var upphaflega stofnað
1987 og hefur einkum framleitt
fiskvinnslutæki, frysta, lampa
í snyrtilínur og krapaískerfi,
svo dæmi séu tekin. Í kjölfar
efnahagserfiðleikanna, hér á landi
og á heimsvísu, lokuðust markaðir
í Suður-Ameríku sem fyrirtækið
hafði verið að þjónusta og því varð
að endurhugsa stöðu mála.
„Á þeim tíma vorum við komin
hingað í Gegnishólapart og aðeins
farin að kynnast hestageiranum
hér á Suður landinu. Við höfðum
verið að smíða hesthúsinnréttingar
í ein hverjum mæli og sáum
tækifæri í frekari þjónustu við
hestamennskuna,“ segir Bjarni
Sigurðsson, framkvæmdastjóri
Formax og hönnuður tækisins.
Fundu tækifæri á
umbrotatímum
Aqua Icelander vatnsþjálfunar-
tækið varð niðurstaðan í vanga-
veltum þeirra Formax-manna.
„Svona vatnsþjálfunartæki
hafa verið til í Evrópu síðustu
fimmtán ár en flest þeirra hafa
verið stór og jafnvel sérsmíðuð
fyrir viðkomandi húsnæði, sem oft
hafa verið endurhæfingarstöðvar
fyrir kappreiðahesta. Það er bara
nýlega sem hafa komið á markað
tæki sem hægt er að setja niður
nánast hvar sem er. Við vorum
þarna, eins og áður segir, að
missa frá okkur markaði og því
var ákveðið að nýta þekkinguna
til að hanna og smíða svona tæki
fyrir íslenska hestinn,“ útskýrir
Bjarni og bætir við að þekking
starfsmanna fyrirtækisins hafi
skilað sér vel við þróun og smíði
tækisins.
„Við vildum hafa það nett en
samt allt úr ryðfríu stáli og eins
viðhaldsfrítt og hægt er að hugsa
sér. Tækið er mjög þrifalegt, þar
nýttum við þekkingu okkar úr
matvælageiranum. Þetta tæki er
það eina á markaðnum sem hægt
er að taka og hreinsa að kvöldi,
sótthreinsa það algjörlega og
ganga að því að morgni.“
Seldist á fyrsta degi
Það var greinilega vöntun á
gæðavörum sem slíkum inn á
markaðinn og eru hestatengdar
vörur nú um helmingur
framleiðslunnar hjá fyrirtækinu.
Velta fyrirtækisins árið 2011 jókst
um 104 prósent frá fyrra ári og
einhver aukning er fyrirsjáanleg á
árinu 2012 að sögn Bjarna.
„Fyrsta tækið fór í notkun á
margverðlaunuðu ræktunarbúi,
Blesastöðum, haustið 2009. Við
vorum búin að ætla okkur að fyrsta
tækið færi upp hér á Íslandi til að fá
reynslu á það áður en við færum að
markaðsetja það erlendis. Við fórum
svo með tækið á heimsmeistaramót
íslenska hestsins í Austurríki í ágúst
2011 og seldist það á fyrsta degi. Í
dag erum við að afgreiða pantanir
sem flestar eru að utan, ásamt einu
tæki sem verður afhent norður í
Skagafjörð á næstunni.“
Rannsókn í samstarfi við
fagaðila
Hestamönnum sem reynt hafa,
ber saman um að tækið gerir
mikið gagn við þjálfun hrossa
sem viðbót við aðra þjálfun. Hins
vegar vantar rannsóknir á því hvað
það er nákvæmlega sem gagnast
hrossunum við þjálfunina. Á því á
nú að gera bragarbót segir Bjarni.
„Við erum að fara af stað
með rannsókn ásamt fagaðilum
í hestageiranum, styrkta af
Tækniþróunarsjóði, um hvað tækið
er að gera fyrir hestinn. Við vitum
að þessi þjálfun gerir hestum gott,
það hafa okkar kúnnar fullyrt en
okkur vantar mælanleg gögn um
það. Við ætlum sem sagt að mæla
vöðvavinnu, áreynslu, kortleggja
hreyfimynstur og fleira sem nýtist
við að skilgreina þjálfunarferlið.“
Ýmislegt er í bígerð hjá Formax í
áframhaldandi þróunarvinnu tengdri
hestageiranum. Þar á meðal er verið
að þróa þurrkklefa fyrir hross og
eins að hanna vatnsþjálfunartæki
fyrir stærri hestakyn. Þá hefur
fyrirtækið tekið að sér eitt og eitt
hesthús í heildarhönnun og smíði
á innréttingum, einkum erlendis.
Vildu auka fjölbreytni í rekstri
Hjónin Sigurgeir Þorsteinsson
og Birna Sigurbjörnsson, hrossa-
ræktendur og tamningafólk á
Varmalandi í Sæmundarhlíð í
Skagafirði, hafa keypt og tekið í
notkun vatnsþjálfunarbretti frá
Formax. Brettið var tekið í notkun
um Laufskálaréttarhelgina, 29.-30.
september síðastliðinn. Þá var opið
hús á Varmalandi þar sem tækið
var kynnt og mætti fjöldi manns til
að kynna sér nýjungina. Um er að
ræða fyrsta tækið þessarar tegundar
á Norðurlandi og reyndar hafa
vatnsþjálfunartæki fram til þessa
einungis verið á Suðurlandi.
Sigurgeir segir að með kaupum
á tækinu hafi margt unnist. Bæði
sé auðvitað rekin tamningastöð á
Varmalandi svo tækið muni nýtast
í þá vinnu og auk þess sé eftirspurn
eftir valkostum af þessu tagi í
þjálfun hrossa.
„Við vildum skjóta styrkari
stoðum undir reksturinn, auka
fjölbreytnina. Það kostar mikið
að flytja hross á Suðurland til að
komast í tæki af þessu tagi, líklega
um 50.000 krónur fram og til baka.
Ég ræddi við flesta stærri aðila
hér í héraði, tamningamenn og
keppnisfólk, áður en ákvörðunin var
tekin og allir voru mjög áhugasamir.
Ég hef fulla trú á að þetta eigi eftir
að ryðja sér enn frekar til rúms, það
er til dæmis annað bretti á leiðinni
hingað norður í Skagafjörð. Þetta
er vissulega talsverð fjárfesting,
svona tæki kostar tíu milljónir. Við
bjóðum upp á að menn komi með
hross til okkar í þjálfun í tækið.
Þá koma menn með hross sem
við tökum í vist og setjum þau í
básinn í u.þ.b. tíu skipti, eða meira
ef vilji er til. Það er ekki langt að
koma úr Húnavatnssýslunum eða
úr Eyjafirði með hross hingað og
við horfðum auðvitað til þess þegar
við tókum ákvörðun um að kaupa
tækið.“
Mikill áhugi
Mikið er spurt um þessa þjálfun
að sögn Sigurgeirs. „Það eru tvö
hross hjá okkur núna, það voru
tvo hross hjá okkur í nóvember og
svo er búið að panta fyrir þrjú til
viðbótar. Fólk er að meðtaka þetta
hægt og bítandi og margir eru að
fá að koma og sjá þetta. Það eru
fyrirspurnir um að tíma í vetur
þannig að þetta er að rúlla af stað.
Þeir sem hafa prófað eru mjög
spenntir fyrir áframhaldinu. Þetta
kostar auðvitað svolítið en þeir sem
hafa prófað eru vissir um að þeim
peningum vel varið.“
Gagnlegt til endurhæfingar
Kostirnir við brettið sem þjálfunar-
tæki eru margvíslegir. Hægt er
að stjórna hraða, vatnshæð og
hallanum á brettinu. Sigurgeir segir
að hægt sé að nýta þessa þjálfun á
öll hross, séu þau orðin bandvön
og teymd.
„Þetta þjálfar fótaburð því
hrossið þarf að lyfta fótum upp
úr vatninu sé það í hnjáhæð. Það
styrkir sömuleiðis kviðvöðva
og bakvöðva og losar um bak á
hrossum.
Hross sjóast af því að fara í þessa
þjálfun og hafa þar af leiðandi gott
af því. Þetta er mjög öruggt tæki og
ekkert sem getur skaðað þau. Þetta
er gott fyrir einbeitingu hrossanna
og þau verða að læra að beita sér
rétt. Til að mynda er þetta gott
fyrir hross sem eru missterk, beita
sér meira á aðra hliðina, því þau
verða að ganga bein í þessum bás.
Svona bretti hefur verið í notkun
á Blesastöðum á Skeiðum í tvö ár
og þar segir fólk mér að þau geti
bara ekki án þess verið. Þetta er
alhliða þjálfunartæki en ekki síst er
þetta gríðarlega gagnlegt fyrir hross
sem hafa átt við einhver meiðsl að
stríða. Það er hægt að fara með
vatnið upp í 1,2 metra og það léttir
hrossið auðvitað mjög og veldur því
að hrossin slaka á vöðvum.
Það er ótrúleg breyting að sjá
hross sem koma í þessa þjálfun.
Þau eru kannski stíf í fyrstu þrjú
eða fjögur skiptin en svo fer maður
á sjá breytingu, hvernig slaknar á
bakvöðvum og lendavöðvum. Skref
stækka og burðurinn mýkist allur.
Við erum því gríðarlega ánægð með
þessa ákvörðun okkar.“
/fr
Sigurgeir og Birna á Varmalandi eru gríðarlega ánægð með vatnsþjálfunartækið. Myndir / fr
Eins og sjá má er Aqua Icelander tækið vandað að allri gerð og mikið lagt í
smíðina.
Það eru ekki mörg ár síðan
ég tók mitt fyrsta alvöru
sumarfrí. Fram til þess höfðu
sumrin farið í að vinna eins
og mögulegt var til að eiga
fyrir salti í grautinn yfir
vetrartímann á náms árunum.
Þegar ég var í kringum
tvítugt þóttist ég góður ef
ég náði fjórum frídögum
um verslunarmannahelgi
og hugsanlega tveimur um
hvítasunnu. Þar með var það
líka að mestu upp talið.
Af þessu leiddi að fram á
síðustu ár var þekking mín á
Íslandi næsta yfirborðskennd.
Ég fékk reyndar alltaf ágætar
einkunnir í landafræði í
grunnskóla en ég skal játa að
það er farið að fenna yfir sumt
af því. Það varð heldur ekki
til að bæta stöðu mála þegar
algild sannindi, eins og að
Hvannadalshnjúkur væri 2.119
metra hár, reyndust ekki eins
algild og mér var kennt.
Það skiptir miklu máli að
fara um landið til að kynnast
því. Mér liggur við að segja að
til að skilja Íslendinga verði
maður að hafa farið um landið
og kynnst af eigin raun því
landslagi og þeim aðstæðum
sem fólk elst upp og býr við.
Á síðasta ári sótti ég
Vestfirði heim í fyrsta skipti á
ævinni, og það tvisvar sinnum.
Fyrst um páska þegar ég mætti á
Aldrei fór ég suður, Rokkhátíð
alþýðunnar, á Ísafirði og svo
í fyrrasumar þegar ég eyddi
fimm dögum í að ferðast um
Vestfirði frá suðri til norðurs.
Bæði ferðalög voru í einu orði
sagt stórkostleg upplifun.
Það er eitt að heyra um
vonda malarvegi á Vestfjörðum
og annað að keyra þá. Það er
eitt að heyra um hvers konar
farartálmi Óshlíðin var en
annað að upplifa það að horfa
upp í hlíðina og búast við að
fá yfir sig grjóthrun á hverri
stundu. Það er upplifun að
keyra með heimamönnum um
Vestfjarðagöng og horfa upp
á hvernig þeir blikka ljósum
til að láta vita af því að bíll sé
á ferðinni í einbreiðum göng-
unum. Það er yfirþyrmandi að
horfa upp á snjóflóðavarnar-
garða á Súðavík og Flateyri
og minnast þess við hvað þetta
fólk hefur þurft að etja af nátt-
úrunnar hendi. Það er magnað
að koma í Selárdal og sjá afrek
mannsandans birtast í verkum
Samúels Jónssonar, lista-
mannsins með barnshjartað.
Ég upplifði hins vegar ekki
rafmagnsleysið, kafsnjóinn,
símasambandsleysið eða snjó-
flóðahættuna sem Vestfirðingar
þurfa reglulega að búa við,
síðast núna yfir hátíðirnar. Ég
get ekki sagt að ég öfundi þá af
því. En ég öfunda Vestfirðinga
af þeirri seiglu og kjarki sem
þeir búa yfir, þeirri manngæsku
og menningu sem ég upplifði
í þeirra fari.
Vestfirðingar eru stoltir af
því að vera Vestfirðingar. Og
það mega þeir vera. Það er
kominn tími til að stjórnvöld
átti sig á að á Vestfjörðum búa
Íslendingar, sumir okkar bestu
sona og dætra. Þeir eiga rétt
á eðlilegum búsetuskilyrðum,
í samgöngum, fjarskiptum og
þjónustu. Eftir því hafa þeir
þurft að bíða of lengi. /fr
STEKKUR
Malbik
endar