Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 2013
Að ýmsu má huga varðandi
íþróttakeppnina. Er eðlilegt t.d. að
í úrslitum í töltkeppni skulum við
setja bestu og eflaust verðmætustu
hestana saman inn á brautina þar sem
þeir eiga að rembast þrjá kílómetra
á fullum afköstum? Vitað mál er að
knaparnir gefa ekkert eftir þegar á
hólminn er komið og skeyta þar engu
um þau skilaboð sem hestarnir reyna
að senda þeim hvað eftir annað um
þreytu eða of mikinn/lítinn hraða.
Er það þá skrítið að hestarnir komi
út af vellinum sárir í munni? Ein
hugmynd væri að hafa tvo til þrjá
inni á vellinum í einu í forkeppni
líkt og í léttari flokkum og leyfa svo
þeim bestu að spreyta sig á því að
ríða prógramm, einum í einu þar sem
áhersla væri lögð á gangskiptingar
og fágaða reiðmennsku líkt og mér
skilst að upphaflega hugmyndin
um íþróttakeppnina hafi verið. En
þá er líklega búið að ræna menn
múgæsings augnablikunum sem
skapast þegar menn etja kappi
saman inni á vellinum og menn
hræðast að keppnin verði ekki nógu
áhorfendavæn. En staðreyndin er sú
að íþróttakeppni nútímans er hvorki
áhorfenda- né hestvæn.
Kynbætur, dómar og markmið
Athuganir Ágústs Sigurðssonar á
erfðaframförum benda til þess að við
Íslendingar munum glata forskotinu
innan nokkurra áratuga ef ekkert
verður að gert í hrossaræktinni.
Því getum við brugðist við með
því að auka úrvalsstyrkleikann, þ.e.
að auka kröfurnar til þeirra hrossa
sem eru valin sem foreldrar næstu
kynslóðar. Tímamótauppgötvun
leiðir í ljós að alhliðahross og
klárhross eru erfðafræðilega
frábrugðin. Augljóslega þurfum
við að breyta hinum opinberu
ræktunarmarkmiðum ef við viljum
halda í fjórgangshestinn. Nema þá
að tekin sé upplýst ákvörðun um
að íslenski hesturinn skuli búa yfir
fimm gangtegundum, þá getum við
hæglega, á til þess að gera stuttum
tíma, ræktað út þennan breytileika
og náð tíðni skeiðgensins upp í 100%
í stofninum. Sem þýðir væntanlega
líka að við munum hætta að bjóða
upp á keppni í fjórgangi og B-flokki.
Í kjölfarið á þeirri ákvörðun sem
væntanlega yrði tekin, þyrfti að
fara í gagngera endurskipulagningu
á kynbótakerfinu og rannsaka í
þaula hvort gerlegt sé að dæma
fjórgangshross og fimmgangshross
eftir ólíku vægi. Ef ekki þarf
augljóslega að lækka vægið á skeiði,
eða ná betur yfir sameiginlega
jákvæða eiginleika þessara hrossa
eins og t.d. að fara aftur að leggja
mat á eiginleikann „rými“. Í fyrsta
dómstiganum sem Gunnar Bjarnason
samdi fyrir Landsmótið 1950 voru
gefnar einkunnir sérstaklega fyrir
hraða. Væri þetta ein leið til að leggja
betur dóm á gæði gangtegundarinnar
sérstaklega og svo þennan eiginleika
„að geta farið hratt“ sérstaklega? Öll
vitum við að þegar á fulla siglingu
er komið getur verið hárfínn munur
á gangtegundunum tölti og skeiði.
Reyndar er þetta líka uppspretta
líflegrar umræðu og hártogana sem
við hestamenn höfum sérlega gaman
af, en líkur eru á að við getum fundið
okkur eitthvað annað til þess að rífast
um.
Í kynbótadómi er rými á
gangtegundum í miklum metum og
kallar á að alhliðahesti sé riðið á fullri
ferð á bæði tölti og skeiði. Vissulega
sjáum við reglulega hesta sem geta
haldið gangtegundunum aðskildum
en oftar en ekki er munurinn á milli
þessara gangtegunda lítill sem enginn
þegar verið er að teygja hestinn um
efni fram á tölti. Eru gæði töltsins
best metin í því hversu hratt hesturinn
kemst? Gaman er af því tilefni að rifja
upp skrif Theodórs Arnbjörnssonar í
bókinni „Hestar“ sem út kom árið
1931:
„Seint verður töltið nóg lofað
fyrir fegurð og mýkt, eins og það sést
best, en því miður er það tiltölulega
sjaldgæft, eins og margir menn krefja
hesta sína nú um tölt og margir hestar
bera við að tölta. Orsakirnar eru, að
fleiri hestum er haldið á tölti en er
það eðlilegt og hestum er riðið allt
of mikið á þessum erfiða gangi og of
snemma teygðir á því. Sem stendur
er töltið tískugangur Íslendinga og
töltkröfurnar til hestanna keyrðar
langt úr hófi. Sannast oft áþreifanlega
á hestunum að tískan er harðstjóri,
því að fjöldi hesta er svo skemmdur
á þessum erfiða gangi að með öllu
hverfur það harðasta og fínasta
af fjörinu og hesturinn slitnar svo
fyrir örlög fram, að enginn gangur
hans nær því ágæti, sem honum er
mögulegt. Með mikilli hryggð verður
það að viðurkennast að þessi veglega
íþrótt íslensku hestanna, töltið, er
mjög oft hefndargjöf.“
Oft á tíðum hljóta hross góða
einkunn fyrir gangtegundirnar tölt,
brokk og skeið í kynbótadómi án
þess að sýnilegt sé að nokkuð gagn
megi af gangtegundinni hafa, hvorki
í keppni né í útreiðum. Ástæðan er
sú að hraðadýrkunin er í slíkum
algleymingi að taktur, fjaðurmagn,
þjálni og fágun verður stundum
útundan þegar hraðinn er nægur.
Gæti eitthvað af því sem fram
hefur komið hér að framan verið
undirliggjandi orsök vaxandi tíðni
áverka í kynbótadómi og keppni?
Eða er þetta eingöngu knöpunum að
kenna eins og fram hefur verið haldið
hingað til?
Mat á brokki í kynbótadómi er
sömuleiðis oft á tíðum tengt rými
á gangtegundinni og einungis
tiltölulega stutt síðan hross fóru að
geta fengið góða einkunn fyrir brokk
án þess að sýna ýtrustu ferð. En dugar
það til? Viljum við ekki getað gefið
úrvals brokki úrvals einkunn þó svo
að brokkið sé eingöngu notað upp
að milliferð? Er brokk ekki úrvals
gott nema það sé úrvals rúmt?
Ein hugmynd er að gefa einkunn
sérstaklega fyrir hægt brokk, rétt eins
og hægt tölt og hægt stökk og auka
þannig upplýsingagildi dómsins.
En þá erum við á móti að bæta við
eiginleika sem sýna þarf á þessum 10
ferðum (8 ferðum ef fyrirkomulagi
Landsmóts verður fram haldið) og
fyrir vikið kannski að auka álagið enn
frekar á kynbótahrossin. Það hlýtur
að vera öllum ljóst sem útreiðar hafa
stundað í einhverjum mæli að gæði
gangtegundar og gangrými þarf ekki
alltaf að fara saman. Mikið er til af
hestum sem geta farið úrvals hratt
á lélegu tölti, skeiði eða brokki.
Eins er all nokkuð til af hestum sem
búa yfir frábærlega taktgóðu og
fjaðurmögnuðu tölti og/eða brokki
en skortir rými. Svo er reyndar þriðja
gerðin einnig til,hestar sem ekki geta
gengið hreint nema hraðinn sé aukinn.
Að sjálfsögðu viljum við hesta sem
búa yfir úrvals gangtegundum bæði
á miklum og litlum hraða og geta
þannig nýst við að svala adrenalín-
sýki hraðadýrkendanna og eins þeirra
sem vilja hafa það gott í reiðtúr á
ganggóðum reiðhesti og láta fara
fallega.
Eins má velta fyrir sér eigin-
leikanum vilja og geðslagi og reyna
að skilgreina betur hvað verið er að
meta í þessari einkunn. Erum við að
meta vilja í raun og veru? Hvað er
vilji? Erum við eingöngu að tala um
vilja hestsins til þess að hlaupa hratt
(að því gefnu að hesturinn búi yfir
getu til þess að hlaupa hratt), eða
erum við að tala um vilja hestsins
til þess að vinna með knapanum?
Ef hið síðarnefnda er tilfellið, hvers
vegna tölum við þá ennþá um vilja
OG geðslag? Er þetta þá ekki sami
hluturinn? Ég sé það fyrir mér að
ef við köfum örlítið betur ofan í og
reynum að skilja hvað það er sem
við í raun og veru erum að leita eftir
verður auðveldara að leggja mat á
það og fyrir vikið fáum við hærra
arfgengi á eiginleikann sem svo aftur
gerir það að verkum að auðveldara
verður að kynbæta eiginleikann.
Að lokum
Eins og áður sagði stöndum við á
krossgötum. Við höfum öll spil
á hendi. Íslenski hesturinn er
undraskepna sem okkur öllum þykir
vænt um, annars værum við ekki að
eyða þessu púðri í að rökræða hlutina
fram og til baka. Eins hefðir þú aldrei,
lesandi góður, lesið þessa langloku
á enda ef þú hefðir ekki áhuga á
málefnum íslenska hestsins. Við
þurfum nú með jákvæðu hugarfari
og samstilltu átaki allra þeirra sem
að greininni koma að fara í gagngera
naflaskoðun hvað varðar allar hliðar
hestamennskunnar. Ræktendur,
tamningamenn, áhugareiðmenn,
reiðkennarar, sýningamenn og
keppnisknapar, járningamenn,
dýralæknar, útflytjendur og allir
aðrir sem koma nálægt hestamennsku
þurfa að leggja sitt af mörkum við
að endurskipuleggja umhverfi
hestamennskunnar hér á landi. Nóg
er komið af því að hver sitji við sitt
borð og rífist út í starf hvors annars.
Samtök þau sem hafa hagsmuni
greinarinnar að leiðarljósi þyrftu
að taka saman höndum og vinna að
þessum málum í sameiningu í stað
þess að sitja hver í sínu horni og
taka einungis á einkennum frekar
en að meðhöndla sjúkdóminn. Við
höfum gert nóg í að ausa af skálum
reiði okkar síðastliðin ár og kenna
þeim um hvernig komið er sem við
stjórnvölinn sitja. Það er ekki fagráði
í hrossarækt að kenna að bankarnir
fóru á hausinn. Það er ekki knöpunum
að kenna að þeir fá meira að gera
við tamningar og sýningar ef þeir ná
háum tölum á kynbótabrautinni, þrátt
fyrir að það kosti hestinn heilsuna.
Það er ekki íþróttadómurunum að
kenna að töltkeppnin er að breytast í
kappreiðar þegar hún er framkvæmd
með þessum hætti. Þróunin leiddi
okkur hingað og allir hestamenn tóku
þátt í ferðalaginu. Þeir sem ekki voru
inni á vellinum voru oft á tíðum í
brekkunni eða í stúkum reiðhalla og
hvöttu knapann til dáða og mótuðu
áherslurnar með fagnaðarlátum
sínum. Sjaldan eru fagnaðarlætin
jafn hávær og þegar hesturinn er í
slíku kvíðakasti að hvítan í augunum
er farin að sjást vel upp í stúku. En
nú munum við annað hvort snúa
vörn í sókn með samstilltu átaki og
vitundarvakningu, eða við höldum
áfram að rífast um hvað þessi og
hinn eru að standa sig illa og hvort
hestar eru truntur eða gæðingar.
Fyrr eða síðar mun kreppunni létta
og þá verðum við að vera tilbúin
með betri vöru sem við getum farið
í áframhaldandi markaðssetningu
á erlendis og vonandi náð að auka
nýliðun í greininni. Ég vona bara
að kreppan verði nógu löng til þess
að okkur takist að snúa við dæminu
áður en birta fer á nýjan leik í
fjármálaheiminum þannig að við
getum verið tilbúin með umhverfi
sem er áhugavert fyrir almenning að
koma inn í svo notkun hestsins verði
tryggð næstu áratugina.
Heimir Gunnarsson
Reiðkennari við
Landbúnaðarháskóla Íslands.
Stjórnvöld hafa ákveðið að
árið 2013 verði lagðar þrjátíu
milljónir króna til refaveiða. Í
kjölfar efnahags hrunsins voru
slíkar greiðslur úr ríkissjóði
felldar niður, en nú liggur
fyrir ákvörðun Alþingis um
að fjár munir verði lagðir til
mál efnisins að nýju. Ráðstöfun
fjárins er í höndum Umhverfis-
stofnunar, sem gerir samninga
við sveitar félög til þriggja ára í
senn um endur greiðslur vegna
refa veiða. Þessir samningar
byggja á áætlun sveitar-
félaganna um framkvæmd
veiðanna.
Um er að ræða verulega
opinbera fjármuni sem mikilvægt
er að ráðstafað verði á markvissan
hátt.
Refurinn er eina upprunalega
landspendýrið í Íslandi. Hann
er talinn hafa numið hér land
á síðustu ísöld, löngu áður
en menn settust að í landinu.
Önnur landspendýr hafa borist
hingað síðar af mannavöldum,
viljandi eða óviljandi. Refurinn
er því einstakur og órjúfanlega
tengdur íslenskri náttúru. Í
stærra samhengi er íslenski
refurinn jafnframt sérstakur
vegna langvarandi einangrunar
frá öðrum refastofnum.
Talið er að refir hafi verið
veiddir frá upphafi byggðar í
landinu og eru sérstök ákvæði
um veiðar á þeim bæði í Grágás
og Jónsbók. Þar kemur fram að
refurinn var veiddur vegna skaða
sem hann olli í landbúnaði en
einnig til að ná í feldinn. Allt fram
á síðustu öld voru refir fyrst og
fremst veiddir vegna hagsmuna
sauðfjárræktar, en með breyttum
búskaparháttum hefur dregið
mikið úr tjóni á búfé af völdum
refa. Refir hafa einnig mikil
áhrif á æðarfugl og geta valdið
tjóni í æðarvörpum. Áhrifin geta
þó bæði verið til góðs og ills á
nýtingu æðardúns því æðarfugl
bregst jafnan við refum með því
að þétta varp sitt á stöðum þar
sem hann kemst síður að sem
getur auðveldað söfnun dúns.
Refir geta þó vissulega einnig
valdið fjárhagslegum skaða ef
þeir komast í æðarvörp.
Refir hafa verið hér um
þúsundir ára og fuglalífið því
þróast og aðlagast sambýlinu við
hann og hann því. Refir hafa því
að öllum líkindum haft mótandi
áhrif á fuglalíf í landinu. Þau
áhrif þurfa ekki að hafa verið
slæm, enda eru rándýr víða
mikilvæg fyrir viðhald vistkerfa
og líffræðilega fjölbreytni. Við
ákveðnar manngerðar aðstæður
getur stofn rándýrs þó orðið
stærri en þau mörk sem náttúran
myndi setja honum og getur þá
verið nauðsynlegt að grípa til
aðgerða til verndunar lífríkisins.
Allnokkur sjónarmið þarf að
yfirvega við ákvarðanir um veiðar
á ref og ráðstöfun fjár til þess,
þ.e. hagsmunir sauðfjárræktar,
æðarræktar og náttúru verndar.
Skipulag veiðanna þarf að hafa
þessi sjónarmið að leiðarljósi,
vega þau og meta, og beina
aðgerðum til þeirra svæða sem
við á.
Einstakar og mikilvægar
rannsóknir Páls Hersteinssonar
prófessors á íslenska refnum
eru vonandi komnar í farsælan
framtíðarfarveg eftir sviplegt
fráfall hans. Stefnt er að því
að fjármunir til að halda
áfram refarannsóknum hans
og gagnasöfnun færist til
Náttúrufræði stofnunar Íslands
og Melrakka setursins á Súðavík.
Nauðsynlegt er að halda áfram
rannsóknum og uppbyggingu
þekkingar á vistfræði refa-
stofnsins í landinu til að skilja
sem best bæði ástand hans og
áhrif. Traustar rannsóknir eru
undirstaða markvissrar stjórnunar
veiða.
Mikilvægt er að þetta
tækifæri verði notað til að bæta
fyrirkomu lag og sam ræma mark-
mið refaveiða. Samningar sem
verða gerðir við sveitar félög um
veiðarnar verða ágætur vettvangur
til að ná þeirri samræmingu. Þar
á að leggja fram skýra áætlun
sveitarfélagsins um hvernig
veiðunum er ætlað að lágmarka
tjónið sem refurinn veldur í
umdæmi sveitarfélagsins.
Ég vænti þess að fyrirkomulag
refaveiða verði með þessu móti
sett í skynsamlegan farveg í góðu
samstarfi bænda, sveitarfélaga og
Umhverfisstofnunar.
Svandís Svarsdóttir,
umhverfis- og auðlinda-
ráðherra
Refaveiðar í sátt
Svandís Svavarsdóttir