Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 1

Bændablaðið - 10.01.2013, Blaðsíða 1
1. tölublað 2013 Fimmtudagur 10. janúar Blað nr. 386 19. árg. Upplag 28.000 Í aðgerðum sem stóðu yfir dagana 3.-9. desember sl. var hald lagt á ólöglega innflutta kúamjólk í versluninni Kosti í Kópavogi. Um tvær tegundir af niðursoðinni mjólk frá Bandaríkjunum var að ræða. Aðgerðirnar voru hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni Europol og Interpol gegn inn- flutningi og sölu á fölsuðum og ólöglegum matvælum og drykkjum. Þátttakendur í því á Íslandi voru Matvælastofnun (MAST), heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og tollgæslan. Að sögn Herdísar Guðjónsdóttur, sérfræðings hjá MAST, var umrædd mjólk ekki ólöglega framleidd en innflutningur á henni til Íslands var með ólöglegum hætti. Hún var flutt inn í röngum tollflokki þannig að hún var ekki tilkynnt til MAST og kom ekki til skoðunar á landamærastöð eins og á að gera við öll matvæli af dýrauppruna sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá var mjólkin ekki frá viðurkenndri starfsstöð samkvæmt skrá ESB um samþykktrar starfsstöðvar sem mega flytja matvæli af dýrauppruna inn í ESB. Herdís segir að ekki sé vitað um nema þessa einu sendingu sem kom til landsins síðla haust 2012 og þá í litlum mæli. Engum viðurlögum verður beitt vegna brotsins en varan var tekin strax af markaði. Herdís segir að fylgst verði betur með innflutningi af þessu tagi í náinni framtíð. Smávægileg brot ekki kærð Steinþór Arnarson, lögfræðingur hjá MAST, segir að viðurlög við brot á slíkum lögum séu skilgreind í 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli: Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum. MAST velji vel þau mál sem kærð séu til lögreglu. Þannig séu alvarleg dýravelferðarmál iðulega kærð, einnig mál sem varða brot á dýrasjúkdómalögum og mál þar sem reynt er af ásetningi að svindla og villa um fyrir neytendum. „Nú er það svo að MAST fer í fjölda fiskvinnslna, sláturhús, heimsóknir til bænda o.fl. fyrirtækja og við þetta eftirlit eru gerðar athugasemdir, frávik og alvarleg frávik. Við innflutningseftirlit eru reglulega stoppaðar sendingar þar sem vottorð eru ekki fullnægjandi eða innihald ekki í samræmi við reglur. Þetta eru út af fyrir sig iðulega brot á reglugerðum. Það gengur hins vegar ekki að kæra allt til lögreglu enda vísar lögreglan málum frá sem hún flokkar sem smávægileg brot,“ segir Steinþór. /smh „Mér finnst íbúarnir bara ótrúlega brattir eftir það sem á undan er gegnið og staðráðnir í að láta áföll ekki buga sig. Menn hafa tekið hlutunum af æðruleysi,“ segir Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðhrepps. Liðið haust var þeim erfitt og hófst með gríðarlegu hamfaraveðri strax í byrjun september sem fylgdi mikið tjón, einkum á bústofni, fé heimtist illa af fjalli og girðingar eru víða ónýtar. Oddviti segir að Mývetningar muni komast yfir þetta áfall og reyna að horfa bjartsýnir fram á veginn. Dagbjört segir óveðrið í september síðastliðnum vissulega hafa sett mark sitt á samfélagið, en menn beri sig vel í þeirri vissu að þeir hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga því sem bjargað varð. „Menn lögðu mikið á sig til að bjarga fé úr fönn, bæði sínu eigin og annarra. Vissulega upplifði fólk tímabil vonleysis, en tjón er minna en óttast var um tíma,“ segir Dagbjört. Menn fundu svo sterkt að þeir stóðu ekki einir Hún nefnir að það sem íbúar sam- félagsins, bændur og búalið hafi upp- lifað afar sterkt sé mikill samhugur frá landsmönnum. „Það var ekki síður samtaka- mátturinn innan sveitar og um nærsveitir, menn fundu mikinn stuðning hver af öðrum og því fylgir öryggistilfinning. Menn fundu svo sterkt að þeir stóðu ekki einir, allir voru boðnir og búnir að rétta hjálparhönd og það held ég eftir á að hafi skipti sköpum um hvernig fólki líður núna þegar þetta er allt saman afstaðið,“ segir Dagbjört. Mikilvægt að finna stuðninginn strax frá fyrsta degi Hún nefnir hversu mikilvægt var að strax var efnt til upplýsingafundar þar sem öll helstu mál voru kynnt og veittar mikilvægar upplýsingar um stöðu mála, meðal annars að Bjargráðasjóður myndi koma til skjalanna og liðsinna bændum vegna þess tjóns sem þeir höfðu orðið fyrir. Þá hafi söfnunin „Gengið til fjár“ hafist fljótlega og bændur því fundið sterklega að samfélagið myndi styðja við bakið á þeim. „Að finna þennan mikla stuðning strax á fyrstu stigum var mikilvægt fyrir okkur íbúana,“ segir hún og bætir við að það hafi líka skipt máli að fljótlega hafi verið lýst yfir neyðarstigi vegna veðursins sem yfir gekk og allir helstu aðilar, sýslumaður, björgunarsveitir, lögregla og starfsmenn Rafmagnsveitna hafi verið að störfum og yfirsýn yfir ástandið hafi verið góð. Gengið fumlaust til verka „Það var gengið fumlaust til verka, enginn var einn á báti að basla við sitt, heldur fengu menn aðstoð og hjálp eftir þörfum og eru þakklátir fyrir það,“ segir Dagbjört. „Almennt held ég að samtakamátturinn og samhugurinn hafi verið þeir þættir sem gerðu útslagið hvað það varðar að fólki líður bærilega hér í sveit eftir þetta erfiða haust. Viðbrögðin í samfélaginu, það að við fundum að við vorum ekki ein og það að menn fóru milli bæja og sveita og lögðu öðrum lið gerði að verkum að menn eru brattir í dag. Ef til vill má segja að þetta hafi styrkt innviði sveitarfélagsins.“ Vonast eftir hagstæðu vori Dagbjört nefnir að enn hafi ekki að fullu komið í ljós hversu mikið tjón hafi orðið á girðingum, gróðri og öðru í óveðrinu, það muni menn sjá betur þegar vorar. Þá sé jákvæði punkturinn við langvarandi rafmagnsleysi í sveitinni sá að á næstu misserum verður rafmagn lagt þar í jörð og staurar heyri brátt sögunni til. Hún segir að menn beri þá von í brjósti að þorrinn og góan verði að mestu með meinleysislegu yfirbragði og vorið verði bændum hagstætt. Fáir eigi umframbirgðir af heyi svo dæmi sé nefnt og eitthvað sé um að bændur hafi þegar keypti sér hey utan sveitar. „Hér hefur engin skepna farið út á beit frá því í byrjun október og það gengur ört á forðann, en við verðum bara að vona að nú sé nóg komið og lífið gangi nokkurn veginn snurðulaust fyrir sig á vormánuðum,“ segir Dagbjört. /MÞÞ Mývetningar furðu brattir eftir áföll á liðnu hausti: Samtakamáttur og samhugur frá samfélaginu skipti sköpum 16 Ólögleg kúamjólk – smávægileg brot ekki kærð Mynd / ÁB Dagbjört Bjarnadóttir Áreiðanleiki raforkuafhendingar í kerfi Landsnets er minnstur á Vestfjörðum – segir í nýrri skýrslu samstarfshóps um aukið afhendingaröryggi raforku 2610

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.