Bændablaðið - 18.07.2013, Qupperneq 26

Bændablaðið - 18.07.2013, Qupperneq 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 18. júlí 2013 Gróðrarstöðin Sólskógar starfandi í tveimur landshlutum: Framleiða allt að tveimur milljónum skógarplantna á ári Gróðrarstöðin Sólskógar var stofnuð fyrir nær aldarfjórðungi, árið 1989, en stofnendur hennar og eigendur eru hjónin Gísli Guðmundsson og Katrín Ásgrímsdóttir, sem bæði eru menntaðir garðyrkjufræðingar. Gísli er Reykvíkingur, Katrín fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði. Hún hafði um skeið unnið í Hallormsstaðaskógi og langaði að setjast að fyrir austan. „Og mér tókst að tala Gísla inn á að flytja þangað, enda var ég ekki neitt að spara lýsingarorðin þegar ég fór yfir helstu kostina við það að búa á svæðinu,“ segir Katrín. Fyrsta sumarið fyrir austan bjó fjölskyldan á Seyðisfirði, árið 1988, og unnu þau hjónin þar m.a. með opin svæði í sveitarfélaginu, m.a. leiðina inn í bæinn og við lónið. Gísli starfaði í mörg ár við skrúðgarðyrkju og hefur lagt hönd sína á plóginn við gerð fjölmargra garða, einkum á Héraði og Seyðisfirði, einnig á opinberum svæðum eins og við Skriðuklaustur og Hallormsstaðaskóla. Starfsemi Sólskóga skiptist nokkurn veginn í tvennt, um helmingur snýst um framleiðslu á skógarplöntum, m.a. fyrir landshlutaverkefni í skógrækt, en hinn um framleiðslu og sölu á garðaplöntum. Alls starfa 8 fastráðnir starfsmenn hjá fyrirtækinu, þar af 6 garðyrkjufræðingar. Á sumrin fjölgar umtalsvert í hópi starfsmanna, en á þeim árstíma starfa alls um 30-40 manns hjá Sólskógum. Starfsemi fyrirtækisins fer fram á tveimur stöðum á landinu, á Fljótsdalshéraði þar sem fram fer alhliða ræktun og sala garðplantna og skógarplantna og einnig í Kjarnaskógi á Akureyri þar sem líka fer fram ræktun og garðplöntusala. Sólskógar eiga einnig gróðurhús á Hjallaleiru 1 á Reyðarfirði. Þar er rekin plöntusalan Blómahornið sem Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur sér um rekstur á. Hoppaði beint út í djúpu laugina Katrín starfaði fyrstu árin sem ræktunarstjóri Skógræktar ríkisins í Hallormsstaðaskógi, en einnig keyptu þau húsakost í Lönguhlíð á Völlum á Fljótsdalshéraði og byggðu þar upp litla gróðrarstöð.Á árunum 1993 til 1995 var hún flutt á nýbýli sem þau hjónin stofnuðu að Kaldá á Völlum. „Stöðin var lengi vel lítil og það stóð ekki annað til en að hafa þann háttinn á,“ segir hún. Svo fór þó að Katrín hætti störfum í Hallormsstaðaskógi og snéri sér alfarið að rekstri Sólskóga með manni sínum. „Þetta vatt upp á sig og vissulega hoppaði ég beint út í djúpu laugina þegar ég sagði upp starfi mínu hjá ríkinu og fór út í sveiflukenndan einkarekstur. En ég sé ekki eftir því, þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur.“ Upphaflega voru fyrst og fremst ræktaðar trjáplöntur í garða á vegum Sólskóga, en eftir að stöðin var flutt að Kaldá var einnig farið að rækta sumarblóm og síðar. Árið 2004 hófust þau síðan handa við að byggja upp aðstöðu fyrir skógarplöntuframleiðslu. „Við höfum bæði ástríðu fyrir framleiðslu á skógarplöntum og fórum því út í það, en það sem gerði útslagið var að við fengum viðskipti við Norðurlandsskóga og má segja að boltinn hafi farið að rúlla í kjölfar þess. Sá samningur var fyrsta stóra stökkið upp á við í okkar rekstri,“ segir Katrín. Straumhvörf í rekstrinum þegar keypt var gjaldþrota gróðrarstöð fyrir norðan Straumhvörf urðu síðan í rekstrinum þegar Sólskógar keyptu gróðrarstöðina í Kjarnaskógi á Akureyri eftir að hún varð gjaldþrota, en þar hefur verið rekin gróðrarstöð frá árinu 1947. „Það má orða það þannig að við vissum ekki fyllilega út í hvað við vorum að fara þegar við keyptum stöðina, en eitt það fyrsta sem við tókum eftir þegar við tókum við var að henni fylgdi mikil viðskiptavild og það var okkur mjög dýrmætt. Í gróðrarstöðinni í Kjarnaskógi höfðu margar kynslóðir Akureyringa keypt garðaplöntur ár eftir ár í byrjun sumars. Þessi stöð á djúpar rætur í menningarlífi bæjarbúa, þeim þykir mjög vænt um skóginn sinn og þykir gott að koma þangað,“ segir Katrín. Undanfarin ár hafa Sólskógar framleitt um 1,5 til 2 milljónir plantna árlega, en fyrirtækið hefur framleitt skógarplöntur fyrir Norðurlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum, Héraðs- og Austurlandsskóga, Vesturlandsskóga og Landgræðsluskóga. Ríkið dró sig í hlé en einstaklingar komu sterkir inn Katrín segir að undanfarin ár hafi vissulega orðið samdráttur í gróðursetningum á vegum landshlutaverkefnanna; í kjölfar efnahagshruns hafi ríkið dregið saman fjárveitingar til þessara verkefna. Á hinn bóginn hafi Sólskógar fengið fleiri viðskiptavini, m.a. hafi Héraðs- og Vesturlandsskógar bæst í hóp þeirra sem fyrirtækið framleiði skógarplöntur fyrir. „Við höfum því ekki fundið eins fyrir þessum samdrætti sem orðið hefur í skógræktinni, fleiri viðskiptavinir hafa vegið minnkandi gróðursetningar upp,“ segir hún. „Ríkið skar mikið niður plöntukaup sín strax eftir hrun, það hafði áður verið í hópi stærstu viðskiptavina okkar en á móti kom að einkaaðilar komu sterkir inn í þess stað. Viðhorf fólks breyttist, það fór að hugsa á annan hátt en áður og gæðastundir í garðinum áttu greiðari aðgang að hugum fólks en áður. Margir fundu fyrir metnaði til að koma sér upp fallegum garði og dunda sér heima við, það hefur eflaust komið í stað einhvers sem fólk var upptekið við fyrir hrunið,“ segir Katrín og bætir við að fátt sé eins gott og gefandi í sumarblíðunni og að vinna í garðinum sínum. Hún segir að nú síðastliðin tvö ár hafi fyrirtæki og sveitarfélög tekið vel við sér og ef til vill sé það merki um að botninum sé náð og hjólin farin að snúast af krafti í atvinnulífinu á ný. „Við höfum skynjað það bæði nú í sumar og eins í fyrrasumar og fyrirtæki og sveitarfélög kaupa meira af plöntum og blómum til að prýða nánasta umhverfi sitt. Á fyrstu árunum eftir hrun sat það meira á hakanum,“ segir hún. Um 5.000 fermetra gróðurhúsapláss Sólskógar hafa til umráða alls um 5.000 m2 gróðurhúsapláss auk útiræktunarsvæða. Stærsta húsið er um 2.000 m2 og er í Kjarnaskógi, en það reistu þau Katrín og Gísli fljótlega eftir að þau tóku við rekstrinum fyrir norðan. Þau hafa stöðugt unnið að uppbyggingu á liðnum árum og nú hefur söluaðstaða í Kjarnaskógi verið stækkuð og endurbætt, skjólveggjum komið upp og útisvæði stækkað. Í haust stendur svo til að flytja 300 fermetra hús austan af Héraði í Kjarnaskóg þar segir Katrín Ásgrímsdóttir hjá Sólskógum. Starfsfólk Sólskóga á Fljótsdalshéraði. Starfsmenn Sólskóga í Kjarnaskógi á Akureyri.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.