Bændablaðið - 18.07.2013, Side 33

Bændablaðið - 18.07.2013, Side 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 18. júlí 2013 Lesendabás Bestu sitkagrenikvæmin Sitkagreni á sér um 80 ára sögu hér á landi og er sú trjátegund sem skógræktarfólk bindur hvað mestar vonir við sem framleiðslumikið timburtré framtíðarinnar. Bestu kvæmin vaxa hraðar hér á landi en rauðgreni vex víða í Skandinavíu, þar sem rauðgreni er uppistaðan í stórfelldum timburiðnaði. Í það stefnir að sitkagreni standi undir verulegri atvinnusköpun hérlendis. Lundir þess gróðursettir á árunum 1945-1965, ásamt lerki- og furulundum, skila nú tugum milljóna króna árlega af sölu grisjunarviðar. Tók tíma að sanna sig Kynni íslensks skógræktarfólks af sitkagrei hafa ekki alltaf verið dans á rósum. Upphaflega voru gríðarmikil afföll ungplantna í frumstæðu gróðrarstöðvunum sem voru á Íslandi um miðbik síðustu aldar og undantekning að plöntur næðu gróðursetningarstærð. Ungar greniplöntur eru viðkvæmari fyrir næturfrostum að sumri en t.d. furur eða lerki og því urðu mikil afföll sitkagrenis sem plantað var á flatlendi. Auk þess eiga mörg kvæmi það til að vaxa heldur lengi fram eftir hausti, einkum í æsku, og skemmast í fyrstu haustfrostum. Svo kom sitkalúsin og menn gáfust nánast upp á að gróðursetja sitkagreni í um 30 ár, eða frá 1965 til 1995. Með tímanum varð ljóst að trén sem lifðu áttu til að verða formfögur og að sitkalúsin drap þau ekki þrátt fyrir stundum mikið nálatap. Um og eftir 1990 varð líka ljóst að æ fleiri sitkagrenigróðursetningar voru farnar að vaxa mjög vel. Áhugi á tegundinni jókst á ný, nýjar kvæmatilraunir voru gróðursettar, frostþol kvæma var prófað vor og haust og áhrif sitkalúsar voru skoðuð í þaula. Uppruni kvæma Flest sitkagrenikvæmi sem hér hafa verið gróðursett eru frá landsvæðum við Prince Williams-flóa á suðurströnd Alaska, mest frá Kenai-skaga vestan flóans eða Cordova/Copper River- svæðinu austan hans. Rannsóknir Aðalsteins Sigurgeirssonar sýna að á þessu svæði er grenið að miklu leyti blendingur sitkagrenis og hvítgrenis, þ.e.a.s. sitkabastarður. Fjær ströndinni eru einkenni hvítgrenis ráðandi, en einkenni sitkagrenis víða næst ströndinni. Suður með hinu svokallaða pönnuskafti Alaska er svo hreint sitkagreni. Munur á þessum tegundum felst m.a. í því að hvítgreni er miðlungsstórt tré með fremur mjóa krónu en sitkagreni er risatré, oft greinagróft og krónumikið. Á heimaslóðum sínum í Alaska nær sitkagreni meira en 60 m hæð og sunnar tæplega 100 metrum. Sitkagreni hefur þegar náð 25 metra hæð hér á landi og eru þau tré enn í miklum vexti. Enginn vafi er á því að sitkagreni eigi eftir að ná a.m.k. 40 m hæð hérlendis. Hvítgreni er meginlandstegund aðlöguð stuttu sumri og köldum vetrum en sitkagreni er strandtegund aðlöguð lengri vaxtartíma og mildari veðráttu. Einkenni sitkabastarðs eru þar á milli, sum kvæmi meira í átt til sitkagrenis en önnur til hvítgrenis. Tilraunir og kvæmaval Í frostþolstilraunum Brynjars Skúlasonar o.fl. kom greinilega fram að hreint hvítgreni hóf vöxt snemma og var minna frostþolið að vori en sitkabastarður eða hreint sitkagreni. Að hausti snérist dæmið við og tiltölulega hrein sitkagrenikvæmi sýndu minnst frostþol. Hópur kvæma sýndi gott frostþol bæði vor og haust og voru þau bestu frá Turnagain Arm, sem er fjörður nyrst á Kenai-skaga, en allmörg önnur voru ekki marktækt lakari. Sömu kvæmin voru einnig gróðursett í tilraunaseríu í öllum landshlutum á vegum Aðalsteins Sigurgeirssonar árið 1996. Sú tilraunasería inniheldur mörg kvæmi en er heldur ung til að gefa góðar upplýsingar um vöxt. Kvæmatilraunir gróðursettar á nokkrum stöðum árið 1970 gefa því ábyggilegri upplýsingar að svo stöddu. Samkvæmt nýlegum mælingum Lárusar Heiðarssonar á þeim koma kvæmin Cordova, Homer og Sitka hvað best út í Selsskógi í Skorradal. Þetta eru tiltölulega hrein sitkagrenikvæmi, sérstaklega kvæmið Sitka sem er jafnframt talsvert suðlægt. Í Þjórsárdal vaxa sitkabastarðskvæmi betur og er kvæmið Seward best þar. Hugsanlega ætti því að vera munur á kvæmavali á milli út- og innsveita. Sitkagreni ber nú reglulega fræ hér á landi og því erum við ekki lengur háð innflutningi. Til þessa hefur mest verið tínt á Tumastöðum, en uppruni þeirra trjáa er fremur suðlægur. Sami efniviðurinn er uppistaðan í íslenska frægarðinum í Taraldsey í Noregi. Nýlega hefur einnig verið á boðstólum innlent fræ tínt í lundum upphaflega frá Cordova, Homer (hvort tveggja í Þjórsárdal) og Copper River Valley (Binnulundur á Egilsstöðum) sem er austan fjalls frá Cordova. Mælt er með öllum þessum kvæmum, ásamt kvæminu Seward, en e.t.v. ætti að beina gróðursetningu kvæmanna Tumastaða og Taraldsey til lágsveita sunnan- og vestanlands á meðan hin kvæmin hæfa á landinu öllu. Tilfellið er að allmörg kvæmi sitkagrenis og sitkabastarðs hafa staðið sig vel hérlendis svo fremi að landval til gróðursetningar hafi verið í lagi (sæmilega frjósamar brekkur eru bestar). Tilraunirnar frá 1996 fara brátt að gefa góðar upplýsingar sem bæta ætti kvæmaval enn meira. Auk þess er þegar búið að stíga næsta skref í kynbótum sitkagrenis hér á landi með stofnsetningu nýs frægarðs á Tumastöðum í Fljótshlíð. Ætti hann að fara að gefa fræ innan 20 ára. Þröstur Eysteinsson Skógrækt ríkisins Sitkagreni á sér um 80 ára sögu hér á landi. Um allan heim lifa villtir grasbítar úti í náttúrunni allan ársins hring. Þetta geta verið spendýr, fuglar og skordýr. Sambýli gróðurs og beitarfénaðar í heiminum á sér því langa sögu. Þetta sambýli hefur haft mikil áhrif á það hvers konar gróðursamfélög hafa þróast á hverjum stað. Villt rándýr hafa síðan áhrif á stofnstærð beitardýranna þar sem þau eru. Þegar Ísland byggðist voru hér engin villt spendýr nema refurinn. Fuglar eins og gæs og álft hafa þá verið helstu grasbítarnir. Þegar landnámsmenn komu til Íslands með búpening sinn áttuðu þeir sig fljótt á þessu. Í heimalöndum sínum höfðu þeir búið við úlfa, birni, gaupur og fleiri rándýr sem drápu búfénað. Þar þurfti því að vakta búpening svo hann yrði ekki villidýrum að bráð. Hér var hins vegar hægt að hafa búfé eftirlitslaust fjarri mannabyggð allt sumarið og hefur svo verið síðan. Íslenska búféð varð því að einkennisbeitardýrum í náttúru landsins en ekki hirtir, dádýr, sauðnaut eða aðrar tegundir sem sjá má svo víða annars staðar. Málnytjafénaður þurfti þó að vera undir eftirliti svo að hægt væri að smala honum saman til mjalta en á Íslandi var mjólkurmatur undirstöðufæða fólksins á meðan kornið gegndi því hlutverki í Noregi. Beit í óbyggðum kallaði hins vegar á reglur og samvinnu um smalamennsku. Það má segja að skipulag í kringum smalamennsku og fjallskil hafi mótað skipulag landsins frá upphafi byggðar og um þetta eru heilu lagabálkarnir í Grágás og Jónsbók. Örnefni urðu mikilvægur vegvísir við smölun beitilanda og hafa varðveist vegna þess að smalar þurfa að þekkja þau. Raddir hafa verið uppi um að sauðfé verði eingöngu haft á afgirtu landi. Að mínu mati er það ekki skynsamleg krafa. Þegar fé er á túnum eða í heimalöndum er landið oftast afgirt að hluta eða öllu leyti. Það yrði hins vegar gífurlega kostnaðarsamt og í raun óframkvæmanlegt að girða í sundur fjöll og hálendið og þar er féð yfirleitt ekki nema tvo mánuði á ári. Ég held að flestum þyki nóg um girðingar í landinu. Ég tel miklu skynsamlegra að við einbeitum okkur að girðingum þar sem þeirra er mest þörf, t.d. með því að girða af skógræktarsvæði, uppgræðslusvæði, vegi og önnur svæði þar sem beitar er ekki óskað. Það þarf svo að gera sérstakar ráðstafanir á svæðum þar sem hefðbundinn búskapur hefur nánast lagst af. Áhrif beitar á gróður Beit á óræktað land og heyskapur á útjörð var til skamms tíma grundvöllur búskapar og þar með byggðar í landinu. Á þessu hefur orðið mikil breyting og nú kemur stór hluti fóðursins af ræktuðu landi. Vegna þessa er útjörð beitt í stuttan tíma ár hvert miðað við það sem áður var. Á liðnum öldum hefur landið víða verið ofnýtt enda barðist þjóðin fyrir lífi sínu, oft við erfitt tíðarfar og eldgos. Við eigum það m.a. sauðkindinni að þakka að forfeðrum okkur tókst að þrauka í landinu. Tilvist hennar hefur verið samofin lífsbaráttu og menningu þjóðarinnar. Því megum við ekki gleyma. Þegar þjóðin tók að rísa eftir aldalanga baráttu fyrir lífi sínu átti hún sér ýmsa drauma um framtíðina. Einn af þeim var sá að endurheimta tapaðan jarðveg og gróður. Mikill árangur hefur náðst á því sviði og má það m.a. þakka markvissri uppgræðslu, hagstæðu tíðarfari, styttingu beitartíma, og tímabundinni friðun svæða sem illa voru farin. Gróðurfar landsins eins og það er núna hefur mótast af því að hér hefur verið beit um aldir. Almennt gildir að mikil beit leiðir til þess að skógar minnka eða hverfa. Í nágrannalöndum okkar er algengt að nota beitarfénað til að halda landi skóglausu á svæðum sem menn vilja ekki að séu vaxin skógi. Hér er verið að tala um skóg sem þarf að vaxa frá grunni. Þegar tré eru búin að ná ákveðinni hæð getur skógur dafnað vel þó að botngróður sé beittur. Það er því fyrst og fremst við endurnýjun skóga sem beit er áhrifavaldur. Beitarþunginn ræður því svo hversu þéttur skógur vex upp í landinu. Mikil beit getur haldið landinu skóglausu en skógur getur vaxið upp við hóflega beit, sé trjágróður á svæðinu og tíðarfar hagstætt fyrir fræþroska. Ásýnd landsins Í framhaldi af þessu vakna spurningar um það hvernig við viljum að landið líti út. Ísland, eins og við þekkjum það, er opið og útsýni víða mikið. Það er auðvelt að komast um landið en þéttir skógar eða kjarr geta gert land mjög torvelt yfirferðar. Ákveðnir staðir á Íslandi eru vaxnir svo þéttu birki- eða víðikjarri að nánast er ófært um landið og þessi svæði stækka ört. Það er t.d. áberandi þegar ekið er um Suðurland hvað víðir er í mikilli sókn. Í þéttum skógi geta sérkenni í landslagi, náttúruperlur og fornminjar auðveldlega týnst. Eitt af því sem einkennir Ísland er grasi grónar brekkur og grundir. Þeim verður ekki viðhaldið nema með sauðfjárbeit eða slætti. Að öðrum kosti munu tré, runnar eða aðrar stórvaxnar tegundir taka yfir. Ég geri ráð fyrir að margir vilji að landið verði áfram frekar opið en skógur jafnframt aukinn. Einnig tel ég víst að flestir vilji að reynt sé að sporna gegn því að skógar verði svo þéttir að ekki sé fært um þá. Stórvaxnar plöntutegundir eins og kerfill og hvönn (jafnvel lúpína og mjaðjurt) geta einnig torveldað umferð um landið. Hófleg sauðfjárbeit er eitt af bestu stjórntækjunum til að takmarka þéttleika þessara tegunda. Seint verða allir á eitt sáttir um það hvar þurfi að friða land fyrir beit, hvar megi beita og þá hversu mikið. Slíkar ákvarðanir þurfa að byggjast á rannsóknum á beitarþoli og samspili beitar, gróðurs og jarðvegs. Ýmsar rannsóknir liggja fyrir á þessu sviði en frekari rannsókna er þörf. En spurningin um beit tengist einnig því hvernig við viljum að landið líti út í framtíðinni og því hvort við viljum sjá íslenska búféð í náttúru landsins eins og verið hefur frá upphafi byggðar. Guðni Þorvaldsson Hugleiðing um sauðfjárbeit: Beit er náttúruleg Þeir félagar Guðni Þorvaldsson og Ólafur Dýrmundsson, sem mynduðu meirihluta ítölunefndar fyrir ítölu á Almenninga í Rangárvallasýslu, rita enn á ný grein um ítölugerðina í Bændablaðið þann 4. júli. Þar fjalla þeir – enn á ný – um aðferðir sem notaðar voru fyrir um hálfri öld við mat á beitarþoli og telja að Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri vegi ómaklega að þeirri gömlu aðferðafræði. Þar kemur – enn á ný – ranglega fram að þeim aðferðum hafi verið ýtt til hliðar. Þær aðferðir sem Guðni og Ólafur nefna í greininni voru vissulega afrakstur merkilegrar þróunarvinnu sem fór fram undir stjórn Ingva Þorsteinssonar hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA). Sú þróunarvinna hélt þó áfram og var aðferðafræðinni breytt nokkuð á árunum 1983-1987 í kjölfar víðtækra rannsókna og mælinga á afréttum landsins. Í samræmi við alþjóðlega þróun og aukna þekkingu á sviði beitarvísinda var vaxandi áhersla lögð á ástand lands í greinargerðum sem RALA hefur unnið að. Gamlar beitarþolstölur voru afturkallaðar formlega með yfirlýsingu frá RALA árið 1999. Þetta var talið nauðsynlegt vegna þess að ýmsir aðilar „héngu á“ gömlum tölum, jafnvel þótt breyttar aðferðir hefðu gert þær ómarktækar. Vissulega er það rétt hjá þeim Guðna og Ólafi að stærð gróðurlendis og gæði þeirra skipta máli við mat á landi, en ástand þess þarf einnig að vera með þeim hætti að beit sé ásættanleg landnýting. Margt í aðferðafræðinni sem þróuð var í upphafi er í fullu gildi þar sem það á við, á landi sem er talið hæft til beitar. Því er það rangt sem þeir félagar halda fram að fallið hafi verið frá gömlum aðferðum; þær voru einfaldlega þróaðar enn frekar. Þeir félagar víkja nokkrum orðum í grein sinni að birki og telja að beit nú sé æskileg til að sporna við að birkiskógur verði of þéttur sem geri land erfitt til beitar og útivistar. Þetta á vitaskuld ekki við þar sem land er að mestu illa gróið en birki að nema land með einstökum ungplöntum á stangli. Beitin hamlar þessu landnámi og viðheldur slæmu ástandi landsins. Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Almenningar, beit og gamlar aðferðir Birki (neðarlega til hægri) að nema land í lífrænni jarðvegsskán á Almenn- ingum, þar sem land hefur tekið við sér vegna friðunar svæðisins fyrir beit. Svæðið er á afar viðkvæmu stigi í framvindu. Ungplöntur af birki og víði eru bitnar af fé, sem kemur í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Langt mun líða áður en skógur hamlar för á þessum slóðum. Mynd / Ása L. Aradóttir

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.