Bændablaðið - 18.07.2013, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 18.07.2013, Blaðsíða 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 18. júlí 2013 Svavar Halldórsson er sjálfstæð- ur matarblaðamaður, höfundur Íslensku hamborgarabókarinnar og framkvæmdastjóri Íslensks matar og matarmenningar ehf. Hvar varstu í sveit og hvenær? Þótt ég sé fæddur í Vestmannaeyjum og alinn upp í Hafnarfirði hef ég alltaf verið viðloðandi sveitina. Móðursystir mín bjó í Galtartungu á Fellsströnd og þaðan á ég margar góðar minningar frá því ég var krakki. Frá því ég man eftir mér fórum við fjölskyldan líka í óteljandi sunnu- dagsbíltúra austur undir Eyjafjöll þar sem pabbi hafði verið í sveit, bæði á Steinum og í Efri-Holtum. Sjálfur var ég ekki gamall þegar ég var orðinn kaupamaður, fyrst til prufu hjá frænku á Fellsströndinni og svo undir fjöllunum, bæði í Varmahlíð og í Efri-Holtum eins og pabbi og stóri bróðir. Eins og gengur var maður látinn sækja kýrnar fyrir vestan og síðan undir fjöllunum. Í Varmahlíð lærði ég að borða lagköku, stinga út úr fjár- húsum og keyra gamlan Land Rover og traktora. Í Efri-Holtum voru bæði kýr og kindur. Þar gekk ég til allra fjósaverka og náði mikilli lagni með heyvagn og baggatínu aftan í gömlum Zetor. Nonni og Silla í Efri- Holtum eru gott og vandað fólk sem ég hugsa ávallt hlýlega til. Undir fjöllunum viðhalda menn enn þeirri gömlu hefð að veiða fýl á haustin. Ungi fuglinn flýgur úr hreiðrinu í hömrunum ofan við sveitina en sumir ná ekki til sjávar. Þeir leita oft í skurði eða annað þar sem er vatn. Þeir eru rotaðir með kylfu, steiktir og borðaðir. Í eina tíð söltuðu menn fýlinn ofan í tunnu og það var oft ágæt búbót yfir veturinn. Þetta er enn gert sums staðar. Fýllinn ver sig með því að spýta lýsi á veiði- manninn, svo það er nokkur kúnst að ná honum án þess að verða allur útbí- aður. Þetta lærðist þó fljótt og fyrir stráka voru þessar veiðar mikið sport. Á veturna vann ég við löndun og alls kyns tilfallandi bryggjustörf með skólanum í Hafnarfirði alveg frá því ég var fjórtán ára. Ég var því orðinn vanur og með góð meðmæli á ung- lingsárunum þegar ég réð mig sem fullgildan vinnumann að Seglbúðum í Landbroti. Í Seglbúðum er mikið og myndar- legt fjárbú sem Erlendur Björnsson og Þórunn Júlíusdóttir voru nýlega tekin við þegar ég var hjá þeim. Þau stóðu faglega að öllum búrekstr- inum, enda varð það að vera, því Jón Helgason, frændi Erlends og fyrrum bóndi á bænum, var land- búnaðarráðherra þegar þetta var. Frá því ég var krakki og langt fram á unglingsárin var ég því í sveit öll sumur. Auðvitað saknaði maður stundum fjölskyldunnar og vinanna í Hafnarfirði en ég á samt bara góðar minningar úr sveit. Þar lærði ég að vinna, umgangast skepnur og bera virðingu fyrir landinu. Það er ekkert fallegra en bjart sumarkvöld í íslenskri sveit. Að ekki sé nú talað um þegar maður er einn á hestbaki. Eitt slíkt kvöld, þegar ég var vinnumaður í Seglbúðum, var ég ríðandi í hólunum við Grenlæk í Landbrotinu. Ég áði við litla tjörn sem liggur í leyni á milli hólanna. Þegar ég var rétt stiginn af baki blasti við mér hvæsandi minkur í grasinu. Hesturinn fældist og prjónaði og ég missti tauminn. Mín fyrstu viðbrögð voru að stíga ofan á minkinn. Mér tókst svo einhvern veginn að grípa hann og drekkja honum í tjörninni. Hann barðist um og ég var allur klór- aður og bitinn eftir kvikindið. Hann drapst fyrir rest og ég fór með hann heim að bæ, eftir að hafa náð hest- inum. Erlendur bóndi skar skottið af minknum og skilaði því inn. Ég man ennþá að ég fékk fimm hundruð kall fyrir. Mér fannst ég hafa unnið fyrir þeim aurum. Við Þóra konan mín höfum í gegnum árin alltaf brunað út úr bænum þegar við komumst í sumar- frí, með krakka og tjald. Við snúum yfirleitt ekki aftur fyrr en í lengstu lög, enda gott að losna úr fjölmiðla- vafstri og fréttastússi í nokkrar vikur. Ég finn það alltaf þegar ég kemst út úr bænum að rétt eins og ég er sveitinni, þá er hún í mér. Ég bý enn að öllu því góða sem ég lærði sem krakki og unglingur í sveit og er ekki í nokkrum einasta vafa að sveitadvölin – fólkið, vinnan og nátt- úran – hefur gert mig að betri manni. Ég var sendur í sveit Heiti hátíðar Hvenær Vesturland Kjós Kátt í kjós. 20. júlí Reykholt Reykholtshátíð. 26. júlí Grundarfjörður Á góðri stundu. 26.-28. júlí Breiðablik Snæfellsnesi Sveitamarkaður 20.-21. júlí Vestfirðir Ísafjörður, Bolungarvík, Dýrafjörður Hlaupahátíð í Ísafjarðarbæ. Íþróttahátíð fyrir alla fjöl- skylduna. Nánar á www. hlaupahatid.is. 19.-21. júlí Reykhólahreppur Reykhóladagar. Árleg bæjarhátíð þar sem hægt er að sjá fjöldan allan af gömlum traktorum sem hafa verið gerðir upp í sveitinni og gömlum uppgerðum breiðfirskum bátum. Frekari upplýsingar að finna á www. reykholar.is. 25.-28. júlí Norðurland vestra Blönduós Húnavaka. Bæjarhátíð á Blönduósi. 19.-21. júlí Húnaþing vestra Eldur í Húnaþingi – héraðs- hátíð. Einn af hápunktum hátíðarinnar er útitónleikar í Borgarvirki, en margt annað er í boði fyrir alla fjölskylduna. Nánar á www.eldurhuna- thing.com. 24.-27. júlí Húnaþing vestra Grettishátíð á Laugarbakka í Miðfirði, Grettisbóli. Fróðleg dagskrá fyrir börn í anda Grettis sögu sterka, kraftakeppni karla og kvenna, sveitamarkaður. Sjá nánar á www.grettistak.is. 28. júlí Norðurland eystra Akureyri Hjóladagar. 18.-21. júlí Akureyri Miðaldadagar að Gásum 19. - 21. júlí Húsavík Mærudagar á Húsavík www.husavik.is. 25.-28. júlí Siglufjörður Síldarævintýri á Siglufirði. 1. - 5. ágúst Austurland Seyðisfjörður LungA. Listahátíð unga- fólksins. 14. júlí - 21. júlí Austurland Smiðjuhátíð Tækniminjasafnsins. 26.-28. júlí Suðurland Hveragerði Hengils - Ultra Maraþon, 50 og 81 km, utanvegahlaup í umsjón Skokkhóps Hamars. Skráning á www.hlaup.is. 27. júlí Heimild: ja.is Rétt er að taka fram að listinn er ekki tæmandi. Hann er m.a. unninn upp úr gögnum frá ja.is.! Svavar Halldórsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.