Bændablaðið - 24.04.2013, Side 38

Bændablaðið - 24.04.2013, Side 38
38 Bændablaðið | Miðvikudagur 24. apríl 2013 Ráðstefnan Fölsuð matvæli – hvað er til ráða? Matvælaöryggi mikilvægt fyrir verðmætasköpun – segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís Þann 16. apríl sl. stóð Vöru- stjórnunarfélag Íslands fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni Fölsuð matvæli – hvað er til ráða? Sem kunnugt er af fréttum síðustu mánaða hafa komið upp nokkur vörusvikamál í Evrópu og var þessari ráðstefnu m.a. ætlað að leita svara við því hvernig hægt sé að bæta matvælaöryggi og koma í veg fyrir slík svik í matvælaframleiðslu. Málið er víðfeðmt en á vissulega erindi í almenna umræðu á Íslandi, því nýverið komu upp mál hér á landi – í úttektum Matvælastofnunar – þar sem ranglega var staðið að bæði innihaldslýsingum og merkingum matvæla í nokkrum tilfellum. Hollenska matvælastofnunin hefur í kjölfar vörusvikamálanna í Evrópu – þar sem hrossakjöt hefur t.a.m. verið notað í stað nautakjöts – farið þess á leit við viðskiptavini hollenska kjötvöruframleiðandans Selten að athuga hvort um rétta kjöttegund hafi verið að ræða í viðskiptunum. Talið er að Selten hafi selt hrossakjöt að einhverju leyti sem nautakjöt til yfir 370 fyrirtækja víðs vegar um Evrópu og að magnið sé nálægt 50 þúsund tonn. Ráðstefnuhald í skugga vörusvikamála Ráðstefnan var haldin í samvinnu við GS1, Matís, Matvælastofnun og Háskóla Íslands og henni lauk með erindi Sveins Margeirssonar, forstjóra Matís, en hann fjallaði um hagnýtingu rekjanleika í matvinnslu og tók auk þess saman efni ráðstefnunnar. „Ráðstefnan gekk að mínu mati vel. Mismunandi hliðar rekjanleika og öryggis neytenda voru til umræðu, út frá sjónarhorni neytenda, tæknilausna og rannsókna, auk þess sem Matvælastofnun fór yfir helstu reglur sem gilda á þessu sviði. Mörg erindin höfðu tilvísun í þau mál sem komið hafa upp sl. misseri og rýrt hafa traust neytenda á matvælaframleiðendum, s.s. hrossakjötsmálið nú nýlega. Lára Ómarsdóttir, sem sjálf titlaði sig sem hinn „óþolandi neytanda“, vakti athygli ráðstefnugesta á því að upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla, t.d. uppruni og umhverfisáhrif, gætu haft úrslitaáhrif um val neytenda á matvörum. Þarna eru að mínu mati mikil sóknarfæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu, landbúnaðarafurðir ekki síður en sjávarafurðir. Það hefur orðið mikil þróun í framleiðslu sjávarafurða á Íslandi sl. 10 ár eða svo, m.a. vegna öflugra samkeppnissjóða eins og AVS (Aukið Virði Sjávarfangs). Nýting hefur aukist, meðferð afla hefur batnað og nýting aukaafurða skilar auknum verðmætum, samhliða því að aukinnar þekkingar hefur verið aflað um eiginleika hráefnisins og magn aðskotaefna, s.s. PCB. Hagnýting rekjanleika og heildstæð sýn á virðiskeðju sjávarafurða hefur gegnt veigamiklu hlutverki í þessari þróun. Í landbúnaði hefur líka átt sér stað ánægjuleg þróun, t.d. með aukinni nýtingu aukaafurða, en ég tel að landbúnaðurinn eigi samt sem áður mikið inni. Það þarf að fjárfesta í aukinni þróun innan landbúnaðar á þessu sviði ef tækifærin eiga að nýtast.“ Dr. Heiner Lehr tók fyrst til máls á ráðstefnunni en hann er alþjóðlegur ráðgjafi um rekjanleikja og einn af forsvarsmönnum TraceFood- verkefnisins hjá Evrópusambandinu sem gengur út á að búa til staðal fyrir rekjanleika upplýsinga. „Dr. Heiner Lehr var einn lykilmanna í TRACE-verkefninu, sem styrkt var af rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og þróun,“ segir Sveinn. „Rammaáætlunin, sem Íslendingar greiða til eins og aðrar Evrópuþjóðir, hefur gegnt lykilhlutverki í þróun rekjanleikalausna og rekjanleikastaðla. TRACE snerist í stuttu máli um að búa til samhæfðan staðal fyrir miðlun rekjanleikaupplýsinga, en slíkur staðall er lykilatriði til að mismunandi aðilar í virðiskeðju matvælaframleiðslu (t.d. sláturhús og kjötvinnsla) geti miðlað upplýsingum sín á milli á öruggan og ódýran hátt.“ Matvælaöryggi mikilvægt verðmætasköpun í matvælaframleiðslu „Í erindi mínu lagði ég áherslu á mikilvægi þess að horfa á hráefnisöflun, framleiðslu og neytendamarkað sem eina heild og mikilvægi matvælaöryggis fyrir verðmætasköpun í matvælaframleiðslu. Ég fór stuttlega yfir nokkra hagnýtingarmöguleika rekjanleika, allt frá möguleikum til aðgreiningar á markaði til framleiðslustjórnunar og markviss vals hráefna. Í dag er mjög miklum upplýsingum safnað um matvælaframleiðslu, t.d. í gæðastýringarkerfi sauðfjárbænda, en ég varpaði upp spurningu um það hvernig við nýtum þær til að bæta framleiðslu, skapa sérstöðu eða ná niður kostnaði við aðföng? Í dag eru framleidd 3.500-4.000 milljón tonn af matvælum í heiminum árlega. Allt að 30-50% af þessum matvælum fara til spillis, að nokkru leyti vegna rangra vinnubragða og skorts á yfirsýn. Kostnaður við matvælaframleiðslu er óþarflega hár í mörgum tilvikum, m.a. vegna dýrra aðfanga og langra flutningskeðja. Þarna eru ótal tækifæri ef við höldum rétt á spilum, höfum yfirsýn yfir hráefnin, markaðina og tækifærin – beitum margs konar þekkingu og þorum að fjárfesta í þróun sem miðar að því að koma til móts við þarfir markaðarins. Dæmi um gott samspil hráefna og markaða sést vel í tilviki lífrænnar ræktunar, sem Íslendingar hafa sett sér markmið um að auka í 15% af heildarlandbúnaðarframleiðslu. Lífræn ræktun hefur verið sá hluti matvælamarkaðarins sem vaxið hefur hvað hraðast sl. ár og hafa rannsóknir sýnt að neytendur sem velja lífrænar vörur gera mestar kröfur allra neytendahópa um gagnsæi virðiskeðjunnar. Markmið um aukinn hlut lífrænnar ræktunar í íslenskri landbúnaðarframleiðslu verða því að fara saman við aukna miðlun upplýsinga til neytenda, auk þess sem við eigum horfa til möguleika sem liggja í að að nýta vannýttar auðlindir sjávar, s.s. slóg, til lífrænnar áburðarframleiðslu.“ Snjallsímahugbúnaðurinn Gagnalaug Aukið gagnsæi í matvæla- framleiðslunni og þar með aukið matvælaöryggi krefst þess að betra aðgengi sé að upplýsingum; bæði fyrir neytendur og þá sem starfa í virðiskeðjunni. Á ráðstefnunni var einmitt kynntur hugbúnaður fyrir snjallsíma sem heitir Gagnalaug og fyrirtækið GS1 hefur umsjón með. Að sögn Benedikts Haukssonar, framkvæmdastjóra GS1 á Íslandi, er þróun hugbúnaðarins langt komin og tæknilega er hann í raun tilbúinn til að taka á móti gögnum. Stefnt er að því hann verði að fullu kominn í gagnið nk. vetur en það er þó háð því hvernig samstarf við framleið- endur og aðra aðila í virðiskeðjunni gengur. Markmið Gagnalaugar er að auðvelda neytendum netaðgang að áreiðanlegum upplýsingum um vörur, en næsta skref við þróun Gagnalaugar er einmitt að framleiðendur veiti rafrænan aðgang að upplýsingum á borð við næringarinnihald, uppruna og umhverfisáhrif. Verðmæti gagnsæisins Sveinn segir erfitt að leggja nákvæmt tölulegt mat á mikilvægi eða virði gagnsæis í virðiskeðjunni, enda séu fjölmargir möguleikar til að hagnýta rekjanleikan. „Í sjálfu sér má segja að það sé ekkert nýtt við hagnýtingu rekjanleika. Góðir bændur hafa um aldir valið gimbrar til ásetnings sem koma undan bestu ánum. Það er dæmi um n.k. framleiðslustýringu grundvallaða á hagnýtingu rekjan- leika. Á sama hátt hafa neytendur um árabil keypt kjöt beint frá bónda vegna þess að þeir hafa treyst afurð- unum eða haft á þeim sérstakt dálæti. Í því tilviki hefur bóndinn aðgreint sig á markaði. Beiting upplýsingatækni hefur gert okkur kleift að ná utan um mun stærra og flóknara svið rekjanleika sl. ár. Í mínum huga er lítill vafi á að hagnýting rekjanleika muni breyta framleiðslu og dreifingu matvæla mikið á komandi árum. Neytendur vilja geta treyst því sem þeir leggja sér til munns og munu gera þá kröfu til bænda, sjómanna, vinnsluaðila, smásala og annarra í virðiskeðju matvæla framleiðslu að menn segi satt og rétt frá. Í þessu felast tækifæri fyrir matvælaframleiðendur með metnað, ekki síst þegar við getum sýnt fram á ómengaðar auðlindir sem nýttar eru með ábyrgum hætti til matvælaframleiðslunnar.“ Ófullnægjandi eftirlit með varnarefnum í matvælum Önnur hlið á matvælaöryggi er sú sem snýr að eftirliti með efnum í matvælum; því að farið sé að reglum varðandi leyfð efni í mat og magn þeirra. Samkvæmt matvælalöggjöf sem innleidd var hér á Íslandi rétt fyrir áramótin 2011/2012 á að mæla um 150 varnarefni (þá skordýraeitur, illgresiseyðir, sveppalyf o.fl.) í hverju sýni af matvælum (eins og grænmeti og ávöxtum). Hér á landi eru einungis tæki til mælinga á 65 efnum. Sveinn segir matvælalöggjöfin hafi m.a. falið í sér lögboðnar skyldur um mælingar á mun fleiri varnarefnum en kleift hefur verið að mæla með núverandi tækjabúnaði sem fyrir hendi er hér á landi. Því hefur verið í gildi undanþága. Matvælastofnun hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti, en Matís hefur sinnt þeim mælingum á varnarefnum sem gerðar hafa verið. „Verkefnið Örugg Matvæli er farið af stað, en það hefur að markmiði að byggja upp tækjabúnað, þjálfa starfs- fólk og byggja upp gæðakerfi Matís tengd þjónustu við Matvælastofnun. Verkefnið er unnið í samvinnu við Matvælastofnun og þegar því lýkur verður hægt að sinna lögboðnum skyldum um varnarefnamælingar, auk annarra mælinga, m.a. mælingum á sveppaeitri og þörungaeitri. Það að hægt sé að gera slíkar mælingar hér á landi kann að hafa mikið að segja um þróunarmöguleika t.a.m. í kornrækt og kræklingarækt hér á landi – og setur mikilvægi matvælaöryggis í gott sam- hengi við möguleika til verðmæta- sköpunar í matvælaframleiðslu. Ef áætlanir verkefnisins ganga eftir mun Matís geta sinnt lögboðnum mælingum um mitt ár 2014.“ Er ólöglegt skordýraeitur í matnum okkar? Vegna þess hversu vanbúnir við Íslendingar erum til að mæla efni í matvælum má ætla að einhverjir erlendir seljendur matvæla sjái sér hag í því að selja okkur vörur sem ekki standast evrópskar reglugerðir. „Það er erfitt að fullyrða um stöðu matvælaeftirlits hér á landi í samanburði við aðrar þjóðir en ekki er hægt að útiloka að einhverjir óprúttnir framleiðendur matvæla telji sig geta komið slakari vöru í dreifingu hér á landi en annars staðar,“ segir Sveinn. „Undanþágur frá löggjöf eru skiljanlega ekki til þess fallnar að auka traust neytenda, né heldur þau atvik sem komið hafa upp sl. misseri og hafa óneitanlega rýrt traust til matvælaframleiðslu á heimsvísu, sem og hér innanlands. Hér á landi hefur matvælaöryggi, þ.m.t. matvælaeftirliti, því miður ekki verið ofarlega í forgangsröðinni. Við Íslendingar söfnum nú þegar miklu af gögnum um framleiðslu matvæla hér á landi, m.a. um aðskotaefni, umhverfisáhrif og næringargildi og höfum alla burði til að vera í fremstu röð í miðlun upplýsinga um matvæli. Það felast tækifæri fyrir matvælaframleiðsluþjóð eins og Íslendinga í að leggja áherslu á að auka traust á okkar framleiðslu. Við eigum að fjárfesta í þróun á öruggum, heilnæmum matvælum, miðla um þau upplýsingum og taka feginshendi við ábendingum hinna „óþolandi neytenda“ um það sem betur má fara.“ /smh Sveinn Margeirsson segir mikilvægt að auka traust okkar á eigin framleiðslu. Vegna skorts á tækjabúnaði hefur Ísland verið á undanþágu, frá því í nóvem-

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.